Biblían er hávísindaleg þegar hún drepur á vísindi
„Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ (1. Mósebók 1:1) Vísindamenn kenna að alheimurinn hafi átt sér upphaf og nefna það sprenginguna miklu.
„Hann . . . lætur jörðina svífa í tómnum geimnum.“ (Jobsbók 26:7) Egyptar sögðu að hún stæði á stólpum; Grikkir að Atlas bæri hana á bakinu; aðrir að hún hvíldi á fílsbaki.
Á áttundu öld f.o.t. skrifaði Jesaja að Jehóva sæti „hátt yfir jarðarkringlunni.“ Hebreska orðið hhug, þýtt „kringla,“ getur einnig merkt „hnöttur“ eins og Old Testament Word Studies eftir Wilson sýnir. Þess vegna þýðir Moffat Jesaja 40:22 svo: „Hann situr yfir hnöttóttri jörðinni.
Biblían segir: „Stjarna ber af stjörnu í ljóma.“ Vísindamönnum er nú kunnugt að til eru bláar stjörnur, gular, hvítar dvergstjörnur, nifteindastjörnur og fleiri. — 1. Korintubréf 15:41.
Öldum áður en náttúrufræðingum var kunnugt um farferðir fugla og dýra skrifaði Jeremía (á sjöundu öld f.o.t.): „Jafnvel storkurinn í loftinu þekkir sínar ákveðnu tíðir, og turtildúfan og svalan og tranan gefa gætur að tíma endurkomu sinnar.“ — Jeremía 8:7.
Þúsund árum fyrir Krist skrifaði Salómon á líkingamáli um hringrás blóðsins. (Prédikarinn 12:6) Læknavísindin skildu hana ekki fyrr en á 15. öld okkar tímatals.
Móselögin (á 16. öld f.o.t.) báru vott um vitneskju um sýkla þúsundum ára fyrir daga Pasteurs. — 3. Mósebók 13. og 14. kafli.
Sköpunarsaga 1. Mósebókar er líffræðilega nákvæm — eins og steingervingasagan og erfðafræðin bera glöggt vitni um — þegar hún segir að sérhver tegund lífvera tímgist „eftir sinni tegund.“ — 1. Mósebók 1:12, 21, 25.
Vinnuteikningar erfðavísanna í frjóvgaðri eggfrumu geyma lýsingu á byggingu og starfsemi allra líkamshluta áður en þeir myndast. Berið saman við Sálm 139:16: „Augu þín [Jehóva] sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.“