14. kafli
Yfirráð hverra ættir þú að viðurkenna?
1, 2. Eru yfirráð í öllum myndum til óþurftar? Útskýrðu svarið.
„YFIRRÁГ er ógeðfellt orð í eyrum margra. Það er skiljanlegt af því að yfirráðum er oft misbeitt — á vinnustað, í fjölskyldunni og í stjórnsýslunni. Biblían segir af raunsæi: „Einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ (Prédikarinn 8:9) Já, margir hafa drottnað yfir öðrum með ofríki og í eiginhagsmunaskyni.
2 En ekki eru öll yfirráð til óþurftar. Til dæmis mætti segja að líkami okkar fari með yfirráð yfir okkur. Hann „skipar“ okkur að draga andann, borða, drekka og sofa. Er það kúgun? Nei. Það er okkur til góðs að fara að þessum fyrirmælum. Þó að við beygjum okkur ef til vill ómeðvitað undir líkamlegar þarfir okkar eru til aðrar myndir yfirráða þar sem farið er fram á að við sýnum undirgefni af fúsum vilja. Athugum nokkur dæmi þess.
ÆÐSTA YFIRVALDIÐ
3. Hvers vegna er Jehóva með réttu nefndur „hinn alvaldi“?
3 Í Biblíunni er Jehóva margoft kallaður „herra“ eða „hinn alvaldi.“ Hann fer með hin æðstu yfirráð. Hvað veitir Jehóva rétt til slíkrar stöðu? Opinberunarbókin 4:11 svarar: „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“
4. Hvernig kýs Jehóva að beita yfirráðum sínum?
4 Sem skapari okkar hefur Jehóva rétt til að beita yfirráðum sínum eins og honum sýnist. Það virðist ef til vill ógnvekjandi, einkum þegar við leiðum hugann að því að Guð er „voldugur að afli.“ Hann er nefndur „Almáttugur Guð“ — hugtak sem í hebresku ber með sér hugmyndina um afl sem er öllu yfirsterkara. (Jesaja 40:26; 1. Mósebók 17:1) Samt er Jehóva góðgjarn þegar hann sýnir styrk sinn vegna þess að kærleikur er sá eiginleiki sem er ríkjandi hjá honum. — 1. Jóhannesarbréf 4:16.
5. Hvers vegna er ekki erfitt að lúta yfirráðum Jehóva?
5 Þó að Jehóva hafi bent á að hann myndi leiða hegningu yfir iðrunarlausa illvirkja þekkti Móse hann fyrst og fremst sem ‚hinn sanna Guð, hinn trúfasta Guð, er heldur sáttmálann og miskunnsemina í þúsund ættliði við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans.‘ (5. Mósebók 7:9) Hugsa sér! Æðsta yfirvald alheimsins neyðir okkur ekki til að þjóna sér. Þess í stað löðumst við að Guði vegna kærleika hans. (Rómverjabréfið 2:4; 5:8) Það er jafnvel ánægjulegt að lúta yfirráðum Jehóva af því að lög hans koma okkur alltaf að miklu gagni. — Sálmur 19:8, 9.
6. Hvernig kom upp ágreiningur í Edengarðinum um yfirráð og með hvaða afleiðingum?
6 Fyrstu foreldrar okkar höfnuðu yfirráðum Guðs. Adam og Eva vildu ákveða sjálf hvað væri gott og hvað væri illt. (1. Mósebók 3:4-6) Afleiðingin varð sú að þau voru rekin frá paradísarheimili sínu. Eftir það leyfði Jehóva mönnum að koma á fót stjórnkerfum sem myndu gera þeim kleift að búa í skipulegu samfélagi þótt ófullkomið væri. Hvaða yfirvöld er hér um að ræða og í hvaða mæli ætlast Guð til að við sýnum þeim undirgefni?
‚HINAR YFIRBOÐNU VALDSTÉTTIR‘
7. Hverjar eru ‚yfirboðnu valdstéttirnar‘ og hver er staða þeirra gagnvart Guði?
7 Páll postuli skrifaði: „Sérhver maður sé yfirboðnum valdstéttum hlýðinn; því að ekki er nein valdstétt til nema frá Guði.“ (Biblían 1912) Hverjar eru ‚yfirboðnu valdstéttirnar‘? Orð Páls í næstu versum á eftir sýna að þær eru yfirvöldin sem stjórnir manna mynda. (Rómverjabréfið 13:1-7; Títusarbréfið 3:1) Jehóva kom ekki stjórnvöldum manna á fót en hann leyfir tilvist þeirra. Þess vegna gat Páll skrifað: „Þau [yfirvöld] sem til eru, þau eru skipuð af Guði.“ Hvað gefur þetta til kynna um slík jarðnesk yfirvöld? Að þau eru lægra sett eða óæðri en Guð. (Jóhannes 19:10, 11) Þegar lög manna og lög Guðs stangast á verða kristnir menn þar af leiðandi að láta samvisku sína, sem þeir hafa þjálfað með námi í Biblíunni, leiðbeina sér. „Framar ber [þeim] að hlýða Guði en mönnum.“ — Postulasagan 5:29.
8. Hvaða gagn hefur þú af yfirboðnu valdstéttunum og hvernig getur þú sýnt þeim undirgefni þína?
8 Yfirleitt breyta hinar yfirboðnu valdstéttir þó eins og ‚þjónn Guðs okkur til góðs.‘ (Rómverjabréfið 13:4) Á hvern veg? Hugleiddu þá margvíslegu þjónustu sem yfirvöld veita, eins og póstþjónustu, löggæslu og brunavarnir, sorphreinsun og menntun. „Þess vegna gjaldið þér og skatta,“ skrifaði Páll, „því að valdsmennirnir eru Guðs þjónar, sem annast þetta.“ (Rómverjabréfið 13:6) Í tengslum við skatta og hverja aðra lagalega skyldu ættum við að „breyta vel [„heiðarlega,“ NW].“ — Hebreabréfið 13:18.
9, 10. (a) Hvernig falla yfirboðnu valdstéttirnar inn í fyrirkomulag Guðs? (b) Hvers vegna væri rangt að veita yfirvöldunum mótstöðu?
9 Fyrir kemur að yfirboðnu valdstéttirnar misnota vald sitt. Leysir það okkur undan þeirri ábyrgð að sýna þeim hlýðni eða undirgefni? Nei, alls ekki. Jehóva sér misgjörðir þessara yfirvalda. (Orðskviðirnir 15:3) Þó að hann umberi stjórn manna þýðir það ekki að hann látist ekki sjá spillingu hennar; hann ætlast ekki heldur til þess af okkur. Satt að segja mun Guð bráðlega „knosa og að engu gjöra öll þessi ríki“ og láta í stað þeirra koma sína eigin réttlátu stjórn. (Daníel 2:44) En uns það gerist þjóna yfirboðnu valdstéttirnar nytsömum tilgangi.
10 Páll útskýrði málið nánar: „Sá sem veitir yfirvöldunum mótstöðu, hann veitir Guðs tilskipun mótstöðu.“ (Rómverjabréfið 13:2) Yfirboðnu valdstéttirnar eru „tilskipun“ Guðs á þann hátt að þær viðhalda vissri reglu, en án hennar myndi ríkja ringulreið og stjórnleysi. Mótstaða við þær væri óbiblíuleg og út í hött. Tökum dæmi: Ímyndaðu þér að þú hefðir verið skorinn upp og saumar héldu sárinu saman. Þó að saumarnir séu aðskotahlutur í líkamanum þjóna þeir sínum tilgangi í takmarkaðan tíma. Það gæti verið skaðlegt að fjarlægja þá of snemma. Á sama hátt voru stjórnvöld manna ekki hluti af upprunalegri fyrirætlun Guðs. En þangað til ríki hans fer með algera stjórn yfir jörðinni halda ríkisstjórnir manna samfélaginu saman, sinna hlutverki sem fellur að vilja Guðs nú um stundir. Við ættum því að halda áfram að vera yfirboðnum valdstéttum undirgefin en láta jafnframt hlýðni við lög Guðs og yfirráð hafa forgang í lífi okkar.
YFIRRÁÐ INNAN FJÖLSKYLDUNNAR
11. Hvernig myndir þú útskýra frumregluna um forystu?
11 Fjölskyldan er grundvallareining mannlegs samfélags. Innan hennar geta hjónin notið ánægjulegs félagsskapar hvort annars og þar geta börnin fengið vernd og uppeldi sem býr þau undir fullorðinsárin. (Orðskviðirnir 5:15-21; Efesusbréfið 6:1-4) Göfugt fyrirkomulag sem þetta þarf að skipuleggja á þann veg að meðlimum fjölskyldunnar sé kleift að búa í friði og einingu. Jehóva setti fram frumregluna um forystu til að ná þessu marki. Þessari frumreglu er lýst með orðunum í 1. Korintubréfi 11:3: „Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.“
12, 13. Hver er höfuð fjölskyldunnar og hvað má læra af því hvernig Jesús sinnti forystuhlutverki sínu?
12 Eiginmaðurinn er höfuð fjölskyldunnar. Aftur á móti hefur hann höfuð yfir sér — Jesú Krist. Páll skrifaði: „Þér menn, elskið konur yðar, að sínu leyti eins og Kristur elskaði söfnuðinn og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hann.“ (Efesusbréfið 5:25, Biblían 1912) Eiginmaður endurspeglar undirgefni sína við Krist þegar hann kemur fram við eiginkonu sína á þann hátt sem Jesús hefur alltaf komið fram við söfnuðinn. (1. Jóhannesarbréf 2:6) Jesú hefur verið veitt mikið vald en hann beitir því með hinni mestu mildi, kærleika og sanngirni. (Matteus 20:25-28) Sem maður misnotaði Jesús aldrei það vald sem hann hafði fengið. Hann var „hógvær og af hjarta lítillátur“ og hann kallaði fylgjendur sína „vini“ frekar en „þjóna.“ „Ég mun veita yður hvíld,“ lofaði hann þeim og það gerði hann. — Matteus 11:28, 29; Jóhannes 15:15.
13 Fordæmi Jesú kennir eiginmönnum að kristin forysta er ekki hörð yfirdrottnun. Þess í stað sýnir maðurinn konu sinni virðingu og ósérhlífinn kærleika. Þetta útilokar greinilega að hann misþyrmi maka sínum líkamlega eða í orðum. (Efesusbréfið 4:29, 31, 32; 5:28, 29; Kólossubréfið 3:19) Ef kristinn maður færi að misþyrma konu sinni yrði það góða sem hann gerði einskis virði og bænir hans myndu hindrast. — 1. Korintubréf 13:1-3; 1. Pétursbréf 3:7.
14, 15. Hvernig hjálpar þekkingin á Guði eiginkonu að vera eiginmanni sínum undirgefin?
14 Þegar eiginmaður líkir eftir fordæmi Krists er auðveldara fyrir konuna hans að fara eftir orðunum í Efesusbréfinu 5:22, 23 (Biblían 1912): „Konurnar [veri undirgefnar] eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn. Því að maðurinn er höfuð konunnar, að sínu leyti eins og Kristur er höfuð safnaðarins.“ Alveg eins og eiginmaður á að vera auðsveipur Kristi verður eiginkona að vera undirgefin eiginmanni sínum. Biblían gerir líka alveg ljóst að duglegar eiginkonur verðskulda heiður og lof fyrir hyggni sína og iðjusemi. — Orðskviðirnir 31:10-31.
15 Undirgefni kristinnar eiginkonu við eiginmann sinn er ekki alger. Það þýðir að hún verður að hlýða Guði framar en eiginmanni sínum ef undirgefni við hann í vissu máli gengur gegn lögum Guðs. En jafnvel þá ætti ‚hógvær og kyrrlátur andi‘ eiginkonunnar að milda hina staðföstu afstöðu hennar. Það ætti ekki að fara á milli mála að þekkingin á Guði hefur gert hana að betri eiginkonu. (1. Pétursbréf 3:1-4) Sama gildir um kristinn karlmann sem á konu sem ekki er í trúnni. Ef hann fer eftir meginreglum Biblíunnar ætti það að gera hann að betri eiginmanni.
16. Hvernig geta börn líkt eftir fordæminu sem Jesús gaf þegar hann var unglingur?
16 Efesusbréfið 6:1 lýsir í stórum dráttum því sem ætlast er til af börnum: „Hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt.“ Kristin börn fylgja fordæmi Jesú sem hélt áfram að vera undirgefinn foreldrum sínum á uppvaxtarárunum. Sem hlýðinn drengur „þroskaðist [hann] að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum.“ — Lúkas 2:51, 52.
17. Hvaða áhrif getur það hvernig foreldrarnir beita yfirráðum sínum haft á börnin?
17 Hvernig foreldrunum tekst að axla ábyrgðina sem á þeim hvílir getur haft áhrif á það hvort börnin þeirra muni virða yfirvald eða rísa upp gegn því. (Orðskviðirnir 22:6) Foreldrar skyldu því spyrja sjálfa sig: ‚Beitum við yfirráðum okkar á kærleiksríkan hátt eða hörkulega? Erum við undanlátssöm?‘ Ætlast er til að guðræknir foreldrar séu kærleiksríkir og tillitssamir en haldi sér þó fast við frumreglur Guðs. Orð Páls eiga vel við: „Feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ — Efesusbréfið 6:4; Kólossubréfið 3:21.
18. Hvernig ættu foreldrar að beita aga við uppeldi barna sinna?
18 Foreldrar ættu að grandskoða uppeldisaðferðir sínar, einkum ef þeir vilja að börnin sín séu hlýðin og færi þeim þar af leiðandi gleði. (Orðskviðirnir 23:24, 25) Þegar Biblían talar um aga er einkum átt við fræðslu og leiðsögn. (Orðskviðirnir 4:1; 8:33) Agi tengist kærleika og mildi en ekki reiði og hrottaskap. Af þessum ástæðum þurfa kristnir foreldrar að breyta viturlega og hafa taumhald á sér þegar þeir aga börnin sín. — Orðskviðirnir 1:7.
YFIRRÁÐ Í SÖFNUÐINUM
19. Hvernig hefur Guð séð fyrir góðri reglu í kristna söfnuðinum?
19 Þar sem röð og regla ríkir hjá Jehóva Guði liggur það í hlutarins eðli að hann sjái fólki sínu fyrir traustri og vel skipulagðri forystu. Hann hefur þess vegna skipað Jesú höfuð kristna safnaðarins. (1. Korintubréf 14:33, 40; Efesusbréfið 1:20-23, Biblían 1912) Guð hefur komið á fót fyrirkomulagi þar sem útnefndir öldungar í hverjum söfnuði gæta hjarðarinnar af áhuga, fúsu geði og af kærleika, undir ósýnilegri forystu Krists. (1. Pétursbréf 5:2, 3) Safnaðarþjónar aðstoða þá á ýmsa vegu og leggja fram verðmæta þjónustu innan safnaðarins. — Filippíbréfið 1:1.
20. Hvers vegna ættum við að sýna útnefndum kristnum öldungum undirgefni og hvers vegna er það gagnlegt?
20 Páll skrifaði um kristna öldunga: „Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.“ (Hebreabréfið 13:17) Guð hefur af visku sinni falið kristnum umsjónarmönnum það ábyrgðarhlutverk að sjá um andlegar þarfir þeirra sem í söfnuðinum eru. Þessir öldungar mynda ekki klerkastétt. Þeir eru þjónar og þrælar Guðs og sinna þörfum trúbræðra sinna, rétt eins og meistari okkar, Jesús Kristur, gerði. (Jóhannes 10:14, 15) Þegar við vitum að mönnum, sem uppfylla hæfniskröfur Biblíunnar, er annt um framfarir okkar og andlegan vöxt hvetur það okkur til að vera samvinnufús og undirgefin. — 1. Korintubréf 16:16.
21. Hvernig leitast útnefndir öldungar við að hjálpa trúbræðrum sínum andlega?
21 Stundum kemur kannski fyrir að „sauður“ villist frá hjörðinni eða skaðleg, veraldleg öfl stofna honum í hættu. Undir forystu yfirhirðisins, Krists, eru öldungarnir sem undirhirðar vakandi fyrir þörfum þeirra sem þeir hafa umsjón með og eru iðnir við að veita þeim persónulega umönnun. (1. Pétursbréf 5:4) Þeir heimsækja meðlimi safnaðarins og mæla uppörvunarorð til þeirra. Öldungar vita að djöfullinn leitast við að trufla friðinn hjá fólki Guðs og þeir beita spekinni, sem að ofan er, þegar þeir fást við vandamál. (Jakobsbréfið 3:17, 18) Þeir vinna kappsamlega að því að viðhalda samhug og einingu í trúnni, og það er nokkuð sem Jesús sjálfur bað til Guðs um. — Jóhannes 17:20-22; 1. Korintubréf 1:10.
22. Hvaða hjálp veita öldungarnir þegar um rangsleitni er að ræða?
22 Hvað er hægt að gera ef eitthvað illt þjakar kristinn mann eða hann verður niðurdreginn vegna þess að hann drýgði synd? Græðandi ráðleggingar Biblíunnar og innilegar bænir öldunganna í hans þágu geta komið að liði við að gera hann andlega heilan á ný. (Jakobsbréfið 5:13-15) Þessir menn, sem heilagur andi hefur útnefnt, hafa líka vald til að beita aga og ávíta hvern þann sem ástundar rangsleitni eða þann sem er hættulegur andlegum og siðferðilegum hreinleika safnaðarins. (Postulasagan 20:28; Títusarbréfið 1:9; 2:15) Til þess að halda söfnuðinum hreinum getur reynst nauðsynlegt að þeir sem fengið hafa vitneskju um alvarlega misgerð skýri frá henni. (3. Mósebók 5:1) Ef kristinn maður, sem hefur drýgt alvarlega synd, þiggur biblíulegan aga og ávítur og sýnir merki um einlæga iðrun mun hann fá hjálp. Þeim sem þrálátlega og iðrunarlaust brjóta lög Guðs er að sjálfsögðu vikið úr söfnuðinum. — 1. Korintubréf 5:9-13.
23. Hvað hafa kristnir umsjónarmenn fram að færa söfnuðinum til góðs?
23 Biblían spáði að þegar Jesús Kristur ríkti sem konungur yrðu andlega þroskaðir menn útnefndir til að veita fólki Guðs hughreystingu, vernd og endurnæringu. (Jesaja 32:1, 2) Þeir tækju forystuna sem boðberar fagnaðarerindisins, hirðar og kennarar til þess að hlúa að andlegum vexti. (Efesusbréfið 4:11, 12, 16) Þó að kristnir umsjónarmenn kunni af og til að vanda um við, ávíta og áminna í einlægni trúbræður sína er heilnæm kennsla þessara öldunga, sem grundvallast á orði Guðs, til þess fallin að hjálpa öllum sem taka hana til sín að halda sér á veginum til lífsins. — Orðskviðirnir 3:11, 12; 6:23; Títusarbréfið 2:1.
VIÐURKENNDU VIÐHORF JEHÓVA TIL YFIRRÁÐA
24. Á hvað reynir hjá okkur daglega?
24 Látið var reyna á viðhorf fyrsta mannsins og fyrstu konunnar til undirgefni við yfirráð annarra. Það kemur ekki á óvart að við erum reynd á svipaðan hátt nú á tímum. Satan djöfullinn hefur kynt undir uppreisnaranda hjá mannkyninu. (Efesusbréfið 2:2) Látið er í veðri vaka að það sé margfalt eftirsóknarverðara að sýna sjálfstæði á öllum sviðum en að vera undirgefinn.
25. Hvaða blessun fylgir því að hafna uppreisnaranda heimsins og lúta yfirráðum Guðs og hinna ‚yfirboðnu valdstétta‘ sem hann leyfir að vera til?
25 Við verðum hins vegar að hafna uppreisnaranda heimsins. Þegar við gerum það finnum við að guðrækileg undirgefni færir ríkulega umbun. Við komumst til dæmis hjá þeim kvíða og vonbrigðum sem algeng eru meðal þeirra sem bjóða heim árekstrum við veraldleg yfirvöld. Við drögum úr því ósamlyndi sem er svo algengt í mörgum fjölskyldum. Og við njótum blessunar hlýlegs, kærleiksríks félagsskapar við kristna trúbræður okkar. Fremst af öllu mun guðrækileg undirgefni okkar leiða af sér gott samband við Jehóva, æðsta yfirvaldið sem til er.
REYNDU ÞEKKINGU ÞÍNA
Hvernig beitir Jehóva yfirráðum sínum?
Hverjar eru hinar ‚yfirboðnu valdstéttir‘ og hvernig sýnum við þeim undirgefni?
Hvaða ábyrgð leggur meginreglan um forystu á herðar hvers meðlims fjölskyldunnar?
Hvernig getum við sýnt undirgefni í kristna söfnuðinum?
[Rammi á blaðsíðu 134]
UNDIRGEFNIR Í STAÐ ÞESS AÐ GRAFA UNDAN
Með boðunarstarfi sínu meðal almennings benda vottar Jehóva á Guðsríki sem einu von mannkynsins um sannan frið og öryggi. En þessir kappsömu boðendur Guðsríkis grafa engan veginn undan stjórnvöldum þar sem þeir búa. Þvert á móti eru vottarnir þeir þegnar sem sýna yfirvöldum hvað mesta virðingu og löghlýðni. „Ef allir trúarhópar væru eins og vottar Jehóva,“ sagði opinber embættismaður í Afríkuríki, „væru engir morðingjar, innbrot, misferli, fangar né kjarnorkusprengjur. Dyr yrðu ekki hafðar læstar daginn út og daginn inn.“
Embættismenn margra landa hafa gert sér þetta ljóst og leyft vottunum að prédika hindrunarlaust. Í öðrum löndum hefur banni og hömlum verið aflétt þegar augu stjórnvalda opnuðust fyrir því að áhrif votta Jehóva eru til góðs. Það kemur heim og saman við það sem Páll postuli skrifaði um hlýðni við yfirboðnu valdstéttirnar: „Gjör það sem gott er, og muntu fá lofstír af þeim.“ — Rómverjabréfið 13:1, 3.