Jehóva ‚hraðar því‘
„Ég, [Jehóva], mun hraða því, þegar að því kemur.“ — Jesaja 60:22.
1. Hvernig og hvers vegna eru viðhorf þjóna Jehóva ólík því sem er í heimi Satans?
NÚNA ríkir gleði og fögnuður ekki aðeins í himnesku skipulagi Jehóva heldur líka út um gjörvallt skipulag votta Jehóva hér á jörðinni. Hamingja okkar sker sig mjög úr þeirri dimmu og drunga sem hjúpar heim Satans. (Sálmur 144:15) Við sitjum að andlegum mat og drykk í ríkum mæli svo að við ‚fögnum af hjartans gleði.‘ (Jesaja 65:13-19) Við erum ekki í myrkri um það hverjar eru orsakir kreppunar í heiminum. Von okkar um að Guðsríki frelsi okkur bráðlega styrkist þegar við sjáum spádóma Biblíunnar uppfyllast í hinni vægðarlausu rástalningu að Harmagedón. Við vitum að þetta ‚stríð á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ mun koma nákvæmlega á sínum “ákveðna tíma,“ því að vitrunin „skundar að takmarkinu og bregst ekki.“ — Opinberunarbókin 16:14, 16; Habakkuk 2:3.
2. Hvað er áberandi í skipulagi Jehóva og hvaða spurningu vekur það?
2 Guðveldisskipulag Jehóva er varanlegt og traust á jörðinni eins og á himnum. Með því að Jehóva er uppspretta óþrjótandi orku gefur hann auk þess ‚gnógan styrk þeim sem vona á hann.‘ (Jesaja 40:29-31) Skipulag hans er iðandi af starfsemi og stöðugt að verki. (Samanber Esekíel 1:15-21.) Hinir 47.869 söfnuðir votta Jehóva í 203 löndum um allan hnöttinn eru vel skipulagðir til að sækja kostgæfilega fram í starfi Guðsríkis. (Matteus 24:14) Hvernig varð þetta þróttmikla og starfsama alheimsskipulag borið í heiminn?
3. (a) Hvernig hefur Jesaja 60:17 uppfyllst á okkar tímum? (b) Hvaða svipaðar ráðstafanir voru til blessunar á tímum Biblíunnar?
3 „Skipulag“ var titill námsgreinanna í Varðturninum (á ensku) þann 1. og 15. júní 1938. Þar var rætt ítarlega um Jesaja 60:17 þar sem Jehóva ávarpar sitt himneska skipulag svo: „Ég mun færa þér gull í stað eirs og silfur í stað járns, eir í stað trjáviðar og járn í stað grjóts. Ég gjöri friðinn að valdstjórn þinni og réttlætið að valdsmanni þínum.“ Nýju lífi var hleypt í skipulag Jehóva á jörðinni sem endurspeglaði þetta bætta ástand. Eins og gull er verðmætara en eir (og sama er að segja um önnur efni sem hér eru nefnd) þannig er hið guðræðislega fyrirkomulag, sem Varðturnsfélagið útskýrði fyrir söfnuðum þjóna Guðs árið 1938 — og þeir tóku við af öllu hjarta — miklu eftirsóknarverðara en lýðræðisfyrirkomulagið sem áður var fylgt. Það er biblíulegt. Það tryggir gott skipulag til að verk Guðs sé unnið, alveg eins og hliðstæð skipan mála tryggði velgengni á tímum Móse og á dögum frumkristna safnaðarins. — 2. Mósebók 18:25; Postulasagan 6:3-7; Títusarbréfið 1:5; 1. Pétursbréf 5:1-3.
4. (a) Hvernig voru vottar Jehóva styrktir fyrir prófraunir áranna 1939-45? (b) Hvað sannaði að Jehóva blessaði þá guðræðisskipan?
4 Þannig var það árið 1938, árið áður en síðari heimsstyrjöldin braust út, að umsjónin með öllum söfnuðinum var ‚friður‘ og ‚réttlæti.‘ Sterk, sameinuð skipulagsregla tryggði frjósemi og aukningu. Jehóva blessaði sameinaða votta sína. Fjöldi þeirra næstum tvöfaldaðist úr 71.509 í 141.606 á árabilinu 1939 til 1945, þrátt fyrir álag og ofsóknir þessara stríðsára.
‚Ekki meira ofbeldi‘
5. Hvernig eru þjónar Jehóva ólíkir heiminum í sambandi við ‚frið‘?
5 En hvað má segja um tímabilið eftir síðari heimsstyrjöldina? Enginn friður hefur ríkt meðal þjóða jarðarinnar. Meira að segja greina skýrslur frá því að yfir 30 milljónir manna hafa fallið í þeim „minniháttar“ styrjöldum sem hafa verið háðar eftir 1945. Allt upp í 40 „smástyrjaldir“ hafa verið háðar samtímis víða á jörðinni. Og það er okkur því mikil hamingja að þjóna með skipulagi sem hefur hafnað ofbeldi! (Jesaja 2:4; Orðskviðirnir 20:22) Sem skipulag um allan hnöttinn njótum við auk þess friðar innan vébanda þess. Með því að ganga með ‚Guði friðarins‘ höfum við kynnst af eigin raun ‚friði Guðs sem er æðri öllum skilningi.‘ — Filippíbréfið 4:7-9.
6, 7. (a) Hvað veldur því að þjónar Guðs skera sig úr? (b) Hvernig hefur Jesaja 60:18 ræst gagnvart okkur? (c) Á hvaða sérstakan hátt erum við ólíkir trúmálamönnum falstrúarbragðanna?
6 Þar eð ‚friður‘ og ‚réttlæti‘ ríkir meðal þjóna Jehóva skerum við okkur algerlega úr heimi Satans. Sumir af nágrönnum okkar hafa veitt því athygli og sagt: ‚Við dáumst að ykkur en okkur líkar ekki trú ykkar.‘ En er það ekki trú okkar sem hefur gert okkur að því sem við erum? Við höfum engan áhuga á hinni andstæðu hugmyndafræði og hatursmálum sem skipta þjóðunum niður í andstæða hópa. Áhugi okkar beinist fyrst og fremst að tvennu: (1) Að fræða hógværa menn um veg hjálpræðisins fyrir milligöngu ríkis Krists og (2) að lofa Jehóva og halda nafni hans hátt á lofti til vitnisburðar frammi fyrir öllum þjóðum. Við ‚heyrum ekki heiminum til.‘ — Jóhannes 17:14, 16.
7 Við höfum því eignast hlutdeild í uppfyllingu fyrirheits Jehóva. „Eigi skal framar heyrast getið um ofríki í landi þínu, né um tjón og tortíming innan landamerkja þinna. Þú skalt kalla Hjálpræði múra þína og Sigurfrægð hlið þín.“ (Jesaja 60:18) Öll okkar lofgjörð beinist til Jehóva, Guðs okkar! Trúarlegir forystumenn kristna heimsins (og allir trúvilltir samherjar þeirra) svívirða þetta nafn — meira að segja að því marki að reyna hræsnisfullir að afmá það úr biblíuþýðingum sínum. „En vér göngum í nafni [Jehóva], Guðs vors, æ og ævinlega.“ — Míka 4:5.
8. (a) Hvaða hvatningu gefur Jehóva fólki sínu í Jesaja 60:19-21? (b) Hvaða ‚vöxtur‘ er Jehóva til vegsemdar og hvernig?
8 Jehóva hvetur okkur til að ganga í nafni sínu. Í Jesaja 60:19-21 fullvissar hann sitt himneska skipulag um að hann muni vera því „eilíft ljós,“ meira að segja svo að birta sólar og tungls muni blikna. Andlega séð verður hann fegurð þess og uppfyllir einnig loforð sitt við þjóna þess: „Þeir eru allir réttlátir, allir munu eiga landið eilíflega: þeir eru kvisturinn, sem ég hefi gróðursett, verk handa minna, er ég gjöri mig vegsamlegan með.“ Jehóva hefur í sannleika sagt látið dafna „landið,“ starfsvettvang votta sinna. Í vaxandi mæli spretta þar ‚kvistir‘ úr frjórri jörðinni í þeirri mynd að nýjum er safnað til stuðnings Guðsríki og hjálpað að íklæðast hinum kristna persónuleika. (Kólossubréfið 3:10, 12-14) Þetta gerir Jehóva „vegsamlegan,“ heiðrar hið dýrlega nafn hans.
9. (a) Hvernig blessar Jehóva votta sína í Mexíkó og hvers vegna? (b) Hvað sagði dagblað um ráðvendni þeirra?
9 Atburðir í Mexíkó á síðustu árum eru dæmi um það. Undanfarin tvö ár hefur hámarkstala boðbera þar í landi farið úr 113.823 í 151.807 — en það nemur 33 af hundraði! (695.369 sóttu minningarhátíðina um dauða Jesú árið 1984 í Mexíkó.) Mexíkanskir bræður okkar eru mjög kostgæfir í þjónustu sinni á akrinum. Dagblað í Monterrey minntist einnig fyrir nokkru á staðfestu þeirra þegar spurningin um hlutleysi er annars vegar. Það sagði meðal annars: „Staðfesta þeirra og sannfæringarhugrekki vekur með okkur djúpa virðingu. Jafnvel þótt börnum þeirra sé vikið úr skóla kjósa þau heldur að vera holl trú sinni. Hvernig væri það ef við öll, sem erum kristin, værum þannig, án tillits til trúarhópa eða kirkjufélaga Mexíkó yrði útibú himnanna.“
10. (a) Hvað sýnir að vottar Jehóva bera ávöxt jafnvel þegar starf þeirra er bannað? (b) Hvaða spurning er borin hér fram?
10 Vottar Jehóva halda áfram að gefa af sér þennan ávöxt lofgjörðarinnar, jafnvel í löndum þar sem ekkert lát er á ofsóknum. Það var hrifandi að veita því athygli í þjónustuskýrslunni árið 1984, að í 28 löndum, þar sem stjórnvöld hafa bannað starf okkar eða takmarkað á annan hátt, jókst heildarfjöldi boðbera um 3,1 af hundraði og náði talsvert yfir fjórðung úr milljón, og brautryðjendum fjölgaði um 23 af hundraði! Getur þú gert þér í hugarlund hvernig það er að vera brautryðjandi við slíkar kringumstæður? Að meðaltali hafa 6905 af bræðrum okkar og systrum í þeim löndum gert það í hverjum mánuði! Ef tiltölulega mikið frjálsræði ríkir þar sem þú býrð, gætir þú þá höndlað reglulegt brauðryðjandastarf, eða þá að minnsta kosti aðstoðarbrautryðjandastarf hluta af tíma þínum — Samanber Lúkas 17:5, 6.
‚Verða að þúsund‘
11, 12. (a) Hver er fyrsti hluti loforðsins sem Jehóva nú gefur? (b) Nefnið dæmi um að ‚hinn minnsti hafi orðið að þúsund.‘ (c) Hvers vegna hefur verið svona ör vöxtur?
11 Jehóva gefur núna þríþætt fyrirheit sem hann leggur sitt dýrlega nafn við. (Jesaja 60:22) Fyrst segir hann okkur: „Hinn minnsti skal verða að þúsund.“ Hefur þú tekið eftir, þegar þú hefur lesið Árbækur votta Jehóva, hvernig starfið hófst í ýmsum löndum með aðeins einum boðbera Guðsríkis eða fáeinum en núna skipta þeir þúsundum? Bróðirinn og brautryðjandinn, sem var fyrstur til að bera vitni í Chile, tók til dæmis á leigu íbúð og bauð fólki að koma á sunnudagssamkomu. Loksins kom einn áhugasamur maður. Þessi maður spurði: ‚Og hinir, hvenær koma þeir?‘ Brautryðjandinn fullvissaði hann: „Þeir munu koma.“ Og svo sannarlega komu þeir. Núna, að liðnum fimm áratugum, er þessi minnsti orðinn að 23.985.
12 Á Ítalíu ofsótti fasistastjórn Mussolinis votta Jehóva hatrammlega. Árið 1946, fyrsta árið eftir stríðið, gáfu aðeins 120 skýrslu um boðunarstarf. En minnstu þess að aðeins 120 voru viðstaddir á hvítasunnudeginum árið 33. Og það var sannarlega upphafið að einhverju miklu! (Postulasagan 1:15; 2:1-4, 41) Núna hefur anda Jehóva verið úthellt í annarri mynd á Ítalíu. Á 38 árum hafa vottar Jehóva vaxið upp í 119.408 samkvæmt síðustu skýrslum, og það lætur mjög nærri að vera þúsundföld aukning. Á Ítalíu, eins og í svo mörgum öðrum kaþólskum löndum víða um heim, er vöxtur votta Jehóva undraverður. — Samanber Sálm 69:10, Jesaja 63:14.
‚Voldug þjóð‘
13, 14. (a) Hvernig hefur annar hluti fyrirheits Jehóva uppfyllst? (b) Hvernig eiga 1. Pétursbréf 2:9 og Jesaja 59:21 við í þessu sambandi? (c) Hvað hefur hleypt auknum skrið á prédikun okkar?
13 Annar hluti hins þríþætta loforðs Jehóva er þessi: „Hinn lítilmótlegasti [skal verða] að voldugri þjóð.“ Þær voru sannarlega ‚lítilmótlegar‘ hinar tvístruðu leifar hinna smurðu sem voru leiddar aftur inn í „land“ velþóknunar Jehóva árið 1919. En þær margfölduðust þar til allur hinn andlegi Ísrael var kominn inn — fullri tölu hinna 144.000 erfingja Guðsríkis náð. (Rómverjabréfið 11:25, 26) Sem hluti af ‚heilagri þjóð‘ Guðs hafa hinar smurðu leifar Guðs á jörðinni verið kallaðar út úr myrkri inn í undursamlegt ljós hans. Þær hafa með fögnuði víðfrægt dáðir Guðs síns, Jehóva. (1. Pétursbréf 2:9) Þótt þeir sem mynduðu þær hafi verið tiltölulega fámennir hefur andi Guðs gert þá öfluga. „Þessi er sáttmálinn, sem ég gjöri við þá — segir [Jehóva]: Andi minn, sem er yfir þér, og orð mín, sem ég hefi lagt í munn þér, þau skulu ekki víkja frá munni þínum, né frá munni niðja þinna, né frá munni niðja niðja þinna, — segir [Jehóva], — héðan í frá og að eilífu.“ — Jesaja 59:21.
14 Með þessum orðum fullvissar Jehóva okkur um að árangur sé tryggður af því er við boðum „fagnaðarboðin góðu,“ og um það biðjum við ákaft á ‚degi Jehóva.‘ Mikill skriður hefur komist á prédikun okkar með því að táknrænir ‚niðjar‘ hinna smurðu leifa, ‚múgurinn mikli,‘ og einnig ‚niðjar‘ hans (nýir sem ‚múgurinn mikli‘ hefur beint til skipulags Guðs) hafa tekið sér þennan boðskap hjálpræðisins í munn og játað hann opinberlega. Af því leiðir að allir söfnuðirnir halda áfram að vaxa að andlegu hugarfari, svo og fjölda. — Rómverjabréfið 10:10-15; Sálmur 118:24, 25; 1. Þessaloníkubréf 3:12.
15. Hversu fjölmenn er táknræn „þjóð“ Guðs orðin og hvers vegna er hún hamingjusöm?
15 Ávöxtur Guðsríkis hefur vaxið stórkostlega á síðustu árum! Með viðbót mikils fjölda af ‚múginum mikla‘ telur hin táknræna þjóð Guðs nú 2.842.531 starfandi vott. Þessi „þjóð“ er fjölmennari en um 92 einstakar þjóðir og ríki heims. Með fögnuði endurtökum við orð söngvarans: „Ráð [Jehóva] stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns. Sæl er sú þjóð, er á [Jehóva] að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.“ — Sálmur 33:11, 12.
‚Ég mun hraða því‘
16, 17. (a) Á hverju sést að þriðji hluti loforðs Jehóva er nú að rætast? (b) Hvernig hefur kærleikur til Guðs og Krists verið látinn í ljós? (c) Hvaða ánægjulegt starf og andi hefur átt þátt í að „hraða því“? (d) Hvernig á Matteus 9:35-38 við nú á dögum?
16 Jehóva bætir nú þriðja hlutanum við loforð sitt: „Ég [Jehóva], mun hraða því, þegar að því kemur.“ Þar sem við stöndum nú við þröskuld ‚þrengingarinnar miklu‘ er þetta að uppfyllast NÚNA! (Markús 13:10, 18, 19) Hin skjóta hröðun á starfi Guðsríkis á síðastliðnum tveim árum ber þess vitni. Þessi ‚hröðun‘ er sýnileg um allan hnöttinn, jafnvel í löndum þar sem vottar Jehóva verða að sýna kærleika sinn til Jehóva Guðs og Jesú Krists með því að prédika andspænis ofsóknum og öðru sem ógnar lífi þeirra. Fulltíma brautryðjendum fjölgar sífellt og þeir eru í fremstu röð. Gleðin, sem þeir finna í þjónustu Jehóva, er líka mikil! — Orðskviðirnir 10:22.
17 Þessi ánægjulegi brauryðjandaandi hefur hvatt söfnuðina alls staðar til að „hraða“ hlutdeild sinni í lokasöfnuninni. Jafnvel þótt aukningin sé ör getum við sagt að ‚uppskeran sé mikil en verkamennirnir fáir.‘ Í þessum vonlausa heimi nútímans getum við fundið til með fólkinu eins og Jesús gerði, þegar hann var á jörðinni, því að menn eru „hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ Við ‚biðjum því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar,‘ og við gleðjumst yfir því að sjá bænum okkar svarað með svo stórfenglegum hætti. — Matteus 9:35-38.
18, 19. Nefnið dæmi sem sýna að akurinn, sem er heimurinn, er ‚hvítur til uppskeru.‘
18 Við skulum líta á aðeins eitt af mörgum hvetjandi dæmum. Í apríl 1984 skýrði Equador frá 1048 aðstoðarbrautryðjendum á akrinum sem var 106 aukning miðað við sama mánuð árið áður. Í júní var tala heimabiblíunáma komin upp í 12.238, 24 aukning frá árinu áður, og boðberar voru 8044 sem var 17 aukning. Aðsókn að minningarhátíðinni fór upp í 40.728 en það svarar til 5 gesta fyrir hvern boðbera. Úr öllum heimshornum berast svipaðar fregnir, og heildaraðsóknin að minningarhátíðinni þann 15. apríl 1984, 7.416.974, sýnir að akrarnir eru „hvítir til uppskeru“ þeirra sem safnað er „til eilífs lífs.“ — Jóhannes 4:35, 36.
19 Oft ‚hraðar‘ Jehóva verkinu á athyglisverða vegu. Farandhirðir skrifar frá frumskógum norðurhluta Papúa Nýju Gíneu: „Maður, sem sérbrautryðjandi hafði samband við, sneri aftur heim til sín í afskekktu fjallaþorpi. Nokkrum árum síðar birtist hann á ný á svæðismóti — og hafði beiðni fram að færa. Þessi óskírði maður hafði borið svo rækilega vitni í heimaþorpi sínu og ‚óbyggðunum‘ umhverfis, að þorpsöldungarnir vildu nú að vottar Jehóva kæmu til að annast hinn andlegu áhuga á öllu svæðinu.“ Þegar frækorninu er sáð er það Guð sem ‚lætur það vaxa.‘ — 1. Korintubréf 3:6.
20. Hvernig hafa deildir Varðturnsfélagsins verið stækkaðar til að mæta vextinum?
20 Á marga vegu hefur Jehóva verið að búa þjóna sína undir þann mikla vöxt sem nú er að verða. Við gleðjumst yfir því að Jehóva skuli á síðustu árum hafa séð svo vel um að stækka og bæta húsakost og búnað deildarskrifstofa Varðturnsfélagsins. Núna eru þessar deildir búnar til að hjálpa stórum ‚dúfnahjörðum.‘
21. Hvernig getum við haldið áfram að eiga þátt í að „hraða því“?
21 Við skulum því öll eiga hlutdeild í að láta ljós fagnaðarerindisins um ríkið skína til milljóna manna í viðbót! Við skulum benda öllum ‚dúfum‘ á leiðina til ‚hjálpræðis‘ innan verndarmúra skipulags Jehóva, og auka ‚lofgjörðina‘ um hann í hliðum þeirra. Megi það vera bæn okkar að alvaldur Drottinn Jehóva og höfuð kristna safnaðarins, okkar ástfólgni konungur Jesús Kristur, muni halda áfram að „hraða‘ verkinu þegar boðun Guðsríkis sækir á að hámarki sínu!
Til upprifjunar
◻ Hvernig rættist Jesaja 60:17 árið 1938?
◻ Hvað er okkur hugleikið í samræmi við Jesaja 60:18?
◻ Hvernig eru skýrslur af akrinum Jehóva til ‚vegsemdar‘?
◻ Hvernig stefnir hið þríþætta fyrirheit í Jesaja 60:22 að hástigi sínu?
[Mynd á blaðsíðu 14]
Forsíða Varðturnsins á 4. áratugnum dró upp mynd af framsæknu skipulagi Jehóva, eins og Esekíel sá það í sýn
[Mynd á blaðsíðu 17]
Heilbrigður brautryðjandaandi hefur stuðlað að því að „hraða“ uppskerustarfinu.