Kafli 2
Heiðraður fyrir fæðingu
EFTIR að engillinn Gabríel segir hinni ungu Maríu að hún muni fæða son sem verði eilífur konungur, spyr hún: „Hvernig má þetta verða, þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?“
„Heilagur andi mun koma yfir þig,“ svarar Gabríel, „og kraftur hins hæsta mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, sonur Guðs.“
Til að auðvelda Maríu að trúa þessum boðskap heldur Gabríel áfram: „Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni, og þetta er sjötti mánuður hennar, sem kölluð var óbyrja, en Guði er enginn hlutur um megn.“
María trúir orðum Gabríels. Og hverju svarar hún? „Sjá, ég er ambátt [Jehóva],“ segir hún. „Verði mér eftir orðum þínum.“
María ferðbýst til að heimsækja Elísabetu skömmu eftir að Gabríel fer, en hún býr ásamt Sakaría manni sínum í fjallabyggðum Júda. Þetta er löng ferð heiman frá Maríu í Nasaret, kannski þrjár eða fjórar dagleiðir.
María kemur að húsi Sakaría, gengur inn og heilsar. Elísabet fyllist þá heilögum anda og segir við Maríu: „Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns. Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín? Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér, tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu.“
María svarar full þakklætis: „Önd mín miklar [Jehóva], og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum. Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja. Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört.“ Þrátt fyrir þá náð, sem Maríu er sýnd, gefur hún Guði heiðurinn. „Heilagt er nafn hans,“ segir hún. „Miskunn hans við þá, er óttast hann, varir frá kyni til kyns.“
María heldur áfram að lofa Guð í innblásnum, spádómlegum söng og syngur: „Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað. Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja, hungraða hefur hann fyllt gæðum, en látið ríka tómhenta frá sér fara. Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn, eins og hann talaði til feðra vorra, við Abraham og niðja hans ævinlega.“
María dvelur um þrjá mánuði hjá Elísabetu og er henni eflaust mikil hjálp á síðustu vikum meðgöngunnar. Það er gott fyrir þessar tvær trúföstu konur, sem eru báðar þungaðar fyrir tilstilli Guðs, að geta verið saman á þessum blessunartíma í lífi sínu!
Tókstu eftir hvernig Jesús var heiðraður fyrir fæðingu? Elísabet kallaði hann ‚Drottin sinn‘ og ófætt barn hennar tók viðbragð af gleði þegar María birtist. En aðrir sýndu Maríu og ófæddu barni hennar litla virðingu síðar eins og við munum sjá. Lúkas 1:26-56.
▪ Hvað segir Gabríel við Maríu til að hjálpa henni að skilja hvernig hún verði barnshafandi?
▪ Hvernig var Jesús heiðraður fyrir fæðingu?
▪ Hvað segir María í spádómlegum lofsöng til Guðs?
▪ Hve lengi dvelur María hjá Elísabetu og hvers vegna á það vel við að hún skuli gera það á þeim tíma?