Deilan um dauða Jesú
ÞRÍR menn voru líflátnir á páskadag árið 33. Farið var með þrjá dæmda menn út fyrir borgarmúra Jerúsalem þar sem þeir voru líflátnir á kvalafullan og niðurlægjandi hátt — einhvern þann versta sem hugsast gat: Þeir voru hengdir upp á tréstaura. Slíkar aftökur voru algengar á tímum Rómverja þannig að ætla mætti að dauði þessara þriggja manna á páskadag væri löngu fallinn í gleymsku. En einn þessara manna var Jesús Kristur og dauði hans varð kveikjan að afdrifaríkum breytingum og átökum á vettvangi trúmálanna.
Nálega tvö þúsund ár eru liðin síðan þetta gerðist, þannig að þú hefur kannski tilhneigingu til að líta á þennan atburð sem einungis löngu liðna sögu. En vissir þú að deilan, sem upp kom, er fjarri því að vera útkljáð?
Eins og þú veist sennilega trúa milljónir manna að Jesús hafi dáið fyrir þá. Þeir trúa því statt og stöðugt að dauði Krists sé lykillinn að endurlausn og fyrirgefningu synda, að trú á dauða hans sé forsenda hjálpræðis. Það vekur þó furðu að þessi kenning, sem er mönnum svo kær, skuli eiga „erfitt uppdráttar,“ eins og sagði í grein í tímaritinu Anglican Theological Review. Og ‚erfiðleikarnir‘ koma frá trúarleiðtogum.
Í Anglican Theological Review kemur fram nánari skýring: „Kenningin um friðþægingu í hugarheimi kristninnar á erfitt uppdráttar vegna þess að biblíulegar forsendur hennar eru dregnar í efa, vegna þess að kerfisbundin framsetning hennar er orðin ofhlaðin skammlífum hugmyndum . . . og almenn, andleg tjáning hennar birtist í tilfinningasemi og gagnrýnislausri sjálfsréttlætingu einstaklingsins.“ Guðfræðingum bæði mótmælenda og kaþólskra hefur mistekist að komast að nokkru samkomulagi um það hvaða þýðingu dauði Jesú Krists hefur, ef þá einhverja.
Vera má að þér finnist þetta ekki vera annað en argaþras nokkurra sérfræðinga í guðfræði sem snertir líf þitt ekki hið minnsta. En hugleiddu þetta: Ef dauði Jesú er í raun og veru tengdur stöðu þinni frammi fyrir Guði og horfunum á að þú hljótir eilíft líf (á himnum eða annars staðar), þá verðskuldar þessi deila athygli þína.
Hvers vegna eru guðfræðingar enn að þrátta um þetta mál? Við skulum líta á rómversk-kaþólsku kirkjuna sem dæmi. Hún hefur vel skilgreinda kennisetningu um ódauðleika sálarinnar og um þrenninguna. Þó er kirkjan undarlega óákveðin varðandi endurlausn vegna dauða Jesú. New Catholic Encyclopedia viðurkennir: „Mörg og ólík kerfi hafa verið mótuð til að skýra hvernig maðurinn sé frelsaður undan böli syndarinnar og veitt náð Guðs á ný . . . En ekkert þessara kerfa hefur reynst algerlega fullnægjandi. . . . Kenningakerfi endurlausnarinnar er að nokkru leyti ómótað og er enn vandamál í guðfræðinni.“
Þú ættir því ekki að furða þig á því að fáir af þeim milljónum, sem tóna með trúarhita: ‚Jesús dó fyrir okkur,‘ hafa meira en óljósa hugmynd um það hvað það merkir í reynd. Eins og Anglican Theological Review orðar það: „Þegar gengið er á trúaðan kristinn mann . . . er hann oft ófær um að vitna í biblíulegar forsendur kenningarinnar eða skýra hvernig hún verkar.“ Íþyngt kenningu, sem kirkjurækið fólk hvorki skilur né getur skýrt, á það erfitt með að skilja hvernig dauði Krists skiptir það máli.
Sú staðreynd að kristna heiminum hefur ekki tekist að koma fram með skýra kenningu um endurlausn hefur líka gert tilraunir hans til að ná til Gyðinga, Hindúa, Búddhatrúarmanna og annarra með boðskap kristninnar máttlausan. Þótt margt slíkra manna virði og dáist að mörgum af kenningum Jesú er ringulreiðin kringum dauða Krists og þýðingu hans hindrun á veginum til trúar.
Er gildi dauða Krists hreinlega leyndardómur — ofvaxinn mannlegum skilningi, eða er til á honum skynsamleg skýring byggð á Biblíunni? Þessar spurningar eru umhugsunarverðar því að Biblían kemur með þessa furðulegu staðhæfingu um Krist: ‚Hver sem á hann trúir glatast ekki heldur hlýtur eilíft líf.‘ — Jóhannes 3:16.