Trúarbrögð og stjórnmál — stefnir í árekstur?
HINRIK VIII var ekki frumkvöðullinn að því að sameina trúarlegt og stjórnmálalegt vald í hendur einum manni. Á hans dögum var það þegar þrautreynt kænskubragð í stjórnmálum til að efla þjóðareiningu.
Í hinu forna heimsveldi Egypta voru til dæmis dýrkaðir margir guðir. „Faraó sjálfur var einn guðanna og gegndi meiriháttar hlutverki í lífi þegnanna,“ segir The New Bible Dictionary. Rómaveldi hafði líka sinn guðaheim og töldust keisararnir í þeirra hópi. Sagnfræðingur lýsir keisaradýrkuninni sem „mikilvægasta aflinu í trúarbrögðum hins rómverska heims.“
En þrátt fyrir þá staðreynd að sameining ríkis og kirkju á sér aldagamla hefð hafa afskipti kristna heimsins nú á tímum af stjórnmálum komið honum í þá stöðu að hann stefnir í árekstur við þau öfl sem hann biðlar til. Hvers vegna? Til svars við þeirri spurningu skulum við skoða lítillega hvernig kristni heimurinn blandaði sér upphaflega í stjórnmál.
Sönn kristni er ólík
Jesús Kristur, stofnandi kristninnar, hafnaði pólitísku valdi í sérhverri mynd. Að minnsta kosti einu sinni reyndi fólkið, yfir sig hrifið af kraftaverkum hans, að taka hann með valdi til að gera hann að konungi, en hann ‚vék aftur upp til fjallsins einn síns liðs.‘ (Jóhannes 6:15) Þegar rómverski landstjórinn spurði hann hvort hann væri konungur svaraði hann: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum.“ — Jóhannes 18:36.
Kristur sagði lærisveinum sínum einnig: „Af því að þér heyrið ekki heiminum til, en ég hefi útvalið yður af heiminum, vegna þess hatar heimurinn yður.“ (Jóhannes 15:19, Ísl. bi. 1912) Frumkristnir menn létu því ekki þjóðfélagsleg eða stjórnmálaleg vandamál leiða sig á villigötur. Þrælahald var til dæmis útbreitt vandamál þá en kristnir menn börðust ekki fyrir afnámi þess. Þess í stað var kristnum þrælum boðið að vera hlýðnir húsbændum sínum. — Kólossubréfið 3:22.
Í stað þess að blanda sér í stjórnmál tóku frumkristnir menn sér fyrir hendur að vitna og prédika „um Guðs ríki.“ (Postulasagan 28:23) Á aðeins fáeinum áratugum náði boðskapur þeirra til endimarka þess heims sem þá var þekktur. (Kólossubréfið 1:23) Hvaða afleiðingar hafði það? Þúsundir manna tóku við boðskapnum og urðu andlegir ‚bræður og systur.‘ (Matteus 23:8, 9) Gyðingar og heiðingjar, sem tóku kristna trú, lögðu óvináttu sína á hilluna. Jafnvel hinn mikli ágreiningur Gyðinga og Samverja hvarf vegna þess „brennandi kærleika“ sem kristnir menn báru hver til annars. — 1. Pétursbréf 4:8.
Kærleikur kristinna manna náði meira að segja til óvina þeirra. (Matteus 5:44) Þeir neituðu því að þjóna í herjum keisarans. ‚En bauð Jesús okkur ekki að „gjalda keisarans það sem keisarans er?“‘ kann einhver að spyrja. Jú, það er rétt, en var Jesús að tala um herþjónustu? Nei, hann var einungis að ræða um það hvort ‚gjalda bæri keisaranum skatt eða ekki.‘ (Matteus 22:15-21) Kristnir menn greiddu því skatta sína, en þeir litu svo á að líf þeirra væri helgað Guði og neituðu með öllu að vinna öðrum mönnum tjón.
Vinátta við heiminn
‚En lítið á kristna heiminn núna,‘ segir kannski einhver. ‚Hann er margsundraður, meðlimir hans slátra oft hver öðrum og prestarnir eru á kafi í stjórnmálum. Hvað hefur komið fyrir kristnina?‘ Nú, Jesús varaði við því að falskristnum mönnum yrði ‚sáð‘ meðal sannkristinna manna. (Matteus 13:24-30) Páll spáði líka: „Ég veit, að skæðir vargar munu koma inn á yður . . . og úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn, sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.“ — Postulasagan 20:29, 30.
Þessi þróun var þegar byrjuð á fyrstu öldinni. Lærisveinninn Jakob fann sig knúinn til að skrifa þessi myndrænu orð: „Þið eruð jafnótrúir og hórgjarnar eiginkonur; er ykkur ekki ljóst að með því að gera heiminn að vini ykkar eruð þið að gera Guð að óvini ykkar?“ (Jakobsbréfið 4:4, The Jerusalem Bible; leturbreyting okkar.) Margir kusu að láta þessi orð Guðs sem vind um eyru þjóta. Svo langt gekk það að á fjórðu öld gat úlfur í sauðaklæðum, Konstantínus keisari, gert spillta „kristni“ enn verri með því að gera hana að opinberri trú Rómaveldis. En með því að verða ‚vinur heimsins‘ varð kristni heimurinn óvinur Guðs. Árekstur fyrr eða síðar varð óhjákvæmilegur.
Þegar kom fram á 13. öld hafði kirkjan, sem stjórnað var af „páfa“ sínum eða „föður,“ náð „hátíndi valda sinna“ og búið í haginn fyrir enn nánara bandalag kirkju og ríkis. Innocentíus Páfi III sannfærðist um að „Drottinn hafi gefið Pétri ekki aðeins stjórnvald yfir allsherjarkirkjunni heldur líka stjórnvald yfir öllum heiminum.“ (Leturbreyting okkar.) Sagnfræðiprófessorinn T. F. Tout heldur áfram í ritverki sínu The Empire and the Papacy (Heimsveldið og páfadæmið): „Innocentíus gegndi starfi kirkjulegs stjórnmálamanns . . . Hann setti konunga og keisara til valda og svipti völdum að vild sinni.“ En prófessorinn bætir við: „Því pólitískara sem yfirvald páfans varð, þeim mun erfiðara reyndist að viðhalda virðingu þess sem uppsprettu laga, siðgæðisreglna og guðsdýrkunar.“
Trúarbrögð og styrjaldir
Styrjaldir eru stjórnmál í ofbeldisfullri mynd. Innocentíus páfi III skipulagði persónulega herferð gegn Albígensum í Suður-Frakklandi. Sú herför leiddi til hins hryllilega blóðbaðs þegar þúsundir manna voru brytjaðar niður í Béziers árið 1209 og fjöldi fólks brenndur á báli að tilstuðlan hins heilaga rannsóknarréttar. Krossferð, sem í upphafi átti að fara til Palestínu, var með pólitískum vélabrögðum látin hafa viðkomu í Konstantínópel. Í þrjá daga fóru „kristnir“ riddarar með „ránum, morðum, losta og helgispjöllum“ um borgina. Hver voru fórnarlömbin? Aðrir „kristnir“ menn! Sagnfræðingur segir: „Meira að segja kirkjurnar voru rændar miskunnarlaust.“
Hinar ókristilegu aðferðir kirkjunnar urðu að lokum til þess að Marteinn Lúther negldi sínar tíu ögrandi áskoranir á hurð hallarkirkjunnar í Wittenberg árið 1517 — og siðbótin var hafin. En, eins og H. A. L. Fisher segir í bók sinni History of Europe (Saga Evrópu): „Hin nýja trú . . . átti mikið undir stuðningi aðalsmanna og stjórnvalda.“ Trúar- og stjórnmálaágreiningur sundraði Þýskalandi. Í Frakklandi áttu Kalvinistar á sama hátt náin tengsl við stjórnmálaleiðtoga. Trúarstríðin, sem af þessu leiddu, voru því ekki aðeins háð til að berjast fyrir trúfrelsi heldur líka vegna „samkeppni aðalsmanna, sem voru annars vegar rómversk-kaþólskir en hins vegar mótmælendur, um yfirráð yfir krúnunni.“ Trúarbragðasaga Evrópu er því rituð með blóði!
Þegar 20. öldin rann upp áttu Bretar og Búar í harðvítugu stríði í Suður-Afríku. Klerkar beggja vegna kyntu undir með „hvatningarorðum úr prédikunarstólnum.“ Sagnfræðingurinn R. Kruger segir: „Bænaflaumurinn, sem beinst var til himna af beggja hálfu meðan á stríðinu stóð, átti sér samjöfnuð aðeins í margbreytileik þeirra sértrúarstefna sem innblástruinn kom frá.“ Hvítir „kristnir“ menn slátruðu hver öðrum og báðu Guð um hjálp til þess!
Þetta mynstur endurtók sig í tröllslegum mæli árið 1914 þegar þýskur her þrammaði inn í Belgíu með áletrunina „Gott mit uns“ (Guð með oss) á beltum hermannanna. Beggja vegna víglínunnar streymdu frá kirkjunum bænir um sigur en óvininum sendar naprar kveðjur.
Hlutur kirkjanna í fyrri heimsstyrjöldinni varð mörgum mikil vonbrigði. Trúleysingjar og kommúnistar, sem kölluðu trúarbrögðin „ópíum fólksins,“ margfölduðust. Engu að síður hélt prestastéttin áfram afskiptum sínum af stjórnmálum og studdi fasistíska einræðisherra svo sem Mussolini og Franco. Árið 1933 gerði rómversk-kaþólska kirkjan meira að segja sáttmála við nasista. Faulhaber kardínáli skrifaði Hitler: „Þetta handaband við páfastólinn . . . er óumræðilega blessunarrík gjörð . . . Megi Guð vernda Ríkiskanslarann [Hitler].“
Jafnvel möguleikinn á nýrri heimsstyrjöld hefur ekki gert klerkastéttina fráhverfa stjórnmálum. Nýverið hafa sumar kirkjur snúist á sveif með vinstri öflum í stjórnmálum. Rithöfundur einn segir: „Nýjasta kynslóð guðfræðinga frá Rómönsku-Ameríku . . . heldur því fram að kristnin hljóti óhjákvæmilega að birtast í gegnum marxisma.“ En Biblían aðvarar: „Þeir sá vindi, og storm skulu þeir uppskera.“ — Hósea 8:7.
Þeir uppskera storm
Já, Biblían gefur alvarlega aðvörun: Hræðilegur árekstur trúarbragða og stjórnmála er í vændum. Í Opinberunarbókinni 17. kafla lýsir Biblían heimsveldi falskra trúarbragða sem blóði drifinni, ‚mikilli skækju sem situr við vötnin mörgu.‘ Þessi ‚vötn‘ tákna ‚lýði og fólk, þjóðir og tungur.‘ (1. og 15. vers) Skækjan er nefnd „Babýlon hin mikla, móðir hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar“ og hún er drukkin af „blóði hinna heilögu.“ (5. og 6. vers) „Babýlon“ er viðeigandi nafn á heimsveldi hinna fölsku trúarbragða, því að margar af kenningum þeirra eiga rætur sínar að rekja til hinnar fornu Babýlonar.a Það hefur ofsótt sannkristna menn í gegnum aldirnar og þar með getið sér orð fyrir morð og manndráp.
Heimsveldi falskra trúarbragða er enn fremur lýst svo að það ríði dýri með „sjö höfuð og tíu horn . . . sem . . . eru tíu konungar.“ (3. og 12. vers) Í þessu tímariti hafa áður birst greinar sem sýna fram á að þetta „dýr“ er það verkfæri sem menn ætla að varðveita með heimsfriðinn, Sameinuðu þjóðirnar. Kirkjurnar eru kunnar fyrir stuðning sinn við þessi samtök. Í október 1965 lýsti Páll páfi VI Sameinuðu þjóðunum sem ‚síðustu voninni um samlyndi og frið.‘ Jóhannes Páll páfi II ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna árið 1979. Án þess að minnast einu orði á Krist og ríki hans talaði hann um Sameinuðu þjóðirnar sem ‚æðsta dómstól friðar og réttvísi.‘
En hvers vegna er þetta bandalag trúarbragða og Sameinuðu þjóðanna svona hættulegt? Vegna þess að „hornin tíu . . . og dýrið, munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta . . . og brenna hana í eldi.“ (16. vers) Falstrúarbrögðin stefna því beint í árekstur við stjornmálaöflin sem hefur tortímingu og eyðileggingu í för með sér. Eftir að þau hafa verið svipt klæðum og viðbjóðsleg spilling þeirra og saurugleiki afhjúpaður verður þeim gereytt.
Það mun hleypa af stað ‚þrengingunni miklu‘ sem Jesús talaði um og ná mun hámarki sínu í Harmagedónstríðinu. Kristur, með sér að baki ósigranlegar himneskar hersveitir, mun „knosa og að engu gjöra“ allt heimskerfi Satans. Einungis verða eftir hinir ‚auðmjúku sem munu erfa jörðina.‘ Það verða hinir sannkristnu menn sem hafa, meðal annars, haldið sér fjarri sundrandi stjórnmálum. — Matteus 24:21; Daníel 2:44; Sálmur 37:10, 11; Matteus 5:5; Opinberunarbókin 6:2; 16:14-16.
Hvað ættir þú að gera ef þú ert mæddur yfir þeim þjáningum og guðlasti sem falstrúarbrögðin hafa valdið? Biblían býður: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni [falstrúarbrögðunum], svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar.“ (Opinberunarbókin 18:4) Einungis vottar Jehóva hvetja fólk til að hlýða þessu boði. Eins og frumkristnir menn koma þeir ekki nálægt styrjöldum eða stjórnmálum og eiga því ekki tortímingu í vændum þegar árekstur trúarbragðanna við stjórnmálaöflin verður. Hafðu samband við þá. Þeir munu fúslega sýna þér hvernig þú getir fundið „þrönga hliðið“ sem liggur til eilífs lífs en ekki tortímingar. — Matteus 7:13, 14; Jóhannes 17:3.
[Neðanmáls]
a Nánari upplýsingar er að finna í bókinni „Babylon the Great Has Fallen!“ God’s Kingdom Rules!, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.; sjá einnig greinaflokk sem birtist í íslenskri útgáfu Varðturnsins frá 1. nóvember 1964 til 1. febrúar 1971.