Hvernig verjast á EYÐNI
MARGIR opinberir aðilar og einkaaðilar hafa hrundið af stað upplýsingaherferð til að kenna fólki að forðast eyðnismit. Þau ráð, sem gefin eru, snerta þó sjaldan siðferðilegar hliðar málsins. Sjaldan er höfðað til fólks á þeim grundvelli að einhver athöfn sé siðferðilega röng.
Bandaríski sjónvarpsfréttaskýrandinn Ted Koppel sagði í þessu sambandi við bekk sem var að útskrifast úr háskóla: „Við höfum í rauninni talið okkur trú um að slagorð geti bjargað okkur. Sprautið fíkniefnum í æð ef þið endilega viljið, en notið hreina nál. Hafið kynmök hvenær sem þið viljið við hvern sem þið viljið en notið verju. Nei! Svarið er nei. Ekki af því að það sé ekki smart eða fínt eða vegna þess að þú gætir lent í fangelsi eða dáið af völdum eyðni, heldur nei vegna þess að það er rangt, vegna þess að við höfum eytt 5000 árum sem rökhugsandi menn . . . í leit að sannleika og óvéfengjanlegum siðgæðismælikvarða. Í sinni hreinustu mynd er sannleikur ekki kurteislegt klapp á öxlina. Hann er dúndrandi ávítur. Það sem Móse kom með niður af Sínaífjallinu voru ekki tillögurnar tíu.“
Leiðin til að forðast eyðni
Hægt hefði verið að komast hjá eyðniplágunni eins og The New York Times Magazine orðaði það: „Þetta er fyrsta plágan í sögu mannkynsins sem meðvituð hegðun okkar ræður algerlega útbreiðslunni á.“
Til að forðast eyðni þarf að fylgja þeirri höfuðreglu að vera siðferðilega hreinlífur. Það merkir að eiga engin kynmök utan hjónabands og neyta ekki fíkniefna. Hegðunarmynstur manna þarf að breytast af því að „augljóst er að veiran, sem veldur eyðni, berst frá manni til manns samfara ákveðinni hegðun,“ eins og tímaritið Science News greindi frá.
Afar fáir, sem eru siðferðilega hreinlífir, smitast af eyðni. Af vísu getur sú staða komið upp að annað hjóna sé siðsamt en hitt ekki og það sýkist af eyðni og smiti síðan maka sinn. Það hjóna, sem grunar maka sinn um siðleysi eða fíkniefnanotkun, hefur að sjálfsögðu rétt til að vernda sig gegn smiti. Enginn getur krafist þess að saklaus manneskja svo að segja svipti sig lífi.
Tokyoblaðið Asahi Shimbun hefur eftir fulltrúa heilbrigðisyfirvalda: „Sá sem lifir eðlilegu lífi fær ekki sjúkdóminn. Það er því engin ástæða til að gera sér óhóflegar áhyggjur af honum. En ef þú vilt ‚láta gamminn geisa‘ verður þú sjálfur að taka áhættuna, þá að svipta þig lífi.“ Shoko Nagaya við japanska heilbrigðisráðuneytið ráðlagði: „Þekktu rekkjunaut þinn.“
En er það í raun gerlegt að ‚þekkja rekkjunaut sinn‘ í þessum lausláta heimi sem lítur á fjöllyndi sem eðlilegan hlut? Hvernig getur þú vitað með vissu að rekkjunautur þinn hafi ekki verið lauslátur eða sprautað sig með fíkniefnum og þannig gert sig berskjaldaðan fyrir eyðni?
Það sem heiminn vantar er fræðsla sem kemur fólki til að hata það sem er siðferðilega rangt. Og hvað sem líður fögrum orðum um ‚frjálslyndi‘ og ‚fordómaleysi‘ þá er kynlíf utan hjónabands rangt og hið sama má segja um fíkniefnanotkun. Slíkt hátterni getur leitt til sjúkdóma og ótímabærs dauða.
Eru verjur lausnin?
Í einu landi höfðu 93 af hundraði aðspurðra 18 og 19 ára karla og kvenna haft siðlaus kynmök. Aðeins 25 af hundraði karla og 20 af hundraði kvenna sögðust einhvern tíma hafa notað verju — sem víða er mælt með til varnar gegn eyðnismiti. Í öðru landi leiddi rannsókn í ljós að kynvilltir karlmenn, sem mældust með mótefni í blóði, fækkuðu rekkjunautum á hálfs árs tímabili aðeins úr 12 í 5. Flestir þeirra töldu aukna verjunotkun veita örugga vernd gegn smiti.
En veita verjur örugga vernd gegn smiti? Í Fréttabréfi landlæknisembættisins í maí 1988 er haft eftir heilbrigðisstarfsmanni: „Það hefur ekki verið sannað að samfarir með smokk séu algerlega hættulausar. Smokkurinn kann að hefta smit frá konu til karlmanns alveg eða nær alveg, ef hann er rétt notaður. Hins vegar er ekki hægt að tryggja að hann sé rétt notaður. Þá getur hann líka rifnað og þá veitir hann að minnsta kosti ekki vörn fyrir smiti frá karlmanni til konu, fremur en hann veitir vörn gegn þungun. Smokkurinn getur því ekki talist fyllilega hættulaus.“ Kanadíska dagblaðið The Financial Post segir: „Jack Layton, forstöðumaður heilbrigðismálastjórnar Toronto, segir að allt að 30 prósent af verjum bregðist sem getnaðarvörn.“
Í dagblaðinu The Daily Gleaner, sem gefið er út á Jamaíku, segir Beth Aub: „Verjan er ekkert öruggari núna en hún hefur áður verið. Reyndar er hún ekki eins örugg því að eyðniveiran er miklum mun smærri en sæðisfruma og á því mun auðveldara með að smjúga í gegn. Kona getur orðið þunguð aðeins fáeina daga í mánuði, en hún getur smitast af eyðni hvenær sem hún hefur kynmök við sýktan karlmann. Verjan er ekki örugg vörn.“ Og bandaríski landlæknirinn C. E. Koop bendir á að verjur bregðist ‚óvenju oft‘ við mök kynvilltra.
Verjunotkun er því engin örugg vörn gegn eyðnismiti. Langbesta vörnin er að lifa eftir háum siðferðisstaðli Biblíunnar.
Eru blóðbirgðirnar í lagi?
Áður en mótefnamælingar í blóði hófust árið 1985 smituðust þúsundir (ef til vill hundruð þúsundir að Afríku meðtalinni) af eyðni með sýktu blóði. Sums staðar er smitunartíðnin enn mjög há. Í afrískri skýrslu frá síðasta ári segir: „Samkvæmt nýjum rannsóknum má búast við að næstum eitt af hverjum fimmtán börnum í Mið-Afríku, sem gefið var blóð vegna blóðleysis af völdum malaríu, hafi smitast af eyðniveirunni. Blóðgjafir eru nú önnur algengasta smitleið eyðni á svæðinu.“
Á Vesturlöndum er því haldið fram að blóðbirgðirnar séu nú því sem næst smitlausar. En er hægt að treysta því? Við venjulega skimun blóðs er leitað mótefnis gegn alnæmisveirunni. Ef það finnst er blóðið sýkt. En eins og blaðið The Economist bendir á „tekur það tíma fyrir þau mótefni að myndast sem leitað er að.“ Blóðgjafar geta verið með eyðniveiruna án þess að hafa enn myndað mótefni gegn henni. Þótt blóðgjafinn sé talinn heill heilsu er veiran í líkama hans og getur smitað þann sem gefið er blóð úr honum. Stofnunin, New York Blood Center, reiknar með að um 90 af hundraði þeirra sem gefin er aðeins ein eining af eyðnisýktu blóði smitist.
Dr. Harvey Klein við bandarísku heilbrigðismálastofnanirnar segir að það geti tekið líkamann á bilinu sex vikur til þriggja mánaða að mynda mótefni. Þangað til eru engin mótefni í blóði þess sem sýktur er, eða ekki nóg af þeim til að koma fram við mælingar.
Bandaríska tímaritið The Medical Post segir: „Allt að hálft ár getur liðið [frá smitun] þar til þau mótefni myndast sem hægt er að finna með núverandi mæliaðferðum.“ Rannsóknir á vegum bandarísku krabbameinsstofnunarinnar leiddu í ljós að sumir einstaklingar mynda ekki mælanleg mótefni fyrr en 14 mánuðum eftir smit. Breska læknatímaritið The Lancet upplýsir að nýrri rannsóknir sýni að eyðniveiran geti náð að margfaldast enn lengur í mönnum áður en hennar verður vart við mælingar. Þótt unnið sé að þróun aðferða til að finna veiruna í blóði jafnvel áður en mótefni hafa myndast eru þær enn sem komið er á frumstigi.
Í skýrslu sérfræðinga við háskólann í Mainz í Vestur-Þýskalandi segir: „Blóðgjafalæknisfræðin verður að horfast í augu við þá staðreynd, að það er ekki lengur til blóð sem er örugglega laust við HIV.“
Aðrir sjúkdómar sem berast með blóði
Ekki bætir það úr skák að aðrir sjúkdómar en eyðni berast langtum oftar með blóði. Dr. Klein segir: „Eyðni hefur fengið alla athyglina og umtalið. En síðastliðin 25 ár hefur alvarlegasti fylgikvilli blóðgjafa verið lifrarbólgusmit. Enn þá er lifrarbólga algengasta dánarorsök tengd blóðgjöfum.“
Eitt afbrigði þessa sjúkdóms er nefnt ekki-A/ekki-B lifrarbólga. Árlega fá yfir 190.000 manns í Bandaríkjunum þennan sjúkdóm með blóðgjöfum. Þar af deyja um 10.000 eða verða fyrir varanlegu heilsutjóni. Enn er veiran, sem veldur honum, lítt þekkt og engin örugg mæliaðferð kunn til að finna hana í blóði.
Franska læknadagblaðið Le Quotidien du Médecin segir í þessu sambandi: „Kannski eru vottar Jehóva að gera rétt í því að neita að láta gefa sér blóðafurðir, því að sannleikurinn er sá að fjölmargir sjúkdómsvaldar geta borist með blóðgjöfum.“
Þitt er valið
Hver og einn þarf sjálfur að taka ákvörðun í þessu máli. Ef menn kjósa að halda áfram siðlausu líferni eða að sprauta sig með fíkniefnum verða þeir að taka afleiðingunum: Ef sáð er siðleysi verður uppskeran eftir því.
En hver er fær um að leggja öðrum réttar lífsreglur í siðferðismálum? Nú, hver þekkir best hvernig við erum úr garði gerð og hvaða afleiðingar það hefur að brjóta gegn réttum siðferðisreglum? Að sjálfsögðu skapari mannsins. Í innblásnu orði sínu, Biblíunni, segir hann: „Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera. Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun.“ — Galatabréfið 6:7, 8.
Það er engum vafa undirorpið að skapari mannsins hefur ákveðið að kynvilla, lauslæti og hjúskaparbrot sé siðferðilega rangt, svo og notkun fíkniefna. Orð hans segir okkur: „Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar“ geta vænst velþóknunar Guðs. — 1. Korintubréf 6:9; sjá einnig 2. Korintubréf 7:1.
Biblían aðvarar: „Haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði.“ (Postulasagan 15:29) Gríska orðið, sem hér er þýtt ‚saurlifnaður,‘ nær yfir hvers kyns kynmök önnur en mök hjóna. Og tókst þú eftir að hér eru einnig fyrirmæli um að láta ógert að nota blóð?
Versinu lýkur með orðum sem eiga við af enn meiri áhersluþunga nú en þá: „Ef þér varist þetta, mun yður vegna vel. Verið sælir.“ (Ísl. bi., 1912) Leiddu hugann að því hve margir hafa dáið og eiga eftir að deyja af völdum eyðni sem rekja má til siðlausra athafna og fíkniefnaneyslu, auk þeirra þúsunda (í Afríku ef til vill hundruð þúsunda) sem hafa fengið eyðni með sýktu blóði. Hugsaðu um þær hundruð milljónir manna sem bíða tjón á heilsu sinni vegna annarra sjúkdóma sem berast með blóði, eða vegna samræðissjúkdóma og fíkniefnanotkunar.
Þegar allt þetta er lagt saman er það æðihár kostnaður í mynd heilsutjóns og ótímabærs dauða sem greiða þarf fyrir rangt líferni. Í ljósi afleiðinganna er auðsætt hve viturlegt er að hlýða banni skaparans gegn þessu líferni.
Brasilískur sérfræðingur í smitsjúkdómum, prófessor Vincente Amato Neto, segir: „Ég segi oft að besta vörnin gegn eyðni sé sú að gerast einn af vottum Jehóva, því að þeir sem tilheyra því trúarsamfélagi eru hvorki samkynhneigðir né tvíkynhneigðir, þeir eru trúir maka sínum — þeir setja það í samband við barneignir — neyta ekki fíkniefna og, til að fullkomna myndina, þiggja þeir ekki blóðgjafir.“
Tímaritið Toronto Life segir: „Eina skýra og ótvíræða svarið við eyðni er skírlífi sem undanfari einkvænis.“ Og Valentin Pokrovsky, forseti sovésku læknavísindaakademíunnar, staðfestir þetta: „Baráttan gegn eyðni getur ekki takmarkast við læknavísindin. Heilbrigðir lífshættir, hreinleiki í sambandi kynjanna og tryggð í hjónabandi eru bestu leiðirnar til að fyrirbyggja eyðni.“
Já, að fylgja þeim siðferðisstöðlum, sem skaparinn hefur sett manninum, er besta leiðin til að vernda sig gegn eyðni.
[Innskot á blaðsíðu 13]
„Það sem Móse kom með niður af Sínaífjalli voru ekki tillögurnar tíu.“
[Mynd á blaðsíðu 13]
Eyðni hefur borist með blóðgjöfum — og gerir enn.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Með því að fylgja siðferðisstöðlum skaparans bæði utan hjónabands og innan er hægt að firra sig margvíslegum sorgum, meðal annars eyðni.