Ofsóknir halda áfram í Búrúndí
SNEMMA árs 1989 hófu stjórnvöld í Mið-Afríkuríkinu Búrúndí grimmilegar ofsóknir á hendur vottum Jehóva. Eins og skýrt var frá í Varðturninum þann 1. ágúst 1989 reyndu yfirvöld að þvinga vottana til að láta af trú sinni með því að leggja þá í einelti, handtaka, misþyrma og með öðrum grimmilegum hætti. Hvað hefur gerst á þeim mánuðum sem liðnir eru síðan?
Þær fregnir hafa borist frá Búrúndí að meðan umdæmisumsjónarmaður var í heimsókn í Kinyinya og Gitega hafi yfirvöld reynt að handtaka heilan söfnuð meðan samkoma stóð yfir. Umdæmis- og farandumsjónarmanninum tókst að komast undan en í hópi hinna handteknu voru meðal annars tveir menntaskólanemar og stúlka í barnaskóla. Öllum var misþyrmt. Næsta dag voru allir hinir handteknu vottar leiddir fyrir héraðsstjóra og fengu tækifæri til að skýra fyrir honum hvers vegna þeir gætu ekki tilheyrt stjórnmálaflokknum. Enn var þeim misþyrmt. Fleiri fregnir hafa borist af svipuðum atburðum.
Kristinn öldungur í Búrúndí skrifar: „Enginn vottur Jehóva hefur verið handtekinn fyrir þjófnað, morð eða undirróðursstarfsemi. Ef yfirvöld hafa raunverulegt tilefni til að refsa vottunum, þá ættu þau að láta fara fram opin réttarhöld yfir þeim í stað þess að kvelja friðsama borgara, gera eigur þeirra upptækar og elta þá eins og villidýr. Margir bræður í innhéruðum landsins hafa neyðst til að flýja heimili sín og lifa eins og flóttamenn. Systir, sem á manninn sinn í fangelsi, hefur gengið til fundar við fjölmarga áhrifamenn í von um að fá hann lausan. Henni hefur alls staðar verið vísað frá og gefið sama svarið: ‚Við getum aldrei sleppt manninum þínum úr fangelsi meðan þið fáið peninga erlendis frá til að ala á ólgu í landinu.‘ Hvílík lygi!“
Þrátt fyrir allt er góðar fréttir að fá frá Búrúndí. Vottarnir þar hafa ekki látið hræða sig til undanláts. Varfærnislega en þó markvisst heldur prédikun fagnaðarerindisins áfram og bræðurnir og systurnar gera sér ljóst að þau geta, með því að treysta Jehóva fullkomlega, haldið út. Fjölmörg bréf hafa verið send til Búrúndí til að lýsa vanþóknun á aðgerðum stjórnvalda, og vafalaust eiga mörg fleiri eftir að berast þegar heimurinn gerir sér ljóst að Búrúndístjórn heldur áfram miskunnarlausri ofsókn sinni gegn vottum Jehóva.
[Rammi á blaðsíðu 12]
Nafn og heimilisfang Búrúndíforseta:
His Excellency Major Pierre Buyoya
President of the Republic of Burundi
Bujumbura
REPUBLIC OF BURUNDI