2. kafli
Miklum Jehóva, hinn eina sanna Guð
1. Hver er hinn eini sanni Guð?
Í BIBLÍUNNI segir að þótt margir séu álitnir guðir „þá höfum vér ekki nema einn Guð, föðurinn“. (1. Korintubréf 8:5, 6) Þessi ‚eini Guð‘ er Jehóva, skapari allra hluta. (5. Mósebók 6:4; Opinberunarbókin 4:11) Jesús kallaði hann ‚Guð sinn og Guð yðar‘. (Jóhannes 20:17) Hann tók undir með Móse sem sagði endur fyrir löngu: „Drottinn [Jehóva], hann er Guð, og enginn nema hann einn.“ (5. Mósebók 4:35) Jehóva er óendanlega æðri öllu sem menn tilbiðja, hvort sem það eru skurðgoð, átrúnaðargoð úr hópi manna eða óvinur hans, Satan djöfullinn sem er „guð þessarar aldar“. (2. Korintubréf 4:3, 4) Ólíkt þeim öllum er Jehóva ‚hinn eini sanni Guð‘ eins og Jesús sagði. — Jóhannes 17:3.
2. Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur að kynnast Guði?
2 Þakklátir menn laðast að Jehóva þegar þeir kynnast eiginleikum hans og komast að raun um hvað hann hefur gert fyrir þá og á eftir að gera. Með vaxandi kærleika til Jehóva fer þá að langa til að mikla hann. Hvernig? Meðal annars með því að segja öðrum frá honum. „Með munninum [er] játað til hjálpræðis,“ segir í Rómverjabréfinu 10:10. Sömuleiðis er hægt að mikla hann með því að líkja eftir honum í orði og verki. „Verðið . . . eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans,“ segir í Efesusbréfinu 5:1. Við þurfum að kynnast Jehóva sem persónu til að gera það sem best.
3. Nefndu helstu eiginleika Guðs.
3 Eiginleikar Guðs eru nefndir víða í Biblíunni. Höfuðeiginleikar hans eru viska, réttlæti, máttur og kærleikur. „Hjá Guði er speki.“ (Jobsbók 12:13) „Allir vegir hans eru réttlæti.“ (5. Mósebók 32:4) „Hann er voldugur að afli.“ (Jesaja 40:26) „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) En hver af þessum fjórum höfuðeiginleikum Guðs sker sig úr? Hvaða eiginleiki sýnir best hvers konar Guð hann er?
„Guð er kærleikur“
4. Hvaða eiginleiki Guðs var hvötin að baki því að hann skapaði alheiminn og allt sem lifir?
4 Hvað fékk Jehóva til að skapa alheiminn og vitibornar andaverur og menn? Var það viska hans eða máttur? Nei, Guð beitti vissulega þessum eiginleikum en þeir voru ekki hvötin sem lá að baki. Og réttlæti hans gerði ekki þá kröfu að hann gæfi öðrum líf. Það var kærleikur Guðs sem var honum hvöt til að veita öðrum hlutdeild í gleðinni sem fylgir vitsmunalífi. Það var kærleikur hans sem olli því að hann ákvað að hlýðnir menn ættu að lifa að eilífu í paradís. (1. Mósebók 1:28; 2:15) Og það var kærleikur hans sem var hvötin að baki því að hann aflétti þeirri fordæmingu sem synd Adams leiddi yfir mannkynið.
5. Hvaða eiginleiki Jehóva skarar fram úr að sögn Biblíunnar og hvers vegna?
5 Af öllum eiginleikum Guðs er það kærleikurinn sem skarar fram úr. Kærleikurinn er eðli hans og upplag. Viskan, réttlætið og mátturinn eru vissulega mikilvægir eiginleikar en það stendur samt hvergi í Biblíunni að Jehóva sé eitthvað af þessu. Hins vegar segir hún að hann sé kærleikur. Hann er persónugervingur kærleikans. Þetta er kærleikur sem stjórnast af meginreglum en ekki tilfinningum. Kærleikur Guðs byggist á sannleika og réttlæti. Þetta er æðsta mynd kærleikans og Jehóva er sjálfur skýrasta dæmi hans. Þessi kærleikur er fullkomlega óeigingjarn og birtist alltaf greinilega í verkum.
6. Hvað gerir okkur kleift að líkja eftir Guði enda þótt hann sé okkur miklu æðri?
6 Það er þessi unaðslegi eiginleiki, kærleikurinn, sem gerir okkur kleift að líkja eftir Guði. Við hugsum kannski sem svo að það hljóti að vera ógerlegt af því að við erum svo smá og ófullkomin og okkur er villugjarnt. En kærleikur Jehóva birtist einnig með þeim hætti að hann skilur takmörk okkar og krefst ekki fullkomleika af okkur. Hann veit að það vantar mikið upp á að við séum fullkomin. (Sálmur 51:7) Þess vegna segir í Sálmi 130:3, 4: „Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist? En hjá þér er fyrirgefning.“ Já, Jehóva er „miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur“. (2. Mósebók 34:6) „Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa.“ (Sálmur 86:5) Er þetta ekki hughreystandi? Er ekki uppörvandi að mega þjóna slíkum Guði og fá að njóta umhyggju hans, miskunnar og ástar?
7. Hvernig birtist kærleikur Jehóva í sköpunarverkinu?
7 Sköpunarverkið vitnar einnig um kærleika Jehóva. Hugsaðu þér öll þau gæði sem hann hefur látið í té okkur til ánægju, svo sem tignarleg fjöll og skóga, og fögur vötn og höf. Hann hefur gefið okkur ótrúlega fjölbreytta fæðu, bæði til að viðhalda lífi okkar og gleðja bragðlaukana. Hann hefur sömuleiðis skapað gríðarlegt úrval fallegra og ilmandi blóma og dýraríkið í allri sinni fjölbreytni. Hann skapaði margt manninum til yndisauka þó að það væri ekki nauðsynlegt. Við getum að vísu ekki notið sköpunarverksins til fullnustu þar sem við búum í illum heimi og erum harla ófullkomin. (Rómverjabréfið 8:22) En hugsaðu þér hvað Jehóva á eftir að gera fyrir okkur í paradís! Sálmaritarinn ávarpar hann og segir: „Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ — Sálmur 145:16.
8. Hvert er mesta kærleiksverkið sem Jehóva vann í okkar þágu?
8 Hvert er mesta kærleiksverkið sem Jehóva vann í þágu mannkyns? Biblían svarar: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Gerði Jehóva þetta af því að mennirnir væru svo góðir? Rómverjabréfið 5:8 svarar því og segir: „Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.“ Já, Jehóva sendi fullkominn son sinn til jarðar til að gefa líf sitt sem lausnargjald og leysa okkur undan fordæmingu syndar og dauða. (Matteus 20:28) Þannig bauðst þeim sem elska Guð tækifæri til að hljóta eilíft líf. Til allrar hamingju nær kærleikur Guðs til allra sem langar til að gera vilja hans því að Biblían segir: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ — Postulasagan 10:34, 35.
9. Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur að Jehóva skuli hafa gefið son sinn sem lausnargjald?
9 Hvernig ættum við að nota líf okkar fyrst Jehóva gaf son sinn sem lausnargjald þannig að við getum hlotið eilíft líf? Við ættum að elska Jehóva enn heitar. Og okkur ætti jafnframt að langa til að hlýða á Jesú sem er ímynd Guðs. „[Jesús] er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn.“ (2. Korintubréf 5:15) Það er einkar ánægjulegt að mega feta í fótspor Jesú því að hann líkti öðrum fremur eftir kærleika og umhyggju Jehóva. Þetta má sjá af orðum Jesú til auðmjúkra manna: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ — Matteus 11:28-30.
Að sýna öðrum kærleika
10. Hvernig getum við sýnt trúsystkinum okkar kærleika?
10 Hvernig getum við sýnt að við berum sams konar kærleika til trúsystkina okkar og Jehóva og Jesús bera til okkar? Við getum gert það með ýmsum hætti. „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“ — 1. Korintubréf 13:4-8; 1. Jóhannesarbréf 3:14-18; 4:7-12.
11. Hverjum ættum við að sýna kærleika auk trúsystkina okkar, og hvernig?
11 Hverjum ættum við að sýna kærleika auk trúsystkina okkar? Hvernig eigum við að gera það? Jesús sagði: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Þetta felur í sér að boða þeim sem eru ekki vottar Jehóva fagnaðarerindið um paradís í nýjum heimi. Orð Jesú bera greinilega með sér að kærleikur okkar ætti ekki að einskorðast við þá sem eru sömu trúar og við því að hann sagði: „Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það, þótt þér heilsið bræðrum yðar einum. Gjöra heiðnir menn ekki hið sama?“ — Matteus 5:46, 47; 24:14; Galatabréfið 6:10.
Göngum í nafni Jehóva
12. Af hverju getur enginn nema Guð borið nafnið Jehóva?
12 Annar mikilvægur þáttur þess að mikla hinn sanna Guð er fólginn í því að þekkja hið einstaka nafn hans, Jehóva, nota það og kenna það öðrum. Sálmaskáldið lýsti einlægri löngun sinni með þessum orðum: „Að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Drottinn [„Jehóva“, New World Translation], Hinn hæsti yfir allri jörðunni.“ (Sálmur 83:19) Nafnið Jehóva merkir „hann lætur verða“. Hann framkvæmir alltaf það sem hann hefur ákveðið. Og enginn nema hinn sanni Guð getur borið þetta nafn með réttu því að mennirnir geta aldrei verið öruggir um að þeim takist það sem þeir ætla sér. (Jakobsbréfið 4:13, 14) Jehóva einn getur sagt að orð sitt ‚komi því til vegar er hann fól því að framkvæma‘. (Jesaja 55:11) Margir eru snortnir þegar þeir sjá nafn Guðs í biblíunni sinni í fyrsta sinn og komast að raun um hvað það merkir. (2. Mósebók 6:3, neðanmáls) En þessi vitneskja kemur þeim því aðeins að gagni að þeir ‚gangi í nafni Drottins [„Jehóva“, New World Translation], æ og ævinlega‘. — Míka 4:5.
13. Hvað er fólgið í því að þekkja nafn Jehóva og ganga í nafni hans?
13 Í Sálmi 9:11 segir um nafn Guðs: „Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér.“ Nú er ekki sjálfgefið að við treystum á Jehóva þó að við vitum hvað hann heitir. Að þekkja nafn Guðs merkir að gera sér grein fyrir því hvers konar Guð hann er, virða vald hans, hlýða boðum hans og treysta honum í einu og öllu. (Orðskviðirnir 3:5, 6) Að ganga í nafni Jehóva merkir að vera vígður honum, vera fulltrúi hans og tilbiðjandi og nota líf sitt að öllu leyti í samræmi við vilja hans. (Lúkas 10:27) Gerirðu það?
14. Hvað annað en skyldurækni er nauðsynlegt til að þjóna Jehóva að eilífu?
14 Ef við ætlum að þjóna Jehóva að eilífu er ekki nóg að þjóna honum af skyldurækni einni saman. Páll postuli sagði Tímóteusi sem hafði þjónað Jehóva árum saman: „Æf sjálfan þig í guðrækni.“ (1. Tímóteusarbréf 4:7, Biblían 2007 ) Guðrækni er sprottin af innilegu þakklæti til Jehóva Guðs. Hún lýsir djúpri lotningu fyrir honum sem persónu. Hún birtist í ást og tryggð við hann og á rætur sínar að rekja til þess að við höfum miklar mætur á honum og vilja hans. Hún hefur þau áhrif að við viljum að allir hafi nafn hans í hávegum. Við verðum að temja okkur guðrækni til að geta gengið að eilífu í nafni Jehóva, hins eina sanna Guðs. — Sálmur 37:4; 2. Pétursbréf 3:11.
15. Hvernig getum við veitt Guði óskipta hollustu?
15 Til að þjóna Guði á velþóknanlegan hátt verður tilbeiðsla okkar að vera heilshugar vegna þess að hann er „Guð sem krefst óskiptrar hollustu“. (2. Mósebók 20:5, New World Translation) Við getum ekki elskað Guð og samtímis elskað hinn illa heim sem á sér Satan að guði. (Jakobsbréfið 4:4; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Jehóva veit nákvæmlega hvers konar manneskjur við erum að reyna að vera. (Jeremía 17:10) Ef við elskum réttlætið tekur hann eftir því og hjálpar okkur að standast daglegar prófraunir. Hann styður okkur með máttugum anda sínum þannig að við getum sigrast á illskunni sem er svo útbreidd í heiminum. (2. Korintubréf 4:7) Hann hjálpar okkur sömuleiðis að varðveita sterka von um eilíft líf í paradís á jörð. Hvílík framtíðarvon! Við ættum að vera innilega þakklát fyrir vonina um eilífa lífið og þjóna fúslega Jehóva Guði sem lætur hana rætast.
16. Hvað ætti þig að langa til að gera?
16 Milljónir manna um heim allan hafa með ánægju þegið boð sálmaskáldsins sem orti: „Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.“ (Sálmur 34:4) Jehóva býður þér að tilheyra sívaxandi hópi manna meðal allra þjóða sem fara eftir þessu.
Til upprifjunar
• Hvers konar persóna er Jehóva? Hvernig er það okkur til góðs að hafa glöggan skilning á eiginleikum hans?
• Hvernig getum við hjálpað öðrum að þekkja sannleikann um Guð?
• Hvað er fólgið í því að þekkja nafn Jehóva og ganga í nafni hans?
[Mynd á blaðsíðu 14]
Í kærleika sínum ‚lýkur Jehóva upp hendi sinni og seður allt sem lifir með blessun‘.