Postulasagan
19 Meðan Apollós+ var í Korintu fór Páll um innsveitirnar og kom til Efesus.+ Þar hitti hann nokkra lærisveina 2 og sagði við þá: „Fenguð þið heilagan anda þegar þið tókuð trú?“+ Þeir svöruðu: „Við höfum aldrei heyrt að heilagur andi sé til.“ 3 Þá spurði hann: „Hvaða skírn voruð þið þá skírðir?“ „Skírn Jóhannesar,“+ svöruðu þeir. 4 Páll sagði þá: „Jóhannes skírði fólk til tákns um að það iðraðist+ og sagði því að trúa á þann sem kæmi eftir sig,+ það er að segja Jesú.“ 5 Þegar þeir heyrðu þetta létu þeir skírast í nafni Drottins Jesú. 6 Páll lagði síðan hendur yfir þá og þeir fengu heilagan anda,+ fóru að tala erlend tungumál og spá.+ 7 Mennirnir voru um 12 talsins.
8 Páll gekk í samkunduhúsið+ og talaði þar djarfmannlega í þrjá mánuði, flutti ræður og rökræddi á sannfærandi hátt um ríki Guðs.+ 9 En sumir voru þrjóskir, vildu ekki trúa og töluðu niðrandi um Veginn+ svo allir heyrðu. Þá sagði hann skilið við þá,+ tók lærisveinana með sér og flutti síðan ræður daglega í salnum í skóla Týrannusar. 10 Hann gerði þetta í tvö ár þannig að allir sem bjuggu í skattlandinu Asíu heyrðu orð Drottins, bæði Gyðingar og Grikkir.
11 Guð lét Pál vinna einstök máttarverk+ 12 og jafnvel klútar og svuntur sem Páll hafði komist í snertingu við voru færð sjúklingum+ og þeir læknuðust og illir andar fóru úr þeim.+ 13 En nokkrir Gyðingar sem fóru um og ráku út illa anda reyndu einnig að nefna nafn Drottins Jesú yfir þeim sem voru andsetnir og sögðu: „Ég skipa ykkur í nafni Jesú, sem Páll boðar, að fara út.“+ 14 Sjö synir Skeva, yfirprests nokkurs hjá Gyðingum, reyndu þetta. 15 En illi andinn svaraði þeim: „Ég þekki Jesú+ og kannast við Pál+ en hverjir eruð þið?“ 16 Maðurinn sem var haldinn illa andanum stökk síðan á þá og yfirbugaði þá hvern á fætur öðrum og þeir flúðu naktir og særðir út úr húsinu. 17 Allir Efesusbúar fréttu af þessu, bæði Gyðingar og Grikkir, og urðu óttaslegnir. Þetta varð nafni Drottins Jesú til mikillar upphefðar. 18 Og margir þeirra sem höfðu tekið trú komu, játuðu athæfi sitt og sögðu frá því frammi fyrir öllum. 19 Þó nokkrir sem höfðu stundað galdra söfnuðu saman bókum sínum og brenndu þær að öllum ásjáandi.+ Þeir reiknuðu út að þær hefðu verið 50.000 silfurpeninga virði. 20 Orð Jehóva* var máttugt þannig að það breiddist út og efldist.+
21 Eftir þetta ákvað Páll að fara um Makedóníu+ og Akkeu og síðan til Jerúsalem.+ Hann sagði: „Eftir að ég hef verið þar þarf ég líka að fara til Rómar.“+ 22 Hann sendi síðan tvo aðstoðarmenn sína, þá Tímóteus+ og Erastus,+ til Makedóníu en hélt sjálfur kyrru fyrir um tíma í skattlandinu Asíu.
23 Um þessar mundir urðu talsverðar óeirðir+ út af Veginum.+ 24 Silfursmiður nokkur, sem hét Demetríus, bjó til eftirlíkingar af musteri Artemisar og handverksmennirnir höfðu góðar tekjur af því.+ 25 Hann kallaði þá saman ásamt öðrum sem smíðuðu slíka gripi og sagði: „Góðir menn, þið vitið vel að velmegun okkar byggist á þessari starfsemi. 26 Nú sjáið þið og heyrið að þessi Páll hefur snúið fjölda fólks og fengið það á sitt band, ekki aðeins í Efesus+ heldur um nánast alla Asíu. Hann segir að guðirnir sem gerðir eru af mannahöndum séu ekki alvöruguðir.+ 27 Sú hætta blasir við að starfsemi okkar fái á sig óorð en líka að musteri hinnar miklu gyðju Artemisar verði einskis metið, og að hún, sem er tilbeðin um alla Asíu og heimsbyggðina, verði svipt dýrðarljóma sínum.“ 28 Þegar mennirnir heyrðu þetta urðu þeir fokreiðir og fóru að hrópa: „Mikil er Artemis Efesusmanna!“
29 Öll borgin komst nú í uppnám og menn þustu allir sem einn í leikhúsið og drógu með sér þá Gajus og Aristarkus,+ ferðafélaga Páls frá Makedóníu. 30 Páll var fyrir sitt leyti reiðubúinn að fara inn til mannfjöldans en lærisveinarnir leyfðu honum það ekki. 31 Jafnvel sumir af stjórnendum hátíða og kappleikja, sem voru vinveittir honum, sendu honum boð og báðu hann eindregið um að hætta sér ekki inn í leikhúsið. 32 Menn hrópuðu hver sitt því að mannfjöldinn var í uppnámi og fæstir vissu hvers vegna þeir voru samankomnir. 33 Gyðingar ýttu fram manni sem hét Alexander og hann var leiddur út úr mannfjöldanum. Hann benti með hendinni að hann vildi skýra málið fyrir fólkinu. 34 En þegar fólkið áttaði sig á að hann var Gyðingur hrópaði það í kór í hér um bil tvo tíma: „Mikil er Artemis Efesusmanna!“
35 Þegar borgarritaranum tókst loksins að róa mannfjöldann sagði hann: „Efesusmenn, hvaða maður veit ekki að borg Efesusmanna varðveitir musteri hinnar miklu Artemisar og líkneskið sem féll af himni? 36 Fyrst ekki verður um það deilt ættuð þið að halda ró ykkar og ekki gera neitt í fljótfærni. 37 Þið hafið komið hingað með þessa menn sem hafa hvorki rænt musteri né lastmælt gyðju okkar. 38 Ef Demetríus+ og hinir handverksmennirnir vilja ákæra einhvern eru til landstjórar* og haldin eru réttarhöld á vissum dögum. Þá geta þeir ákært hver annan. 39 En ef þið viljið ná einhverju meiru fram þarf að ákveða það á löglegu þingi. 40 Nú eigum við hins vegar á hættu að vera sakaðir um að æsa til uppreisnar vegna þess sem gerðist í dag þar sem við getum með engu móti réttlætt þessi ólæti.“ 41 Að svo mæltu lét hann mannfjöldann fara.