Sjónarmið Biblíunnar
Eiga kristnir menn að hata samkynhneigða?
ÁRIÐ 1969 var tekið upp nýyrði í ensku sem lýsir óraunhæfum ótta við eða andúð á samkynhneigðum. Orðið var „homophobia“ eða „hommafælni.“ Enda þótt ekkert slíkt orð sé að finna í mörgum tungumálum hefur fólk af ýmsum þjóðum og tungum látið í ljós óbeit á samkynhneigðum svo árþúsundum skiptir.
En nú á allra síðustu árum hefur samkynhneigð verið mikið haldið á loft sem eðlilegum, kynferðislegum valkosti. Sagnfræðingurinn Jerry Z. Muller minntist nýlega á „auknar kröfur um viðurkenningu almennings og virðingu fyrir samkynhneigð almennt.“ Hann segir að samkynhneigðir „hafi í auknum mæli tekið höndum saman um að boða að iðkun þeirra sé lofsverð og krefjast þess að aðrir séu á sama máli.“ Þetta á einkum við í hinum vestræna heimi. Í flestum heimshlutum líta margir enn þá niður á samkynhneigð og fordæma hana, jafnvel í hinum svokölluðu frjálslyndari löndum.
Samkynhneigðir og þeir sem grunaðir eru um samkynhneigð verða oft skotspónn niðrandi athugasemda, áreitni og ofbeldis. Trúarleiðtogar hafa jafnvel látið í ljós slíkt hatur. Sumir hafa að því er virðist hrundið af stað sínu eigin stríði gegn samkynhneigðum. Sem dæmi má nefna athugasemd eins biskups grísku rétttrúnaðarkirkjunnar sem var nýlega útvarpað í gríska ríkisútvarpinu. Hann sagði: „Guð mun brenna samkynhneigða að eilífu í brennandi díki helvítis. Ópin úr soralegum munni þeirra munu óma um alla eilífð. Siðspilltir líkamar þeirra munu líða óbærilegar kvalir.“ Er þetta virkilega rétt? Hvernig lítur Guð á samkynhneigða?
Sjónarmið Guðs
Biblían bendir ekki sérstaklega á samkynhneigða sem hóp er kristnir menn ættu að útskúfa eða hata. Auk þess kennir hún alls ekki að Guð refsi samkynhneigðum — né nokkrum sköpunarverum sínum — með því að brenna þá í logandi víti að eilífu. — Samanber Rómverjabréfið 6:23.
Ritningin kunngerir eigi að síður siðgæðismælikvarða skaparans sem stangast oft á tíðum á við nútímaviðhorf. Biblían fordæmir atlot samkynhneigðra, kynmök gagnkynhneigðra utan hjónabands og kynmök við dýr. (2. Mósebók 22:19; Efesusbréfið 5:3-5) Guð eyddi Sódómu og Gómorru vegna þess konar kynlífsathafna. — 1. Mósebók 13:13; 18:20; 19:4, 5, 24, 25.
Orð Guðs segir skorinort um atlot samkynhneigðra: „Það er viðurstyggð.“ (3. Mósebók 18:22) Lög Guðs, sem hann fékk Ísraelsmönnum, kváðu svo á: „Leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim.“ (3. Mósebók 20:13) Kveðið var á um sömu refsingu fyrir þá sem höfðu mök við skepnur, frömdu sifjaspell eða hórdóm. — 3. Mósebók 20:10-12, 14-17.
Undir innblæstri kallaði Páll postuli atlot samkynhneigðra ‚svívirðilegar girndir‘ og ‚óeðlilegar.‘ Hann skrifar: „Þess vegna hefur Guð ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar. Þar eð þeir hirtu ekki um að varðveita þekkinguna á Guði, ofurseldi Guð þá ósæmilegu hugarfari, svo að þeir gjörðu það sem ekki er tilhlýðilegt.“ — Rómverjabréfið 1:26-28.
Ritningin er ekki með neinar afsakanir, tilslakanir eða tvíræðni; Guð hefur andstyggð á atlotum samkynhneigðra, hjúskaparbrotum og hórdómi. Þar af leiðandi útvatna sannkristnir menn ekki afstöðu Biblíunnar til ‚svívirðilegra girnda‘ í því skyni að afla sér vinsælda og viðurkenningar í nútímamenningu. Þeir styðja heldur ekki neinar hreyfingar sem halda samkynhneigð á loft sem eðlilegum lífsmáta.
„Hatið hið illa“
Biblían áminnir: „[Jehóva] elskar þá er hata hið illa.“ (Sálm. 97:10) Þess vegna eiga kristnir menn að hata sérhvert athæfi sem brýtur í bága við lög Jehóva. Sumir hafa kannski meiri óbeit eða viðbjóð á samkynhneigð en annars konar siðleysi og álíta samkynhneigð óeðlilegan, kynferðislegan öfuguggahátt. En ættu kristnir menn að hata þá sem iðka slíkt?
Sálmaritarinn varpar ljósi á þetta mál í Sálmi 139:21, 22: „Ætti ég eigi, [Jehóva], að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér? Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.“ Hollusta okkar við Jehóva og frumreglur hans ætti að framkalla hjá okkur megna andúð á þeim sem vísvitandi gera uppreisn gegn Jehóva og taka afstöðu með óvinum hans. Satan og illu andarnir eru meðal þessara forhertu óvina Guðs. Sennilega falla sumir menn einnig undir þessa skilgreiningu. En það getur reynst afar erfitt fyrir kristinn mann að bera kennsl á slíkt fólk af ytra útliti. Við getum ekki lesið hjörtun. (Jeremía 17:9, 10) Það væri rangt að draga þá ályktun að einhver sé óforbetranlegur óvinur Guðs vegna þess að hann iðkar það sem rangt er. Oft á tíðum þekkja þeir sem iðka hið ranga einfaldlega ekki mælikvarða Guðs.
Þess vegna eru kristnir menn almennt tregir til að hata aðra menn. Jafnvel þótt þeir hafi viðbjóð á ákveðnum lífsmáta reyna þeir hvorki að valda öðrum tjóni né ala með sér andúð eða illkvittni gagnvart þeim. Biblían hvetur kristna menn til að ‚hafa frið við alla menn.‘ — Rómverjabréfið 12:9, 17-19.
„Guð fer ekki í manngreinarálit“
Jehóva veitir þeim fyrirgefningu sem iðrast í einlægni, óháð því hvers konar siðleysi þeir kunna að hafa drýgt. Það er ekkert sem bendir til þess að Jehóva álíti sumt siðleysi verra en annað. „Guð fer ekki í manngreinarálit.“ (Postulasagan 10:34, 35) Tökum söfnuðinn í Korintu á fyrstu öld sem dæmi. Páll postuli skrifaði þeim: „Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.“ Síðan viðurkennir Páll að sumir fyrrverandi hórkarlar, kynvillingar og þjófar hefðu verið teknir inn í kristna söfnuðinn í Korintu. Hann segir: „Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir anda vors Guðs.“ — 1. Korinutbréf 6:9-11.
Auðvitað umber Jehóva ekki tíð og síendurtekin brot á fullkomnum siðgæðismælikvarða sínum. Hann hefur andstyggð á að frumreglur hans séu þráfaldlega lítilsvirtar. Samt sem áður heldur hann sáttaleið opinni. (Sálmur 86:5; Jesaja 55:7) Í samræmi við það hafa kristnir menn hvorki samkynhneigða né nokkra aðra að skotspæni með illkvittni, hæðni eða áreitni. Sannkristnir menn líta á aðra menn sem tilvonandi lærisveina Krists og koma fram við þá með virðingu og reisn. Biblían segir: „Þetta er gott og þóknanlegt fyrir frelsara vorum Guði, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ — 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4.
Kristnir menn taka opnum örmum þeim sem iðrast
Biblían lýsir aftur og aftur yfir að Guð sé fús til að fyrirgefa. Hún lýsir honum þannig: „Guð, sem fús er á að fyrirgefa, náðugur og miskunnsamur, þolinmóður og elskuríkur.“ (Nehemía 9:17; Esekíel 33:11; 2. Pétursbréf 3:9) Auk þess líkir Biblían honum við föðurinn í dæmisögu Jesú um týnda soninn sem sólundaði arfi sínum í ólifnað í fjarlægu landi. Þegar sonurinn að lokum kom til sjálfs sín og iðraðist og sneri aftur heim til fjölskyldu sinnar tók faðirinn honum opnum örmum. — Lúkas 15:11-24.
Já, þeir sem aðhafast illt geta breytt sér. Ritningin staðfestir það með því að hvetja fólk til að afklæðast gamla persónuleikanum og íklæðast þeim nýja og „endurnýjast í anda og hugsun.“ (Efesusbréfið 4:22-24) Þeir sem iðka eitthvað rangt, þar á meðal samkynhneigðir, geta gert róttækar breytingar á hugsunarhætti sínum og hegðun. Mörgum hefur einmitt tekist að gera slíkar breytingar.a Jesús vitnaði sjálfur fyrir slíku fólki og þegar það sýndi iðrun hafði hann velþóknun á því. — Matteus 21:31, 32.
Kristnir menn taka fólki af öllum stigum þjóðfélagsins opnum örmum. Eftir að hafa sagt skilið við siðlaust athæfi, af hvaða tagi sem vera kann, geta allir notið til fulls fyrirgefningar Guðs vegna þess að „[Jehóva] er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.“ — Sálmur 145:9.
Kristnir menn eru reiðubúnir að veita þann andlega stuðning sem nauðsynlegur reynist, jafnvel þeim sem enn eru að berjast við tilhneigingar til samkynhneigðar. Það er í samræmi við þann kærleika sem Guð sjálfur sýnir því að Biblían segir: „Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.“ — Rómverjabréfið 5:8.
[Neðanmáls]
a Sjá greinina „Hvernig get ég losnað við þessar tilfinningar?“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 22. mars 1995.
[Innskot á blaðsíðu 26]
Kristnir menn útvatna ekki afstöðu Biblíunnar til samkynhneigðar
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 25]
Punch