Stattu ekki í stað — vertu framsækinn
UM LEIÐ og þú byrjaðir að tileinka þér meginreglur Biblíunnar fórstu smám saman að breyta rótgrónum hugsunarhætti, hegðun og málfari. Þú varst búinn að breyta mörgu áður en þú skráðir þig í Boðunarskólann. Líklega ertu búinn að vígjast Jehóva Guði núna. Geturðu þá hætt að hugsa um framfarir og þroska? Nei, alls ekki. Skírnin er aðeins upphafið.
Lærisveinninn Tímóteus var orðinn kristinn öldungur þegar Páll hvatti hann til að „stunda“ bæði það sem honum hafði verið kennt og þá þjónustu sem honum var trúað fyrir. Hann átti að ‚vera allur í þessu til að framför hans yrði öllum augljós.‘ (1. Tím. 4:12-15) Þú þarft að vera framsækinn hvort sem þú ert nýbyrjaður að ganga á vegi sannleikans eða hefur gert það lengi.
Þekking og breyting
Í Efesusbréfinu 3:14-19 segist Páll hafa beðið þess að trúbræður hans fengju skilið hve sannleikurinn er víður og langur, hár og djúpur. Jesús gaf því gjafir í mönnum til að kenna söfnuðinum, leiðrétta hann og uppbyggja. Við stuðlum að andlegum vexti okkar með því að hugleiða innblásið orð Guðs reglulega og þiggja leiðsögn reyndra kennara. — Ef. 4:11-15.
Þessi vöxtur felst meðal annars í því að „endurnýjast í anda og hugsun,“ það er að segja að þroska hugarfar sitt þannig að maður vilji umfram allt líkjast Guði og Kristi. Til að geta íklæðst nýja persónuleikanum þurfum við að láta hugsunarhátt þeirra hafa stöðug áhrif á okkur. (Ef. 4:23, 24) Líturðu á ævisögu Krists í guðspjöllunum sem fyrirmynd til eftirbreytni? Reynirðu að koma auga á ákveðin einkenni í fari Jesú og leggurðu þig síðan fram um að líkja eftir þeim? — 1. Pét. 2:21.
Það sem þú fitjar upp á í umræðum við aðra getur gefið vísbendingu um framfarir þínar. Þeir sem hafa íklæðst nýja persónuleikanum eru ekki lastmálir, blekkjandi, klúrir eða neikvæðir í tali heldur tala það „sem er gott til uppbyggingar . . . til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.“ (Ef. 4:25, 26, 29, 31; 5:3, 4; Júd. 16) Ummæli þeirra og orðfæri, bæði í einkasamtölum og á safnaðarsamkomum, bera vitni um að sannleikurinn sé að breyta þeim.
Það er líka framfaramerki að ‚hrekjast ekki lengur né berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi.‘ (Ef. 4:14) Hvernig bregstu til dæmis við þegar heimurinn dembir yfir þig nýjum hugmyndum og skemmtitækifærum eða heldur á loft nýjum baráttumálum? Freistastu þá til að klípa af þeim tíma sem ætlaður er hinum andlegu skuldbindingum til að geta sinnt einhverju af þessu nýja? Það gæti tálmað þér að taka andlegum framförum. Það er miklu skynsamlegra að skapa andlegu hugðarefnunum aukið svigrúm. — Ef. 5:15, 16.
Framkoma þín við aðra getur líka gefið vissar vísbendingar um andlegar framfarir. Hefurðu til dæmis lært að vera ‚miskunnsamur og fús til að fyrirgefa‘ bræðrum þínum og systrum? — Ef. 4:32.
Þú ættir að sýna þess merki, bæði í söfnuðinum og heima fyrir, að þú takir Jehóva til fyrirmyndar og líkir betur og betur eftir honum. Það ætti að sjást í skólanum, á almannafæri og á vinnustað. (Ef. 5:21–6:9) Ef þér hefur farið fram í guðrækni og góðum siðum við alls konar aðstæður, þá er framför þín augljós.
Notaðu hæfileika þína
Jehóva hefur trúað okkur öllum fyrir vissum gáfum og hæfileikum sem hann ætlast til að við notum öðrum til góðs. Þannig getur hann notað okkur til að birta óverðskuldaða gæsku sína. Þess vegna skrifaði Pétur postuli: „Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.“ (1. Pét. 4:10) Hvernig rækirðu ráðsmennsku þína?
Pétur heldur áfram: „Sá sem talar flytji Guðs orð.“ (1. Pét. 4:11) Þetta vers leggur áherslu á þá ábyrgð að tala í fullkomnu samræmi við orð Guðs þannig að við vegsömum hann. Við ættum líka að vegsama Guð með því hvernig við tölum. Þjálfun og kennsla í Boðunarskólanum getur hjálpað þér að nota hæfileika þína til að vegsama Guð með því að aðstoða aðra. En hvernig geturðu metið framfarir þínar í skólanum?
Í stað þess að telja hve mörg stig þú hefur farið yfir á ráðleggingasíðunum eða horfa til þess hvers konar verkefni þú hefur fengið ættirðu að velta fyrir þér hversu mikið skólinn hefur bætt lofgerðarfórnir þínar. Skólinn þjálfar þig fyrir boðunarstarfið þannig að þú ættir að spyrja þig: ‚Undirbý ég vel það sem ég ætla að segja í boðunarstarfinu? Hef ég lært að sýna þeim, sem ég vitna fyrir, persónulegan áhuga? Legg ég drög að endurheimsókn með því að láta spurningu ósvarað til að ræða næst? Legg ég mig fram um að bæta kennsluna svo að ég nái að snerta hjörtu biblíunemenda minna?‘
Þú ættir ekki einfaldlega að meta framför þína eftir þeim þjónustusérréttindum sem þú færð. Framförin mælist ekki í því hvaða verkefni þú færð heldur því hvernig þú leysir þau af hendi. Ef þú færð verkefni þar sem þú átt að kenna ættirðu að spyrja þig: ‚Beitti ég góðri kennslutækni? Fór ég þannig með efnið að áheyrendur noti það eða fari eftir því?‘
Að nota hæfileika sína snýst einnig um frumkvæði. Áttu frumkvæðið að því að fara með öðrum út í boðunarstarfið? Leitarðu færis að hjálpa ungum, nýjum eða öldruðum einstaklingum í söfnuðinum? Býðurðu þig fram til að ræsta ríkissalinn eða aðstoða með ýmsum hætti á mótunum? Geturðu verið aðstoðarbrautryðjandi af og til? Geturðu þjónað sem reglulegur brautryðjandi eða aðstoðað í söfnuði þar sem þörfin er meiri? Bræður geta spurt sig hvort þeir sækist eftir því að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til safnaðarþjóna og öldunga. Viljinn til að bjóða fram aðstoð og axla ábyrgð er framfaramerki. — Sálm. 110:3.
Hlutverk reynslunnar
Misstu ekki kjarkinn þó að þér finnist reynsluleysi á vegi kristninnar hamla þér. Orð Guðs getur gert „hinn fávísa [eða reynslulitla] vitran.“ (Sálm. 19:8; 119:130; Orðskv. 1:1-4) Með því að fara eftir ráðum Biblíunnar getum við notið góðs af hinni fullkomnu visku Jehóva sem er verðmætari en nokkur reynsluþekking ein sér. En auðvitað öflum við okkur dýrmætrar reynslu jafnhliða þeim framförum sem við tökum í þjónustunni við Jehóva. Hvernig getum við notfært okkur hana?
Lífsreyndur maður gæti freistast til að hugsa með sér: ‚Ég hef lent í þessari aðstöðu áður. Ég veit hvað ég á að gera.‘ Væri þetta viturleg afstaða? „Þú skalt ekki þykjast vitur,“ aðvara Orðskviðirnir 3:7. Reynslan ætti auðvitað að opna augu okkar fyrir mörgu sem taka má mið af við okkar aðstæður. En ef við tökum andlegum framförum ætti reynslan líka að vekja okkur til vitundar um það að farsæld okkar er háð blessun Jehóva. Framförin birtist sem sagt ekki í sjálfsöryggi heldur því að vera fljót til að leita leiðsagnar Jehóva um það sem að höndum ber. Hún birtist í því að treysta að ekkert geti gerst nema himneskur faðir okkar leyfi það og í því að viðhalda þessu trausti ásamt innilegu sambandi við hann.
‚Seilstu eftir því sem framundan er‘
Páll postuli var andlega þroskaður smurður kristinn maður, en hann vissi að hann þurfti engu að síður að ‚seilast eftir‘ lífinu sem var takmark hans. (Fil. 3:13-16) Hugsar þú líkt og hann?
Hvaða framförum hefurðu tekið? Mældu þær eftir því hve vel þú hefur íklæðst nýja persónuleikanum, hve fullkomlega þú hefur beygt þig undir drottinvald Jehóva og hvernig þú leggur þig fram um að nota hæfileika þína til að heiðra hann. Boðunarskólinn ætti að stuðla að því að þeir eiginleikar, sem orð Guðs leggur áherslu á, birtist jafnt og þétt í máli þínu og kennslu. Hafðu þessi vaxtarmarkmið í huga — þá verður framför þín augljós.