15. KAFLI
„Jesús kenndi í brjósti um þá“
1–3. (a) Hvernig bregst Jesús við þegar tveir blindir betlarar sárbæna hann að hjálpa sér? (b) Hvað merkir orðasambandið ‚kenna í brjósti um‘? (Sjá neðanmálsgrein.)
TVEIR blindir menn sitja við veginn rétt utan við Jeríkó. Þeir koma þangað daglega, velja sér stað þar sem líklegt er að margir eigi leið hjá og biðja vegfarendur um ölmusu. En í þetta sinn eiga þeir breytingu í vændum sem á eftir að hafa stórkostleg áhrif á líf þeirra.
2 Skyndilega heyra þeir að eitthvað er um að vera. Þar sem þeir sjá ekki hvað er á seyði spyr annar þeirra hvað þessi ys og þys eigi að þýða. „Honum var sagt: ‚Jesús frá Nasaret á leið hjá.‘“ Jesús er á leið til Jerúsalem í síðasta sinn. En hann er ekki einn á ferð heldur fylgir honum mikill fjöldi fólks. Þegar betlararnir heyra hver það er sem fer þar um valda þeir nokkru uppnámi með því að hrópa: „Drottinn sonur Davíðs, miskunnaðu okkur!“ Fólkið hastar gremjulega á mennina en þeir láta ekki þagga niður í sér. Þeir halda áfram að hrópa í örvæntingu.
3 Jesús heyrir köll þeirra gegnum hávaðann í mannfjöldanum. Hvað gerir hann? Það er margt sem hvílir á huga hans og hjarta þessa stundina. Fram undan er síðasta vikan sem hann er maður hér á jörð. Hann veit að hans bíða þjáningar og grimmilegur dauðdagi í Jerúsalem. En hann leiðir ekki hjá sér áleitin köll mannanna heldur nemur staðar og biður um að komið sé með þá til sín. „Drottinn, opnaðu augu okkar,“ biðja þeir. „Jesús kenndi í brjósti um þá,“ snerti augu þeirra og þeir fengu sjónina.a Þeir biðu ekki boðanna heldur fylgdu Jesú þegar í stað. – Lúkas 18:35–43; Matteus 20:29–34.
4. Hvernig uppfyllti Jesús spádóminn um að hann myndi „finna til með bágstöddum“?
4 Þetta var ekkert einsdæmi. Oftsinnis og við ýmsar ólíkar aðstæður var Jesús djúpt snortinn af aðstæðum fólks. Í biblíuspádómi segir að hann myndi „finna til með bágstöddum“. (Sálmur 72:13) Jesús uppfyllti þessi orð með því að vera næmur á tilfinningar annarra. Hann átti sjálfur frumkvæðið að því að hjálpa fólki. Umhyggja hans var honum sterk hvöt til að prédika. Við skulum kanna hvernig guðspjöllin lýsa umhyggjunni sem bjó að baki orðum og verkum Jesú og íhuga hvernig við getum sýnt umhyggju eins og hann.
Umhyggja fyrir tilfinningum annarra
5, 6. Hvaða dæmi sýna að Jesús var samúðarfullur maður?
5 Jesús var einstaklega samúðarfullur maður. Hann skildi hvernig þjáðu fólki leið og fann til með því. Þó að hann hefði ekki sjálfur reynt allt sem þetta fólk þurfti að ganga í gegnum fann hann til með því í hjarta sínu. (Hebreabréfið 4:15) Þegar hann læknaði konu sem hafði þjáðst af blæðingum í 12 ár lét hann í ljós að sjúkdómur hennar hefði verið „þjakandi“ og valdið henni miklum þjáningum og kvölum. (Markús 5:25–34) Þegar hann sá Maríu og þá sem með henni voru gráta eftir að Lasarus dó var hann sorgmæddur og djúpt snortinn af sorg þeirra. Þótt hann vissi að hann ætti eftir að reisa Lasarus upp frá dauðum komst hann við og augu hans fylltust tárum. – Jóhannes 11:33, 35.
6 Einu sinni kom holdsveikur maður til Jesú og bað hann: „Þú getur hreinsað mig ef þú bara vilt!“ Nú var Jesús fullkominn og hafði aldrei verið veikur. Hvernig brást hann við? Hann fann til með holdsveika manninum. Hann „kenndi í brjósti um“ hann. (Markús 1:40–42) Síðan gerði hann óvenjulegan hlut. Hann vissi mætavel að holdsveikir voru óhreinir samkvæmt Móselögunum og áttu ekki að vera meðal annars fólks. (3. Mósebók 13:45, 46) Jesús var fullkomlega fær um að lækna manninn án þess að snerta hann. (Matteus 8:5–13) Engu að síður kaus hann að rétta út höndina og snerta holdsveika manninn. „Ég vil! Vertu hreinn,“ sagði hann. Holdsveikin hvarf þegar í stað. Jesús var sannarlega samúðarfullur maður.
7. Hvernig getum við lært að sýna samúð og hvernig getur hún birst?
7 Við sem erum kristin eigum að líkja eftir samúð Jesú. Í Biblíunni erum við hvött til að sýna „samkennd“.b (1. Pétursbréf 3:8) Það er ef til vill ekki auðvelt að setja sig í spor þeirra sem þjást af langvinnum sjúkdómum eða þunglyndi – einkum ef við höfum ekki kynnst slíku af eigin raun. En höfum hugfast að samúð er ekki háð því að við höfum kynnst vissum aðstæðum sjálf. Jesús hafði samúð með sjúkum þó að hann hefði aldrei verið veikur sjálfur. Hvernig getum við þá lært að sýna samúð? Með því að hlusta þolinmóð á þá sem opna hjarta sitt og lýsa líðan sinni. Við gætum spurt okkur hvernig okkur myndi líða ef við værum í þeirra sporum. (1. Korintubréf 12:26) Ef við verðum næmari á tilfinningar annarra erum við betur í stakk búin að „hughreysta niðurdregna“. (1. Þessaloníkubréf 5:14) Stundum getur samúð líka birst í tárum, ekki aðeins orðum. „Grátið með þeim sem gráta,“ segir í Rómverjabréfinu 12:15.
8, 9. Hvernig var Jesús nærgætinn gagnvart tilfinningum annarra?
8 Jesús var tillitssamur og nærgætinn gagnvart tilfinningum annarra. Einu sinni var komið til hans með mann sem var heyrnarlaus og næstum mállaus. Jesús skynjaði greinilega að maðurinn var kvíðinn og gerði þá nokkuð sem hann gerði ekki venjulega þegar hann læknaði fólk. „Hann fór með manninn afsíðis.“ Þegar þeir voru orðnir einir þar sem mannfjöldinn sá ekki til læknaði hann manninn. – Markús 7:31–35.
9 Jesús sýndi sömu nærgætni þegar hann var beðinn að lækna blindan mann sem færður var til hans. Jesús „tók í hönd blinda mannsins og leiddi hann út fyrir þorpið“. Síðan læknaði hann manninn í áföngum. Kannski gerði hann þetta til að augu og hugur mannsins gætu lagað sig smám saman að sólbjörtum umheiminum og margbreytileik hans. (Markús 8:22–26) Já, Jesús var tillitssamur.
10. Hvernig getum við verið nærgætin gagnvart tilfinningum annarra?
10 Við sem erum fylgjendur Jesú þurfum að vera tillitssöm og nærgætin. Við erum þess vegna gætin í orðum, minnug þess að hugsunarlaus orð geta sært aðra. (Orðskviðirnir 12:18; 18:21) Hranaleg orð, niðrandi ummæli og nístandi kaldhæðni á ekki heima meðal kristinna manna sem eiga að vera nærgætnir gagnvart tilfinningum annarra. (Efesusbréfið 4:31) Hvernig geta safnaðaröldungar verið nærgætnir og tillitssamir? Þegar þeir leiðbeina öðrum ættu þeir alltaf að vera vingjarnlegir og leyfa viðmælandanum að halda reisn sinni. (Galatabréfið 6:1) Hvernig geta foreldrar verið nærgætnir gagnvart tilfinningum barnanna? Þegar þið þurfið að aga börnin skuluð þið reyna að gera það þannig að það særi þau ekki að óþörfu. – Kólossubréfið 3:21.
Hann hjálpaði fólki að fyrra bragði
11, 12. Hvaða frásagnir sýna að það þurfti ekki að biðja Jesú að sýna öðrum umhyggju og koma þeim til hjálpar?
11 Það þurfti ekki alltaf að biðja Jesú að sýna öðrum umhyggju og koma þeim til hjálpar. Umhyggja og samúð er ekki aðeins huglæg kennd heldur birtist hún í verki. Það kemur því ekki á óvart að umhyggja Jesú skyldi koma honum til að hjálpa fólki að fyrra bragði. Einu sinni hafði mikill mannfjöldi verið hjá honum í þrjá daga án matar. Það þurfti ekki að segja honum að fólkið væri svangt eða stinga upp á að hann gerði eitthvað í málinu. Frásagan segir: „Jesús kallaði lærisveinana til sín og sagði: ‚Ég kenni í brjósti um fólkið því að það er búið að vera hjá mér í þrjá daga og hefur ekkert fengið að borða. Ég vil ekki senda það svangt frá mér því að það gæti örmagnast á leiðinni.‘“ Síðan vann hann það kraftaverk, algerlega af eigin hvötum, að metta allt þetta fólk. – Matteus 15:32–38.
12 Lítum á frásögu af öðru atviki sem átti sér stað árið 31. Jesús var að nálgast borgina Nain þegar hann gekk fram á líkfylgd sem var á leið út úr borginni, ef til vill í áttina að grafreit á nálægri hæð. Þetta var ákaflega sorglegt því að hinn látni var „einkasonur móður sinnar sem var auk þess ekkja“. Geturðu ímyndað þér sársaukann í hjarta móðurinnar sem stóð nú ein eftir? Verið var að bera einkason hennar til grafar og hún átti ekki eiginmann til að deila sorginni með. Jesús „kom auga á“ ekkjuna í mannfjöldanum og „kenndi … í brjósti um hana“. Enginn þurfti að biðja hann að gefa henni gaum. Umhyggjan og samúðin í hjarta hans knúði hann að fyrra bragði til að koma henni til hjálpar. Hann gekk „að líkbörunum og snerti þær“ og reisti unga manninn upp frá dauðum. Og hvað gerðist svo? Jesús bað ekki unga manninn að slást í för með mannfjöldanum sem fylgdi honum heldur „gaf hann móður hans“ svo að þau gætu verið saman og ungi maðurinn gæti annast móður sína. – Lúkas 7:11–15.
13. Hvernig getum við líkt eftir Jesú með því að hjálpa öðrum að fyrra bragði?
13 Hvernig getum við líkt eftir Jesú? Við getum auðvitað ekki mettað fólk með kraftaverki eða reist látna upp frá dauðum. Við getum hins vegar líkt eftir Jesú með því að aðstoða að fyrra bragði þá sem eru hjálparþurfi. Trúbróðir eða trúsystir gæti lent í óvæntum fjárkröggum eða misst vinnuna. (1. Jóhannesarbréf 3:17) Ekkja gæti þarfnast hjálpar vegna aðkallandi viðgerða á húsnæði sínu. (Jakobsbréfið 1:27) Kannski vitum við af fjölskyldu sem hefur misst ástvin og þarfnast huggunar eða aðstoðar. (1. Þessaloníkubréf 5:11) Ef við vitum af einhverjum sem er hjálparþurfi þurfum við ekki að bíða eftir að einhver biðji okkur að leggja þeim lið. (Orðskviðirnir 3:27) Samúð og umhyggja ætti að fá okkur til að bjóða fram aðstoð eftir því sem við höfum tök á. Gleymum ekki að eitt lítið góðverk eða nokkur einlæg hughreystingarorð geta tjáð umhyggju með sterkum hætti. – Kólossubréfið 3:12.
Umhyggja knúði hann til að prédika
14. Af hverju lét Jesús boðunina ganga fyrir öðru?
14 Eins og fram kom í 2. hluta þessarar bókar var Jesús einstaklega góður boðberi fagnaðarboðskaparins. Hann sagði: „Ég þarf líka að flytja öðrum borgum fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs því að til þess var ég sendur.“ (Lúkas 4:43) Af hverju lét hann þetta starf ganga fyrir? Fyrst og fremst vegna þess að hann elskaði Guð. En hann gerði það líka af öðrum hvötum: Hann fann til með fólki og það knúði hann til að sinna andlegum þörfum þess. Ekkert var honum mikilvægara en að seðja andlegt hungur annarra. Lítum á tvö atvik sem lýsa vel hvaða augum Jesús leit fólkið sem hann prédikaði fyrir. Það getur hjálpað okkur að kanna af hvaða hvötum við boðum fagnaðarboðskapinn.
15, 16. Segðu frá tveim atvikum sem draga fram hvernig Jesús leit á fólkið sem hann prédikaði fyrir.
15 Árið 31, eftir að Jesús hafði boðað fagnaðarboðskapinn af kappi í hér um bil tvö ár, gerði hann átak og fór um „allar borgirnar og þorpin“ í Galíleu. Hann var djúpt snortinn af því sem fyrir augu bar. Matteus segir svo frá: „Þegar hann sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um fólkið því að það var hrjáð og hrakið eins og sauðir án hirðis.“ (Matteus 9:35, 36) Jesús fann til með fólki. Hann gerði sér fulla grein fyrir því hve illa það var statt í trúarlegum efnum. Hann vissi að trúarleiðtogarnir, sem áttu að gæta fólksins, höfðu vanrækt það og farið illa með það. Umhyggja Jesú knúði hann til að leggja hart að sér við að boða þessu fólki von. Ekkert var brýnna fyrir fólk en að heyra fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs.
16 Eitthvað svipað átti sér stað allnokkrum mánuðum síðar, um páskaleytið árið 32. Jesús og postularnir höfðu þá siglt þvert yfir Galíleuvatn í leit að afviknum stað til að hvílast á. Mikill fjöldi fólks hljóp þá meðfram vatninu og var kominn hinum megin við vatnið á undan bátnum. Hvernig brást Jesús við? „Þegar hann steig á land sá hann mikinn mannfjölda. Hann kenndi í brjósti um fólkið því að það var eins og sauðir án hirðis og hann fór að kenna því margt.“ (Markús 6:31–34) Enn á ný kenndi Jesús í brjósti um fólk vegna þess hve illa það var statt trúarlega. Það var eins og „sauðir án hirðis“. Það var andlega vannært og þurfti að bjarga sér sjálft. Jesús prédikaði ekki aðeins af skyldurækni heldur af því að hann bar umhyggju fyrir fólki.
17, 18. (a) Af hvaða hvötum tökum við þátt í boðunarstarfinu? (b) Hvernig getum við lært að sýna umhyggju?
17 Af hvaða hvötum boðum við fagnaðarboðskapinn sem fylgjendur Jesú? Eins og fram kom í 9. kafla bókarinnar hefur okkur verið falið það ábyrgðarmikla verkefni að boða trúna og gera fólk að lærisveinum. (Matteus 28:19, 20; 1. Korintubréf 9:16) En við megum ekki taka þátt í þessu starfi af skyldurækni einni saman. Fyrst og fremst boðum við fagnaðarboðskapinn um ríkið af því að við elskum Jehóva. Og einnig af því að okkur er annt um þá sem eru ekki sömu trúar og við. (Markús 12:28–31) En hvernig getum við lært að sýna umhyggju?
18 Við þurfum að sjá fólk sömu augum og Jesús, það er að segja ‚hrjáð og hrakið eins og sauði án hirðis‘. Hugsaðu þér að þú finnir lamb sem er orðið rammvillt. Það er hungrað og þyrst af því að það hefur engan hirði til að vísa sér á vatnsból og grösuga haga. Myndirðu ekki finna til með lambinu? Myndirðu ekki gera þitt besta til að brynna því og fóðra það? Margt fólk sem þekkir ekki fagnaðarboðskapinn er eins og þetta lamb. Forystumenn falstrúarbragðanna hafa vanrækt fólk svo að það er andlega þyrst og vannært og á sér enga haldgóða framtíðarvon. Við höfum það sem fólk vantar – seðjandi andlega fæðu og tært sannleiksvatn frá orði Guðs. (Jesaja 55:1, 2) Við kennum í brjósti um fólk þegar við hugleiðum hvernig það er á vegi statt í andlegum málum. Ef við finnum til með fólki eins og Jesús, gerum við allt sem við getum til að koma fagnaðarboðskapnum til þess.
19. Hvernig gætum við hjálpað biblíunemanda að taka þátt í boðunarstarfinu?
19 Hvernig getum við hjálpað öðrum að líkja eftir fordæmi Jesú? Segjum að við ætlum að hvetja biblíunemanda sem uppfyllir skilyrðin til að taka þátt í boðunarstarfinu. Eða kannski langar okkur til að hjálpa óvirkum boðbera að verða virkur á ný. Hvernig getum við borið okkur að? Við þurfum að höfða til hjartans. Höfum hugfast að Jesús „kenndi í brjósti um“ fólk og síðan fór hann að kenna því. (Markús 6:34) Ef við getum hjálpað biblíunemandanum eða óvirka boðberanum að rækta samúð og umhyggju í hjarta sér er ekki ólíklegt að það knýi þá til að líkja eftir Jesú og segja öðrum frá fagnaðarboðskapnum. Við gætum spurt þá: „Hvernig hefur fagnaðarboðskapurinn breytt lífi þínu til hins betra? Hvað má þá segja um fólk sem þekkir ekki þennan boðskap – þarf það ekki líka að heyra hann? Hvað geturðu gert til að hjálpa því?“ Kærleikur til Guðs og löngun til að þjóna honum er auðvitað sterkasta hvötin til að taka þátt í boðunarstarfinu.
20. (a) Hvað er fólgið í því að fylgja Jesú? (b) Um hvað verður fjallað í næsta kafla?
20 Að fylgja Jesú er annað og meira en að endurtaka orð hans og líkja eftir verkum hans. Við þurfum líka að tileinka okkur sama „hugarfar“ og hann. (Filippíbréfið 2:5) Við megum vera þakklát fyrir að Biblían skuli opinbera okkur þær hugsanir og tilfinningar sem bjuggu að baki orðum Jesú og verkum. Með því að kynnast „huga Krists“ eigum við auðveldara með að vera nærgætin, samúðarfull og umhyggjusöm og koma fram við aðra eins og hann kom fram við fólk almennt. (1. Korintubréf 2:16) Í næsta kafla kynnum við okkur hvernig Jesús sýndi á marga vegu að hann elskaði fylgjendur sína.
a Gríska orðið sem þýtt er „kenndi í brjósti um“ hefur verið kallað eitthvert sterkasta orð grískrar tungu til að lýsa umhyggju. Heimildarrit segir að orðið gefi í skyn „bæði að finna til með þeim sem þjást og hafa sterka löngun til að lina þjáninguna og aflétta henni“.
b Gríska lýsingarorðið sem er þýtt „samkennd“ merkir bókstaflega ‚að þjást með‘.