3. kafli
Hver er Jesús Kristur?
Hvers vegna er Jesús nefndur „frumburður“ Guðs? (1)
Hvers vegna er hann kallaður „Orðið“? (1)
Hvers vegna kom Jesús til jarðar sem maður? (2-4)
Hvers vegna gerði hann kraftaverk? (5)
Hvað gerir Jesús í náinni framtíð? (6)
1. Jesús bjó á himni sem andavera áður en hann kom til jarðar. Hann var fyrsta sköpun Guðs og er þess vegna nefndur „frumburður“ sona Guðs. (Kólossubréfið 1:15; Opinberunarbókin 3:14) Jesús er eini sonurinn sem Guð skapaði að öllu leyti sjálfur. Áður en Jesús varð maður notaði Jehóva hann sem ‚verkstjóra‘ við sköpun alls annars á himni og á jörð. (Orðskviðirnir 8:22-31; Kólossubréfið 1:16, 17) Jehóva notaði hann líka sem helsta talsmann sinn. Þess vegna er Jesús kallaður „Orðið.“ — Jóhannes 1:1-3; Opinberunarbókin 19:13.
2. Guð sendi son sinn til jarðar með því að flytja líf hans í móðurlíf Maríu. Jesús átti þar af leiðandi ekki mennskan föður og erfði þess vegna hvorki synd né ófullkomleika. Guð hafði þrjár ástæður til að senda Jesú til jarðar. Hann skyldi (1) kenna okkur sannleikann um Guð (Jóhannes 18:37), (2) varðveita fullkomna ráðvendni við Guð og vera okkur þannig til fyrirmyndar (1. Pétursbréf 2:21), og (3) fórna lífi sínu til að leysa okkur undan synd og dauða. Hvers vegna var þörf á þessu? — Matteus 20:28.
3. Fyrsti maðurinn, Adam, óhlýðnaðist fyrirmælum Guðs og drýgði með því það sem Biblían kallar „synd.“ Guð dæmdi hann þess vegna til dauða. (1. Mósebók 3:17-19) Hann stóðst ekki framar staðla Guðs og var því ekki lengur fullkominn. Hægt og sígandi hrörnaði hann og dó að lokum. Syndinn gekk í arf til allra barna Adams. Þar af leiðandi hrörnum við líka, veikjumst og deyjum. Hvernig var hægt að bjarga mannkyninu? — Rómverjabréfið 3:23; 5:12.
4. Jesús var fullkominn maður eins og Adam. En Jesús var þó ólíkur Adam í því að hann sýndi Guði fullkomna hlýðni, jafnvel þegar mest á reyndi. Hann gat þess vegna fórnað fullkomnu mannslífi sínu til að gjalda fyrir synd Adams. Þetta er það sem Biblían kallar „lausnargjald.“ Með því mátti leysa börn Adams undan fordæmingu dauðans. Allir sem trúa á Jesú geta fengið fyrirgefningu synda sinna og öðlast eilíft líf. — 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6; Jóhannes 3:16; Rómverjabréfið 5:18, 19.
5. Þegar Jesús var á jörðinni læknaði hann sjúka, saddi hungraða og lægði storma. Hann jafnvel reisti upp dáið fólk. Hvers vegna vann hann kraftaverk? (1) Hann kenndi í brjósti um fólk sem þjáðist og vildi hjálpa því. (2) Kraftaverk hans sönnuðu að hann væri sonur Guðs. (3) Þau sýndu hvað hann gerir fyrir hlýðið mannkyn þegar hann ríkir sem konungur yfir jörðinni. — Matteus 14:14; Markús 2:10-12; Jóhannes 5:28, 29.
6. Jesús dó en Guð reisti hann upp sem andaveru, og hann hvarf aftur til himna. (1. Pétursbréf 3:18) Eftir það hefur Guð gert hann að konungi. Innan tíðar útrýmir Jesús allri illsku og öllum þjáningum af jörðinni. — Sálmur 37:9-11; Orðskviðirnir 2:21, 22.
[Myndir á blaðsíðu 7]
Þjónusta Jesú fólst í því að kenna, gera kraftaverk og fórna lífi sínu fyrir okkur.