Bók sem þú getur treyst — 6. hluti
Rómaveldi og biblíusagan
Þetta er sjötta greinin af sjö í tímaritinu „Vaknið!“ þar sem fjallað er um þau sjö heimsveldi sem koma við sögu í Biblíunni. Markmiðið er að sýna fram á að Biblían sé trúverðug, að hún sé innblásin af Guði og að boðskapur hennar veiti von um að endir verði á þeim þjáningum sem stafa af óstjórn manna.
JESÚS stofnaði kristnina og fylgjendur hans breiddu hana út víða um lönd á dögum Rómaveldis. Enn má finna vegi, vatnsveitustokka og minnismerki frá tímum Rómaveldis í löndum eins og Bretlandi og Egyptalandi. Þessar rústir eru áþreifanlegar og minna á að Jesús og postular hans voru einnig raunverulegir, ekki síður en það sem þeir sögðu og gerðu. Segjum sem svo að þú gengir eftir hinum forna Appíusarvegi. Þá værirðu líklega að ganga sömu leið og Páll postuli gekk á ferð sinni til Rómar. – Postulasagan 28:15, 16.
Trúverðug saga
Í frásögum Biblíunnar af Jesú og postulum hans er oft vísað til sögulegra atburða sem gerðust á fyrstu öld. Við skulum taka eftir hve vandlega biblíuritarinn Lúkas tilgreindi árið sem tveir afar þýðingarmiklir atburðir áttu sér stað – árið sem Jóhannes skírari tók til starfa og Jesús var skírður, en þá varð hann Kristur eða Messías. Lúkas skrifaði að þetta hefði gerst „á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara [árið 29], þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu“. (Lúkas 3:1-3, 21) Lúkas nefnir einnig fjóra aðra hátt setta menn, þá Filippus (bróður Heródesar), Lýsanías, Annas og Kaífas. Sagnfræðingar staðfesta að þessir sjö menn hafi allir verið uppi á þeim tíma sem um getur. Við skulum líta ögn nánar á þá Tíberíus, Pílatus og Heródes.
Tíberíus keisari er vel þekktur og til er forn brjóstmynd af honum. Rómverska öldungaráðið útnefndi hann keisara 15. september árið 14 en Jesús var þá 15 ára gamall.
Brjóstmynd af Tíberíusi keisara: Ljósmynduð með góðfúslegu leyfi British Museum.
Pontíus Pílatus er nefndur ásamt Tíberíusi í frásögn rómverska sagnaritarans Tacítusar en hún var skrifuð skömmu eftir að ritun Biblíunnar lauk. Þar segir Tacítus um heitið „kristinn“ að „Christus sá sem þeir voru við kenndir hafði verið dæmdur til dauða og líflátinn af Pontíusi Pílatusi skattlandsstjóra, á veldisdögum Tíberíusar“.
Heródes Antípas er kunnur fyrir að hafa reist borgina Tíberías við Galíleuvatn og þar settist hann að. Það var sennilega þar sem hann lét hálshöggva Jóhannes skírara.
Í Biblíunni er einnig getið um merkisatburði sem áttu sér stað meðan Rómaveldi var og hét. Þar segir meðal annars um fæðingu Jesú: „Það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.“ – Lúkas 2:1-3.
Tacítus og Jósefus, sagnaritari Gyðinga, minnast báðir á Kýreníus. Í British Library er varðveitt tilskipun rómversks landstjóra þar sem staðfest er að slíkar skrásetningar hafi átt sér stað. Þar stendur: „Þar eð ljóst má vera að tími er kominn til að ganga í hús og gera manntal er nauðsynlegt að skylda alla til að snúa heim sem einhverra orsaka vegna búa utan heimahéraðs síns.“
Í Biblíunni er einnig getið um mikla hungursneyð á dögum Kládíusar keisara í Róm. (Postulasagan 11:28) Áðurnefndur Jósefus var uppi á fyrstu öld og staðfestir að hún hafi átt sér stað. Hann skrifaði: „Hungursneyð þjakaði þá á þeim tíma og margir dóu.“
Enn fremur segir í Postulasögunni 18:2 að „Kládíus [hafi] skipað svo fyrir að allir Gyðingar skyldu fara burt úr Róm“. Rómverski sagnaritarinn Svetóníus getur einnig um þetta í ævisögu Kládíusar sem hann skrifaði árið 121. Kládíus „gerði alla Gyðinga útlæga úr Róm“, segir hann, og bætir við að Gyðingar hafi „valdið sífelldum óspektum“ vegna fjandskapar síns við kristna menn.
Í Biblíunni kemur fram að um svipað leyti og fyrrnefnd hungursneyð gekk yfir hafi Heródes Agrippa klæðst „konungsskrúða“ og flutt ræðu en mannfjöldinn hafi borið á hann lof og hrópað: „Guðs rödd er þetta en eigi manns.“ Eftir það var Heródes „étinn upp af ormum og dó“, að sögn Biblíunnar. (Postulasagan 12:21-23) Jósefus greinir einnig frá þessum atburði en bætir ýmsu smálegu við. Hann segir að Agrippa hafi flutt ræðu sína í „flík sem gerð var að öllu leyti úr silfri“. Síðan segir hann að ,Agrippa hafi fengið sáran verk í kvið og hófst hann með heiftarlegu kasti‘. Heródes dó fimm dögum síðar, að sögn Jósefusar.
Áreiðanlegir spádómar
Biblían hefur einnig að geyma stórmerka spádóma sem voru ritaðir og rættust á dögum Rómaveldis. Lítum á eitt dæmi. Þegar Jesús reið inn í Jerúsalem grét hann yfir henni. Hann boðaði með hvaða hætti rómverskar hersveitir myndu eyða borgina. „Þeir dagar munu koma yfir þig að óvinir þínir munu gera virki um þig,“ sagði hann. „Þeir munu . . . ekki láta standa stein yfir steini í þér vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.“ – Lúkas 19:41-44.
En fylgjendur Jesú myndu fá tækifæri til að komast undan. Jesús gaf þeim skýrar leiðbeiningar þar að lútandi með löngum fyrirvara. „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið að eyðing hennar er í nánd,“ sagði hann. „Þá flýi þau sem í Júdeu eru til fjalla, þau sem í borginni eru flytjist burt.“ (Lúkas 21:20, 21) Fylgjendum Jesú hefur ef til vill verið spurn hvernig þeir gætu flúið umsetna borgina.
Jósefus lýsir hvernig það atvikaðist. Árið 66 tók rómverskur landstjóri fé úr fjárhirslu musterisins upp í skatta sem Gyðingar skulduðu. Uppreisnarmenn Gyðinga voru sárreiðir, stráfelldu rómverska hersveit og lýstu í reynd yfir sjálfstæði. Síðar sama ár hélt Cestíus Gallus, landstjóri Rómverja í Sýrlandi, til suðurs með 30.000 manna lið og kom til Jerúsalem meðan trúarhátíð stóð yfir. Hann braust gegnum úthverfi borgarinnar og tók jafnvel að grafa undan musterisveggnum þar sem uppreisnarmenn höfðu leitað skjóls. En skyndilega yfirgaf Gallus borgina með sveitum sínum. Gyðingar eltu fagnandi og gerðu hersveitunum miska með árásum.
Trúir fylgjendur Krists létu ekki blekkjast af þessari framvindu mála. Þeir gerðu sér grein fyrir að þeir höfðu orðið vitni að því hvernig ótrúlegur spádómur Jesú rættist. Borgin hafði verið umkringd herfylkingum. En nú var herinn á bak og burt og kristnir menn notuðu tækifærið til að forða sér. Margir settust að í Pellu sem var heiðin borg í fjöllunum handan Jórdanar en hlutlaus gagnvart deilu Gyðinga og Rómverja.
En hvað varð um Jerúsalem? Rómverskar hersveitir settust um borgina á nýjan leik undir stjórn Vespasíanusar og Títusar, sonar hans. Nú voru 60.000 manns í liðinu. Rómverjar umkringdu borgina fyrir páska árið 70 og króuðu inni bæði íbúa hennar og pílagríma sem komnir voru til að halda hátíðina. Rómverjar ruddu allan skóg í héraðinu og reistu virki um borgina rétt eins og Jesús hafði spáð. Um fimm mánuðum síðar var borgin fallin.
Títus fyrirskipaði að musterinu skyldi þyrmt en hermaður kveikti í því og það var rifið niður stein fyrir stein eins og Jesús hafði spáð. Að sögn Jósefusar féll um 1,1 milljón Gyðinga og trúskiptinga, flestir úr hungri og farsóttum, en um 97.000 voru teknir herfangi. Margir voru fluttir til Rómar sem þrælar. Í Róm má enn sjá hringleikahúsið Colosseum sem fullgert var eftir herför Títusar til Júdeu. Þar stendur einnig Títusarboginn sem reistur var til minningar um að Jerúsalem var unnin. Spádómar Biblíunnar eru áreiðanlegir í einu og öllu. Það er því mikilvægt að kynna sér vel það sem hún boðar um framtíðina.
Loforð sem þú getur treyst
Þegar Jesús stóð frammi fyrir rómverska landstjóranum Pontíusi Pílatusi talaði hann um ríki eða stjórn sem væri „ekki af þessum heimi“. (Jóhannes 18:36) Hann kenndi fylgjendum sínum meira að segja að biðja þess að ríki Guðs tæki völd: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:9, 10) Við tökum eftir að ríki Guðs á að sjá til þess að vilji hans nái fram að ganga á jörð – en ekki vilji stoltra og metnaðargjarnra manna.
Jesús fer með völd sem konungur í ríkinu á himnum. Og í samræmi við upphaflega fyrirætlun Guðs á hann eftir að breyta allri jörðinni í paradís. – Lúkas 23:43.
Hvenær lætur ríki Guðs til skarar skríða gegn stjórnum manna? Jesús gaf vísbendingu um það eftir að hann var risinn upp frá dauðum. Hann átti þá orðastað við Jóhannes postula sem var fangi á eynni Patmos í stjórnartíð Dómitíanusar keisara, bróður Títusar. „Það eru líka sjö konungar,“ sagði Jesús. „Fimm eru fallnir, einn er nú uppi, annar er ókominn og er hann kemur á hann að vera stutt.“ – Opinberunarbókin 17:9, 10.
Þegar Jóhannes skrifaði þetta voru fimm „konungar“ fallnir, það er að segja heimsveldin Egyptaland, Assýría, Babýlon, Medía-Persía og Grikkland. Sá sem var uppi á dögum Jóhannesar var Rómaveldi. Það var því aðeins einn eftir – síðasta heimsveldi biblíusögunnar. Hvaða heimsveldi var það? Hve lengi á það að ríkja? Þessum spurningum verður svarað í næsta tölublaði Vaknið!