Konur — eru þær virtar á vinnustað?
„Meirihluti karlmannanna, einhleypir sem kvæntir, leit á konurnar sem hentuga bráð.“ — Jenny, fyrrum ritari á lögmannastofu.
„Kynferðisleg áreitni og misnotkun á konum er alræmd á spítölunum.“ — Sarah, hjúkrunarkona.
„Það var sífellt verið að koma með siðlausar uppástungur við mig á vinnustað.“ — Jean, hjúkrunarkona.
ERU þetta óvenjuleg dæmi sem við tökum hérna eða eru þau algeng? Vaknið! átti viðtöl við allmargar konur sem höfðu unnið úti. Virtu karlmennirnir, sem þær unnu með, sæmd þeirra? Nokkur svaranna voru á þessa lund:
Sarah, hjúkrunarkona frá New Jersey í Bandaríkjunum með níu ára reynslu á bandarískum hersjúkrahúsum, segir: „Ég man að þegar ég starfaði í San Antonio í Texas losnaði starf á nýrnadeildinni. Ég spurði nokkra lækna hvað ég þyrfti að gera til að fá starfið. Einn þeirra glotti og sagði: ‚Sofa hjá yfirlækninum.‘ Ég svaraði einfaldlega: ‚Ég vil ekki starfið með þeim skilyrðum.‘ En þannig eru oft teknar ákvarðanir um störf og stöðuhækkanir. Konan verður að beygja sig fyrir lostafullum karlmanni sem ræður.
Öðru sinni var ég að vinna á gjörgæsludeild að tengja slöngu fyrir vökvagjöf við sjúkling þegar læknir kleip mig í rassinn um leið og hann gekk hjá. Ég varð ævareið og þaut fram í næstu stofu. Hann elti mig og sagði eitthvað klúrt við mig. Ég kýldi hann niður beint ofan í ruslafötuna! Síðan fór ég rakleiðis aftur til sjúklingsins. Ég þarf varla að taka fram að hann áreitti mig aldrei aftur!“
Miriam, gift kona frá Egyptalandi er starfaði áður sem ritari í Kaíró, lýsti aðstöðu útivinnandi kvenna í þessu múhameðstrúarlandi. „Konur eru sómasamlegri til fara heldur en á Vesturlöndum. Ég varð ekki vör við neina líkamlega, kynferðislega áreitni á mínum vinnustað. Hins vegar er kynferðisleg áreitni í neðanjarðarlestunum í Kaíró slík að núna er fremsti vagninn frátekinn handa konum.“
Jean, hæglát en einbeitt kona með 20 ára starfsreynslu sem hjúkunarkona, segir: „Ég fylgdi þeirri ófrávíkjanlegu reglu að fara aldrei út með neinum vinnufélaga. En áreitnin kom hvort sem ég átti samskipti við lækna eða aðra karlmenn sem voru sjúkraliðar. Þeir álitu sig allir hafa sálfræðilega yfirburði. Ef við hjúkrunarkonurnar vorum ekki ‚samvinnuþýðar‘ við sjúkraliðana og uppfylltum kynferðislegar óskir þeirra voru þeir ekki tiltækir þegar okkur vantaði hjálp til að lyfta sjúklingi upp í rúm eða eitthvað þvíumlíkt.“
Jenny starfaði sem ritari á lögmannastofu í sjö ár. Hún segir frá því sem hún sá meðan hún vann með lögmönnunum. „Meirihluti karlmannanna, einhleypir sem kvæntir, leit á konurnar sem hentuga bráð. Hugarfar þeirra var á þessa leið: ‚Við lögfræðingarnir höfum unnið til þess og konurnar eru hluti af réttindum okkar.‘“ Og margt virðist benda til að aðrir sérmenntaðir menn séu sömu skoðunar. En hvað getur kona gert til að draga úr áreitni?
Darlene, svört bandarísk kona er starfaði sem ritari og veitingakona, sagði: „Illa getur farið ef maður lætur ekki skýrt í ljós hve langt maður vill ganga. Ef karlmaður gefur manni undir fótinn og maður tekur undir getur allt farið úr böndum. Ég hef við ýmis tækifæri þurft að láta afstöðu mína skýrt í ljós. Ég hef sagt eitthvað í þessa áttina: ‚Mér þætti vænt um að þú talaðir ekki svona við mig.‘ Við annað tækifæri sagði ég: ‚Ég er gift kona og mér finnst það móðgandi sem þú hefur sagt. Ég held ekki að maðurinn minn kynni að meta það.‘
Kjarni málsins er sá að maður verður að ávinna sér virðingu vilji maður njóta hennar. Ég fæ ekki séð hvernig kona getur áunnið sér virðingu ef hún reynir að etja kappi við karlmenn í því sem ég kalla búningsklefatal — með klúrum bröndurum og tvíræðum dylgjum. Ef maður gerir mörkin milli sæmandi og ósæmandi orða og verka óskýr, þá reynir einhver náungi að fara yfir þau.“
Yfirgangssami karlmaðurinn
Connie, hjúkrunarkona með 14 ára starfsreynslu að baki, minntist á annars konar áreitni sem getur skotið upp kollinum við margs konar aðstæður. „Ég var að vinna með lækni við að skipta um umbúðir á sári og fylgdi öllum hinum stöðluðu vinnubrögðum sem ég hafði lært. Ég veit allt um dauðhreinsunartækni og svo framvegis, en ekkert var nógu gott í augum læknisins. Hann reifst og skammaðist og fann að öllu sem ég gerði. Það er mjög algengt að konur séu niðurlægðar með þessum hætti. Sumir karlmenn þurfa að styrkja sjálfsálitið og virðast þurfa að láta konurnar, sem vinna með þeim, kenna á valdi sínu.“
Sarah, sem áður er vitnað til, segir frá reynslu sinni í þessum efnum: „Ég var að undirbúa skurðaðgerð og fór vandlega yfir lífsmerki sjúklingsins. Hjartaafrit hans var svo óreglulegt að ég vissi að hann var alls ekki fær um að gangast undir uppskurð. Ég gerði þau mistök að vekja athygli skurðlæknisins á því. Hann varð hamslaus af reiði og svaraði: ‚Hjúkrunarkonur eiga að hugsa um þvagskálar, ekki hjartaafrit.‘ Ég lét því svæfingalækninn vita og hann sagði að undir þessum kringumstæðum myndi hans teymi ekki vinna með skurðlækninum. Þá, öllum að óvörum, sagði skurðlæknirinn eiginkonu mannsins að það væri mér að kenna að ekki væri enn búið að skera manninn hennar upp! Við svona aðstæður fer konan alltaf halloka. Hvers vegna? Vegna þess að hún hefur óafvitandi ógnað sjálfsáliti karlmannsins.“
Greinilegt er að konur þurfa oft að sæta áreitni og auðmýkingu á vinnustað. En hver er réttarstaða þeirra?
Konur og lögin
Í sumum löndum heims hefur það tekið konur margar aldir að ná jafnvel fræðilegu jafnrétti fyrir lögum. Og janvel þar sem lög kveða á um jafnrétti er oft hyldýpi milli laga og raunveruleika.
Rit Sameinuðu þjóðanna, The World’s Women — 1970-1990, segir: „Þessi gloppa [í stefnu stjórnvalda] stafar að miklu leyti af lögum sem neita konum um jafnrétti á við karlmenn til að eiga land, taka fé að láni og gera samninga.“ Eins og kona nokkur frá Úganda sagði: „Við höldum áfram að vera annars flokks borgarar — nei, þriðja flokks því að synir okkar ganga fyrir okkur. Jafnvel asnar og dráttarvélar fá stundum betri meðferð en við.“
Konur fengu takmarkaðan kosningarétt á Íslandi árið 1915 og fullan árið 1920. Bókin Men and Women, gefin út af Time-Life, segir: „Árið 1920 tryggði 19. breytingin á stjórnarskrá Bandaríkjanna konum kosningarétt — löngu eftir að þær höfðu áunnið sér þann rétt í mörgum Evrópulöndum. Kosningaréttur var hins vegar ekki veittur á Bretlandi fyrr en árið 1928 (og ekki fyrr en eftir síðari heimsstyrjöldina í Japan).“ Í mótmælaskyni gegn pólitísku misrétti kvenna kastaði bresk baráttukona fyrir kosningarétti kvenna, Emily Wilding Davison, sér fyrir hest konungs á Derby-veðreiðunum árið 1913 og lést. Hún varð píslarvottur í jafnréttisbaráttu kvenna.
Sú staðreynd að Bandaríkjaþing skuli ekki hafa fjallað um „lög um ofbeldi gegn konum“ fyrr en árið 1990 sýnir að löggjafarsamkundur, þar sem karlar ráða mestu, hafa farið sér hægt í því að bregðast við þörfum kvenna.
Þetta stutta yfirlit yfir meðferðina á konum víða um heim vekur þá spurningu hvort einhvern tíma verði breyting á. Hvað þarf að gerast til að ástandið breytist til batnaðar? Um þessar spurningar er fjallað í tveim eftirfarandi greinum.
[Rammi á blaðsíðu 11]
Hverjir eru verst settir?
„Konur inna af hendi tvo þriðju allrar vinnu í heiminum. Þær framleiða 60 til 80 af hundraði matvæla í Afríku og Asíu, 40 af hundraði í Ameríku. Þó hafa þær aðeins einn tíunda af tekjum heimsins og eiga innan við einn af hundraði eigna heimsins. Þær eru meðal fátækustu fátæklinga heimsins.“ — May You Be the Mother of a Hundred Sons eftir Elisabeth Bumiller.
„Staðreyndin er sú að litlar stúlkur ganga ekki í skóla [í sumum heimshlutum] vegna þess að það er ekki til heilnæmt drykkjarvatn. . . . Ég hef séð unglingsstúlkur sækja drykkjarvatn um tuttugu og stundum þrjátíu kílómetra veg sem tekur þær heilan dag. Þegar þessar stúlkur ná fjórtán eða fimmtán ára aldri . . . hafa þær aldrei gengið í skóla, aldrei lært nokkurn skapaðan hlut.“ — Jacques-Yves Cousteau, The Unesco Courier, nóvember 1991.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Það er engin ástæða til að umbera kynferðislega áreitni.