„Mjög verðmæt kynni“
SUMARIÐ 1984 lagði ungur Frakki, Gerard að nafni, út í sex mánaða ævintýraferð á reiðhjóli um þver Bandaríkin og Kanada. Hann hreifst af tign Klettafjallanna og hafði yndi af friðsælu þjóðgörðunum, en það sem bar fyrir augu hans í Montmagny í Quebec í Kanada hafði þó dýpst áhrif á hann — það breytti öllu lífi hans.
Sunnudaginn 16. september var Gerard að hjóla í gegnum Montmagny þegar hann veitti athygli langri bílaröð sem lagt hafði verið við vegarbrúnina. Því næst kom hann auga á hundruð manna sem voru á þeytingi um byggingarlóð. „Hvað er hér á seyði?“ spurði hann einn af verkamönnunum sem stjórnaði umferðinni. Þótt maðurinn væri önnum kafinn tók hann sér tíma til að skýra fyrir Gerard að allir þessir verkamenn væru vottar Jehóva sem notuðu helgina til að reisa hús þar sem þeir héldu trúarsamkomur sínar. Óafvitandi hafði Gerard rambað á stað þar sem vottar Jehóva voru að reisa Ríkissal á tveim dögum og voru að keppast við að ljúka verkinu. Honum fannst mikið til um allt sem hann sá og heyrði. Þetta kvöld skrifaði hann í dagbókina sína: „Um kvöldið hitti ég votta Jehóva. Þeir hafa byggt hús á tveim dögum. Þeir voru yfir þúsund talsins. Mjög verðmæt kynni.“
Skömmu eftir þetta sneri Gerard heim til Frakklands. Tveim árum síðar, þann 26. júlí 1986, sendi hann bréf til Ríkissalar votta Jehóva í Montmagny. Hann skrifaði:
‚Munið þið enn eftir að hafa talað við hjólreiðamann frá Frakklandi á síðari degi ríkissalarbyggingarinnar? Sá sem stjórnaði umferðinni sáði frækorni þennan dag. Nokkrum mánuðum síðar heimsóttu vottarnir mig í Frakklandi og ég þáði boð þeirra um að nema Biblíuna. Námið var ekki auðvelt þar eð ég kem úr fjölskyldu dyggra kaþólikka. En Jehóva lét frækornið vaxa. Fyrir tveim vikum lét ég skírast á móti í Nantes. Ég þakka Jehóva fyrir að leyfa mér að finna sannleikann, og ég er þakklátur fyrir allt sem bróðirinn kenndi mér þennan sunnudag þann 16. september 1984. Bróðurkveðjur frá ævintýramanni sem lét snúast til sannleikans.‘
Söfnuðurinn í Montmagny gladdist mjög við að heyra bréf Gerards lesið í Ríkissalnum! Allir þeir sem lögðu lið við byggingu salarins reyndu þar sannleiksgildi orða Salómons: „Varpa þú brauði þínu út á vatnið, því þegar margir dagar eru um liðnir, munt þú finna það aftur.“ (Prédikarinn 11:1) Bygging Ríkissalar hefur góð, langvinn og víðtæk áhrif á marga vegu.