Sannleikurinn um lygar
„LYGARINN þinn!“ Hefur þessum særandi orðum einhvern tíma verið hreytt í þig? Ef svo er, gerirðu þér eflaust grein fyrir hve meiðandi þau geta verið.
Á sama hátt og blómavasi, sem okkur þykir vænt um, getur mölbrotnað ef hann dettur í gólfið geta lygar spillt nánu sambandi manna. Rétt er það að eftir einhvern tíma verður kannski hægt að bæta fyrir tjónið en sambandið verður aldrei aftur það sama.
„Þeir sem komast að því að logið hafi verið að þeim,“ segir bókin Lying — Moral Choice in Public and Private Life, „eru á verði gagnvart nýjum samningaumleitunum. Og þeir velta fyrir sér fyrri hugmyndum og gerðum í nýju ljósi hinnar afhjúpuðu lygar.“ Eftir að blekking hefur verið afhjúpuð getur samband, sem einu sinni dafnaði með opinskáum tjáskiptum og trausti, verið kæft með tortryggni og efa.
Í ljósi allra þeirra neikvæðu tilfinninga sem tengjast lyginni hljótum við að spyrja: Hver eru upptök undirferlis og lyga?
Fyrsta lygin
Þegar Jehóva Guð skapaði fyrstu mannhjónin, Adam og Evu, setti hann þau í fallegan garð. Heimili þeirra var laust við hvers kyns blekkingu og svik. Það var sannarlega paradís!
En einhvern tíma eftir sköpun Evu gerði Satan djöfullinn henni freistandi tilboð. Evu var sagt að ef hún æti af „ávexti trésins,“ sem Guð hafði bannað henni, myndi hún ekki deyja eins og Guð hafði sagt, heldur myndi hún verða „eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“ (1. Mósebók 2:17; 3:1-5) Eva trúði Satan. Hún tók ávöxtinn, borðaði hann og gaf síðan eiginmanni sínum. En í stað þess að verða eins og Guð, sem Satan hafði lofað, urðu Adam og Eva óhlýðnir syndarar, þrælar spillingarinnar. (2. Pétursbréf 2:19) Og með því að fara með fyrstu lygina varð Satan „lyginnar faðir.“ (Jóhannes 8:44) Er fram liðu stundir lærði þessi synduga þrenning að enginn gengur með sigur af hólmi þegar einhver lýgur eða setur traust sitt á lygar.
Mannskæðar afleiðingar
Jehóva vildi að öll sköpunin — á himni og jörð — vissi að refsað yrði fyrir vísvitandi óhlýðni. Hann brást snarlega við með því að dæma hina uppreisnargjörnu andaveru til að lifa það sem eftir væri utan hins heilaga skipulags Guðs. Enn fremur sér Jehóva Guð til þess að Satan verði að lokum tortímt. Það á sér stað þegar „sæðið,“ sem Guð lofaði að útvega, mer höfuð hans til bana. — 1. Mósebók 3:14, 15; Galatabréfið 3:16.
Adam og Eva voru hins vegar rekin úr Edengarðinum. Guð dæmdi Adam og sagði: „Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ Er fram liðu stundir dóu bæði hann og Eva eins og Guð hafði sagt. — 1. Mósebók 3:19.
Allt mannkynið er komið af Adam og ‚selt undir syndina.‘ Allir menn hafa erft ófullkomleikann sem leiðir til dauða. (Rómverjabréfið 5:12; 6:23; 7:14) Afleiðingar fyrstu lyginnar hafa verið skelfilegar! — Rómverjabréfið 8:22.
Rótgróið hátterni
Þar eð Satan og englarnir, sem tóku þátt í uppreisn hans gegn Guði, hafa enn ekki verið líflátnir, ætti okkur ekki að undra að þeir hvetji menn til að gerast „lygarar.“ (1. Tímóteusarbréf 4:1-3) Afleiðingin er sú að lygar eru rótgrónar í samfélaginu. „Lygar eru orðnar svo samofnar samfélaginu að það er að mestu leyti orðið ónæmt fyrir þeim,“ sagði dagblaðið Los Angeles Times. Margir setja lygar í náið samband við stjórnmál og stjórnmálamenn, en vissir þú að trúarleiðtogar eru meðal alræmdustu lygaranna?
Trúarlegir andstæðingar Jesú breiddu út lygar um hann meðan á jarðneskri þjónustu hans stóð. (Jóhannes 8:48, 54, 55) Hann fordæmdi þá opinberlega og sagði: „Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. . . . Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir.“ — Jóhannes 8:44.
Manstu eftir lyginni sem var útbreidd þegar gröf Jesú fannst tóm eftir upprisu hans? Biblían segir að æðstuprestarnir hafi borið ‚mikið fé á hermennina og mælt við þá: „Segið þetta: ‚Lærisveinar hans komu á næturþeli, meðan vér sváfum, og stálu honum.‘“‘ Þessi lygasaga fór víða og margir létu blekkjast. Trúarleiðtogarnir voru mestu illmenni! — Matteus 28:11-15.
Trúarlygar nú á dögum
Hvaða lygi trúarleiðtoganna er áberandi nú á dögum? Hún er svipuð þeirri er Satan sagði Evu: „Vissulega munuð þið ekki deyja!“ (1. Mósebók 3:4) En samt dó Eva og hún sneri aftur til jarðarinnar, til moldarinnar sem hún var gerð úr.
En dó hún aðeins að nafninu til? Hélt hún áfram að lifa í einhverri annarri mynd? Er dauðinn aðeins dyr að öðru lífi? Biblían gefur hvergi í skyn að einhver meðvitaður hluti Evu hafi lifað áfram. Sál hennar lifði ekki. Með því að óhlýðnast Guði syndgaði hún og Biblían segir: „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.“ (Esekíel 18:4) Eva var sköpuð lifandi sál eins og eiginmaður hennar, og líf hennar sem lifandi sálar endaði. (1. Mósebók 2:7) Biblían segir um ástand hinna dánu: „Hinir dauðu vita ekki neitt.“ (Prédikarinn 9:5) En hvað kenna kirkjurnar almennt?
Kirkjurnar kenna oft að menn hafi ódauðlega sál og að dauðinn leysi hana svo hún geti lifað annars staðar — annaðhvort í himnasælu eða kvöl. Bókin The Catholic Encyclopedia segir til dæmis: „Kirkjan kennir sem skýran trúarsannleik að kvöl helvítis sé eilíf, og það er augljós trúarvilla að afneita því eða véfengja það.“ — 7. bindi, bls. 209, útgefin 1913.
Þessi kenning er gerólík því sem Biblían segir greinilega! Biblían kennir að þegar menn deyi ‚verði þeir aftur að jörðu, á þeim degi verði áform þeirra að engu.‘ (Sálmur 146:4) Samkvæmt Biblíunni geta hinir dánu því ekki fundið til vegna þess að þeir hafa alls enga meðvitund. Þess vegna hvetur Biblían: „Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það, því að í dánarheimum [sameiginlegri gröf mannkyns], þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ — Prédikarinn 9:10.
Ástæða til að vera á verði
Líkt og margir leiddust afvega vegna lyga prestanna á dögum Jesú, eins er hætta á að við látum blekkjast af fölskum kenningum trúarleiðtoga nútímans. „Þeir hafa skipt á sannleika Guðs og lyginni“ og standa að ýmsum falskenningum eins og um ódauðleika sálarinnar og hugmyndinni að mannssálirnar verði kvaldar í vítiseldi. — Rómverjabréfið 1:25.
Að auki leggja trúarbrögð nútímans yfirleitt mannasetningar og heimspeki að jöfnu við sannleika Biblíunnar. (Kólossubréfið 2:8) Af þeim sökum er litið á lög Guðs um siðferði — að meðtöldum lögum um heiðarleika og kynhegðun — sem afstæð en ekki algild. Afleiðingunni er lýst í tímaritinu Time: „Lygar dafna í félagslegri óvissu, þegar fólk hvorki skilur né er sammála um þær reglur er stjórna framkomu þeirra gagnvart öðrum.“ — Samanber Jesaja 59:14, 15; Jeremía 9:5.
Í umhverfi þar sem sannleikur er ekki metinn mikils er erfitt að fara eftir áminningu Guðs um að ljúga ekki. Hvað getur hjálpað okkur að vera alltaf sannsögul?
Að styðja sannleikann
Löngun okkar til að vegsama skapara okkar veitir okkur einmitt bestu ástæðuna til að temja okkur sannsögli. Það er því ekki að ástæðulausu að Biblían kallar hann „Guð sannleikans.“ (Sálmur 31:5, NW) Ef okkur langar til að þóknast skapara okkar, sem hatar ‚lygna tungu,‘ knýr það okkur til að líkja eftir honum. (Orðskviðirnir 6:17) Hvernig getum við gert það?
Einlægt nám í orði Guðs getur gefið okkur það sem við þurfum til að ‚tala sannleika hver við sinn náunga.‘ (Efesusbréfið 4:25) Samt er ekki nóg að vita aðeins hvers Guð krefst af okkur. Ef við höfum ekki alltaf haft tilhneigingu til að segja sannleikann, eins og margir í heiminum nú á tímum, þurfum við að leggja mikið á okkur til að gera það. Við getum þurft að fylgja fordæmi Páls postula og verða hörð við sjálf okkur. „Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum,“ skrifaði Páll. — 1. Korintubréf 9:27.
Auk þess hjálpar bænin í baráttunni að segja sannleikann öllum stundum. Með því að biðja Jehóva um hjálp getum við fengið „ofurmagn kraftarins.“ (2. Korintubréf 4:7) Að varðveita ‚sannmálar varir‘ og losna við ‚lygna tungu‘ getur vissulega verið erfið barátta. (Orðskviðirnir 12:19) En með hjálp Jehóva er það hægt. — Filippíbréfið 4:13.
Mundu alltaf að það er Satan djöfullinn sem lætur það virðast eðlilegt að ljúga. Hann blekkti fyrstu konuna, Evu, með illgjörnum lygum. En við vitum mætavel um hinar hörmulegu afleiðingar sem lygar Satans hafa haft. Gífurlegar þjáningar hafa lagst á mannkynið vegna einnar eigingjarnrar lygar og þriggja eigingjarnra einstaklinga — Adams, Evu og Satans.
Já, sannleikurinn um lygar er sá að þær eru sambærilegar við banvænt eitur. Til allrar hamingju getum við gert eitthvað í málinu. Við getum hætt að ljúga og að eilífu notið góðvildar Jehóva Guðs sem er „gæskuríkur og harla trúfastur.“ — 2. Mósebók 34:6.
[Innskot á blaðsíðu 28]
Lygar eru sambærilegar við banvænt eitur.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Afleiðingar lyga eru eins og að mölbrjóta blómavasa.