Njóttu gleði af þeirri gjöf sem hjónabandið er
„Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ — MATTEUS 19:6.
1. Hvaða orð Jesú eru alkunn í kristna heiminum, en hvaða spurningar koma upp í sambandi við þau?
HLJÓMA þessi orð kunnuglega? Þau eru vafalaust kunn milljónum manna í kristna heiminum, sem umtalsverður hluti jarðarbúa tilheyrir, því að það var Drottinn Jesús sem mælti þau við faríseana. En hvað merkja þessi orð Jesú? Fylgja menn almennt þeim ráðum sem í þeim felast? Við skulum athuga það nánar.
2-4. (a) Hvernig er orðum Jesú í Matteusi 19:6 fylgt í stórum hluta heimsins? (b) Hvaða viðhorf birtast hjá þeim sem virða að vettugi ráð Biblíunnar um varanleika hjónabandsins?
2 Í mörgum löndum heims er lítil virðing borin fyrir hjónabandinu og því að varðveita það sem Guð hefur tengt saman. Hjónaskilnaðir hafa náð því sem kalla mætti farsóttartíðni víða um heim. Þar sem hjónaskilnaðir eru ekki leyfðir að lögum er myndin ekkert fegurri, því að þar slíta menn oft samvistum við maka sinn og taka upp sambúð við einhvern annan. Ljóst er því að milljónir manna í kristna heiminum og annars staðar fylgja ekki hinu ágæta ráði Jesú í Matteusi 19:6. Var ráðlegging Jesú ekki góð, eða hlusta menn ekki á það sem hann segir og hafa lítinn áhuga á ráðum hans um þetta efni?
3 Allt bendir til þess að stór hluti manna líti ekki á hjónaband sem ævilangan sáttmála. Ef ekki er hægt að samræma það lífsstíl manna, löngunum og starfi, því sem þeim geðjast og geðjast ekki að, líta þeir oft á hjónaband sem tímabundna ráðstöfun. Svo virðist sem mörgum finnist jafnlítið mál að losa sig við maka sinn eins og að afklæðast frakka eða taka af sér hatt, án þess að hugsa eitt andartak um það ráð sem Jesús gaf þeim sem ganga í hjónaband.
4 Með því að þetta er svona útbreitt viðhorf er hætta á að þeir sem vilja fylgja hinu trausta ráði Biblíunnar geti orðið fyrir slíkum áhrifum að þeir fjarlægist hina góðu kenningu orðs Guðs. Þjónar Guðs fá mörg góð ráð, bæði skriflega og munnlega, en sé leiðbeiningum Biblíunnar ekki fylgt getur það leitt til vandamála í hjónabandi. (Samanber Sálm 19:8-12.) Við erum í hættu ef við tileinkum okkur það viðhorf að við getum, með því að fylgja ekki leiðbeiningum Guðs um hjónabandið, breytt hverju því í hjónabandinu sem rekst á við lífsstíl okkar, nautnir eða langanir. Ef við höfum slíkt viðhorf stöndum við frammi fyrir einu alvarlegasta vandamáli mannkynsins — eigingirni. Það er yfirleitt eigingirni sem er undirrót vandamála í hjónabandi. Hvers vegna segjum við það?
Hlutverk syndarinnar
5. Hvernig lýsir Páll postuli í Rómverjabréfinu 7:15-20 því vandamáli sem við eigum við að glíma vegna erfðasyndarinnnar?
5 Karlar og konur, afkomendur Adams og Evu, eru fædd syndug og ófullkomin. Það þýðir að vegna arfgengrar syndar nær maðurinn ekki marki sínu og er löglaus á einn eða annan hátt. (1. Jóhannesarbréf 3:4) Páll postuli talaði um hina gífurlegu byrði sem syndin leggur á herðar mannkynsins, því að hann sagðist sjálfur gera það sem hann vildi ekki og ekki gera það sem hann ætti. (Rómverjabréfið 7:15-20) Hver sem af ásettu ráði brýtur lög Guðs er eigingjarn. Hjá sumum birtist eigingirnin í smáum mæli en hjá öðrum verður hún slík að hún drottnar yfir lífi þeirra á öllum sviðum.
6, 7. Hvaða tveim vandamálum í hjónabandi veldur eigingirni, og hvaða spurning kemur upp af þeim sökum?
6 Innan þeirrar ráðstöfunar Guðs, sem hjónabandið er, er eigingirni oft undirrót vandamála milli hjóna. Kona, sem vill láta þjóna sér í einu og öllu, ef til vill spillt af eftirlæti foreldra sinna, er í grundvallaratriðum eigingjörn. Maður, sem vill halda áfram að lifa eins og hann gerði þegar hann var einhleypur, vera alltaf með „strákunum“ eftir að hann er kvæntur, er í grundvallaratriðum eigingjarn. Veltu fyrir þér öllum hugsanlegum ágreiningsatriðum hjóna; þá verður þér ljóst að eigingirni er undirrót fjölmargra vandamála.
7 Hvernig er hægt að sigrast á þessari meðfæddu tilhneigingu til eigingirni og stuðla þannig að lausn vandamála sem upp koma í hjónabandi? Margt er hægt að gera til að styrkja undirstöðu hjónabands sem gengur ekki nægilega vel. En báðir aðilar hjónabandsins verða að vera fúsir til að leggja sitt af mörkum. Annað hjónanna getur ekki af eigin rammleik leyst vandamálin. Við skulum líta nánar á sumt af því sem hægt er að gera.
Óeigingirni í hjónabandi
8. Hvernig þurfa bæði hjónin að leggja sitt af mörkum?
8 Hjónaband er það að deila með öðrum. Það felur í sér að hvorugt hjónanna getur litið á hitt sem sjálfsagðan hlut, eða látið sér finnast að svo lengi sem annað hjónanna gefur og hitt þiggur sé allt í besta lagi. Það er hvorugu þeirra til blessunar. Til dæmis þarf að taka með í reikninginn ættingja beggja. Ekki má koma til árekstra milli hjóna af þeim sökum að annað hjónanna hugsi aðeins um sína ættingja en ekki hins. Ákvarðanir um það hvar fjölskyldan eyði orlofi eða hvað hún gerir til afþreyingar ætti að taka sameiginlega. Hugulsemi og umhyggja í slíkum málum mun stuðla að hamingjuríku hjónabandi. Lítið aldrei á hvort annað sem sjálfsagðan hlut; verið óeigingjörn. — Filippíbréfið 2:4.
Hlutverk aldurs
9. Hvaða alvarlegar afleiðingar hefur það ef hjúskaparsáttmálinn er ekki litinn alvarlega?
9 Hið útbreidda viðhorf meðal okkar kynslóðar að gangi hjónaband ekki sem skyldi sé hægt að slíta því með hjónaskilnaði, veldur því að margt ungt fólk lítur ekki á hjónaband sem sérlega alvarlega ráðstöfun. Þetta veldur því að táningahjónabönd eru oft ótraust og skammlíf. Það hefur líka í för með sér að oft fæðast börn sem ekki er óskað. Mörg þessara barna kynnast því aldrei hvað það er að eiga móður og föður sem elska þau heitt og annast.
10. Hvernig getur Galatabréfið 5:22, 23 verið hjálp þeim sem hyggja á hjónaband?
10 Hvaða aldri ætti einstaklingurinn að hafa náð áður en hann fer að leggja á ráðin um hjónaband? Ekki væri hyggilegt að setja reglur um það. Eigi að síður gefur Ritningin holl ráð um það hvað felist í hugarfarslegum og andlegum þroska — þeim þroska sem þarf til að ganga í hjónaband. Lestu Galatabréfið 5:22 og 23 þar sem ávextir andans eru tíundaðir. Hugleiddu vandlega hvern einstakan ávöxt sem talin er þar upp. Þetta eru þeir eiginleikar sem við þurfum að rækta í lífinu, og við ættum ekki að byrja á því fyrst eftir að við erum gengin í hjónaband, heldur ættu þeir að byrja að sýna sig löngu áður í daglegu lífi okkar sem kristnir menn.
11. Hvaða sjálfsrannsókn ættu þeir sem hyggja á hjónaband að gera?
11 Til dæmis gætir þú spurt þig: Er ég lífsglaður og þjóna hagsmunum ríkis Krists með fögnuði? Er ég sáttur við aðra og stuðla að friðsömum samskiptum við þá eða er ég deilugjarn, reiðigjarn og illyrtur? Er ég langlyndur, fær um að umbera veikleika bræðra minna eða systra, móður eða föður eða er ég skapstyggur og gjarnt að reiðast ef aðrir sitja ekki og standa eins og mér líkar? Er ég góðgjarn, mildur og hjálpfús í samskiptum við aðra eða er ég eigingjarn, uppstökkur og skortir sjálfstjórn? Ber ég ósvikinn kærleika til annarra, vil hjálpa þeim, legg lykkju á leið mína og gef af sjálfum mér og efnum til að gleðja aðra, eða vil ég að aðrir sýni mér kærleika og gefi alltaf af sínum efnum?
12. Hvaða kostur fylgir því að taka út þroska fyrir hjónaband?
12 Enginn okkar hefur auðvitað þessa eiginleika í fullkomnum mæli. Einhleypur karlmaður eða kona, sem hefur um nokkurra ára skeið haft tækifæri til að móta og rækta slíka andlega eiginleika, er samt sem áður í langtum betri aðstöðu til að láta hjónaband sitt verða hamingjuríkt heldur en sá sem byrjar ekki að reyna að rækta þessa ávexti andans fyrr en eftir stofnun hjónabands. — Samanber 2. Pétursbréf 1:5-8.
13, 14. (a) Hvaða tækifæri gefst fólki til að rækta andlegt verðmætamat ef það gengur ekki ungt í hjónaband? (b) Hvað geta foreldrar gert til að aðstoða börn sín?
13 Reyndu að grandskoða sjálfan þig í fullri hreinskilni og hugleiða hverju þér geðjast að og hverju ekki. Hefur ekki jákvætt mat þitt á lífinu vaxið með tímanum? Hafðir þú sama verðmætamat þrettán ára gamall og fimm ára, eða tvítugur og þrettán ára? Hefur skilningur þinn á lífinu og virðing fyrir því vaxið eða minnkað með aukinni lífsreynslu? Leitar þú núna sem fullvaxta karl eða kona sömu eiginleika í fari fólks og þú gerðir þegar þú varst barn? Er það ekki oft svo að „hinn eini sanni“ piltur í lífi sextán eða sautján ára stúlku er löngu gleymdur þegar hún er orðin fullvaxta kona og farin að leggja meira upp úr guðhræðslu karlmanns og persónuleika? Þegar hún er orðin 22 til 23 ára er líklegt að hún gefi meiri gaum andlegum, hugarfarslegum og tilfinningalegum kostum mannsins en útliti. Hið sama má segja um ungan pilt sem er að verða að karlmanni. Vonir hans og væntingar í sambandi við eiginkonu þroskast með honum. Þegar hann hefur lengri aldur að baki og verðmætamatið hefur þroskast mun hann leita að eiginkonu sem er skilningsrík og góðviljuð, hefur góða hæfileika sem húsmóðir og móðir, og hefur í hjarta sér djúpa löngun til að þóknast fyrst og fremst skaparanum, Jehóva, og gera vilja hans. — Orðskviðirnir 31:10, 26, 27.
14 Kjarni málsins er sá að tíminn breytir gildismati fólks. Þess vegna eru margar hættur því samfara að rjúka út í hjónaband á unga aldri. Óvíst er að hægt sé að sannfæra tvö ungmenni um að þau skuli bíða enn um sinn áður en þau gangi í hjónaband, en foreldrar geta, einkanlega meðan börnin eru ung, hvatt þau til að hugsa alvarlega um lífið og hvað það þýði að vera andlega, tilfinningalega og hugarfarslega undir það búinn að ganga í hjónaband áður en gerður er ævisáttmáli við annan einstakling.
15. Hvaða ráð eru gefin um rétt viðhorf, þar eð ekki er hægt að komast hjá öllum vandamálum með því að ganga seint í hjónaband?
15 Með þessu er ekki verið að segja að lausn allra vandamála sé sú að bíða fram á miðjan aldur með að ganga í hjónaband. Vandamál geta einnig komið upp við þær aðstæður, einkanlega ef eigingjörn viðhorf fá að reka fleyg milli hjóna. Taka verður tillit til hugarfarslegra, tilfinningalegra og andlegra þarfa beggja hjónanna. Komið hefur fyrir að kristnir menn hafi leyft sér að sökkva sér svo niður í veraldlega vinnu að safnaðarstarf hafi setið á hakanum, þar á meðal samkomusókn og þátttaka í því að prédika og gera menn að lærisveinum. Þeir reyna síðan að bæta upp það sem þeim finnst vanta í lífi sínu með því að stunda afþreyingu af kappi. Þeir virðast halda að svo lengi sem þeir séu uppteknir muni vandamál þeirra einhvern veginn leysast um stundar sakir, og að þegar hin nýja heimsskipan gengur í garð muni þeim hjónunum takast að fullnægja tilfinningalegum, hugarfarslegum og andlegum þörfum hvors annars. En lífið er ekki þannig. Páll ráðlagði eiginmanni að annast konu sína eins og sinn eigin líkama. (Efesusbréfið 5:28) Það felur í sér að hann veiti þörfum konu sinnar athygli núna alveg eins og hann sinnir eigin þörfum dag hvern. Hið sama gildir auðvitað um konuna.
Öfgalaust viðhorf til hjónabands
16-18. (a) Hvers vegna er öfgalaust viðhorf til lífsins og hjónabands nauðsynlegt, og hvaða aðvörun fáum við í sambandi við eigin óskir og þarfir annarra? (b) Hvers vegna er gott að íhuga slíkt rækilega fyrir hjónaband?
16 Öfgalaust viðhorf til lífsins hjálpar okkur að hafa öfgalaust viðhorf til hjónabands. Sá sem hefur gott jafnvægi gerir sér ljóst að vegna sinnar arfgengu, eigingjörnu tilhneiginga verður hann öllum stundum að vinna að því að yfirstíga ágalla sína. Fátt er auðveldara en að láta sér aldrei detta í hug að þarfir annarra gangi fyrir þörfum sjálfs sín. Lítið barn vill yfirleitt hafa öll leikföngin sín fyrir sig, og ef það hefur ekki fengið gott uppeldi mun það sjaldan leyfa öðrum börnum að leika sér með þau. Síðar á ævinni mun eigingirni þess teygja sig yfir á önnur svið. Reynslan er því oft sú að táningar og ungt fólk krefst þess að fá að fara sínu fram, og í leit sinni að því að fullnægja eigin löngunum lætur það sig oft engu skipta þótt það særi aðra. Síðar á ævinni er slíkt fólk alltaf að krefjast þess sem það vill fá, án þess að skeyta hið minnsta um þarfir annarra.
17 Sá sem varðveitir gott jafnvægi mun taka tillit bæði til sjálfs sín og annarra. Hann mun spyrja hvað hann geti gert til að hjálpa öðrum, til að gefa af sjálfum sér og hvað hann hafi sem aðrir geti notið góðs af. Hann mun ekki krefjast þess að fá sínum vilja framgengt fyrst, síðast og alltaf. Í Orðskviðunum 11:25 segir: „Velgjörðasöm sál mettast ríkulega, og sá sem gefur öðrum að drekka mun og sjálfur drykk hljóta.“
18 Að fylgja slíkri stefnu í lífinu sem einhleypur maður mun koma að miklu gagni í hjónabandi síðar. Sá sem gerir það mun alltaf taka tillit til maka síns þegar hann tekur ákvarðanir. Í stað þess að hugsa um hjónaband sem tilraun eða bráðabirgðaráðstöfun hefur hann í huga að hjónaband er sú varanlega ráðstöfun sem Jehóva Guð hafði í huga þegar hann gaf fyrstu mannlegu hjónin saman í Eden. (1. Mósebók 2:22-24) Hann mun sífellt leggja sig fram um að varðveita hjónabandið og hjálpa maka sínum, samhliða því að þau bæði læra að meta Guð og hvort annað betur.
Í stuttu máli
19-21. (a) Hvernig getum við tryggt að við lítum ekki á hjónaband aðeins sem tilraun? (b) Hvað ættu allir, jafnt ungir sem aldnir, að hafa í huga í tengslum við hamingjuríkt hjónaband?
19 „Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ Þessi heilræði Jesú hafa mikla þýðingu fyrir sannkristinn mann. Hjónaband er engin tilraun sem hægt er að hætta við ef illa gengur. Við verðum stöðugt að heyja baráttu við hið ófullkomna hold til að hafa hemil á tilhneigingum mannsins til eigingirni og ávinna okkur velvild Guðs. (Samanber Rómverjabréfið 7:21-25.) Til að láta hjúskaparsáttmálann lánast vel verða bæði hjónin að læra að gefa og þiggja, að sýna umhyggju og taka á móti umhyggju og líta aldrei á hvort annað sem sjálfsagðan hlut. — Efesusbréfið 5:21-23, 28, 33.
20 Ekki er hægt að setja reglur um lágmarksaldur áður en gengið er í hjónaband, umfram það sem landslög kveða á um. Sá sem hyggur á hjónaband ætti hins vegar að hafa hugfasta nauðsyn þess að vaxa andlega í samræmi við Galatabréfið 5:22, 23, til að geta orðið góður maki. Tíminn breytir viðhorfum okkar. Enginn ætti því að rjúka út í hjónaband í flýti. Fyrst ætti hann að rækta hinn kristna persónuleika svo að hann sé undir það búinn að taka á sig ok hjónabandsins. Og aldrei má gleyma að enginn ætti að skilja í sundur það sem Guð hefur tengt saman. — Matteus 19:4-6.
21 Með því að hafa öfgalaust viðhorf til lífsins og hjónabands er hægt að uppskera ósvikna gleði og hamingju innan þess ramma sem Jehóva Guð setti manninum og konunni, eins og stofnun fyrsta hjónabandsins í Eden ber með sér. (Orðskviðirnir 5:18) En hvað getur hver og einn gert umfram þetta til að sýna sig vel búinn undir hlutverk eiginmanns eða eiginkonu? Við hvetjum þig til að lesa greinina sem á eftir fer, en hún fjallar um persónuleika kristinna karlmanna og kvenna.
Hverju svarar þú eftirfarandi spurningum?
◻ Hvaða viðhorf til hjónabands ber að forðast?
◻ Hvað geta hjónin gert til að sigrast á meðfæddum tilhneigingum til syndar?
◻ Hvers vegna ætti kristið æskufólk ekki að flýta sér um of að stofna hjónaband?
◻ Hvaða öfgalaust viðhorf til hjónabands er skynsamlegt?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Heiðarleg sjálfsrannsókn getur leitt í ljós galla sem við þurfum að lagfæra.