Esekíel
14 Nokkrir af öldungum Ísraels komu og settust hjá mér.+ 2 Þá kom orð Jehóva til mín: 3 „Mannssonur, þessir menn eru ákveðnir í að fylgja viðbjóðslegum skurðgoðum* sínum og þeir hafa lagt fótakefli fyrir fólk svo að það syndgar. Ætti ég þá að leyfa þeim að leita svara hjá mér?+ 4 Segðu við þá: ‚Þetta segir alvaldur Drottinn Jehóva: „Ef Ísraelsmaður er ákveðinn í að fylgja viðbjóðslegum skurðgoðum sínum og leggur fótakefli fyrir fólk svo að það syndgar og kemur síðan og leitar svara hjá spámanni, þá mun ég, Jehóva, svara honum eins og hann á skilið með hliðsjón af öllum hans viðbjóðslegu skurðgoðum. 5 Ég skýt Ísraelsmönnum skelk í bringu því að þeir hafa allir fjarlægst mig og elt viðbjóðsleg skurðgoð sín.“‘+
6 Þess vegna skaltu segja við Ísraelsmenn: ‚Alvaldur Drottinn Jehóva segir: „Komið aftur til mín! Snúið ykkur frá viðbjóðslegum skurðgoðum ykkar og snúið baki við öllu því andstyggilega sem þið stundið.+ 7 Ef Ísraelsmaður eða útlendingur sem býr í Ísrael yfirgefur mig og er ákveðinn í að fylgja viðbjóðslegum skurðgoðum sínum og leggur fótakefli fyrir fólk svo að það syndgar og kemur síðan og leitar svara hjá spámanni mínum,+ þá mun ég, Jehóva, sjálfur svara honum. 8 Ég snýst gegn þeim manni og geri hann að víti til varnaðar og máltæki og ég uppræti hann úr þjóð minni.+ Þið munuð komast að raun um að ég er Jehóva.“‘
9 ‚En ef spámaðurinn lætur blekkjast og veitir svar er það ég, Jehóva, sem hef blekkt hann.+ Ég lyfti hendi minni gegn honum og uppræti hann úr þjóð minni, Ísrael. 10 Spámaðurinn og sá sem leitar svara hjá honum eru jafn sekir. Þeir þurfa báðir að taka afleiðingum syndar sinnar 11 svo að Ísraelsmenn haldi ekki áfram að fjarlægjast mig og óhreinka sig með öllum syndum sínum. Þeir verða fólk mitt og ég verð Guð þeirra,‘+ segir alvaldur Drottinn Jehóva.“
12 Orð Jehóva kom aftur til mín: 13 „Mannssonur, ef land syndgar gegn mér með því að svíkja mig rétti ég út höndina gegn því og eyðilegg matarbirgðir* þess.+ Ég sendi hungursneyð yfir landið+ og útrými mönnum og skepnum í því.“+ 14 „‚Jafnvel þótt Nói,+ Daníel+ og Job,+ þessir þrír menn, væru í landinu myndu þeir aðeins geta bjargað sjálfum sér með réttlæti sínu,‘+ segir alvaldur Drottinn Jehóva.“
15 „‚Segjum að ég léti grimm villidýr fara um landið og þau gerðu það mannlaust* og breyttu því í auðn sem enginn færi um vegna þeirra.+ 16 Svo sannarlega sem ég lifi,‘ segir alvaldur Drottinn Jehóva, ‚þótt þessir þrír menn væru í landinu myndu þeir hvorki bjarga sonum sínum né dætrum heldur aðeins sjálfum sér og landið yrði að auðn.‘“
17 „‚Eða segjum að ég sendi sverð gegn þessu landi+ og segi: „Sverð fari um landið,“ og það útrými bæði mönnum og skepnum.+ 18 Svo sannarlega sem ég lifi,‘ segir alvaldur Drottinn Jehóva, ‚þótt þessir þrír menn væru þar myndu þeir hvorki bjarga sonum sínum né dætrum heldur aðeins sjálfum sér.‘“
19 „‚Eða segjum að ég láti drepsótt koma yfir landið+ og úthelli reiði minni yfir það með blóðsúthellingum til að útrýma bæði mönnum og skepnum. 20 Svo sannarlega sem ég lifi,‘ segir alvaldur Drottinn Jehóva, ‚þótt Nói,+ Daníel+ og Job+ væru þar myndu þeir hvorki bjarga sonum sínum né dætrum með réttlæti sínu heldur aðeins sjálfum sér.‘“+
21 „Alvaldur Drottinn Jehóva segir: ‚Þannig fer þegar ég sendi fjóra refsidóma+ mína gegn Jerúsalem – sverð, hungursneyð, grimm villidýr og drepsótt+ – til að útrýma mönnum og skepnum í henni.+ 22 Sumir í borginni lifa þó af og verða fluttir burt,+ bæði synir og dætur. Þeir koma til ykkar og þegar þið sjáið hegðun þeirra og líferni skiljið þið hvers vegna ég lét þessa ógæfu koma yfir Jerúsalem, já, hvers vegna ég lét allt þetta koma yfir borgina.‘“
23 „‚Þið fáið huggun þegar þið sjáið hegðun þeirra og líferni og þið áttið ykkur á að það var ekki að ástæðulausu að ég gerði borginni það sem ég gerði,‘+ segir alvaldur Drottinn Jehóva.“