Valdabaráttan í heiminum — hver mun sigra?
„AÐALMARKMIÐ Sovétmanna var að þvinga okkur til að hætta við geimvarnaáætlunina. Ég held . . . að herra Gorbatsjov skilji að það hvarflar ekki að okkur að gera það.“ Svo fórust Reagan Bandaríkjaforseta orð eftir Genfarfundinn í nóvember 1985.
Eins og þú veist hafa stórveldin tvö haldið áfram að etja kappi hvort við annað á því rúma ári sem síðan er liðið. Meðal annars héldu leiðtogar þeirra fund í Reykjavík í október síðastliðnum. En fjölmargar þjóðir skipa sér í fylkingu með eða eru sammála stefnu annars hvors stórveldanna og mynda hið svonefnda austur (aðallega kommúnistaríki) og vestur (aðallega auðvaldsríki). Valdabaráttan varðar því allan heiminn og þar með þig sjálfan. Vígbúnaðarkapphlaupið viðheldur auk þess þeirri ógnun að út kunni að brjótast stórstyrjöld sem ógnað gæti framtíð þinni — jafnvel þótt þú búir í hlutlausu ríki.
Þú ættir því að hafa mikinn áhuga á því hvernig valdabaráttunni mun lykta. Verður fundin friðsamleg lausn? Ef ekki, hver mun þá bera sigur úr býtum? Vitneskja þín um það getur haft mikil áhrif á framtíð þína.
Þannig hófst hún
Margar bækur, sem fjalla um nútímasögu, halda því fram að sú valdabarátta milli austurs og vesturs, sem nú stendur, hafi byrjað skömmu eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Saga Biblíunnar gefur hins vegar til kynna að hún sé framhald baráttu um heimsyfirráð sem hófst fyrir nærfellt 2300 árum.
Hafir þú lesið sögu Grikklands til forna veist þú að Alexander mikli gerði ríki sitt að heimsveldi. Biblíuspámaðurinn Daníel hafði sagt það fyrir. Eins og spádómurinn hafði sagt skiptist veldi þessa ‚hrausta konungs,‘ eftir að hann lést árið 323 f.o.t., „eftir fjórum áttum himinsins“ — milli fjögurra af hershöfðingjum hans. (Daníel 11:2-4) Einn þeirra, Selevkus I Níkator, náði yfirráðum yfir Sýrlandi og Mesópótamíu — svæðum norður og austur af heimalandi Daníels, Júdeu. Ptólómeus Lagus, annar grískur hershöfðingi, fékk Egyptaland og Palestínu sem lá suður og vestur af ríki Selevkusar Níkators. Vegna innbyrðis afstöðu sinnar urðu þeir ‚konungurinn norður frá‘ og „konungurinn suður frá.“ — Daníel 11:5, 6.
Orðin „norður“ og „suður“ tóku að tákna voldugar þjóðir sem gegndu ákveðnu spádómlegu hlutverki.a Í aldanna rás hafa mismunandi þjóðir gegnt hlutverki þessara tveggja ‚konunga,‘ en þær hafa alltaf samsvarað þeirri lýsingu sem spádómurinn gefur. Þær hefur alltaf mátt þekkja á valdabaráttu sinni og samkeppni og yfirleitt ráðið yfir landsvæðum til norðurs og suðurs hvort af öðru.
Þessi tvö hlutverk samsvara nú á dögum því sem við köllum „austur“ og „vestur.“ Það eru líka táknræn hugtök því að yfirráðasvæðin skarast. Nafngiftir Biblíunnar, „norður“ og „suður,“ eiga ekkert síður við þrátt fyrir að yfirráðasvæðin skarist með svipuðum hætti.
Guð ‚konungsins norður frá‘
Með tíma „endalokanna“ í huga sagði Daníel að „konungurinn norður frá“ myndi „hefja sig upp yfir og ofmetnast gegn sérhverjum guði“ og „ekki skeyta guðum feðra sinna.“ Þess í stað myndi hann heiðra „guð virkjanna . . . með gulli og silfri, með dýrum steinum og gersemum“ áður en hann liði „undir lok.“ — Daníel 11:35-39, 45.
„Konungurinn norður frá“ á okkar tímum er í meginatriðum guðsafneitari; hann afneitar tilvist Guðs og hefur oft beitt sér gegn trúarbrögðum. Hann leggur meiri áherslu á vígbúnað og herstyrk en nokkra aðra aðferð til að hafa áhrif á alþjóðavettvangi. Hann notar því verulegan hluta af auði sínum til að „heiðra“ „guð virkjanna.“ Þótt „konungurinn suður frá“ á okkar tímum dýrki líka vígbúnað og hernaðarmátt viðurkennir hann tilvist annarra guða, og margir þegna hans láta trúmál mjög til sín taka.
Valdabarátta nútímans
Spádómurinn lýsir nákvæmlega atburðum okkar tíma: „Þegar að endalokunum líður, mun konungurinn suður frá heyja stríð við [konunginn norður frá], og konungurinn norður frá mun þeysast í móti honum með [herbúnaði] og brjótast inn í lönd hans og vaða yfir þau og geysast áfram.“ — Daníel 11:40.
Þér er sennilega fullkunnugt að frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hefur hugmyndafræði og yfirráð ‚konungsins norður frá‘ breiðst út yfir stór landsvæði, þrátt fyrir stríð sem háð hafa verið til að hindra það. Hve langt honum mun auðnast að ‚brjótast inn í lönd, vaða yfir þau og geysast áfram‘ getur tíminn einn leitt í ljós, en „konungurinn suður frá“ hefur reynt að hindra ásælni hans í hinum svonefnda frjálsa heimi. Þessir andstæðingar heyja því „stríð“ sem nú er orðið að hröðu geim- og vígbúnaðarkapphlaupi. Þeir ásaka hvor annan á víxl um að vilja ná heimsyfirráðum.
Daníel heldur áfram: „Hann [konungurinn norður frá] mun kasta eign sinni á fjársjóðu Egyptalands af gulli og silfri og á allar gersemar þess, og Líbýumenn og Blálendingar munu vera í för með honum.“ (Daníel 11:43) Hér kann að vera átt við náttúruauðlindir; að minnsta kosti ræður „konungurinn norður frá“ nú yfir svæðum þar sem mikil verðmæti, þar á meðal olía, eru í jörð. Hann hefur líka mikil ítök á svæðum, sem liggja utan yfirráðasviðs hans, þar sem náttúruauðlindir eru miklar. Við höfum öll tilefni til að fylgjast af athygli með því hvort yfirráð hans yfir þeim eiga eftir að vaxa, svo og hve langt efnahagsleg áhrif hans munu ná.
Hver mun sigra?
Hvað aftrar þessum ‚konungum‘ frá því að gera út um ágreining sinn með hreinu og beinu lokastríði? Þungt vegur að báðir óttast þeir gagnkvæma tortímingu af völdum kjarnorkuvopna. Í staðinn halda þeir fundi og gera samninga sín á milli sem eru þó sjaldan haldnir. Eins og Daníel sagði fyrir: „Báðir konungarnir munu hafa illt í hyggju og tala flærðarsamlega að hinu sama borði, en eigi mun það ná fram að ganga, því að enn er hinn tiltekni tími eigi liðinn á enda.“ — Daníel 11:27.
Við höfum því áhuga á hvernig þessari togstreitu og baráttu muni lykta. Mun þessum ‚konungum‘ takast að semja um varanlegan frið? Mun annar þeirra yfirbuga hinn? Samkvæmt spádómunum í orði Guðs er svarið nei við báðum spurningunum. Hvers vegna? Vegna þess að þriðji konungurinn mun yfirbuga þá og taka í sínar hendur stjórnina yfir heiminum. Því eru í vændum stjórnarskipti — mjög bráðlega!
[Neðanmáls]
a Orðin „í hans stað mun annar koma“ eiga til dæmis við það að taka sér hlutverk ‚konungsins norður frá.‘ — Daníel 11:20, 21.
[Mynd á blaðsíðu 4]
HERNAÐARMÁTTUR HELSTU ÞJÓÐA OG ÞJÓÐAFYLKINGA
Kjarnorkuvopn
50.000
Herafli
11.913.000
Herskip
1350
Sprengju- og orustuflugvélar
20.100
Skriðdrekar
95.800