Sjónarmið Biblíunnar
Veitið börnum nauðsynlega athygli
HAFÐI sonur Guðs tíma til að sinna börnum? Sumir lærisveinanna héldu að hann hefði það ekki. Einu sinni reyndu þeir að koma í veg fyrir að börn kæmu nálægt Jesú. Hann sagði þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi.“ Hann tók síðan ástúðlega á móti hópi barna og talaði við þau. (Markús 10:13-16) Jesús sýndi þannig að hann vildi sinna börnum. Hvernig geta foreldrar nú á tímum fylgt fordæmi hans? Með því að ala börnin upp á réttan hátt og gefa sér tíma til að vera með þeim.
Ábyrgðafullir foreldrar reyna auðvitað að hugsa eins vel um börnin sín og þeir geta og vera ekki vond við þau. Það má jafnvel segja að það sé foreldrum eðlislægt að sýna börnum sínum virðingu og nærgætni. Í Biblíunni er samt bent á að margir myndu verða „kærleikslausir“ á okkar tímum. (2. Tímóteusarbréf 3:1-3) Þeir sem hafa kærleiksríkan áhuga á börnum sínum geta alltaf bætt við sig þekkingu og orðið betri foreldrar. Eftirfarandi meginreglur úr Biblíunni eru því kærkomnar leiðbeiningar fyrir foreldra sem vilja börnum sínum það besta.
Reitið þau ekki til reiði
Dr. Robert Coles, kunnur kennari og sálfræðingur, sagði einu sinni: „Siðferðisvitundin þróast hjá barninu. Ég er þeirrar skoðunar að hún sé meðfædd og börnin þrái siðferðilega leiðsögn.“ Hver á að fullnægja þörfinni fyrir leiðsögn á þessu sviði?
Í Efesusbréfinu 6:4 segir: „Þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun Drottins.“ Tókstu eftir að í Biblíunni er sérstaklega lögð áhersla á að feður beri ábyrgðina á því að glæða með börnunum kærleika til Guðs og djúpa virðingu fyrir stöðlum hans? Í Efesusbréfinu 6:1 vísar Páll postuli bæði til föðurins og móðurinnar þegar hann segir börnunum að ‚hlýða foreldrum sínum‘.a
Sé faðirinn ekki til staðar verður móðirin auðvitað að axla ábyrgðina. Mörgum einstæðum mæðrum hefur heppnast vel að ala upp börn sín með aga og umvöndun Jehóva Guðs. En gangi móðirin í hjónaband á kristni eiginmaðurinn að fara með forystuna. Móðirin á að fylgja fúslega forystu hans við uppeldi og ögun barnanna.
Hvernig ferð þú að því að aga eða ala börnin upp án þess að ‚reita þau til reiði‘? Það eru ekki til neinar töfralausnir, sérstaklega þar sem börn eru svo ólík. Foreldrar verða þó að íhuga vel ögunaraðferðirnar og sýna börnunum ávallt kærleika og virðingu. Það er athyglisvert að í Kólossubréfinu 3:21 er endurtekið að það eigi ekki að reita börn til reiði. Þar eru feður aftur minntir á: „Þér feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.“
Sumir foreldrar æpa og öskra á börnin sín. Það reitir án efa börnin til reiði. Í Biblíunni segir: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður.“ (Efesusbréfið 4:31) Þar segir einnig að ,þjónn Drottins eigi ekki að eiga í ófriði, heldur eigi hann að vera ljúfur við alla‘. — 2. Tímóteusarbréf 2:24.
Verjið tíma með þeim
Til að veita börnunum þá athygli, sem þau þarfnast, verðurðu að vera fús til að fórna skemmtunum og persónulegum áhugamálum til þess að þeim líði vel. Í Biblíunni stendur: „Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ — 5. Mósebók 6:6, 7.
Vegna krefjandi fjárhagsskuldbindinga nú á dögum geta fæstir foreldrar leyft sér að vera með börnum sínum frá morgni til kvölds. En í 5. Mósebók er lögð áhersla á að foreldrar skuli gefa sér tíma til að vera með börnunum. Það krefst bæði skipulagningar og fórnfýsi. Börnin þurfa á slíkri athygli að halda.
Lítum á niðurstöður rannsóknar á rúmlega 12.000 unglingum. Þær voru: „Sterk tilfinningatengsl við foreldri tryggir best heilbrigði unglings og er sterkasta vörnin gegn því að hann lendi á hættulegri braut.“ Börnin þarfnast svo sannarlega athygli foreldranna. Einu sinni spurði móðir börnin sín: „Ef þið gætuð fengið hvað sem þið óskuðu ykkur hvað myndi ykkur helst langa í?“ Börnin svöruðu öll fjögur: „Meiri tíma með mömmu og pabba.“
Ábyrgðafullir foreldrar sjá þörfum barnanna borgið, þar á meðal þörfinni fyrir trúarlegt uppeldi og náið vináttusamband við sig. Þeir kenna börnunum að standa á eigin fótum og vera kurteis og heiðarleg. Þeir kenna þeim að sýna öðrum vinsemd og vegsama skapara sinn. (1. Samúelsbók 2:26) Foreldrar sinna ábyrgð sinni vel þegar þeir aga og ala börnin upp eins og Guð vill.
[Neðanmáls]
a Við þetta tækifæri notaði Páll gríska orðið goneuʹsin sem dregið er af goneusʹ og þýðir „foreldri“. En í fjórða versi notaði hann gríska orðið pateʹres sem þýðir „feður“.
[Mynd á blaðsíðu 29]
Óp og öskur geta valdið börnum vanlíðan.
[Mynd á blaðsíðu 29]
Gefðu þér tíma til að vera með börnum þínum.