Borgar sig að stofna til skulda?
„EYDDU aldrei peningum fyrr en þú átt þá,“ ráðlagði Thomas Jefferson Bandaríkjaforseti í sinni tíð. Eflaust þykir sumum þetta gamaldags hugsunarháttur því að skuldir virðast óaðskiljanlegur hluti hversdagslífsins.
Víða um lönd eru laun lág í samanburði við verðlag og sparifé brennur á verðbólgubálinu. Og gildismat fólks verður óhjákvæmilega fyrir áhrifum af efnahagsástandinu. Það er engu að síður mikilvægt að vera heiðarlegur. Þar eð skattsvik eru mjög algeng og margir eru skuldseigir er ekki átakalaust að varðveita góða samvisku. Það er því engin furða að efnahagsmál skuli oft vera efst á baugi hjá fólki. Menn reyna auðvitað að leysa úr fjárhagsvandræðum sínum, og dagblöð, tímarit og sjónvarp eru óspör á hugmyndir um hvernig hægt sé að spara eða græða. Og það er vitanlega rétt að láta sér annt um að sjá fyrir sér og sínum. — 1. Tímóteusarbréf 5:8.
Þar eð tiltölulega fáir búa við stöðugt efnahagslíf er eðlilegt að spyrja hvað hægt sé að gera til að forða fjölskyldunni frá erfiðleikum. Eitt er að minnsta kosti mikilvægt að hafa hugfast.
Forðastu of miklar skuldir
Af hverju steypa sumir sér í skuldir? Það er ekki alltaf út úr neyð, svo sem veikindum, að fólk stofnar til skulda. Löngunin í efnislega hluti getur verið býsna sterk. Hins vegar þarf í sjálfu sér ekki að vera neitt rangt við það að stofna til skulda. Oft er jafnvel betra að greiða afborganir af húsnæðisláni heldur en leigja og bíll getur verið þarfaþing. Fjölskyldufaðir vill vera góð fyrirvinna, eiginmaður og faðir. Sennilega finnst honum fjölskyldan eiga rétt á ýmsum efnislegum hlutum til jafns við aðra.
Vissulega getur það verið freistandi að slá lán til að kaupa eitthvað sem mann langar í en er eiginlega ekki nauðsynlegt. Það er óneitanlega ánægjuleg tilfinning sem fylgir því að eignast hluti. Hver hefur ekki gaman af fallegum kjól, nýjum skóm eða splunkunýjum bíl? Og hver gæti ekki hugsað sér nýtt og betra húsnæði? En gættu þín! Sölumenn geta verið sannfærandi og þeir græða vel á að selja fólki hluti sem það hvorki þarfnast né hefur efni á.
Og gleymdu ekki að afborganirnar geta valdið spennu í fjölskyldunni. Afleiðingin er oft ósamkomulag og beiskja. Leikritaskáldið Henrik Ibsen hitti naglann á höfuðið er hann sagði: „Það kemur eitthvert ófrelsi og um leið eitthvað óskemmtilegt yfir það heimili, sem er stofnað til með lánum og skuldum.“ Standirðu ekki í skilum er mannorð þitt í hættu. Það er miklu auðveldara að eyða lánsfé en endurgreiða það með vöxtum. Margir komast að raun um að það sem þeir keyptu veitir ekki þá gleði sem þeir bjuggust við. Þar sannast máltækið að „lán er gleðirán.“
Vissulega er algengt að ríkisstjórnir auki vaxtagjöld sín jafnt og þétt með því að taka lán á lán ofan. Það þykir kannski eðlilegt, en er nokkur ástæða til að taka sér stórskuldugar þjóðir til eftirbreytni? Of háar skuldir stuðla frekar að fátækt og öryggisleysi en auknu ríkidæmi. Eins og danskt máltæki segir er „illt að borga etið brauð.“
Sem betur fer dregur skynsamleg meðferð fjár stórlega úr skuldabyrðinni. Taktu þér því tíma til að skipuleggja innkaup vandlega og láttu ekki þvinga þig eða lokka til að taka lán. Jafnvel í löndum stjórnlausrar óðaverðbólgu er hægt að spara — með því að kaupa vörur á útsölum og á tilboðsverði og með því að kaupa aðeins nauðsynjar. Það kostar að lifa ekki um efni fram og sætta sig við að bíða eða vera án hluta sem mann langar í.
Spyrðu þig: Á það eftir að koma niður á fjölskyldunni ef ég tek lán? Hvað um mannorð mitt ef ég get ekki staðið í skilum? Það getur tekið langan tíma að vinna upp lánstraust á ný! Hægt er að fá holl og hagnýt ráð í þessu máli. Hví ekki að draga fram Biblíuna og sjá hvort hún getur hjálpað þér og fjölskyldunni í fjármálum?
Getur Biblían hjálpað?
Mest er um vert að Biblían getur hjálpað okkur öllum að byggja upp óbrigðult traust til Jehóva. Við erum vissulega hjálparþurfi á þessum ‚örðugu tímum.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Við erum hvött: „Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið. Guð hefur sjálfur sagt: ‚Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.‘ Því getum vér öruggir sagt: [Jehóva] er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Hvað geta mennirnir gjört mér?“ (Hebreabréfið 13:5, 6) Það er mjög mikilvægt að byggja upp sterka trú á að Guð sjái okkur fyrir því sem við þurfum!
Biblían gefur ýmsar góðar leiðbeiningar enda þótt hún segi ekki hverjum manni hvernig hann eigi að sjá fyrir sér. Jesús Kristur hvatti áheyrendur sína til að hugsa fyrst um andlegar þarfir: „Sælir eru þeir sem eru meðvita um andlega þörf sína.“ (Matteus 5:3, NW) Okkur er líka sagt að setja okkur markmið: „Leitið sæmdar í því að lifa kyrrlátu lífi og stunda hver sitt starf og vinna með höndum yðar, eins og vér höfum boðið yður. Þannig hegðið þér yður með sóma gagnvart þeim, sem fyrir utan eru, og eruð upp á engan komnir.“ (1. Þessaloníkubréf 4:11, 12) Er ekki nauðsynlegt að lifa í samræmi við efni sín til að lifa kyrrlátu lífi?
Orð Guðs getur hjálpað okkur að leiðrétta hugarfarið. Ritari Orðskviðanna sýndi gott jafnvægi er hann bað til Guðs: „Gef mér hvorki fátækt né auðæfi, en veit mér minn deildan verð. Ég kynni annars að verða of saddur og afneita og segja: ‚Hver er [Jehóva]?‘ eða ef ég yrði fátækur, kynni ég að stela og misbjóða nafni Guðs míns.“ (Orðskviðirnir 30:8, 9) Það er engin skömm að því að þurfa að komast af með ögn minna en aðrir, að minnsta kosti um tíma. Láttu lífshamingjuna aldrei velta á efnislegum hlutum eins og margir gera sem bera sig saman við aðra eða gera sér óþarfar áhyggjur af efnislegum eigum. — Matteus 6:31-33.
Auk þess geturðu ræktað með þér góðar venjur með hjálp Biblíunnar. Lærðu að vera sparsamur án þess að vera nískur og njóttu þess sem þú hefur efni á. Ef þú ert ungur skaltu ekki búast við að eignast strax það sem fullorðnir hafa aflað sér með áralangri vinnu. Forðastu þrælkun efnishyggjunnar. Það eru ekki peningar sem Biblían varar okkur við heldur „fégirndin.“ Hún segir: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun. Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Það er mjög mikilvægt að gera greinarmun á því sem maður raunverulega þarfnast og þess sem mann bara langar í.
En finnst þér tekjurnar of lágar? Vissulega er gremjulegt að þurfa að neita sér um það sem mann langar í. Sættu þig samt við að vera án hluta sem eru ekki nauðsynlegir frekar en að stofna til skulda til að eignast þá. Það getur orðið enn þyngri byrði og jafnvel valdið þér fjárhagstjóni. Skipuleggðu innkaupin vel og vertu hagsýnn. Reyndur vinur getur kannski ráðið þér heilt. Gætirðu aukið tekjurnar með því að læra eitthvað nýtt? Mundu að það er mikilvægt að fylgja meginreglum Biblíunnar, láta andleg mál sitja í fyrirrúmi og treysta algerlega á Jehóva — hverjar sem aðstæður þínar eru. — Filippíbréfið 4:11-13.
Já, það borgar sig kannski ekki að stofna til skulda enda segir máltækið að ‚margur borgi skuld með skuld.‘ Skuldabyrðin getur verið skaðleg fjölskyldulífi, heilsu og andlegu hugarfari. Skuldir geta gert lánþegann enn fátækari. Orðskviðirnir 22:7 segja: „Ríkur maður drottnar yfir fátækum, og lánþeginn verður þræll lánsalans.“ Forðastu því óþarfar skuldir. Við getum alltaf haft gagn af meginreglunni í ráðleggingum Páls til kristinna manna: „Skuldið ekki neinum neitt, nema það eitt að elska hver annan, því að sá, sem elskar náunga sinn, hefur uppfyllt lögmálið.“ — Rómverjabréfið 13:8.
Óháð efnahagsástandi geturðu treyst á hinn komandi nýja heim Guðs. Bráðlega mun mannkynið ekki lengur skiptast í lánsala og lánþega. Í Guðsríki verður enginn fátækur. Þá mun fyrirheit Jehóva rætast: „Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir. Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.“ (Sálmur 72:12, 13) Í stað þess rétt að skrimta munu jarðarbúar „gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ — Sálmur 37:11.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Thomas Jefferson
[Credit Line]
Málverk eftir Gilbert Stuart. Með leyfi Bowdoin College Museum of Art/Dictionary of American Portraits/Dover
[Mynd á blaðsíðu 22]
Miklar skuldir geta valdið spennu milli hjóna.