Huggun í fjögurra ára stríði
MARGIR liðu miklar þrengingar og skort þau fjögur ár sem stríðið stóð í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu. Þeirra á meðal voru hundruð votta Jehóva sem héldu trúfastir áfram að tilbiðja „Guð allrar huggunar.“ — 2. Korintubréf 1:3.
Borgin Sarajevó var umsetin allt stríðið, og það hafði í för með sér auknar þrengingar fyrir borgarbúa. Þar skorti rafmagn, vatn, eldivið og mat. Hvernig starfaði söfnuður votta Jehóva í Sarajevó við þessar gríðarlega erfiðu aðstæður? Kristnir menn frá grannlöndunum hættu lífinu til að færa þeim stóra sendingu hjálpargagna. (Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 1. nóvember 1994, bls. 23-7.) Og bræðurnir í Sarajevó deildu með sér því sem þeir áttu og lögðu aðaláhersluna á að miðla því sem andlegt er. Kristinn umsjónarmaður frá borginni sagði svo frá meðan umsátrið stóð yfir:
„Við metum samkomurnar mjög mikils. Við hjónin, ásamt 30 öðrum, göngum 15 kílómetra hvora leið til að komast á samkomur. Stundum var tilkynnt að vatni yrði dreift til borgarbúa á samkomutímum. Hvað gerðu bræðurnir þá? Voru þeir heima eða fóru þeir á samkomu? Bræðurnir kusu frekar að sækja samkomurnar. Þeir hjálpa alltaf hver öðrum; þeir deila með sér öllu sem þeir eiga. Systir í söfnuðinum okkar býr í útjaðri borgarinnar nálægt skóginum, þannig að það er örlítið auðveldara fyrir hana að nálgast eldivið. Hún vinnur líka í bakaríi og fær launin greidd í hveiti. Þegar hún getur bakar hún stóran brauðhleif og tekur með sér á samkomu. Á leiðinni út eftir samkomuna gefur hún öllum bita.
Það er mikilvægt að engum finnist hann nokkurn tíma einn og yfirgefinn. Enginn veit hver verður næst hjálparþurfi við þessar óþægilegu aðstæður. Þegar vegir voru hálir og systir nokkur lá veik drógu ungir, sterkir bræður hana á sleða á samkomurnar.
Við tökum öll þátt í prédikunarstarfinu og Jehóva hefur blessað viðleitni okkar. Hann hefur séð neyð okkar í Bosníu en hann hefur blessað okkur með aukningu — slíkri sem við þekktum ekki fyrir stríðið.“
Vottar Jehóva hafa líka séð aukningu á öðrum stríðshrjáðum svæðum fyrrverandi Júgóslavíu, þrátt fyrir miklar þrengingar. Þessi fregn af vottahópi kemur frá skrifstofu votta Jehóva í Króatíu: „Bræðurnir í Velika Kladuša lentu í miklum þrengingum. Ráðist var nokkrum sinnum á borgina. Bræðurnir urðu að útskýra hlutleysi sitt fyrir Króötum, Serbum og ýmsum herjum múslíma. Þeir þurftu sannarlega að þola margt — fangavist, barsmíð, hungur og lífshættu. En allir voru þeir trúfastir og hafa þau einstæðu sérréttindi að sjá Jehóva blessa starf sitt.“
Þrátt fyrir þessa erfiðleika sjá vottar Jehóva í Velika Kladuša og í grannborginni Bihać áframhaldandi aukningu er þeir færa nágrönnum sínum huggunar- og hughreystingarboðskap Guðs. Tuttugu og sex boðberar Guðsríkis á þessum tveim stöðum eru með 39 heimabiblíunámskeið í gangi!