Til minnis vegna umdæmismótsins
Dagskrártímar: Mótsstaðurinn er opnaður kl. 8:00. Tónlistin hefst kl. 9:20 alla þrjá dagana. Þá ættu allir að ganga til sætis svo að dagskráin geti hafist á virðulegan hátt. Dagskránni lýkur um kl. 17:00 á föstudegi og laugardegi en um kl. 16:00 á sunnudegi.
Lofið Jehóva í söng: Fólk Guðs hefur frá fornu fari lofað Jehóva í söng, og tónlist heldur áfram að vera mikilvægur þáttur í sannri tilbeiðslu. (Sálm. 28:7) Á umdæmismótum okkar er leikin tónlist áður en dagskráin hefst. Þetta er ekki bara þægileg tónlist í bakgrunninum heldur er hún samin til að hjálpa okkur að læra um Jehóva og tilbiðja hann. Þegar kynnirinn tilkynnir að tónlistin sé að hefjast er þess vegna tímabært fyrir okkur að ljúka samræðum, fá okkur sæti og hlusta á tónlistina. Við sýnum þannig að við kunnum að meta störf hljóðfæraleikaranna í Varðturnshljómsveitinni. Þessir bræður og systur ferðast á eigin kostnað til Patterson í New York tvisvar á ári til að taka upp fallega tónlist okkur til ánægju. Eftir að hafa hlustað af athygli á tónlistina ættu allir að að lofsyngja Jehóva með því að syngja ríkissöngvana saman.
Bílastæði: Á öllum mótstöðum, þar sem við höfum umsjón með bílastæðunum, eru þau gjaldfrjáls og reglan, fyrstir koma fyrstir fá, gildir. Fjöldi bílastæða er yfirleitt takmarkaður þannig að gott er að samnýta bíla ef mögulegt er. Aðeins þeir sem hafa P-stæðiskort fyrir hreyfihamlaða mega leggja í stæði ætluð fötluðum. Nánari upplýsingar um mótið í Stokkhólmi verða birtar á www.sammankomst.org.
Að taka frá sæti: Við biðjum ykkur að ryðjast ekki inn þegar mótstaðurinn opnar á morgnana eins og þið séuð að keppa við aðra mótsgesti um sæti. Sýnið bræðrum og systrum tillitssemi og fórnfýsi. Fórnfýsi einkennir okkur sem sannkristna menn og fær fólk sem fylgist með okkur til að lofa Guð. (Jóh. 13:34, 35; 1. Kor. 13:5; 1. Pét. 2:12) Við ættum aðeins að taka frá sæti fyrir þá sem eru okkur samferða, heimilisfólk, eða biblíunemendur. Leggjum ekki hluti frá okkur á sæti sem við erum ekki að taka frá. Þegar við hjálpumst öll að í þessu sambandi er hægt að sjá hvaða sæti eru laus. Sérstakt svæði hefur verið tekið frá fyrir þá sem eru aldraðir eða veikburða. Þar sem slíkt svæði er takmarkað er aðeins gert ráð fyrir að einn eða tveir, sem eru slíkum einstaklingi til aðstoðar, geti setið hjá honum.
Viðeigandi klæðnaður: Klæðnaður okkar á mótinu ætti að vera viðeigandi og látlaus í stað þess að endurspegla þær öfgar sem eru ríkjandi í heiminum. (1. Tím. 2:9) Við ættum einnig að passa að vera ekki ósnyrtilega eða of hversdagslega til fara þegar við innritum okkur á hótel eða skráum okkur út, og í frítíma okkar fyrir og eftir mótsdagskrá. Þannig getum við borið barmmerkið með stolti og talað við aðra um sannleikann þegar tækifæri gefst án þess að skammast okkar. Framkoma okkar og góð hegðun meðan á mótinu stendur mun ekki aðeins laða einlægt fólk að boðskap Biblíunnar heldur gleður það einnig Jehóva. – Sef. 3:17.
Símar og önnur rafeindatæki: Sýnum tillitsemi á meðan dagskrá stendur með því að stilla síma okkar eða önnur rafeindatæki þannig að þau trufli ekki aðra. Ef við erum með myndavél, myndbandstökuvél, spjaldtölvu eða önnur slík tæki ættum við að gæta þess að trufla ekki eða byrgja öðrum sýn. Við sýnum líka tillitssemi með því að senda ekki textaskilaboð eða tölvupóst að óþörfu meðan á dagskrá stendur.
Hádegisverður: Mótsgestir eru hvattir til að taka með sér nesti í stað þess að yfirgefa mótsstaðinn í hádegishléinu til að fá sér mat. Hægt er að taka með litla nestistösku eða kælibox sem passar undir sætið. Ekki er leyfilegt að koma með stór kælibox og glerílát á mótssvæðið.
Framlög: Við getum sýnt að við kunnum að meta mótið með því að gefa frjáls framlög til alþjóðastarfsins á mótsstaðnum. Hægt er að gefa framlag með greiðslukorti.
Lyf: Ef þú þarft á lyfseðilsskyldum lyfjum að halda skaltu muna að taka nægilegt magn með þér á mótið þar sem ekkert slíkt er fáanlegt á mótsstaðnum. Notuðum sprautum og sprautunálum fyrir sykursjúka þarf að henda sem spilliefni en ekki í sorpílát á mótsstaðnum eða á hótelum.
Öryggisráðstafanir: Förum varlega svo við rennum ekki eða misstígum okkur. Á hverju ári verða slys á fólki út af skófatnaði, sérstaklega hælaháum skóm. Best er að velja skó sem passa vel og gera fólki kleift að ganga öruggt um rampa, tröppur, óslétt undirlag eða annað slíkt.
Heyrnaskertir: Dagskránni verður útvarpað á FM-bylgju á mótsstaðnum. Til að hlusta á útsendinguna þarf að hafa meðferðis lítið rafhlöðutæki, sem nemur FM-bylgjur, og heyrnatól. Einnig verður ákveðið svæði ætlað fólki með heyrnartæki.
Barnakerrur og garðstólar á mótinu í Stokkhólmi: Eldvarnareftirlitið heimilar ekki að farið sé með barnakerrur inn á mótssvæðið. Hins vegar verður hægt að geyma barnakerrur á ákveðnu svæði fyrir utan. Barnabílstólar eru leyfðir ef hægt er að festa þá í sæti við hlið foreldranna. Lítið svæði verður frátekið fyrir garðstóla.
Ilmefni: Flest mót eru haldin í húsnæði með loftræstikerfi. Til að sýna tillitssemi er best að takmarka notkun sterkra ilmefna, eins og ilmvatns og rakspíra, sem geta vakið ofnæmisviðbrögð hjá fólki með öndunarerfiðleika eða skyld vandamál. – 1. Kor. 10:24.
Veitingastaðir: Heiðrum nafn Jehóva með góðri framkomu þegar við förum á veitingastaði. Klæðumst eins og sæmir boðberum Jehóva.
Pantið ekki fleiri herbergi en þið komið til með að nota og fylgið reglum um leyfilegan fjölda næturgesta í hverju herbergi.
Afbókið ekki herbergi nema brýna nauðsyn beri til og tilkynnið hótelinu eins fljótt og auðið er svo að þeir sem vantar gistingu geti nýtt sér herbergið. (Matt. 5:37) Ef þú neyðist til að afbóka skaltu vera viss um að þú fáir afbókunarnúmer.
Ef gestir nota debet- eða kreditkort við innritun á hótel er viðtekin venja að skuldfæra heildarkostnaðinn á reikning gestsins, auk tryggingargjalds eða aukakostnaðar vegna dvalarinnar. Ekki er hægt að nota þessa innistæðu á reikningnum fyrr en nokkrum dögum eftir að gesturinn skráir sig út af hótelinu.
Takið einungis farangurskerru þegar þið eruð tilbúin að nota hana og skilið henni strax eftir notkun svo að aðrir geti notað hana.
Ef það er til siðs í landinu að láta hótelstarfsfólk fá þjórfé fyrir að bera farangur skaltu gera það og skilja líka eftir þjórfé fyrir þá sem þrífa herbergið.
Eldið aðeins í herbergjum þar sem boðið er upp á eldunaraðstöðu.
Athugið að innifalinn morgunverður er aðeins ætlaður hótelgestum til að neyta á staðnum. Sama á við um kaffi og klaka úr klakavél. Misnotið ekki aðstöðuna.
Sýnið ávallt ávöxt andans í samskiptum við hótelstarfsfólk. Það þarf að hugsa um fjöldann allan af gestum og kann að meta góðvild okkar, þolinmæði og sanngirni.
Foreldrar ættu að hafa umsjón með börnum sínum á öllum tímum á hótelinu, þar á meðal í lyftum, á sundlaugarsvæði, í anddyri, í líkamsræktarsal og svo framvegis.
Herbergisverð, sem fram kemur í verðskrá, sýnir fullt verð með virðisaukaskatti fyrir gistinótt. Ef þið eruð rukkuð um hærra gjald skuluð þið neita að greiða það og hafa samband við húsnæðisdeildina á mótinu eins fljótt og hægt er.
Ef upp kemur vandamál í tengslum við hótelherbergi ykkar hafið þá samband við húsnæðisdeildina á mótinu svo að hægt sé aðstoða ykkur.
Sjálfboðastörf: Allir sem hafa áhuga á að taka þátt í sjálfboðavinnu geta haft samband við sjálfboðaliðadeildina á mótinu. Börn yngri en 16 ára geta líka lagt sitt að mörkum, með því að vinna undir umsjá foreldra sinna, forráðamanns eða annarrar fullorðinnar manneskju, og þá með samþykki foreldra eða forráðamanns.