Fátækt — hver er staðan?
VICENTEa sést oft draga þungt hlaðinn vagn eftir götum São Paulo í Brasilíu. Hann safnar rusli — pappa, málmi og plasti. Þegar skyggja tekur leggur hann lag af pappa undir vagninn og leggst til hvíldar. Hann virðist ekki taka eftir hávaðanum í bílum og strætisvögnum sem bruna hjá en það er talsverð umferð um götuna þar sem hann sefur. Eitt sinn hafði hann vinnu og átti heimili og fjölskyldu — en hann missti allt. Nú dregur hann fram lífið á götunni.
Því miður lifa milljónir manna um allan heim við sára fátækt eins og Vicente. Í þróunarlöndunum neyðast margir til að búa á götunni eða í fátækrahverfum. Það er algeng sjón að sjá lamaða, blinda og konur með börn á brjósti betla á götum úti. Börn hlaupa á milli bíla sem bíða á rauðu ljósi og reyna að selja sælgæti í von um að vinna sér inn smá peninga.
Það er erfitt að sætta sig við að þannig fátækt sé til. Í breska tímaritinu The Economist stóð: „Mannkynið hefur aldrei áður verið auðugra eða búið yfir meiri þekkingu á sviði læknavísinda, aldrei haft meiri yfirburði á sviði tækninnar eða vitað betur hvað þarf til að vinna bug á fátækt.“ Öll þessi þekking hefur tvímælalaust orðið mörgum til góðs. Á götum stórborga í mörgum þróunarlöndum er nóg af gljáandi nýjum bílum. Og verslunarmiðstöðvar eru troðfullar af nýjustu tækjunum og ekki vantar kaupendur. Tvær verslunarmiðstöðvar í Brasilíu hrintu af stað sérstakri söluherferð. Þær höfðu opið næturlangt milli 23. og 24. desember 2004. Önnur þeirra réð sambadansara til að skemmta viðskiptavinum. Uppákoman laðaði að sér um hálfa milljón manna.
Þó að sumir séu ríkir kemur það fátækum fjöldanum að engum notum. Þar sem breitt bil er milli ríkra og fátækra hafa margir dregið þá ályktun að það sé bráðnauðsynlegt að útrýma fátækt. Tímaritið Veja í Brasilíu staðhæfði: „Á þessu ári [2005] ætti baráttan við fátækt að vera efst á baugi hjá þjóðarleiðtogum.“ Í tímaritinu var sagt frá hugmynd um nýja Marshallaðstoð með það að markmiði að hjálpa fátækustu löndunum, sérstaklega í Afríku.b Af tillögu eins og þessari mætti ætla að það hafi orðið framfarir á þessu sviði en tímaritið bætti við: „Það eru nægar ástæður til að draga árangurinn í efa. Flestar þjóðir hika við að veita fjármagni í áætlun af þessu tagi en það er vegna þess að peningarnir ná sjaldnast til þeirra sem eiga að fá þá.“ Spilling og skriffinnska gera því miður að verkum að stór hluti fjármunanna, sem ríkisstjórnir, alþjóðastofnanir og einstaklingar gefa, nær aldrei til þeirra sem þurfa raunverulega á þeim að halda.
Jesús vissi að fátækt yrði viðvarandi vandamál. Hann sagði: „Fátæka hafið þér jafnan hjá yður.“ (Matteus 26:11) Þýðir það að fátækt verði alltaf til staðar? Er ekki hægt að gera eitthvað til að bæta stöðuna? Hvað getum við gert til að hjálpa fátækum?
[Neðanmáls]
a Nafninu hefur verið breytt.
b Marshallaðstoðin er heitið á efnahagsaðstoð Bandaríkjamanna sem var til þess ætluð að hjálpa til við efnahagslega uppbyggingu ríkja Evrópu eftir seinni heimsstyrjöldina.