Kafli 23
Fleiri kraftaverk í Kapernaum
HVÍLDARDAGINN eftir að Jesús kallaði fyrstu fjóra lærisveina sína — þá Pétur, Andrés, Jakob og Jóhannes — fara þeir allir í samkunduhúsið í Kapernaum. Jesús tekur að kenna þar og fólkið undrast því að hann kennir þeim eins og sá sem vald hefur en ekki eins og fræðimennirnir.
Maður haldinn illum anda er staddur í samkunduhúsinu þennan hvíldardag. Skyndilega æpir hann: „Hvað vilt þú oss, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma oss? Ég veit, hver þú ert, hinn heilagi Guðs.“
Illi andinn, sem hefur manninn á valdi sínu, er raunar einn af englum Satans. Jesús hastar á illa andann og segir: „Þegi þú, og far út af honum.“
Illi andinn lætur manninn fá krampakast og rekur upp óp, en fer út af honum án þess að vinna honum mein. Allir eru furðu lostnir. „Hvað er þetta?“ spyrja menn. „Ný kenning með valdi! Hann skipar jafnvel óhreinum öndum og þeir hlýða honum.“ Þessi atburður fréttist út um allt héraðið.
Jesús og lærisveinar hans yfirgefa samkunduhúsið og halda heim til Símonar Péturs þar sem tengdamóðir hans liggur fársjúk með háan hita. Þeir sárbæna Jesú um að hjálpa henni. Jesús gengur til hennar, tekur í hönd hennar og reisir hana á fætur. Hún læknast samstundis og tekur að matbúa handa þeim!
Síðar, þegar sól er sest, kemur fólk alls staðar að heim til Péturs með sjúka ástvini. Innan stundar eru allir bæjarbúar samankomnir við dyrnar! Og Jesús læknar alla sjúka, hvað sem amar að þeim. Hann rekur jafnvel út illa anda. Þegar andarnir fara út af fólki æpa þeir: „Þú ert sonur Guðs.“ En Jesús hastar á þá og leyfir þeim ekki að tala af því að þeir vita að hann er Kristur. Markús 1:21-34; Lúkas 4:31-41; Matteus 8:14-17.
▪ Hvað gerist í samkunduhúsinu hvíldardaginn eftir að Jesús kallar fjóra lærisveina sína?
▪ Hvert fer Jesús þegar hann yfirgefur samkunduhúsið og hvaða kraftaverk vinnur hann þar?
▪ Hvað gerist síðar sama kvöld?