‚Gangið reglufastir eftir þessari sömu venju‘
„Í þeim mæli sem við höfum tekið framförum [skulum við] halda áfram að ganga reglufastir eftir þessari sömu venju.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 3:16, NW.
1, 2. (a) Hvernig eru börn, sem eru til fyrirmyndar, til hvatningar? (b) Hvaða spurningar viðvíkjandi þeim koma upp í hugann?
ÞEGAR Alisa var lítið meira en tveggja ára olli hún mikilli undrun og gleði með því að getað sungið nöfn allra hinna 66 bóka Biblíunnar, talið upp postulana tólf og lýst með látbragði hinum níu ávöxtum anda Guðs. (Matteus 10:2-4; Galatabréfið 5:22, 23) Þegar hún var í fimmta bekk í skóla hélt hún vikulegt biblíunám með stúlku í þriðja bekk sem tókst að vekja áhuga eldri bróður síns á Biblíunni. Alisa og hin unga vinkona hennar hafa sett sér markmið. Þær hlakka til að verða félagar í fullu prédikunarstarfi sem sérbrautryðjendur þegar þar að kemur.
2 Vissulega þætti okkur öllum það ánægjulegt að þekkja slík börn, og að öllum líkindum gerir þú það. En um leið er óhjákvæmilegt að við veltum fyrir okkur hvernig þau muni verða þegar þau vaxa úr grasi. Mun andlegur þroski þeirra halda áfram þar til þau ná markmiði sínu, eða mun eitthvað annað draga til sín athygli þeirra svo að þau falli við götuna?
Áframhaldandi framför
3. Hverjir þurfa að taka framförum?
3 Augljóst er að slík börn þurfa að taka út mikinn andlegan vöxt og þroska áður en þau ná markmiði sínu. En eru það aðeins börn og unglingar eða þeir sem nýir eru sem þurfa að taka framförum? Eru framfarir nauðsynlegar aðeins þangað til við náum andlegum þroska eða verðum hæf til að gegna ákveðnum sérréttindum? Nei, svo er ekki. Lítum á Páll postula sem dæmi. Í stað þess að gera sig ánægðan með það mark sem hann hafði náð sagði hann í bréfi sínu til Filippímanna: „Ekki er svo, að ég hafi þegar náð því eða sé þegar fullkominn. En ég keppi eftir því, ef ég skyldi geta höndlað það, með því að ég er höndlaður af Kristi Jesú.“ — Filippíbréfið 3:12.
4. Hvaða ‚marki‘ keppti Páll að?
4 Ljóst er að Páll var ekki að tala um það að taka út þroska því að enginn vafi leikur á að hann var þá þegar þroskaður kristinn maður. Samt sem áður sagðist hann vera að ‚keppa‘ eftir einhverju sem hann hefði áfram: „Ég . . . keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur kallað oss til fyrir Krist Jesú.“ (Filippíbréfið 3:14) Markið, sem hann var að keppa að, var ekki bara kristinn þroski eða hæfni til að gegna ákveðinni stöðu. Markið var eitthvað meira en það. Fyrir hann og aðra smurða kristna menn var það ‚verðlaunin á himnum,‘ vonin um himneskt líf vegna upprisu.
5. (a) Hvers vegna er stöðugur vöxtur nauðsynlegur? (b) Hvað getur falist í því að ‚gleyma því sem að baki er‘?
5 Þetta hjálpar okkur að koma auga á nauðsyn þess að halda áfram að vaxa og þroskast andlega óháð því hversu lengi við höfum verið í sannleikanum. Hvaða varanlegt gagn myndi það vera fyrir mann að taka framförum aðeins að því marki að hann yrði álitinn þroskaður, eða hæfur til að gegna ákveðnum sérréttindum? Þroski og ákveðin sérréttindi eru engin trygging því að við náum lokamarki okkar — eilífu lífi. Þess í stað verðum við að gera eins og Páll postuli gerði — ‚gleyma því sem að baki er en seilast eftir því sem framundan er.‘ (Filippíbréfið 3:13) Við ættum ekki aðeins að snúa baki við fánýtum verkum, sem við kunnum að hafa unnið áður en við komumst til þekkingar á sannleikanum, heldur líka að gæta þess að verða ekki sjálfsánægð út af því sem við höfum gert síðan. Við eigum með öðrum orðum ekki að láta okkur nægja unnin afrek heldur að sækja stöðugt fram. Gerir þú það eða ert þú farinn að hægja á þér af einhverri ástæðu? — Sjá 1. Korintubréf 9:26.
6. Hvað er hægt að segja um það að taka framförum þegar borið er saman Filippíbréfið 3:12 og 3:15?
6 Með þann möguleika í huga hélt Páll áfram: „Þetta hugarfar skulum vér því allir hafa, sem fullkomnir [þroskaðir] erum. Og ef þér hugsið í nokkru öðruvísi, þá mun Guð einnig opinbera yður þetta.“ (Filippíbréfið 3:15) Fyrr í þessum kafla bréfsins, í 12. versi, gaf Páll til kynna að hann hafi ekki álitið sjálfan sig „þegar fullkominn.“ Samt talar hann hér um ‚alla sem fullkomnir eru‘ eða þroskaðir. Í þessu er engin mótsögn, heldur er aðeins verið að sýna fram á að jafnvel þroskaðir kristnir menn, eins og Páll, verða að hafa í huga að þeir hafa enn ekki náð lokamarki sínu, og að þeir verða að halda áfram að taka framförum til að ná því. Þess vegna dró hann allt þetta saman í fáein orð og sagði: „Í þeim mæli sem vér höfum tekið framförum [skulum við] halda áfram að ganga reglufastir eftir þessari sömu venju.“ — Filippíbréfið 3:16, NW.
Regluföst venja
7. Hvaða „venju“ var Páll að hvetja kristna menn til að fylgja?
7 Þegar Páll hvatti kristna menn til að „ganga reglufastir eftir þessari sömu venju,“ var hann þá að segja þeim að temja sér þægilegt starfsmynstur og láta þar við sitja þar til að því kæmi að þeir hlytu laun sín? Að gera slíkt væri áþekkt þjóninum í dæmisögu Jesú sem gróf í jörð þá einu talentu, sem húsbóndi hans hafði fengið honum, og hreinlega beið eftir að húsbóndinn kæmi aftur. (Matteus 25:14-30) Jafvnel þótt þjónninn hafi ekki tapað talentunni eða hætt þjónustu sinni var hann kallaður ‚ónýtur‘ og hafnað af húsbónda sínum. Vissulega var Páll ekki að segja okkur bara að halda því sem við hefðum og vona að við að misstum það ekki. Hann var að tala um að taka framförum. Með orðinu ‚venja‘ hafði Páll greinilega í huga ákveðna stefnu fram á við, líkt og hjá hermanni sem ekki stendur kyrr heldur þrammar áfram.
8. Hvað ættum við að hugsa um í sambandi við þjónustu?
8 Heilræði Páls ættu að hjálpa okkur að skilja hversu mikilvægt er að leggja okkur stöðugt og kappsamlega fram um að sækja fram á við, taka framförum og bæta okkur í þjónustu Jehóva. „Í þeim mæli sem við höfum tekið framförum,“ hvort sem við erum öldungar, safnaðarþjónar, brautryðjendur eða boðberar, ætti okkur framar öðru að vera hugleikið að auka gæði og, ef mögulegt er, magn þjónustu okkar. Við verðum að gæta þess að komast ekki í sama hugarástand og hinir óhlýðnu Ísraelsmenn á dögum Malakís sem héldu að þeir kæmust upp með að færa Jehóva gallaðar fórnir. Hvernig leit Jehóva á það? „Þér . . . færið það [það sem halt er og sjúkt] í fórn,“ sagði hann. Síðan bætti hann við: „Ætti ég að girnast slíkt af yðar hendi?“ — Malakí 1:13.
9. Hvernig eru heilræði Páls í Rómverjabréfinu 12:6-8, 11 tengd því að taka framförum?
9 Þess í stað ættum við að taka þjónustu okkar við Guð alvarlega. Eins og Páll minnti Rómverjana á ættum við, hver sem þjónustusérréttindi okkar eru, að stunda þau „í einlægni“ og vera „ekki hálfvolgir í áhuganum.“ (Rómverjabréfið 12:6-8, 11) Sá sem er hálfvolgur í áhuganum sækir ekki fram á við að neinu sérstöku marki. Athyglisvert er að gríska orðið, sem hér er notað, merkir bókstaflega latur eða letilegur og á það vel við. Í frétt nokkurri kom fram að letidýr, sem þó getur hreyft sig hratt, svaf eða var algerlega hreyfingarlaust í 139 af 168 klukkustundum sem fylgst var með því — 83 af hundraði tímans. Ekki er að undra að við erum áminnt um að vera ekki löt eða letileg heldur „brennandi í andanum“ og ‚þjóna Jehóva‘! Hvað getur hjálpað okkur til þess?
10. Hvers vegna ættum við að hafa mikinn áhuga á ráðleggingum Páls til Tímóteusar í 1. Tímóteusarbréfi 4:12-16?
10 Í 1. Tímóteusarbréfi 4:12-16 tíundaði Páll postuli fyrir Tímóteusi það sem hann ætti að gera til að framför hans yrði „öllum augljós.“ Á þeim tíma var lærisveinninn Tímóteus enginn unglingur eða nýgræðingur lengur. Hann hafði þá starfað náið með Páli í meira en áratug og verið treyst fyrir töluverðri ábyrgð og valdi í kristna söfnuðinum, vafalaust vegna þess að hann hafði þegar tekið framförum fram til þess tíma. Samt sem áður gaf Páll Tímóteusi góð ráð. Ljóst er að okkur er öllum nauðsynlegt að gefa nákvæman gaum því sem Páll hafði að segja.
11, 12. (a) Hvert er fyrsta sviðið þar sem við ættum að gefa því gaum að taka framförum? (b) Hvers vegna er það þýðingarmeira en framför í þekkingu eða kunnáttu?
11 Fyrst sagði Páll í 12. versi: „Lát engan líta smáum augum á æsku þína, en ver fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika.“ Þessi upptalning minnir okkur á ‚ávexti andans‘ sem Páll gerði grein fyrir í Galatabréfinu 5:22, 23. Hver getur neitað því að við þurfum öll að bera þessa ávexti í ríkari mæli í lífi okkar? Flest okkar leggja mikið á sig til að læra og leggja á minnið hina níu ávexti andans og að kenna hinum ungu og nýju að gera það einnig. En leggjum við að minnsta kosti jafnmikið á okkur við að rækta þá? Páll benti á að þeir sem eru þroskaðir skyldu vera til fyrirmyndar í þessum efnum. Þarna er að minnsta kosti eitt svið í lífi okkar þar sem við getum öll auðveldlega tekið framförum.
12 Í vissum skilningi eru þessir eiginleikar kannski betri mælikvarði á andlega framför okkar heldur en þekking og hæfni, því að hið fyrrnefnda er ávöxtur anda Guðs en hið síðarnefnda oft tengt náttúrlegri hæfni og menntun. Hinir skriftlærðu og farísearnir á dögum Jesú voru vel menntaðir í Ritningunni og nákvæmnir í að hlýða hinum flóknustu smaátriðum lögmálsins. Samt sem áður fordæmdi Jesús þá og sagði: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti.“ (Matteus 23:23) Svo sannarlega er mikilvægt fyrir okkur að halda áfram að taka framförum í að rækta í lífi okkar það sem „mikilvægast“ er!
13. Hvernig geta útnefndir umsjónarmenn notið góðs af heilræðum Páls í 1. Tímóteusarbréfi 4:13?
13 Þessu næst áminnti Páll Tímóteus um að vera „kostgæfinn að lesa úr Ritningunni, áminna og kenna.“ (1. Tímóteusarbréf 4:13) Annars staðar í bréfum sínum lýsir Páll Tímóteusi sem hæfum og trúföstum þjóni orðsins. (Filippíbréfið 2:20-22; 2. Tímóteusarbréf 1:4, 5) Samt sem áður ráðlagði hann Tímóteusi að halda áfram að gefa gaum þessum nauðsynlegu skyldum umsjónarmanna. Ef þú ert útnefndur umsjónarmaður í söfnuðinum, ert þú þá „kostgæfinn“ í þessum málum? Tekur þú til dæmis alvarlega tillögur sem gefnar eru í Handbók Guðveldisskólans og reynir að bæta þig á þeim sviðum þar sem þér er áfátt, eða finnst þér þessi ráð aðeins vera fyrir byrjendur? Nemur þú Biblíuna og rit Félagsins gaumgæfilega til að þú getir ‚ávitað og áminnt með öllu langlyndi og fræðslu‘? — 2. Tímóteusarbréf 4:2; Títusarbréfið 1:9.
14. Hvernig getum við tekið framförum í þjónustu okkar á akrinum?
14 Enda þótt aðeins fáeinir séu útnefndir til að kenna í söfnuðinum hefur Jesús Kristur boðið öllum kristnum mönnum að taka þátt í að bera vitni um Guðsríki og gera menn að lærisveinum. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Það felur í sér að kenna hjartahreinum mönnum sannindi Biblíunnar, hvetja þá til að gera í lífi sínu nauðsynlegar breytingar og taka afstöðu með Jehóva. Ert þú „kostgæfinn“ í því að auka hæfni þína sem þjónn orðsins? Notfærir þú þér samviskusamlega tillögur Ríkisþjónustu okkar og aðrar sem koma fram á hinni vikulegu þjónustusamkomu til að þú getir ‚gert verk trúboða, fullnað þjónustu þína‘? — 2. Tímóteusarbréf 4:5.
15. Hver er ‚náðargjöf‘ Tímóteusar og hvað um okkar tíma?
15 Áður hafði Páll gefið Tímóteusi þessa áminningu: „Vanræktu ekki náðargjöfina þína, sem var gefin þér að tilvísan spámanna og með handayfirlagningu öldunganna.“ (1. Tímóteusarbréf 4:14) Svo virðist sem Tímóteus hafi, vegna starfsemi heilags anda, verið tilnefndur og síðan skipaður til sérstakrar þjónustu í kristna söfnuðinum. (1. Tímóteusarbréf 1:18; 2. Tímóteusarbréf 1:6) Eins eru núna margir innan skipulagsins sem hafa ræktað hæfileika, sem Guð hefur gefið þeim, og það hefur orðið til þess að þeir hafa verið skipaðir farandumsjónarmenn, trúboðar, reglulegir brautryðjendur, sérbrauryðjendur, öldungar og svo framvegis. Jafnvel þótt engin sérstök spá eða handayfirlagning sé því samfara eiga heilræðin um að ‚vanrækja ekki náðargjöfina þína‘ við af jafnmiklum þunga núna.
16. Hvað getur komið í veg fyrir að við vanrækjum ‚náðargjöf‘ okkar?
16 Að vanrækja eitthvað merkir, samkvæmt orðabókinni, að hirða ekki um, að rækja illa, að láta sitja á hakanum. Þegar eitthvað verður hversdagslegt er auðvelt að vanrækja það. Það gæti gerst ef við hættum að taka framförum og förum að taka verkefni okkar sem sjálfsagðan hlut. Við getum því haft gagn af því sem Páll sagði í Kólossubréfið 3:23, 24: „Hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga, eins og [Jehóva] ætti í hlut, en ekki menn. Þér vitið og sjálfir, að [Jehóva] mun veita yður arfleifðina að launum. Þér þjónið Drottni Kristi.“
Stöðug viðleitni veitir blessun
17. Hver er eina leiðin til að sjá árangur af erfiði okkar?
17 Þegar við gefum nákvæman gaum því sem við höfum rætt hér á undan getum við verið þess fullviss að við föllum ekki í þá gildru að vera sinnulaus eða sjálfsánægð. „Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós,“ sagði Páll. (1. Tímóteusarbréf 4:15) ‚Framförin‘ hefur auðvitað ekki þann tilgang að sýnast fyrir öðrum. Þegar við, hvort sem við erum ung eða aldin, vöxum og þroskumst andlega veitum við gleði og uppörvun öllum sem hafa samfélag við okkur, alveg eins og hin unga Alisa og vinkona hennar sem minnst var á fyrr í þessari grein.
18. Hvaða tvíþætt blessun bíður okkar ef við fylgjum heilræðum Páls af kostgæfni?
18 Okkar bíður tvíþætt blessun ef við fylgjum kostgæfilega ráðum Páls. „Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni,“ sagði Páll. „Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ (1. Tímóteusarbréf 4:16) Já, með því að kanna hvort við séum að gera það sem við kennum öðrum, það er að segja að taka framförum, vaxa og þroskast andlega, munum við geta umflúið þann harmleik að verða hafnað. (1. Korintubréf 9:27) Þess í stað eru okkur tryggðar þær ánægjulegu framtíðarhorfur að hljóta líf í hinni fyrirheitnu nýju skipan Guðs, svo og þeim sem við höfum þau gleðilegu sérréttindi að hjálpa. Þess vegna, okkur til blessunar og öðrum til blessunar og til lofs Jehóva Guði: ‚Haldið áfram að ganga reglufastir eftir þessari sömu venju‘! — Filippíbréfið 3:16.
Manst þú?
◻ Hvert er hið endanlega „mark“ sem við ættum að hafa í huga? Hvernig keppum við að því? (Filippíbréfið 3:12, 13)
◻ Hver er sú „venja“ sem við ættum að ganga eftir? (Filippíbréfið 3:16)
◻ Hvers vegna verðum við að halda áfram að bæta okkur í kristilegri hegðun og tali? (1. Tímóteusarbréf 4:12)
◻ Hvernig geta öldungar, safnaðarþjónar og aðrir tekið framförum í kennsluhæfni sinni? (1. Tímóteusarbréf 4:13)
◻ Hvað verðum við að gera til að vanrækja ekki „náðargjöfina“ sem okkur hefur verið treyst fyrir? (1. Tímóteusarbréf 4:14)
[Rammi á blaðsíðu 30]
Vertu til fyrirmyndar í orði og hegðun
[Rammi á blaðsíðu 31]
Kostgæfni við upplestur, áminningu og kennslu
[Rammi á blaðsíðu 31]
Vanræktu ekki þá gjöf sem þjónustan er
[Mynd á blaðsíðu 29]
Alisa og biblíunemandi hennar hafa það markmið að verða þjónar orðsins í fullu starfi.