Kenndu börnunum
Af hverju var Davíð óhræddur?
FINNUR þú stundum til hræðslu? —a Flestir verða hræddir einhvern tíma. Hvað geturðu þá gert? — Þú getur farið til einhvers sem er stærri og sterkari en þú. Kannski geta pabbi eða mamma hjálpað þér. Við getum lært af Davíð hvert við eigum að leita til að fá hjálp. Hann sagði í söng til Guðs: „Ég [set] traust mitt á þig . . . ég treysti Guði, ég óttast eigi.“ — Sálmur 56:4, 5.
Hver heldurðu að hafi kennt Davíð að vera óhræddur? Heldurðu að það hafi verið foreldrar hans? — Alveg örugglega. Ísaí, pabbi hans, var trúfastur forfaðir Jesú Krists, hins fyrirheitna ‚Friðarhöfðingja‘. (Jesaja 9:5; 11:1– 3, 10) Pabbi Ísaí — afi Davíðs — hét Óbeð. Í Biblíunni er bók sem heitir eftir mömmu Óbeðs. Veistu hvað hún hét? — Hún hét Rut og var trúföst kona sem var gift Bóasi. — Rutarbók 4:21, 22.
Rut og Bóas voru auðvitað löngu dáin þegar Davíð fæddist. Þú veist kannski hvað mamma hans Bóasar hét, langalangamma Davíðs. Hún bjó í Jeríkó og hjálpaði til við að bjarga nokkrum ísraelskum njósnurum. Þegar múrar Jeríkó féllu fengu hún og fjölskylda hennar vernd með því að láta fléttaða purpurarauða snúru hanga niður úr glugganum hjá sér. Hvað hét þessi kona? — Hún hét Rahab. Hún gerðist þjónn Jehóva og hún er gott fordæmi um hugrekki. — Jósúabók 2:1-21; 6:22-25; Hebreabréfið 11:30, 31.
Við getum verið viss um að foreldrar Davíðs hafa sagt honum frá þessum trúföstu þjónum Jehóva vegna þess að foreldrar í þá daga höfðu fengið fyrirmæli um að fræða börnin um slíka hluti. (5. Mósebók 6:4-9) Síðan kom að því að Samúel, spámanni Guðs, var sagt að útnefna Davíð, yngsta son Ísaí, sem næsta konung Ísraels. — 1. Samúelsbók 16:4-13.
Dag einn ákveður Ísaí að senda Davíð með mat til þriggja eldri bræðra Davíðs sem voru að berjast við Filista, óvini Guðs. Þegar hann kemur á staðinn hleypur hann að víglínunni og heyrir risann Golíat „hæðast að hersveitum hins lifandi Guðs“. Enginn þorir að berjast við risann. Sál konungur heyrir af því að Davíð sé tilbúinn til þess og kallar því á hann. En þegar Sál sér Davíð segir hann: „Þú ert aðeins unglingur.“
Davíð útskýrir fyrir Sál að hann hafi drepið ljón og björn sem reyndu að ráðast á sauðfé fjölskyldunnar. „Eins mun fara fyrir þessum [Golíat]“, segir Davíð. Þá segir Sál: „Þú skalt fara, Drottinn veri með þér.“ Davíð finnur fimm slétta steina, setur þá í smalatöskuna, tekur slöngvuna sína og fer til að berjast við risann. Þegar Golíat sér að ungur strákur á að berjast við hann hrópar hann: „Komdu hingað. Ég skal gefa fuglum himinsins . . . hræ þitt að éta.“ Davíð svarar: „Ég kem á móti þér í nafni Drottins,“ og síðan hrópar hann: „Ég mun fella þig.“
Því næst gengur Davíð í áttina að Golíat, tekur stein úr töskunni, setur hann í slöngvuna og kastar honum beint í ennið á Golíat. Þegar Filistar sjá að risinn er dáinn verða þeir hræddir og leggja á flótta. Ísraelsmenn elta þá uppi og vinna orustuna. Lesið saman alla frásöguna í 1. Samúelsbók 17:12-54.
Kannski ertu stundum hræddur við að fylgja boðum Guðs. Jeremía var hræddur þegar hann var ungur en Guð sagði við hann: „Þú skalt ekki óttast . . . því að ég er með þér.“ Jeremía lagði sig fram við að losna við óttann og prédikaði eins og Guð hafði sagt honum að gera. Ef þú treystir á Jehóva getur þú, líkt og Davíð og Jeremía, lært að vera óhræddur. — Jeremía 1:6-8.
a Ef þú ert að lesa fyrir börn er þankastrikinu ætlað að minna þig á að stoppa og beina spurningunni til þeirra.