7. kafli
Það sem við lærum af því að Guð hefur leyft hið illa
1. (a) Hvað hefði það þýtt fyrir okkur ef Jehóva hefði strax afmáð uppreisnarseggina í Eden? (b) Hvaða kærleiksríka ráðstöfun hefur Jehóva gert fyrir okkur í staðinn?
ÓHÁÐ þeim erfiðleikum, sem kunna að hafa orðið á vegi okkar í lífinu, var það ekki ranglátt af Guði að láta okkur fæðast. Hann skapaði fyrstu mennina fullkomna og gaf þeim paradís fyrir heimili. Ef hann hefði tekið þá af lífi strax eftir uppreisnina væri ekkert mannkyn til, eins og við þekkjum það, hrjáð sjúkdómum, fátækt og glæpum. Í miskunn sinni leyfði Jehóva Adam og Evu að eignast börn áður en þau dóu, jafnvel þótt þau tækju ófullkomleikann í arf. Í gegnum Krist gerði hann ráðstöfun til þess að þeir af afkomendum Adams, sem iðkuðu trú, gætu hlotið það sem Adam fyrirgerði — eilíft líf við skilyrði sem gerðu þeim fært að njóta lífsins til hins ýtrasta. — 5. Mós. 32:4, 5; Jóh. 10:10.
2. Var allt þetta gert aðeins til að við gætum frelsast?
2 Við sem einstaklingar höfum af þessu ómælanlegt gagn. Af frásögn Biblíunnar lærum við þó að málið snýst um þýðingarmeiri atriði en okkar eigið hjálpræði.
Vegna síns mikla nafns
3. Hvað var í veði í tengslum við framkvæmd vilja Jehóva með jörðina og mannkynið?
3 Nafn Jehóva, orðstír hans sem drottinvaldur alheimsins og Guð sannleikans, var samtvinnað því að tilgangur hans með jörðina og mannkynið næði fram að ganga. Vegna stöðu Jehóva veltur friður og velferð alls alheimsins á því að nafni hans sé sýnd öll sú virðing, sem það verðskuldar, og að allir séu honum hlýðnir.
4. Hvað fólst í þessum tilgangi?
4 Eftir að hann hafði skapað Adam og Evu fól hann þeim verk að vinna. Hann lét þau skilja að tilgangur hans væri ekki aðeins sá að þau skyldu leggja alla jörðina undir sig, og þar með færa út mörk paradísar, heldur líka að byggja hana afkomendum þeirra. (1. Mós. 1:28) Átti hann að láta af þeim tilgangi, og taka þeirri háðung sem það þýddi fyrir nafn hans, fyrir þá sök að þau höfðu syndgað?
5. (a) Hvenær myndi sá sem æti af skilningstrénu góðs og ills deyja samkvæmt 1. Mósebók 2:17? (b) Hvernig stóð Jehóva við orð sín og virti jafnframt þann tilgang sinn að byggja jörðina fólk?
5 Jehóva hafði aðvarað Adam að ef hann óhlýðnaðist og æti af skilningstrénu góðs og ills myndi hann vissulega deyja „jafnskjótt“ eða „á þeim degi“ er hann æti. (1. Mós. 2:17, NW) Trúr orði sínu lét Jehóva syndarana svara til saka samdægurs og felldi yfir þeim dauðadóm. Refsingin var óumflýjanleg. Réttarfarslega, frá sjónarhóli Guðs, dóu Adam og Eva þennan sama dag. (Samanber Lúkas 20:37, 38.) Til að hinn yfirlýsti tilgangur hans að fylla jörðina fólki næði fram að ganga leyfði Jehóva þeim þó að eignast börn áður en þau hnigu í duftið. Frá sjónarhóli Guðs, sem lítur á þúsund ár sem einn dag, dó Adam samt áður en þeim ‚degi‘ lauk, þá 930 ára gamall. (1. Mós. 5:3-5; samanber Sálm 90:4; 2. Pét. 3:8) Sannsögli Jehóva varðandi dánardægur þeirra reyndist því óbrigðul, og tilgangur hans að byggja jörðina afkomendum Adams brást ekki. Það þýddi hins vegar að um tíma yrði syndugum mönnum leyft að lifa.
6, 7. (a) Hver er, samkvæmt 2. Mósebók 9:15, 16, ástæðan fyrir því að Jehóva leyfir tilvist illskunnar um hríð? (b) Hvernig birtist máttur Jehóva og hvernig var nafn hans kunngert á dögum Faraós? (c) Hverjar verða því afleiðingarnar þegar hin núverandi vonda heimsskipan líður undir lok?
6 Það sem Jehóva sagði einvaldi Egyptalands á dögum Móse gefur enn aðra vísbendingu um hvers vegna Guð hefur leyft hinum óguðlegu að standa um hríð. Þegar Faraó lagði bann við burtför Ísraelssona af Egyptalandi tortímdi Jehóva honum ekki þegar í stað. Tíu plágur voru látnar koma yfir landið til að lýsa mætti Jehóva á undraverða og fjölbreytilega vegu. Þegar Jehóva varaði Faraó við sjöundu plágunni sagði hann honum að hann hefði hæglega getað afmáð hann og þjóð hans af jörðinni. „En þess vegna,“ sagði Jehóva, „hefi ég þig standa látið, til þess að ég sýndi þér mátt minn og til þess að nafn mitt yrði kunngjört um alla veröld.“ — 2. Mós. 9:15, 16.
7 Þegar Jehóva frelsaði ísraelsmenn varð nafn hans svo sannarlega víðkunnugt. Núna, nálega 3500 árum síðar, hefur það sem hann gerði ekki fallið í gleymsku. Ekki var aðeins einkanafn Jehóva kunngert, heldur líka sannleikurinn um hann sem ber það nafn. Þar með var staðfest að Jehóva er Guð sem heldur sáttmála sína og grípur inn í gang mála í þágu þjóna sinna. Það sýndi að sökum almættis hans getur ekkert hindrað framgang vilja hans. Hin komandi gereyðing alls hins illa kerfis, bæði þess sýnilega og ósýnilega, verður enn tilkomumeiri. Sú sýning á almætti Jehóva og dýrðin, sem hún færir nafni hans, mun aldrei gleymast í sögu alheimsins. Íhlutun hans mun verða til eilífrar blessunar! — Esek. 38:23; Opinb. 19:1, 2.
‚Hvílíkt djúp speki Guðs!‘
8. Hvað annað hvetur Páll okkur til að íhuga?
8 Í bréfi sínu til Rómverja varpar Páll postuli fram þessari spurningu: „Er Guð óréttvís?“ Hann svarar spurningunni með því að undirstrika miskunn Guðs og vísa til þess sem Jehóva sagði við Faraó. Hann minnir einnig á að við mennirnir erum eins og leir í höndum leirkerasmiðs. Kvartar leirinn undan því að hann skuli notaður með einum hætti en ekki öðrum? Páll bætir við: „En ef nú Guð, sem vildi sýna reiði sína og auglýsa mátt sinn, hefur með miklu langlyndi umborið ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar, og ef hann hefur gjört það til þess að auglýsa ríkdóm dýrðar sinnar á kerum miskunnarinnar, sem hann hafði fyrirfram búið til dýrðar? Slík ker erum vér, sem hann hefur kallað, ekki aðeins úr flokki Gyðinga, heldur og úr flokki heiðingja.“ — Rómv. 9:14-24.
9. (a) Hver eru „ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar“? (b) Hvers vegna hefur Jehóva sýnt mikið langlyndi þrátt fyrir fjandskap þeirra, og hvernig mun það endanlega vera til góðs þeim sem elska hann?
9 Alla tíð síðan Jehóva mælti hin spádómlegu orð í 1. Mósebók 3:15 hefur Satan og sæði hans verið „ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar.“ Allan þennan tíma hefur Jehóva sýnt langlyndi. Hinir óguðlegu hafa hætt og spottað vegu hans, ofsótt þjóna hans, meira að segja drepið son hans. En Jehóva hefur sýnt mikla stillingu til varanlegs gagns fyrir þjóna sína. Öll sköpunin hefur haft tækifæri til að sjá hinar skelfilegu afleiðinga uppreisnar gegn Guði. Samhliða því opnaði dauði Jesú hlýðnum mönnum leið til frelsunar og til að „brjóta niður verk djöfulsins.“ — 1. Jóh. 3:8; Hebr. 2:14, 15.
10. Hvers vegna hefur Jehóva haldið áfram að umbera hina óguðlegu síðastliðnar nítján aldir?
10 Á þeim rúmum nítján öldum, sem liðnar eru frá upprisu Jesú, hefur Jehóva umborið „ker reiðinnar“ með því að bíða með að tortíma þeim. Hvers vegna? Vegna þess að hann hefur verið að undirbúa viðbótarsæði konunnar, þá sem eiga að vera með Jesú Kristi í himnesku ríki hans. (Gal. 3:29) Þessir einstaklingar, 144.000 talsins, eru ‚ker miskunnarinnar‘ sem Páll postuli talaði um. Í fyrstu var einstaklingum úr hópi Gyðinga boðið að mynda þennan hóp. Síðan var bætt við umskornum Samverjum, og að síðustu mönnum af heiðnum þjóðum. Af miklu langlyndi hefur Jehóva unnið að framgangi þessa tilgangs. Hann hefur aldrei neytt nokkurn mann til að þjóna sér, en blessað ríkulega þá sem hafa þegið kærleiksríkar ráðstafanir hans með þakklátu hjarta. Núna er undirbúningi þessa himneska hóps nánast lokið.
11. Hvaða annar hópur nýtur nú góðs af langlyndi Jehóva?
11 Hverjir eiga þá að búa á jörðinni? Á tilsettum tíma Guðs verða milljarðar manna reistir upp frá dauðum til að verða jarðneskir þegnar ríkisins. Auk þess hefur langlyndi Jehóva, einkanlega frá 1935, opnað möguleika á samansöfnun ‚mikils múgs‘ af öllum þjóðum sem á hjálpræði í vændum. — Opinb. 7:9; Jóh. 10:16.
12. (a) Hvað höfum við þar af leiðandi lært um Jehóva sjálfan? (b) Hver eru viðbrögð þín við því hvernig Jehóva hefur haldið á málum?
12 Hefur nokkurt ranglæti verið hér á ferðinni? Alls ekki! Getur nokkur maður með réttu kvartað undan því ef Guð dregur á langinn að tortíma ‚kerjum reiðinnar‘ til að hann geti sýnt öðrum miskunn í samræmi við tilgang sinn? Þess í stað lærum við margt um Jehóva sjálfan þegar við íhugum hvernig tilgangur hans hefur verið að koma í ljós lið fyrir lið. Við dáumst að hinum mörgu hliðum persónuleika hans sem hafa komið í ljós — réttvísi hans, miskunn, langlyndi og margþættri visku. Hin viturlegu tök Jehóva á deilumálinu munu vera eilífur vitnisburður þess að hans stjórnaraðferð sé sú besta. Við tökum undir með Páli postula: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!“ — Rómv. 11:33.
Tækifæri til að sýna hollustu okkar
13. (a) Hvaða tækifæri höfum við ef við þurfum að þjást? (b) Hvað getur hjálpað okkur að breyta viturlega?
13 Þar eð Guð hefur enn ekki eytt hinum illu og lyft mannkyninu upp til fullkomleikans koma enn upp aðstæður sem valda miklum, persónulegum þjáningum. Hver eru viðbrögð okkar við slíku? Lítum við á þær sem tækifæri til að eiga hlut í að hreinsa nafn Jehóva af smán og sanna djöfulinn lygara? Við getum hlotið styrk til að gera það með því að hafa í huga þessa hvatningu: „Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjart mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ (Orðskv. 27:11) Satan, hann sem smánar Jehóva, hefur staðhæft að menn muni ásaka Guð, jafnvel formæla, ef þeir bíði efnalegt tjón eða þurfi að þjást. (Job. 1:9-11; 2:4, 5) Við gleðjum hjarta Jehova þegar við, með hollustu okkar við Guð andspænis erfiðleikum, sýnum að svo er ekki um okkur. Við berum fullt traust til þess að Jehóva þyki mjög vænt um þjóna sína og muni, þegar þar að kemur, umbuna okkur ríkulega ef við erum trúföst, eins og hann umbunaði Job. — Jak. 5:11; Job. 42:10-16.
14. Hvað annað getur fallið okkur í skaut ef við reiðum okkur á Jehóva þegar prófraunir ber að garði?
14 Ef við treystum á Jehóva þegar við lendum í erfiðum prófraunum getum við ræktað með okkur dýrmæta eiginleika. Í gegnum þjáningar sínar ‚lærði Jesús hlýðni‘ á þann veg sem hann hafði aldrei þekkt áður. Við getum líka lært — þroskað með okkur langlyndi, þolgæði og meiri mætur á réttlátum vegum Jehóva. Munum við þolinmóð þiggja slíka þjálfun? — Hebr. 5:8, 9; 12:11; Jak. 1:2-4.
15. Hvernig geta aðrir haft gagn af þegar við þolum erfiðleika?
15 Aðrir munu veita athygli hvað við gerum. Sökum þess sem við þolum vegna kærleika okkar til réttlætisins getur svo farið að sumir þeirra geri sér ljóst hverjir eru í reyndinni ‚bræður‘ Krists nú á dögum, sameinist þessum ‚bræðrum‘ í hreinni guðsdýrkun og eignist von um þá blessun sem eilíft líf er. (Matt. 25:34-36, 40, 46) Jehóva og sonur hans vilja að þeir eignist það tækifæri. Erum við sama sinnis? Erum við fús til að þola erfiðleika til að það sé mögulegt?
16. Hvernig tengjast viðhorf okkar til slíkra erfiðleika spurningunni um einingu?
16 Það er gott ef við lítum á erfiðleika, sem upp kunna að koma, sem tækifæri til að sýna hollustu okkar við Jehova og eiga þátt í að fullna vilja hans! Það ber því vitni að við stefnum til þeirrar einingar við Guð og Krist sem Jesús bað um að allir sannkristnir menn mættu hljóta. — Jóh. 17:20, 21.
Til upprifjunar
• Hvernig hefur Jehóva sýnt nafni sínu mikla virðingu meðan hann hefur leyft tilvist hins illa?
• Hvernig hefur langlyndi Jehóva gagnvart ‚kerjum reiðinnar‘ opnað miskunn hans leið til okkar?
• Hvernig ber okkur að reyna að líta á aðstæður sem hafa í för með sér þjáningar fyrir okkur?