BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS
„Ég hef loksins öðlast ósvikið frelsi“
FÆÐINGARÁR: 1981
FÖÐURLAND: BANDARÍKIN
FORSAGA: LENTI Á VILLIGÖTUM
FORTÍÐ MÍN:
Ég fæddist í Moundsville, rólegum bæ við ána Ohio í norðurhluta Vestur-Virginíufylkis í Bandaríkjunum. Ég átti tvo bræður og eina systur og ég var næstelstur í systkinahópnum. Það var því alltaf líf og fjör á heimili okkar. Foreldrar mínir voru mjög gott fólk, umhyggjusamir, heiðarlegir og vinnusamir. Við vorum ekkert sérstaklega efnuð en höfðum alltaf það sem við þurftum á að halda. Foreldrar mínir voru vottar Jehóva og gerðu sitt besta til að kenna okkur sannleika Biblíunnar þegar við vorum lítil.
Áður en ég komst á unglingsárin var ég innst inni þegar farinn að leiðast burt frá því sem ég hafði lært. Ég efaðist um að hægt væri að lifa innihaldsríku lífi með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar. Ég taldi sjálfum mér trú um að til þess að vera hamingjusamur þyrfti maður að búa við algert frelsi. Það leið ekki á löngu þar til ég hætti að mæta á safnaðarsamkomur. Tvö systkina minna fylgdu slæmu fordæmi mínu og leiddust líka af réttri braut. Foreldrar okkar gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að hjálpa okkur en við þrjóskuðumst við.
Ég gerði mér alls enga grein fyrir að út af þessu svokallaða frelsi sem ég þráði yrði ég þræll fíknar. Dag einn á leiðinni heim úr skólanum þáði ég sígarettu af vini mínum. Upp frá því fór ég að stunda margt sem var mér skaðlegt. Með tímanum fór ég að neyta fíkniefna, misnota áfengi og lifa siðlausu lífi. Á árunum þar á eftir byrjaði ég að fikta við harðari fíkniefni og ánetjaðist mörgum þeirra. Fíknin náði sífellt sterkari tökum á mér og ég fór að selja eiturlyf til að geta viðhaldið neyslunni.
Ég reyndi eins og ég gat að þagga niður í samviskunni en hún minnti mig stöðugt á að breytni mín væri röng. Samt fannst mér eins og skaðinn væri skeður og það yrði ekki aftur snúið. Ég var oft einmana og niðurdreginn þótt ég væri umkringdur fólki í partíum og á tónleikum. Stundum hugsaði ég til þess hversu góða foreldra ég ætti og skildi ekki hvernig ég hefði leiðst svona langt af réttri braut.
HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:
Þó að ég hefði gefist upp á sjálfum mér höfðu aðrir enn trú á mér. Foreldrar mínir buðu mér á umdæmismót Votta Jehóva árið 2000. Ég var mjög hikandi en lét samt tilleiðast. Mér til mikillar undrunar sá ég þar einnig hin tvö systkini mín, sem höfðu lent á villigötum.
Meðan á mótinu stóð varð mér ljóst að ég hafði verið á rokktónleikum á þessum sama stað árinu áður. Ég varð djúpt snortinn að sjá hvað þessir tveir viðburðir voru ólíkir. Á tónleikunum var staðurinn fullur af rusli og sígarettureyk. Flestir tónleikagestirnir voru kuldalegir í framkomu og boðskapur tónlistarinnar var niðurdrepandi. En á mótinu var ég hins vegar umkringdur fólki sem var raunverulega hamingjusamt og tók hlýlega á móti mér þótt ég hefði ekki séð það árum saman. Staðurinn var snyrtilegur og þar var rætt um upplífgandi vonarboðskap. Þegar ég sá hversu góð áhrif sannindi Biblíunnar hafa á fólk fór ég að velta fyrir mér af hverju í ósköpunum ég hafði hafnað þeim. – Jesaja 48:17, 18.
„Með hjálp Biblíunnar gat ég hætt að nota og selja eiturlyf og ég varð betri maður fyrir vikið.“
Strax að mótinu loknu ákvað ég að snúa aftur til safnaðarins. Mótið hafði líka haft mikil áhrif á systkini mín og þeim langaði einnig að sameinast söfnuðinum á ný. Öll vildum við þiggja biblíunámskeið.
Eitt vers í Biblíunni hreyfði sérstaklega við mér. Í Jakobsbréfinu 4:8 segir: „Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“ Ég skildi að ef ég vildi nálægja mig Guði þyrfti ég að koma lífi mínu á réttan kjöl. Það þýddi meðal annars að ég þyrfti að hætta að reykja, neyta eiturlyfja og misnota áfengi. – 2. Korintubréf 7:1.
Ég sleit öll tengsl mín við gömlu vinina og fann mér nýja vini meðal þjóna Jehóva. Safnaðaröldungurinn sem aðstoðaði mig við biblíunámið reyndist mér einstaklega vel. Hann hringdi oft í mig og heimsótti mig til að sjá hvernig mér gengi. Hann er einn af bestu vinum mínum allt fram á þennan dag.
Vorið 2001 lét ég í ljós vígsluheit mitt við Guð með því að láta skírast og það gerðu systkini mín tvö líka. Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu ánægðir foreldrar mínir voru, og trúfastur yngri bróðir, þegar fjölskyldan var loks sameinuð í tilbeiðslunni á Jehóva.
ÞAÐ HEFUR ORÐIÐ MÉR TIL GÓÐS:
Áður fannst mér meginreglur Biblíunnar of stífar en nú lít ég á þær sem ómetanlega vernd. Með hjálp Biblíunnar gat ég hætt að nota og selja eiturlyf og ég varð betri maður fyrir vikið.
Núna er ég þess heiðurs aðnjótandi að mega tilheyra alþjóðlegu bræðralagi fólks Jehóva. Þetta fólk elskar hvert annað af heilu hjarta og þjónar Guði í einingu. (Jóhannes 13:34, 35) Í hópi þeirra kynntist ég líka ástkærri eiginkonu minni, Adrianne, sem hefur reynst mikil blessun og ég elska hana mjög heitt. Okkur finnst virkilega ánægjulegt að mega þjóna skaparanum saman.
Í stað þess að láta líf mitt snúast eingöngu um mig starfa ég nú sem boðberi í fullu starfi og kenni öðrum hvernig þeir geti einnig haft gagn af orði Guðs. Það hefur veitt mér sanna lífshamingju. Ég get sagt með fullri sannfæringu að Biblían hafi breytt lífi mínu. Ég hef loksins öðlast ósvikið frelsi.