13. kafli
Hvernig getur þú fundið hina sönnu trú?
Eru öll trúarbrögð Guði þóknanleg eða aðeins ein? (1)
Hvers vegna segjast svona margir trúflokkar vera kristnir? (2)
Hvernig getur þú borið kennsl á sannkristna menn? (3-7)
1. Jesús kom á fót einum sannkristnum söfnuði. Nú á tímum hlýtur þess vegna að vera til aðeins einn söfnuður eða hópur sannra tilbiðjenda Jehóva Guðs. (Jóhannes 4:23, 24; Efesusbréfið 4:4, 5) Biblían segir að einungis fáir finni þrönga veginn til lífsins. — Matteus 7:13, 14.
2. Biblían spáði að eftir dauða postulanna kæmu rangar kenningar og ókristilegir siðir hægt og rólega inn í kristna söfnuðinn. Sumir myndu tæla hina trúuðu til að fylgja sér frekar en Kristi. (Matteus 7:15, 21-23; Postulasagan 20:29, 30) Það er ástæðan fyrir því að til eru svona margir trúflokkar sem segjast vera kristnir. Hvernig getum við borið kennsl á sannkristna menn?
3. Það sem framar öllu öðru einkennir sannkristna menn er að þeir bera ósvikna elsku hver til annars. (Jóhannes 13:34, 35) Þeim er ekki kennt að halda að þeir séu betri en fólk af öðrum kynþáttum eða litarhætti. Þeim er ekki heldur kennt að hata fólk frá öðrum löndum. (Postulasagan 10:34, 35) Þeir taka því ekki þátt í styrjöldum. Sannkristnir menn umgangast hver annan eins og bræður og systur. — 1. Jóhannesarbréf 4:20, 21.
4. Annað einkenni sannrar trúar er það að þeir sem aðhyllast hana bera mikla virðingu fyrir Biblíunni. Þeir viðurkenna Biblíuna sem orð Guðs og trúa því sem hún segir. (Jóhannes 17:17; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Í þeirra augum er orð Guðs mikilvægara en hugmyndir manna eða siðvenjur. (Matteus 15:1-3, 7-9) Þeir reyna að fylgja Biblíunni í daglegu lífi sínu. Þeir prédika því ekki eitt og gera annað. — Títusarbréfið 1:15, 16.
5. Sönn trú verður líka að heiðra nafn Guðs. (Matteus 6:9) Jesús gerði nafn Guðs, Jehóva, kunnugt. Sannkristnir menn verða að gera það sama. (Jóhannes 17:6, 26; Rómverjabréfið 10:13, 14) Hvaða fólk í þínu samfélagi segir öðrum frá nafni Guðs?
6. Sannkristnir menn verða að prédika Guðsríki. Jesús gerði það. Hann var alltaf að tala um Guðsríki. (Lúkas 8:1) Hann bauð lærisveinum sínum að prédika þennan sama boðskap um Guðsríki út um alla jörðina. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Sannkristnir menn trúa að ekkert nema Guðsríki muni færa þessari jörð sannan frið og öryggi. — Sálmur 146:3-5.
7. Lærisveinar Jesú mega ekki vera hluti af þessum illa heimi. (Jóhannes 17:16) Þeir blanda sér ekki í stjórnmál heimsins eða félagsleg ágreiningsmál. Þeir forðast þá skaðlegu hegðun, siði og viðhorf sem eru svo almenn í heiminum. (Jakobsbréfið 1:27; 4:4) Getur þú komið auga á trúflokk í þínu samfélagi sem hefur þessi einkenni sannrar kristni?
[Myndir á blaðsíðu 27]
Sannkristnir menn elska hver annan, virða Biblíuna og prédika Guðsríki.