Hvað ætlast Guð fyrir með jörðina?
HVERS vegna hefurðu ánægju af því að ganga úti í náttúrunni og teyga ilminn af gróðrinum? Hvers vegna nýturðu þess að sjá fallegt stöðuvatn eða tignarleg og snævikrýnd fjöll? Hvers vegna hefurðu yndi af því að hlusta á glaðlegan söng fuglanna í trjánum? Og hvers vegna finnst þér hrífandi að sjá lömbin úti í haga eða horfa á hestastóð taka á sprett?
Svarið við öllum þessum spurningum er það sama. Við vorum gerð til að búa í paradís. Foreldrar mannkyns, Adam og Eva, hófu líf sitt í paradís og löngunin til að búa í paradísarumhverfi kemur einmitt frá þeim en þau fengu hana frá skapara sínum, Jehóva Guði. Hann vissi að við mennirnir myndum una okkur vel í paradís af því að hann skapaði okkur með alla þá eiginleika sem eru nauðsynlegir til að hafa ánægju af slíku yndislegu heimili.
En hvers vegna skapaði Jehóva jörðina? Hann myndaði hana „svo, að hún væri byggileg“ fyrir mannfólkið. (Jesaja 45:18) „Hann, sem gjört hefir jörðina,“ gaf Adam og Evu fallegt paradísarheimili — aldingarðinn Eden. (Jeremía 10:12; 1. Mósebók 2:7-9, 15, 21, 22) Árnar sem runnu þar í gegn og blómin og trén sem prýddu garðinn hljóta að hafa veitt þeim gleði. Fuglar flugu um loftin blá og alls konar dýr fylltu landið en án þess að skaða mannfólkið. Fiskar og önnur dýr syntu í kristaltæru vatninu. En það besta var að Adam og Eva áttu hvort annað. Þau gátu eignast börn og í samvinnu við stækkandi fjölskyldu sína gátu þau stækkað paradísarheimili sitt.
Þó að jörðin sé ekki paradís núna má líkja henni við heimili hamingjusamrar fjölskyldu. Heimilið, sem Guð gaf okkur, býr yfir því sem við þörfnumst — ljósi, hita, vatni og fæðu. Við kunnum svo sannarlega að meta ljósið og ylinn sem kemur frá sólinni og milt tunglskinið að næturlagi. (1. Mósebók 1:14-18) Í „kjallara“ jarðarinnar er að finna eldsneyti eins og kol, olíu og jarðhita sem við getum notað til upphitunar. Hringrás vatnsins og ár, stöðuvötn og höf jarðarinnar sjá okkur fyrir vatni. Svo er jörðin „teppalögð“ grænu grasi.
Jörðin geymir nægan mat í forðabúri sínu til að fæða okkur líkt og búr geymir fæðu heimilisins. Með uppskeru akranna og ávöxtum aldingarðanna hefur Jehóva ‚gefið okkur uppskerutíðir og fyllt hjörtu okkar gleði‘. (Postulasagan 14:16, 17) Jörðin er sannarlega gott heimili núna en ímyndaðu þér hvernig hún verður þegar ‚hinn sæli Guð‘, Jehóva, breytir henni í paradís. — 1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912.