9. kafli
Máttur upprisuvonarinnar
1. Hvaða stórkostlega möguleika opnar upprisuvonin?
ÁN upprisunnar væri engin von um líf fyrir látna nokkurn tíma í framtíðinni. Jehóva hefur, vegna sinnar óverðskulduðu góðvildar, opnað milljörðum látinna manna hið ómetanlega tækifæri að lifa eilíflega. Þar af leiðandi höfum við líka hina gleðilegu von um að sameinast aftur ástvinum okkar sem hafa sofnað dauðasvefni. — Samanber Markús 5:35, 41, 42; Postulasöguna 9:36-41.
2. (a) Hvernig hefur upprisuvonin reynst þýðingarmikill þáttur í tilgangi Jehóva? (b) Hvenær sérstaklega sækjum við mikilvægan kraft í upprisuvonina?
2 Vegna upprisunnar getur Jehóva, án varanlegs tjóns fyrir trúa þjóna sína, leyft Satan að reyna sitt ýtrasta til að sanna hina illu staðhæfingu sína: „Fyrir líf sitt gefur maðurinn allt sem hann á.“ (Job. 2:4) Með því að Jesús var vakinn upp frá dauðum gat hann lagt verðmæti mannsfórnar sinnar fyrir himneskt hásæti föður síns, okkur til bjargar. Vegna upprisunnar sameinast samerfingjar Krists honum í hinu himneska ríki. Og upprisuvonin veitir okkur öllum, sem trúum, styrk og þrótt umfram það sem venjulegt er, þegar yfir okkur koma prófraunir þar sem við stöndum augliti til auglitis við dauðann.
Ein af undirstöðum kristinnar trúar
3. (a) Í hvaða skilningi er upprisan ‚byrjunarkenning‘? (b) Hvaða skilning leggur heimurinn í upprisuna?
3 Upprisan er, eins og segir í Hebreabréfinu 6:1, 2, ‚undirstöðuatriði,‘ hluti þess trúargrundvallar sem er forsenda kristins þroska. Hún er hins vegar framandi heiminum í heild. Sífellt fleiri skortir andlegt hugarfar og lifa fyrir nautnir lífsins. Í þeirra hugarheimi er einungis þetta líf veruleiki. (1. Kor. 15:32) Þeir sem aðhyllast hin hefðbundnu trúarbrögð, bæði innan kristna heimsins og utan, halda sig hafa ódauðlega sál sem gerir upprisu óparfa. Reyni einhver að samræma þessar tvær hugmyndir veldur það honum miklu meiri ruglingi en von. Hvernig getum við hjálpað þeim sem vilja hlusta? — Post. 17:32.
4. (a) Hvað þarf stundum að ræða við fólk áður en það getur skilið upprisuna? (b) Hvaða ritningarstaði gætir þú notað til að útskýra hvað sálin er og hvert sé ástand hinna dánu? (c) Hvað getur þú gert ef biblíuþýðing viðmælanda þíns virðist gera þessi sannindi óljós?
4 Áður en þeir geta skilið hversu stórkostleg ráðstöfun upprisan er þurfa þeir að skilja hvað sálin er og hvert er ástand hinna dánu. Oft nægja fáeinir ritningarstaðir til að skýra þessi mál í hugum þeirra sem hungrar eftir sannleikanum. (1. Mós. 2:7; Esek. 18:4; Préd. 9:5, 10) Sumar nýlegar þýðingar Biblíunnar og endursagnir gera þessi sannindi óljós. Stundum er því nauðsynlegt að skoða þau orð og orðatiltæki sem notuð eru á frummálum Biblíunnar.
5. Hvernig getur þú hjálpað slíkum manni að skilja hvað sálin er?
5 Nýheimspýðingin er sérlega hentug til þess því að hún þýðir hebreska orðið nefesh og hið samsvarandi gríska orð psykhe sem „sál“ út í gegn; og í viðauka hennar er skrá um fjölmarga ritningartexta þar sem þessi orð er að finna. Aðrar nútímaþýðingar þýða þessi sömu orð ekki aðeins sem „sál,“ heldur líka sem „sköpun,“ „vera,“ „persóna,“ og „líf“; „mín nefesh“ er stundum þýtt „ég“ og „þín nefesh“ sem „þú.“ Samanburður á þessum biblíum og öðrum eldri, svo og Nýheimsþýðingunni, hjálpar einlægum nemanda að skilja að þau orð frummálanna, sem eru þýdd „sál,“ eiga við (1) persónur, (2) dýr og (3) líf þeirra sem menn eða dýr. Þau gefa aldrei þá hugmynd að sálin sé ósýnileg, óáþreifanleg og geti yfirgefið líkamann við dauðann og átt sér meðvitaða tilveru einhvers staðar.
6. (a) Hvers vegna gera sumar biblíur lesandann óvissan um hvað Séol, Hades og Gehenna merki? (b) Hvernig getur þú skýrt út af Biblíunni hvert sé ástand hinna dánu í Séol eða Hades og í Gehenna?
6 Nýheimsþýðingin er líka sjálfri sér samkvæm í því að umrita hebreska orðið sheol og gríska orðin hades og geenna sem Séol, Hades og Gehenna. Margar aðrar þýðingar og endursagnir Bibliunnar rugla lesandann með því að þýða BÆÐI hades og geenna sem „helvíti,“ auk þess að nota einnig orðin „gröfin“ og „dánarheimar“ sem þýðingu á sheol og hades. Með samanburði á þýðingum má, ef nauðsyn krefur, sýna fram á að Séol er hið sama og Hades. (Sálm. 16:10, NW; Post. 2:27, NW) Biblían sýnir fram á að Séol eða Hades (Helja), hin sameiginlega gröf mannkynsins, er tengd dauða, ekki lífi. (Sálm. 89:49; Opinb. 20:13) Hún bendir líka á það að menn geti snúið aftur frá dauða til lífs vegna upprisu. (Job. 14:13; Post. 2:31) Hins vegar er engin von um líf fyrir þá sem fara í Gehenna, og að sjálfsögðu er ekki talað svo um sálina að hún eigi sér meðvitaða tilveru þar. — Matt. 18:9; 10:28.
7. Hvernig getur réttur skilningur á upprisuvoninni haft áhrif á viðhorf og athafnir manna?
7 Þegar þessi mál eru upplýst öðlast dauði Krists og upprisa raunverulega þýðingu. Þá er hægt að hjálpa manni að skilja hvað upprisan getur þýtt fyrir hann, og hann getur byrjað að gera sér grein fyrir þeim kærleika sem Jehóva sýndi með því að gera þessa ráðstöfun. Harmur þeirra sem misst hafa ástvin í dauðann getur nú vikið fyrir voninni um væntanlega fagnaðarfundi í hinni nýju skipan Guðs. Kristnum mönnum á fyrstu öld var ljóst að upprisa Jesú Krists er hornsteinn kristinnar trúar. Kostgæfir báru þeir vitni um hana fyrir öðrum og um þá von sem hún tryggir. Þeir sem skilja og meta þessa von að verðleikum núna eru líka ákafir í að segja öðrum frá þessum dýrmætu sannindum. — Post. 5:30-32; 10:40-43; 13:32-39; 17:31.
Jesús notar ‚lykla heljar‘
8. Hvað þýðir það fyrir smurða fylgjendur Jesú að hann skuli hafa „lykla dauðans og Heljar“?
8 Allir sem eiga að vera með Kristi í himnesku ríki hans verða að deyja fyrr eða síðar. Þeir þekkja þó allir þá tryggingu sem hann gaf þegar hann sagði Jóhannesi postula: „Ég dó, en sjá, lifandi er ég um aldir alda, og ég hef lykla dauðans og Heljar.“ (Opinb. 1:18) Hvað átti hann við? Hann var að vekja athygli á því sem hann hafði sjálfur reynt. Hann hafði líka dáið, en Guð hafði ekki skilið hann eftir í Helju. Á þriðja degi reisti Jehóva hann sjálfur upp sem andaveru og veitti honum ódauðleika. Meira að segja gaf Guð honum „lykla dauðans og Heljar“ sem hann skyldi nota til að leysa aðra menn úr hinni sameiginlegu gröf og undan áhrifum syndar Adams. Með því að Jesús ræður yfir þessum lyklum getur hann vakið trúfasta fylgjendur sína upp frá dauðum. Þegar hann gerir það gefur hann andagetnum meðlimum safnaðar síns þá dýrmætu gjöf sem ódauðlegt líf á himnum er, alveg eins og faðir hans gaf honum. — Rómv. 6:5; Fil. 3:20, 21.
9. Hvenær fá trúfastir, smurðir kristnir menn upprisu?
9 Hvenær ætti upprisa trúfastra, smurðra kristinna manna að eiga sér stað? Hún er þegar hafin. Páll postuli segir að þeir myndu reistir upp ‚við nærveru Krists‘ sem hófst árið 1914. (1. Kor. 15:23) Núna, þegar lýkur jarðnesku lífshlaupi þeirra, þurfa þeir ekki að bíða í dauðanum eftir endurkomu Drottins. Jafnskjótt og þeir deyja eru þeir vaktir upp í anda, þeir „umbreytast í einni svipan, á einu augabragði.“ Hamingja þeirra er mikil því að „verk þeirra fylgja þeim“! — 1. Kor. 15:51, 52; Opinb. 14:13.
10. Hvaða önnur upprisa verður og hvenær hefst hún?
10 Þeirra upprisa er þó ekki sú eina sem um er að ræða. Það að hún skuli nefnd ‚fyrri upprisan‘ gefur til kynna að önnur upprisa hljóti að koma á eftir. (Opinb. 20:6) Þeir sem fá hlut í þessari síðari upprisu eiga í vændum eilíft líf á jörð sem verður paradís. Hvenær mun þetta gerast? Opinberunarbókin sýnir að það muni vera eftir að „himinn og jörð“ hins núverandi illa heimskerfis hverfur. Þau endalok hins gamla kerfis eru mjög nálæg. Eftir það mun hin jarðneska upprisa hefjast á tilsettum tíma Guðs. — Opinb. 20:11, 12.
11. Hverjir verða í hópi trúfastra manna, sem fá upprisu til lífs á jörðinni, og hvers vegna er það spennandi umhugsunarefni?
11 Hverjir fá upprisu? Trúfastir þjónar Jehóva frá fyrstu tíð. Meðal þeirra voru menn sem vegna sinnar sterku trúar á upprisuna „þágu ekki lausn til þess að þeir öðluðust betri upprisu“ — þeir vildu ekki slaka á ráðvendni sinni við Guð til að komast hjá voveiflegum dauða. (Hebr. 11:35) Það hlýtur að verða spennandi að geta kynnst þeim persónulega og heyrt frá þeim, milliliðalaust, ítarlegar frásagnir af atburðum sem Biblían greinir mjög stuttlega frá! Þeirra á meðal verður Abel, fyrsti trúfastur vottur um Jehóva; Enok og Nói sem kunngerðu djarfir aðvörun Guðs fyrir flóðið; Abraham sem hýsti og veitti englum beina; Móse sem tók við lögmálinu við Sínaífjall; hugrakkir spámenn svo sem Jeremía sem sá Jerúsalem eytt árið 607 f.o.t. og Jóhannes skírari sem heyrði Guð sjálfan lýsa Jesú son sinn. Í þessum hópi verða líka trúfastir þjónar Guðs sem dóu á síðustu dögum núverandi heimsskipanir. — Hebr. 11:4-38; Matt. 11:11.
12. (a) Hversu margir af hinum dánu í Hades fá upprisu? (b) Hverjir fá því líka upprisu og hvað eiga þeir í vændum?
12 Á sínum tíma munu aðrir líka fá upprisu. Í sýn sá Jóhannes postuli Hades eða Helju „kastað í eldsdíkið.“ Hvað merkir það? Að Hades sé að engu gert; það hverfi vegna þess að það tæmist algerlega. Af þessu má sjá í hversu ríkum mæli Jesús notar ‚lykla Heljar‘ í þágu mannkynsins. Auk þess að reisa upp trúfasta tilbiðjendur Jehóva mun hann í miskunn sinni reisa upp úr Hades eða Séol jafnvel rangláta menn. Enginn þeirra verður reistur upp aðeins til að fá dauðadóm aftur. Í réttlátu umhverfi undir stjórn Guðsríkis verður þeim hjálpað að samræma líf sitt vegum Jehóva. Í sýn Jóhannesar var opnuð „lífsins bók“ og þeir munu fá tækifæri til að fá nöfn sín rituð í hana. Þeir verða dæmdir ‚samkvæmt verkum sínum‘ eftir upprisu sína. (Opinb. 20:12-14; Post. 24:15) Skoðað út frá endanlegri útkomu getur upprisa þeirra orðið „til lífsins“ og þarf ekki óhjákvæmilega að vera „til dómsins,“ fordæmingardóms. — Jóhannes 5:28, 29.
13. (a) Hverjir fá ekki upprisu? (b) Hvernig ætti sannleikurinn um upprisuna að snerta líf okkar?
13 Vitanlega munu ekki allir, sem lifað hafa, fá upprisu. Sumir drýgðu ófyrirgefanlegar syndir. Þeir sem teknir verða af lífi í ‚þrengingunni miklu,‘ sem nú er nálæg, verða afmáðir að eilífu. (Matt. 12:31, 32; 23:33; 24:21, 22; 25:41, 46; 2. Þess. 1:6-9) Þótt það sé óumræðileg miskunn að leysa úr fjötrum alla sem hvíla í Helju gefur upprisuvonin okkur ekki heimild til að lifa lífinu að eigin geðþótta. Þess í stað ætti hún að koma okkur til að sýna hversu mikils við metum þessa miklu, óverðskulduðu náð Guðs.
Styrkur frá upprisuvoninni
14. Hvernig getur upprisan verið mikill styrkur þeim manni sem nálgast ævilok sín?
14 Þeir sem hafa tileinkað sér upprisuvonina geta látið hana styrkja sig mjög. Þeir vita að þeir geta ekki frestað dauðanum ótakmarkað, þegar dregur að ævilokum þeirra, þótt þeir fái bestu læknismeðferð. (Préd. 8:8) Hafi þeir hins vegar verið önnum kafnir í starfi Drottins og þjónað trúfastir með skipulagi hans geta þeir horft til framtíðarinnar með fullu trúartrausti. Þeir vita að þeir munu lifna á ný á tilsettum tíma Guðs vegna upprisu. Og það verður stórkostlegt líf sem Páll postuli kallaði „hið sanna líf.“ — 1. Tím. 6:19; 1. Kor. 15:58; Hebr. 6:10-12.
15. Hvað getur hjálpað okkur að varðveita ráðvendni gagnvart Jehóva ef illskeyttir ofsækjendur ógna okkur?
15 Tvennt er það sem styrkir okkur: Að vita að til sé upprisa og að þekkja hann sem stendur á bak við þessa ráðstöfun. Það styrkir okkur til að vera drottinholl Guði jafnvel þótt okkur sé hótað dauða fyrir hendi illskeyttra ofsækjenda. Satan hefur löngum notað ótta við ótímabæran dauða til að halda fólki í þrælkun. En Jesús lét ekki slíkan ótta ná tökum á sér; hann var trúfastur Jehóva allt fram í dauðann. Með dauða hans opnaðist leið til að frelsa aðra undan slíkum ótta. (Hebr. 2:14, 15) Trúfastir fylgjendur hans hafa, vegna trúar sinnar á þá ráðstöfun, sannað sig ráðvanda menn. Þegar að þeim hefur kreppt hafa þeir sýnt að þeir elska Jehóva heitar en líf sitt. (Opinb. 12:11) Þeir reyna ekki að bjarga lífi sínu nú með því að snúa baki við kristnum lífsreglum, til þess eins að fyrirgera voninni um eilíft líf. (Lúk. 9:24, 25) Hefur þú þess konar trú? Það munt þú gera ef þú í sannleika elskar Jehóva og hefur tileinkað þér það sem upprisuvonin þýðir fyrir þig.
Til upprifjunar
• Hvers vegna er nauðsynlegt að skilja hvað sálin sé og hvert sé ástand hinna dánu áður en hægt er að skilja upprisuna?
• Hverjir munu rísa upp frá dauðum? Hvernig ætti sú vitneskja að snerta okkur?
• Hvernig styrkir upprisuvonin okkur?