Postulasagan
21 Eftir að hafa slitið okkur frá þeim létum við úr höfn og sigldum beinustu leið til Kós, næsta dag til Ródos og þaðan til Patara. 2 Þar fundum við skip sem átti að fara til Fönikíu, stigum um borð og sigldum þaðan. 3 Við sáum til Kýpur en fórum fram hjá eyjunni á bakborða,* héldum áfram til Sýrlands og komum að landi í Týrus þar sem átti að afferma skipið. 4 Við leituðum lærisveinana uppi og stöldruðum við í sjö daga. En í ljósi þess sem andinn birti þeim báðu þeir Pál margsinnis að stíga ekki fæti inn í Jerúsalem.+ 5 Eftir að hafa dvalist þar héldum við ferð okkar áfram og allir lærisveinarnir, ásamt konum og börnum, fylgdu okkur út úr borginni. Við krupum á kné á ströndinni, báðumst fyrir 6 og kvöddumst. Síðan stigum við um borð í skipið en hinir sneru aftur heim.
7 Frá Týrus sigldum við til Ptólemais og lukum þar sjóferðinni. Við heilsuðum upp á bræðurna og systurnar og vorum hjá þeim einn dag. 8 Daginn eftir fórum við til Sesareu og komum í hús Filippusar trúboða sem var einn mannanna sjö+ og dvöldumst hjá honum. 9 Hann átti fjórar ógiftar dætur* sem voru gæddar spádómsgáfu.+ 10 Þegar við höfðum verið þar þó nokkra daga kom spámaður sem hét Agabus+ ofan frá Júdeu. 11 Hann kom til okkar, tók belti Páls, batt fætur sína og hendur og sagði: „Heilagur andi segir: ‚Þannig munu Gyðingar í Jerúsalem binda manninn+ sem á þetta belti og framselja hann mönnum af þjóðunum.‘“+ 12 Þegar við heyrðum þetta sárbændum við Pál um að fara ekki til Jerúsalem og eins gerðu hinir sem voru þar. 13 Þá sagði Páll: „Hvers vegna eruð þið að gráta og reyna að draga úr mér kjark? Ég fullvissa ykkur um að ég er bæði tilbúinn til að láta binda mig og til að deyja í Jerúsalem fyrir nafn Drottins Jesú.“+ 14 Þegar ekki tókst að telja honum hughvarf gáfumst við upp* og sögðum: „Verði vilji Jehóva.“*
15 Eftir þetta bjuggumst við til ferðar og lögðum af stað til Jerúsalem. 16 Nokkrir lærisveinar frá Sesareu urðu okkur samferða og fóru með okkur til Mnasons frá Kýpur, eins af fyrstu lærisveinunum, en þar var okkur boðið að gista. 17 Þegar við komum til Jerúsalem tóku bræðurnir okkur fagnandi. 18 Daginn eftir fór Páll með okkur til Jakobs+ þar sem allir öldungarnir voru samankomnir. 19 Hann heilsaði þeim og skýrði síðan ítarlega frá því sem Guð hafði gert meðal þjóðanna með þjónustu hans.
20 Þeir lofuðu Guð þegar þeir höfðu heyrt þetta en sögðu við Pál: „Þú sérð, bróðir, hve margar þúsundir Gyðinga hafa tekið trú og þeim er öllum kappsmál að fylgja lögunum.+ 21 En þeir hafa heyrt sögusagnir um að þú kennir öllum Gyðingum sem búa meðal þjóðanna fráhvarf frá Móse og segir þeim að umskera hvorki börn sín né fylgja rótgrónum siðum.+ 22 Hvað er þá til ráða? Þeir frétta fyrir víst að þú sért kominn. 23 Gerðu því eftirfarandi: Hjá okkur eru fjórir menn sem hafa unnið heit. 24 Taktu þessa menn með þér, hreinsaðu þig ásamt þeim samkvæmt helgisiðunum og berðu kostnaðinn fyrir þá svo að þeir geti látið raka höfuðið. Þá sjá allir að orðrómurinn um þig er tilhæfulaus og að þú gerir það sem er rétt og lifir samkvæmt lögunum.+ 25 En trúuðu fólki af þjóðunum höfum við sent bréf með þeim úrskurði okkar að það skuli halda sig frá því sem hefur verið fórnað skurðgoðum,+ frá blóði,+ kjöti af köfnuðum* dýrum+ og kynferðislegu siðleysi.“*+
26 Páll tók þá mennina með sér daginn eftir og hreinsaði sig ásamt þeim samkvæmt helgisiðunum.+ Síðan gekk hann í musterið til að láta vita hvenær hreinsunardögunum lyki og færa skyldi fórn fyrir hvern og einn þeirra.
27 Þegar dagarnir sjö voru næstum á enda sáu Gyðingar frá Asíu hann í musterinu. Þeir æstu upp allan mannfjöldann, gripu Pál 28 og hrópuðu: „Ísraelsmenn, hjálpið okkur! Þetta er maðurinn sem fer um allt og kennir öllum það sem er andstætt fólki okkar, lögum okkar og þessum stað. Auk þess hefur hann komið með Grikki inn í musterið og vanhelgað þennan heilaga stað.“+ 29 Þetta sögðu þeir vegna þess að þeir höfðu áður séð Trófímus+ frá Efesus með Páli í borginni og gerðu ráð fyrir að hann hefði farið með hann inn í musterið. 30 Öll borgin var í uppnámi og fólkið kom hlaupandi, greip Pál og dró hann út úr musterinu. Dyrunum var síðan lokað umsvifalaust. 31 Menn reyndu að drepa hann en þá var hersveitarforingjanum sagt að allt væri á öðrum endanum í Jerúsalem. 32 Hann brást skjótt við, tók með sér hermenn og liðsforingja og hljóp niður til þeirra. Þegar þeir sáu hersveitarforingjann og hermennina hættu þeir að berja Pál.
33 Hersveitarforinginn steig fram, lét handtaka hann og skipaði að hann skyldi bundinn tvennum hlekkjum.+ Hann spurði síðan hver hann væri og hvað hann hefði gert. 34 En sumir í mannfjöldanum hrópuðu eitt og aðrir annað. Þar sem hersveitarforinginn gat ekki orðið neins vísari vegna ólátanna fyrirskipaði hann að farið skyldi með Pál inn í bækistöðvar hermannanna. 35 Þegar Páll kom að tröppunum þurftu hermennirnir að bera hann vegna ofsans í mannfjöldanum 36 en múgur manns elti og æpti: „Drepið hann!“
37 Í þann mund sem átti að leiða Pál inn í bækistöðvar hermannanna spurði hann hersveitarforingjann: „Má ég segja við þig nokkur orð?“ Hann svaraði: „Kanntu grísku? 38 Ertu þá ekki Egyptinn sem æsti til uppreisnar fyrir nokkru og fór með launmorðingjana 4.000 út í óbyggðirnar?“ 39 Páll svaraði: „Ég er reyndar Gyðingur+ frá Tarsus+ í Kilikíu, borgari í ekki ómerkilegri borg. Ég bið þig að leyfa mér að tala til fólksins.“ 40 Hann leyfði það og Páll bandaði með hendinni til fólksins þar sem hann stóð í tröppunum. Þegar hann hafði fengið hljóð ávarpaði hann fólkið á hebresku+ og sagði: