Ungt fólk spyr . . .
Eru reykingar í alvöru svona slæmar?
REYKINGAR höfðu verið spennandi í augum Orens allt frá því að hann var lítill drengur. Þegar frænka hans kveikti sér í sígarettu var hún vön að láta hann blása á eldspýtuna. Sextán ára gamall ákvað hann að prófa sjálfur. Hann fór í teiti og bað stúlku að gefa sér sígarettu — en varð óglatt áður en hann gat lokið við hana.
Karlmennskustoltið hafði beðið hnekki svo að Oren ákvað að „æfa sig“ í reykingum í einrúmi. Kvöld eitt, eftir þunga máltíð, kveikti hann taugaóstyrkur í sígarettu og sogaði ofan í sig reykinn. Og viti menn! Enginn svimi eða ógleði í þetta sinn. Hann var harla ánægður með sjálfan sig og sogaði ofan í sig reykinn aftur og aftur. Hann langaði í aðra sígarettu eftir að þeirri fyrstu var lokið og síðan þá þriðju. Næstu sex árin keðjureykti hann.
Hefur dregið úr reykingum?
Núna myndu margir unglingar líta niður á Oren fyrir þetta. Samkvæmt könnun, sem gerð var í Bandaríkjunum, töldu 66 af hundraði þeirra unglinga, sem könnunin náði til, að „veruleg hætta“ fylgdi því að reykja einn eða fleiri pakka af sígarettum á dag. Svo kaldhæðnislegt sem það er voru reykingamenn í hópi þeirra sem harðast fordæmdu reykingar! „Þetta er viðbjóðslegur ósiður,“ sagði 16 ára reykingamaður. Í einni könnun viðurkenndu næstum 85 af hundraði táninga, sem reyktu, að þeir teldu reykingar skaðlegar. Næstum helmingur sagðist ætla að hætta reykingum — það er að segja innan fimm ára.
Eftir öllum sólarmerkjum að dæma lítur því út fyrir að vinsældir tóbaksins séu í rénun og vanþóknun á því sé vaxandi. Í skýrslu bandaríska landlæknisembættisins frá 1989, sem hét Reducing the Health Consequences of Smoking — 25 Years of Progress (Dregið úr skaðlegum áhrifum reykinga — framfarir í 25 ár), segir: „Á fimmta og sjötta áratugnum voru reykingar í tísku. Núna forðast fólk reykingar í vaxandi mæli. Kvikmyndastjörnur, íþróttahetjur og annað frægt fólk kom fram í sígarettuauglýsingum. Núna er sjaldgæft að leikarar, íþróttamenn, frægt fólk og frambjóðendur stjórnmálaflokka sjáist reykja. . . . Almenningur hefur í vaxandi mæli verið að hætta reykingum.“
Árið 1965 reyktu 40 af hundraði allra fullvaxta Bandaríkjamanna. Liðlega 20 árum síðar var hlutfallið komið niður í 29 af hundraði. Í skýrslu bandaríska landlæknisembættisins er enn fremur staðhæft að „nálega helmingur fullorðinna, sem nú lifa og hafa einhvern tíma reykt, hafa hætt því.“ Árið 1976 reyktu um 29 af hundraði nemenda í efri bekkjum bandarískra menntaskóla daglega. Rúmlega áratug síðar reyktu aðeins 19 af hundraði.
Út frá þessum tölum mætti ætla að óþarft sé að segja mikið meira um reykingar. En þrátt fyrir kröftugar herferðir gegn reykingum og alvarlegar aðvaranir lækna hefur heildartóbaksnotkunin í heiminum aukist umtalsvert! Um 50 milljónir fullvaxta Bandaríkjamanna halda reykingum áfram. Og það sem kom fyrir Oren hefur komið fyrir marga fleiri unglinga. Dag hvern kveikja um 3000 bandarískir unglingar í sinni fyrstu sígarettu. Það svarar til hvorki fleiri né færri en einnar milljónar nýrra reykingamanna á ári! Þótt undarlegt kunni að virðast eru flestir nýju nikótínþrælanna stúlkur á táningaaldri.
Áróður gegn reykingum er engin nýlunda
Ekki er svo að skilja að fólk viti ekki af hættunum sem fylgja reykingum. Löngu áður en vísindamenn komu fram með vísindaleg rök gegn reykingum sagði heilbrigð skynsemi fólki að þær væru óhreinn og óæskilegur ósiður. Fyrir tæplega 90 árum voru sígarettur ólöglegar víða í Bandaríkjunum. Það eitt að eiga sígarettur var sums staðar talið nægilegt tilefni til handtöku. Og á öldum áður var sums staðar gripið til enn harkalegri aðgerða gegn reykingum.
Tímaritið Smithsonian lýsir sumum aðgerðum sem beitt var gegn tóbaksreykingum á 17. öld: „Í Kína var gefin út keisaraleg tilskipun árið 1638 þess efnis að notkun . . . tóbaks væri dauðasök. . . . Í Rússlandi voru reykingamenn hýddir, rifið var út úr nösum þeirra sem endurtóku brot sitt og síbrotamenn voru sendir í útlegð til Síberíu. Í Persíu voru þeir pyndaðir, staurfestir og/eða hálshöggnir.“
Þetta voru að sjálfsögðu óhóflega grimmar aðferðir. Hins vegar má segja að reykingamenn séu mjög grimmir við sjálfa sig.
Það sem reykingamenn gera sjálfum sér
Nikótínið er efnið sem gefur tóbakinu hið ískyggilega aðdráttarafl sitt. The World Book Encyclopedia segir hins vegar: „Einn dropi af nikótíni — um 60 milligrömm — gæti drepið fullvaxta mann ef hann væri tekinn inn í einu lagi. Venjuleg sígaretta inniheldur um 1 milligramm af nikótíni.“
Nikótín er líka sterkt ávanaefni. Í skýrslu bandaríska landlæknisembættisins segir: „Flestir reykingamenn hefja reykingar sem unglingar og verða síðan tóbaksþrælar. . . . Áttatíu af hundraði reykingamanna segjast myndu vilja hætta; tveir þriðju reykingamanna hafa gert að minnsta kosti eina alvarlega tilraun til að hætta.“ Kvalafull fráhvarfseinkenni spilla oft slíkum tilraunum, einkenni svo sem óstjórnleg fíkn í tóbak, eirðarleysi, fyrtni, kvíði, höfuðverkir, drungi, meltingartruflanir og einbeitingarerfiðleikar.
En sígarettur gera meira en að menga manninn með nikótíni. Logandi sígaretta er eiturefnaverksmiðja sem spýr út í loftið um 4000 ólíkum efnasamböndum. Sýnt hefur verið fram á að 43 þessara efna geta valdið krabbameini. Sum þeirra eru eins og límkennd tjara sem loðir við lungun og öndunarveginn. Þau geta með tímanum valdið lungnakrabbameini. Reykingar eru einnig taldar geta „stuðlað að krabbameini í blöðru, brisi og nýrum og taldar tengjast krabbameini í maga.“ — Reducing the Health Consequences of Smoking.
Það getur tekið mörg ár fyrir reykingamann að fá krabbamein. En jafnvel ein sígaretta getur verið hættuleg. Nikótín kemur hjartanu til að slá örar og eykur súrefnisþörf líkamans. Því miður inniheldur sígarettureykur líka kolmónoxíð — eitraða lofttegund sem er einnig í útblæstri bifreiða. Þetta eiturefni tekur stefnu á blóðrásina og hreinlega hamlar súrefnisstreymi til hjartans og annarra mikilvægra líffæra. Það sem verra er, nikótín veldur því að æðarnar herpast þannig að það dregur enn meira úr súrefnisflæði. Hjartasjúkdómar eru því gríðarlega algengir meðal reykingamanna.
Magasár, fósturlát, fæðingargallar og heilablóðfall — þetta eru aðeins fáeinar af mörgum öðrum hættum sem reykingamenn setja sig í. Árlega deyja um 2,5 milljónir manna í heiminum af völdum tóbaks. Þar af deyja yfir 400.000 manns í Bandaríkjunum einum. Bandaríska landlæknisembættið fullyrðir: „Rekja má eitt af hverjum sex dauðsföllum í Bandaríkjunum til reykinga. Reykingar eru stærsta, einstaka, fyrirbyggjanlega dauðaorsökin í okkar þjóðfélagi.“ Sumir sérfræðingar á sviði heilbrigðismála óttast að reykingar eigi eftir að drepa allt að 200 milljónir manna sem núna eru undir tvítugu.
En reykingamenn vinna ekki bara sjálfum sér tjón. Með því að neyða aðra til að anda að sér eiturlofti sínu auka þeir hættuna á lungnakrabbameini og öðrum öndunarfærasjúkdómum hjá þeim sem ekki reykja.
Taktu sjálfstæða ákvörðun
Það er því ekkert undarlegt að fjölmargar þjóðir skuli hafa gert ráðstafanir til að vara fólk við hættunni sem fylgir reykingum og reyna að draga úr þeim. Það virðist þó hafa lítil áhrif á marga unglinga að benda þeim á hætturnar. „Ég slaka á þegar ég kveiki í sígarettu,“ segir Holly sem er 15 ára. „Ég hugsa aldrei um það að ég geti fengið krabbamein.“
Orðskviður segir: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því.“ (Orðskviðirnir 27:12) Langar þig í raun og veru til að taka út afleiðingar tóbaksánauðar, það er að segja krabbamein, hjartasjúkdóma og öndunarfærasjúkdóma? Eru nikótínáhrifin þess virði að fá gular tennur, þurran hósta og andremmu?
En það er önnur og betri ástæða til þess að forðast reykingar: löngun þín til að varðveita vináttu Guðs. Myndi það ekki særa þig ef þú gæfir einhverjum verðmæta gjöf og hann henti henni í ruslið? Nú, Guð gefur okkur „líf og anda.“ (Postulasagan 17:25) Reyndu að ímynda þér hvað honum finnst um það að þú misnotir þessa gjöf! Páll postuli skrifaði: „Þar eð vér því höfum þessi fyrirheit [um samband við Guð sem hann hefur velþóknun á], elskaðir, þá hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta.“ (2. Korintubréf 7:1) Reykingar saurga ekki aðeins líkamann og menga hann með eitruðum efnum; þær saurga líka anda mannsins, þann kraft sem knýr huga hans. Reykingar eru spillandi, eigingjarnar og óguðlegar.
Þrátt fyrir það láta margir unglingar freistast til að reykja. Hvers vegna? Hvernig getur unglingur staðið gegn þrýstingi í þá átt? Það er viðfangsefni greinar sem birt verður síðar.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Hugsaðu um afleiðingarnar áður en þú lætur ánetjast.