KAFLI 13
Hvernig gefa fölsk trúarbrögð ranga mynd af Guði?
Guð er kærleikur. Hvernig stendur þá á því að trúarbrögð sem segjast vera málsvarar hans hafa gert svo margt illt? Þetta eru einfaldlega fölsk trúarbrögð sem gefa ranga mynd af Guði. Hvernig hafa þau gefið ranga mynd af honum? Hvað finnst honum um það? Og hvernig ætlar hann að bregðast við því?
1. Hvernig gefa fölsk trúarbrögð ranga mynd af Guði með kenningum sínum?
Fölsk trúarbrögð hafa ‚skipt út sannleikanum um Guð fyrir lygina‘. (Rómverjabréfið 1:25) Til dæmis hafa fæst trúarbrögð sagt fylgjendum sínum hvað Guð heitir. En Biblían kennir að það eigi að nota nafn Guðs. (Rómverjabréfið 10:13, 14) Sumir trúarleiðtogar segja að það sé vilji Guðs þegar eitthvað hræðilegt gerist. En það er lygi. Guð stendur aldrei á bak við neitt illt. (Lestu Jakobsbréfið 1:13.) Því miður hafa falskar trúarkenningar gert fólki erfitt fyrir að elska Guð.
2. Hvernig gefa fölsk trúarbrögð ranga mynd af Guði með verkum sínum?
Leiðtogar falstrúarbragða koma ekki fram við fólk eins og Jehóva gerir. Biblían segir um falstrú: „Syndir hennar hlóðust upp allt til himins.“ (Opinberunarbókin 18:5) Í aldaraðir hafa trúarbrögð blandað sér í stjórnmál, stutt stríð og valdið eða lagt blessun sína yfir dauða óteljandi fjölda fólks. Sumir trúarleiðtogar lifa í vellystingum og láta fylgjendur sína borga fyrir þær. Þetta sannar að þeir þekkja ekki einu sinni Guð, hvað þá að þeir hafi rétt á að vera fulltrúar hans. – Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:8.
3. Hvað finnst Guði um fölsk trúarbrögð?
Ef það sem fölsk trúarbrögð gera vekur reiði hjá þér, hvernig heldurðu þá að Jehóva líði? Hann elskar fólk, en hann er reiður trúarleiðtogum sem gefa ranga mynd af honum og fara illa með fylgjendur sína. Hann lofar að fölskum trúarbrögum verði eytt og að þau ‚hverfi um alla framtíð‘. (Opinberunarbókin 18:21) Bráðlega bindur Guð enda á öll fölsk trúarbrögð. – Opinberunarbókin 18:8.
KAFAÐU DÝPRA
Lærðu meira um hvað Guði finnst um falstrúarbrögð. Kynntu þér nánar hvað þau hafa gert en líka hvers vegna það ætti ekki að koma í veg fyrir að þú kynnist Jehóva.
4. Guð hefur ekki velþóknun á öllum trúarbrögðum
Margir telja að trúarbrögð séu eins og mismunandi vegir sem liggja allir til Guðs. En er það rétt? Lesið Matteus 7:13, 14 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Hvernig lýsir Biblían veginum sem liggur til lífsins?
Spilið MYNDBANDIÐ og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Kennir Biblían að mörg trúarbrögð séu Guði þóknanleg?
5. Fölsk trúarbrögð endurspegla ekki kærleika Guðs
Trúarbrögðin hafa gefið ranga mynd af Guði á marga vegu. Eitt sem þau eru illræmd fyrir er að taka þátt í stríðum. Spilið MYNDBANDIÐ til að sjá dæmi um það. Ræðið síðan eftirfarandi spurningar:
Hvaða afstöðu tóku margar kirkjur í síðari heimsstyrjöldinni?
Hvað finnst þér um afstöðu þeirra?
Lesið Jóhannes 13:34, 35 og 17:16. Ræðið síðan eftirfarandi spurningar:
Hvað heldurðu að Jehóva finnist um það þegar trúarbrögð taka þátt í stríði?
Fölsk trúarbrögð eru ábyrg fyrir mörgu slæmu. Á hvaða vegu hafa trúarbrögðin að þínu mati ekki endurspeglað kærleika Guðs?
6. Guð vill hjálpa fólki að losna úr fölskum trúarbrögðum
Lesið Opinberunarbókina 18:4a og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Hvaða tilfinningu vekur það með þér að vita að Guð vill bjarga fólki sem falstrúarbrögðin hafa blekkt?
7. Haltu áfram að fræðast um hinn sanna Guð
Ættu fölsk trúarbrögð að hafa áhrif á það hvernig þú lítur á Guð? Ímyndaðu þér son sem hafnar skynsömum leiðbeiningum föður síns. Hann fer að heiman og lifir spilltu líferni. Faðirinn er ekki sáttur við líferni sonar síns. Hvers vegna væri ekki sanngjarnt að kenna föðurnum um hvernig uppreisnargjarn sonur hans hegðar sér?
Væri sanngjarnt að kenna Jehóva um það sem fölsk trúarbrögð gera og hætta að fræðast um hann?
SUMIR SEGJA: „Ég hef ekki áhuga á Guði vegna þess að trúarbrögðin eru orsök svo margra vandamála.“
Ert þú á sömu skoðun?
Hvers vegna ættu verk falskra trúarbragða ekki að hafa áhrif á hvernig við lítum á Jehóva?
SAMANTEKT
Fölsk trúarbrögð hafa gefið ranga mynd af Guði með röngum kenningum og hræðilegum verkum. Guð mun eyða fölskum trúarbrögðum.
Upprifjun
Hvað finnst þér um það sem fölsk trúarbrögð hafa kennt og hvernig þau hafa hegðað sér?
Hvað finnst Jehóva um fölsk trúarbrögð?
Hvað ætlar Guð að gera við falstrúarbrögðin?
KANNAÐU
Kynntu þér á hvaða tvo vegu flest trúarbrögð eru Guði vanþóknanleg.
„Eru öll trúarbrögð eins? Leiða þau öll til Guðs?“ (Vefgrein)
Hvers vegna vill Jehóva að við tilbiðjum hann með öðrum?
„Er nauðsynlegt að tilheyra ákveðnum trúarsöfnuði?“ (Vefgrein)
Prestur fór að efast um trú sína. En það kom ekki í veg fyrir að hann kynnti sér sannleikann um Guð.
„Hvers vegna prestur sagði sig úr kirkjunni sinni“ (Grein úr Vaknið!)
Í margar aldir hafa trúarbrögð borið út lygar um Guð sem hafa gert hann fjarlægan og grimman í augum fólks. Lestu um þrjár af þessum lygum.
„Lygar sem gera það erfitt að elska Guð“ (Greinar úr Varðturninum)
a Nánari upplýsingar um hvers vegna konan sem er kölluð Babýlon hin mikla í Opinberunarbókinni táknar falstrúarbrögðin er að finna í aftanmálsgrein 1.