Þegar allir menn elska hver annan
Í FJALLRÆÐU sinni talaði Jesús Kristur um þann tíma þegar allir menn myndu elska hver annan. Hann vitnaði í 37. sálminn í Biblíunni og sagði: „Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.“ Sálmurinn lýsir jafnframt hvernig þetta unaðslega ástand verður að veruleika: „Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á [Jehóva], fá landið til eignar.“ — Matteus 5:5; Sálmur 37:9.
Þessi orð lýsa ótrúlegri breytingu — allir illvirkjar eiga að hverfa af jörðinni og engir verða eftir nema þeir sem elska hver annan! Hvernig getur þetta gerst? Jesús sýndi fram á það í fjallræðunni þegar hann kenndi okkur að biðja: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Taktu eftir hvar á að gera vilja Guðs. Það er ekki aðeins á himni. „Við biðjum: Verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni,“ sagði í grein í tímaritinu The Christian Century.
Hvað er þá Guðsríkið sem Jesús kenndi okkur að biðja um? Það er greinilega raunveruleg stjórn sem ríkir af himnum ofan. Þess vegna er það kallað „himnaríki.“ (Matteus 10:7) Guð hefur skipað son sinn, Jesú Krist, stjórnanda þessa ríkis.
Löngu áður en María ól Jesú spáði Jesaja spámaður þessum undraverða atburði og því sem hann hefði í för með sér: „Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi. Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka.“ (Jesaja 9:6, 7) Eftir dauða sinn og upprisu settist Jesús við hlið föður síns á himnum og beið skipunar um að taka við völdum sem konungur. — Sálmur 110:1, 2; Hebreabréfið 10:12, 13; Opinberunarbókin 11:15.
Hvað verður þá um þennan hatursfulla heim? Biblían svarar þessari spurningu í spádómi Daníels: „Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ — Daníel 2:44.
Þessi biblíuspádómur er greinilega að tala um gríðarleg umskipti á mannlegum vettvangi. Heimskerfið allt verður afmáð, þar með taldir þeir menn sem neita þrjóskulega að beygja sig undir stjórn Guðs. Skoðum nánar hvað kemur í staðinn.
Líf í réttlátum, nýjum heimi
Margir munu lifa af þegar gamli heimurinn líður undir lok. Biblían segir: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ (1. Jóhannesarbréf 2:17) Þeir sem gera vilja Guðs lifa áfram og ganga inn í nýjan heim, líkt og Nói og fjölskylda lifði af þegar heimur þess tíma leið undir lok. Pétur postuli segir: „Eftir fyrirheiti [Guðs] væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ — 2. Pétursbréf 3:5-7, 11-13.
Þegar Guðsríki verður eina stjórnin á jörð segir Biblían að ‚hinir réttlátu fái landið til eignar og búi í því um aldur.‘ (Sálmur 37:29) Það verður unaðslegur tími þegar réttlátir menn fá að lifa á hreinsaðri jörð! Blessuninni, sem Biblían lofar, er lýst í máli og myndum á síðunum hér á undan. Við hvetjum þig til að skoða þessar lýsingar ef þú ert ekki búinn að því.
Er það ekki unaðsleg tilhugsun að skaparinn skuli hafa lofað tilbiðjendum sínum þessari miklu blessun? Það var auðvitað það sem Guð ætlaði mönnunum í upphafi þegar hann skapaði fyrstu mannhjónin og setti þau í jarðneska paradís. Hann sagði þeim: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ — 1. Mósebók 1:27, 28.
Adam og Eva áttu að eignast börn, og þegar börnin yxu úr grasi áttu þau að taka þátt í því skemmtilega verkefni að viðhalda hinni jarðnesku paradís. Hugsaðu þér hve ánægjulegt það hefði verið að stækka Edengarðinn um leið og hin mannlega fjölskylda stækkaði. Það var greinilega ætlun Guðs að öll jörðin yrði paradís. Verður hún það einhvern tíma? Við getum verið viss um það vegna þess að við höfum loforð Guðs fyrir því! Hann segir: „Það sem ég tala, . . . það gjöri ég einnig.“ — Jesaja 46:11; 55:11.
Langar þig til að búa að eilífu í þeirri paradís á jörð sem ritningarstaðirnir á síðunum hér á undan segja frá? Eins og við er að búast fær ekki hver sem er að lifa þar, heldur þarf að uppfylla vissar kröfur. Hverjar eru þær?
Kröfurnar fyrir eilífu lífi
Til að fá að lifa í nýjum heimi Guðs þurfa menn í fyrsta lagi að læra að elska hver annan eins og Guð kennir okkur. Biblían segir: „Guð hefur sjálfur kennt yður að elska hver annan.“ (1. Þessaloníkubréf 4:9) Hvernig hefur hann gert það?
Biblían, ritað orð Guðs, er helsta kennslutæki hans. Til að lifa að eilífu verðum við sem sagt að viðurkenna það sem Guð kennir í Biblíunni. Austurlenskur biblíunemandi sagði: „Ég hlakka til þess tíma þegar allir menn hafa lært að elska hver annan eins og Biblían gefur fyrirheit um.“
Jesús benti á mikilvæga kröfu í bæn til föður síns: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Bæklingurinn Hvers krefst Guð af okkur? er gott hjálpargagn til að afla sér þessarar þekkingar. Þú getur eignast hann með því að útfylla miðann á bls. 32 og senda hann til Varðturnsins, Sogavegi 71, 108 Reykjavík, eða nota annað viðeigandi póstfang á bls. 5 hér í blaðinu.
[Rammi á blaðsíðu 9]
Fyrirheit Guðs
Kærleiksríkt bræðralag um allan heim
„Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ — Postulasagan 10:34, 35.
Engin stríð eða glæpir framar
„Hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu.“ — Orðskviðirnir 2:22.
„[Guð] stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar.“ — Sálmur 46:10.
Gnægð matar
„Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum.“ — Sálmur 72:16.
Friður milli manna og dýra
„Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, . . . og smásveinn gæta þeirra.“ — Jesaja 11:6.
Sjúkdómar, ellihrörnun og dauði hverfa
„[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:4.
Látnir ástvinirreistir upp hér á jörð
„Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust [Jesú] og ganga fram.“ — Jóhannes 5:28, 29.