Ástæður til að treysta Biblíunni
5. Uppfylltir spádómar
Segjum sem svo að veðurfræðingur nokkur sé þekktur fyrir að hafa alltaf rétt fyrir sér. Ef hann spáði rigningu myndirðu þá fara út með regnhlíf?
Í BIBLÍUNNI er mikill fjöldi spádóma.a Og sagan hefur sannað að spádómar hennar rætast alltaf.
Einkenni spádómanna.
Spádómar Biblíunnar eru oft mjög ítarlegir og hafa uppfyllst að öllu leyti, jafnvel í smæstu smáatriðum. Þeir tengjast yfirleitt mjög mikilvægum atburðum og gengu þvert á almennar væntingar fólks þess tíma.
Einstakt dæmi.
Babýlon til forna var hernaðarlega vel staðsett við Efratfljót og hefur verið kölluð „pólitísk, trúarleg og menningarleg miðstöð Austurlanda til forna“. Um árið 732 f.Kr. skráði spámaðurinn Jesaja niður spádóm um miklar hörmungar — Babýlon myndi falla. Hann lýsti atburðarásinni í smáatriðum: Leiðtogi að nafni „Kýrus“ myndi vinna borgina, Efrat myndi ‚þorna upp‘ og borgarhliðin yrðu „eigi lokuð“. (Jesaja 44:27–45:3) Um 200 árum síðar, hinn 5. október 539 f.Kr., rættist spádómurinn í smáatriðum. Gríski sagnaritarinn Heródótos (frá fimmtu öld f.Kr.) staðfesti hvernig Babýlon féll.b
Djörf yfirlýsing.
Jesaja sagði annað um Babýlon sem vekur eftirtekt: „Hún skal aldrei framar af mönnum byggð vera.“ (Jesaja 13:19, 20) Það var vissulega mjög djarft að segja að hernaðarlega vel staðsett borg í örum vexti myndi leggjast í eyði til frambúðar. Venjulega mætti gera ráð fyrir því að slík borg yrði endurbyggð eftir eyðileggingu. Þótt Babýlon hafi verið byggð áfram um tíma eftir að hún var sigruð rættust orð Jesaja að lokum. Núna er þetta forna borgarstæði „flatt, heitt, yfirgefið og rykugt,“ segir í tímaritinu Smithsonian.
Það er einstakt að velta fyrir sér hve mikilfenglegur spádómur Jesaja var. Það sem hann sagði er sambærilegt við það að spá nákvæmlega hvernig nútímaborg á borð við New York eða London yrði lögð í eyði eftir 200 ár og fullyrða síðan að hún yrði aldrei framar byggð af mönnum. Og það athyglisverðasta er að spádómur Jesaja rættist.c
Biblían spáði réttilega að leiðtogi að nafni Kýrus myndi vinna hina miklu borg Babýlon.
Í þessum greinum höfum við skoðað nokkur rök sem hafa sannfært milljónir manna um að hægt sé að treysta Biblíunni. Þess vegna líta þeir á hana sem áreiðanlegan leiðarvísi í lífinu. Hvernig líst þér á að læra meira um Biblíuna svo að þú getir ákveðið sjálfur hvort þú getir treyst henni?
a Veðurspár byggjast á líkindum. Spádómar Biblíunnar eru hins vegar innblásnir af Guði og hann getur stýrt atburðum ef hann kýs svo.
b Nánari umfjöllun um uppfyllingu spádóms Jesaja er að finna á bls. 27-29 í bæklingnum Bók fyrir alla menn, gefinn út af Vottum Jehóva.
c Fleiri dæmi um biblíuspádóma og sagnfræðilegar staðreyndir, sem staðfesta uppfyllingu þeirra, er að finna á bls. 117-33 í bókinni The Bible — God’s Word or Man’s?, gefin út af Vottum Jehóva.