Vandamálin við barnauppeldi á okkar dögum
VEITINGAHÚSEIGANDI er að ganga frá síðla kvölds og búa sig undir að halda heim. Þá koma inn tvær konur með barn og panta mat. Þar sem eigandinn er orðinn mjög þreyttur langar hann helst til að segja þeim að búið sé að loka en ákveður að veita þeim þjónustu. Meðan konurnar ræða saman og neyta matarins er barnið á hlaupum út um allt, missir kex á gólfið og mylur það undir fótum sér. Móðirin brosir bara í stað þess að stöðva barnið. Þegar viðskiptavinirnir fara loksins verður eigandinn að þrífa upp óþrifnaðinn, dauðuppgefinn.
Eins og þú líklega veist hefur uppeldi barna í mörgum fjölskyldum ekki tekist sem skyldi eins og þetta sannsögulega dæmi sýnir. Ástæðurnar eru af ýmsum toga. Sumir foreldrar leyfa börnunum að ráða sér sjálf og þeim finnst að börnin eigi að alast upp í umhverfi þar sem ríkir frjálsræði. Önnur ástæða er sú að foreldrarnir lifa svo annasömu lífi að þeir gefa sér ekki tíma til að veita börnunum nána athygli og nauðsynlega fræðslu. Sumir foreldrar álíta að skólaganga barnanna sé það sem mestu máli skiptir. Þess vegna veita þeir barninu næstum ótakmarkað frelsi svo framarlega sem það fær háar einkunnir og kemst í virtan háskóla.
Sumir segja að lagfæra þurfi gildismat foreldra og þjóðfélagsins yfirleitt. Máli sínu til stuðnings benda þeir á að ofbeldi í skólum fari sívaxandi og börn séu flækt í alls konar glæpi. Skólastjóri í grunnskóla í Seúl í Suður-Kóreu lagði áherslu á að persónuleikamótun ætti að hafa forgang. Hann sagði að „fyrst þyrfti að byggja upp góða eiginleika síðan veita þekkingu“.
Margir foreldrar, sem óska þess að börn sín fari í háskóla og nái langt í lífinu, skella skolleyrum við varnaðarorðum. Sértu foreldri, hvers konar manngerð viltu að barnið þitt verði? Viltu að það hafi siðgæðisvitund og ábyrgðartilfinningu þegar það er uppkomið, verði manneskja sem sýni öðrum nærgætni, tilhliðrunarsemi og sé hjálpfús að eðlisfari? Ef svo er skaltu lesa næstu grein.