KAFLI 6
Góður sonur og slæmur
TAKTU eftir Kain og Abel núna. Þeir eru orðnir fullorðnir menn. Kain er orðinn jarðyrkjumaður. Hann ræktar korn og ávexti og grænmeti.
Abel er orðinn hjarðmaður. Hann hefur ánægju af að hugsa um lítil lömb. Þau vaxa og verða stórar kindur og þess vegna á Abel brátt heila kindahjörð til að gæta.
Dag einn færa Kain og Abel Guði gjöf. Kain kemur með matjurtir sem hann hefur ræktað. Og Abel kemur með langbesta sauðinn sem hann á. Jehóva er ánægður með Abel og gjöfina hans. En hann er ekki ánægður með Kain og gjöf hans. Veistu hvers vegna?
Það er ekki eingöngu vegna þess að gjöf Abels sé betri en Kains. Það er vegna þess að Abel er góður maður. Hann elskar Jehóva og bróður sinn. En Kain er slæmur; hann elskar ekki bróður sinn.
Guð segir þess vegna Kain að hann skuli breyta sér. En Kain hlustar ekki. Hann er mjög reiður vegna þess að Guði líkar betur við Abel. Kain segir þess vegna við Abel: ‚Við skulum fara út á akurinn.‘ Þegar þeir eru komnir þangað aleinir slær Kain Abel bróður sinn. Hann slær hann svo fast að hann drepur hann. Var það ekki hræðilegt af Kain að gera þetta?
Jafnvel þó að Abel sé dáinn man Guð enn þá eftir honum. Abel var góður og Jehóva gleymir aldrei slíku fólki. Þess vegna mun sá dagur koma að Jehóva Guð veki Abel aftur til lífsins. Eftir það mun hann aldrei þurfa að deyja. Hann getur lifað hér á jörðinni að eilífu. Væri ekki gaman að kynnast mönnum eins og Abel?
En Guði líkar ekki við menn eins og Kain. Eftir að Kain hafði drepið bróður sinn refsaði Guð honum með því að senda hann langt í burtu frá fjölskyldu sinni. Þegar Kain fór burt til að búa annars staðar á jörðinni tók hann með sér eina af systrum sínum og hún varð eiginkona hans.
Þegar tímar liðu eignuðust Kain og kona hans börn. Aðrir synir og dætur Adams og Evu giftust og eignuðust líka börn. Brátt var orðið margt fólk á jörðinni. Við skulum fræðast um sumt af því.