Hvernig þú getur notið friðar Guðs í fyllri mæli
„Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín [friður þinn] verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ — JESAJA 48:18.
1. Hvað þarf til að njóta friðar í sem fyllstum mæli?
ÞEIR sem taka reglulega þátt í biblíunámi safnaðarins með hjálp þessa tímarits gera sér grein fyrir gildi þess friðar sem Guð gefur og vilja höndla hann. Þorri þeirra nýtur hans vafalaust núna. Þó fá ekki allir notið hans í þeim mæli sem þeir gætu. Hverju sætir það? Jehóva segir um þá sem skyldu njóta friðar frá Guði: „Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá myndi heill þín [friður þinn] verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ — Jesaja 48:17, 18.
2. (a) Hvað er fólgið í orðunum ‚gefið gaum‘? (b) Hve mörgum af boðorðum Guðs verðum við að gefa gaum? (1. Jóhannesarbréf 5:3)
2 Það er augljóst að hver sem er getur haft gott af því að sækja samkomur þar sem Biblían er rædd. En aðeins þeir sem gefa gaum að boðum Jehóva, heimfæra þau á sjálfa sig og lifa eftir þeim njóta ósvikins friðar frá Guði. Sérð þú þörf á að gera það í fyllri mæli á einhverjum sviðum? (2. Pétursbréf 1:2) Það er ekki nóg að hlýða fáeinum af kröfum Guðs en sniðganga þær sem okkur þykja óþægilegar eða erfiðar. Þegar djöfullinn reyndi að lokka Jesú Krist til að láta eigingirni ráða hugsun sinni svaraði Jesús með festu: „Ritað er: ‚Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.‘“ — Matteus 4:4.
3. Hvaða svið lífs okkar verðum við að samstilla vegum Jehóva til að njóta ríkulegs friðar?
3 Boðorð Guðs snerta hvert einasta svið lífs okkar. Í fyrsta lagi snerta þau samband okkar við Jehóva; þá viðhorf okkar til hins sýnilega skipulags hans og hinnar kristnu þjónustu, það hvernig við komum fram við aðra í fjölskyldunni og samskipti okkar við fólkið í heiminum. Þeir sem leggja sig fram um að gefa boðorðum Jehóva gaum í öllum þessum efnum hljóta ríkulegan frið að launum. Við skulum athuga nokkur atriði sem geta hjálpað okkur að njóta þessarar blessunar.
Þarft þú að gefa einhverjum þessara atriða gaum?
4. (a) Hvers vegna er biblíunám og það að koma í Ríkissalinn ekki trygging fyrir því að við eigum frið við Guð? (b) Hvað er fólgið í því að iðka trú á Jesú Krist? (Jóhannes 3:36)
4 Ert þú nýlega byrjaður að nema Biblíuna með vottum Jehóva, eða hefur þú kannski haft tengsl við söfnuðinn í marga mánuði eða jafnvel ár? Ef svo er hefur þú vafalaust haft ánægju af þekkingu þinni á tilgangi Guðs sem þér hefur gefist. En það eitt að einhver hefur ánægju af biblíunámi eða yndi af því að sækja samkomur í Ríkissalnum sannar ekki að hann eigi frið við Guð. Við erum öll fædd í synd og friður frá Guði veitist okkur aðeins fyrir milligöngu Jesú Krists. (Jesaja 53:5; Postulasagan 10:36) Aðgerðarlaus trú á Jesú veitir ekki þennan frið. Nauðsynlegt er að gera sér persónulega grein fyrir að við þörfnumst lausnargjaldsins, að iðka trú á verðmæti fórnar Jesú og láta síðan trúna birtast í verki með því að hlýða boðum hans. (Jakobsbréfið 2:26) Eitt af boðunum, sem Jesús gaf þegar hann var á jörðinni, var að þeir sem yrðu lærisveinar hans skyldu láta skírast. (Matteus 28:19, 20) Hefur þú látið skírast niðurdýfingarskírn til tákns um vígslu þína við Jehóva fyrir milligöngu Jesú Krists?
5. Hvers vegna er vígsla og skírn mikilvæg til að eiga frið við Guð?
5 Gerir eitthvað í lífi þínu þig óhæfan til skírnar? Ef þú veist að svo er, eða uppgötvar það í gegnum biblíunám þitt, þá skaltu ekki draga að leiðrétta það sem þú þarft. Gerðu þér ljóst að hver þau viðhorf eða breytni, sem gerir manninn óhæfan til að skírast, er líka hindrun í vegi fyrir því að hann geti átt frið við Guð. Láttu hendur standa fram úr ermum meðan enn er tími til. Eins og gefið er í skyn í 1. Pétursbréfi 3:21 byrja þeir sem eignast góða samvisku gagnvart Jehóva Guði á því að vígjast honum vegna trúar á fórn Jesú, láta síðan skírast til tákns um þá vígslu og gera þaðan í frá vilja Guðs. Þá eignast þeir frið sem er samfara góðri samvisku byggðri á velþóknun Guðs; hann fæst ekki með öðru móti. Að sjálfsögðu er það aðeins byrjunin.
6. Hvers vegna hafa viðhorf okkar til safnaðarsamkomanna áhrif á frið okkar?
6 Í öðru lagi skalt þú íhuga hve reglulega þú sækir safnaðarsamkomur og tekur þátt í þeim eftir því sem þú getur. Skipa þessar samkomur þann sess í lífi þínu að þú látir hvorki heiminn né daglegt amstur koma í veg fyrir að þú sækir þær? Býrð þú þig undir samkomurnar og metur það sem sérréttindi að taka þátt í þeim? Það er líka nátengt því að njóta friðar. Hvers vegna? Vegna þess að andi Guðs er með samankomnum þjónum hans, og friður er einn ávaxta andans. (Galatabréfið 5:22) Það er á þessum samkomum sem við fáum hjálp til að skilja kröfur Jehóva, og við þurfum þess með til að gera það sem honum er þóknanlegt. Við lærum líka þar að stuðla að friði í samskiptum okkar við aðra menn — í söfnuðinum, á heimilinu, í skólanum og á vinnustað. Samkomurnar eru ein helsta leiðin til að hljóta kennslu frá Jehóva, og eins og Ritningin bendir á njóta þeir sem Jehóva kennir ríkulegs friðar. — Jesaja 54:13.
7. Er nóg aðeins að hlusta á það sem fram fer á samkomunum?
7 Nátengt atriði, sem verðskuldar athygli okkar, er markviss heimfærsla þess sem við lærum. Við viljum ekki vera eins og Ísraelsmennirnir sem Jehóva sagði myndu ‚hlýða grandgæfilega til en þó ekkert skilja.‘ (Jesaja 6:9) Við viljum ekki heldur vera eins og þeir sem Jehóva lýsti fyrir Esekíel — menn sem hlustuðu á spámann Jehóva, en gerðu ekki það sem hann sagði vegna þess að þeir vildu heldur fullnægja óhreinum löngunum sínum eða lífsþægindagræðgi. (Esekíel 33:31, 32) Þeim sem myndu koma saman í húsi Jehóva á okkar tímum og hljóta hylli hans eru hins vegar lögð þessi orð í munn: „Komið, förum upp á fjall [Jehóva] og til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.“ (Míka 4:2) Ef við í sannleika tökum til okkar þá fræðslu, sem við fáum á samkomunum, ef við einangrum á hverri samkomu að minnsta kosti eitt atriði sem við þurfum að vinna að og gerum það síðan, þá munum við uppskera ávöxt friðar. Eins og Jesús sagði í Lúkasi 11:28: „Sælir eru þeir, er heyra orð Guðs og varðveita það.“
8. Hvernig getur sem mest þátttaka í þjónustunni á akrinum verið okkur til gagns?
8 Mikilvægi þess að eiga sem fyllstan þátt í að boða ríki Guðs og hjálpa öðrum að verða lærisveinar er eitt af því sem samkomur okkar leggja mikla áherslu á. (Matteus 24:14; 28:19) Hve stóru hlutverki gegnir slíkt starf í lífi þínu? Ef við höfum gefið gaum því sem Jehóva segir okkur í gegnum orð sitt og skipulag vitum við að það er þýðingarmesta starfið sem unnið er á jörðinni núna. (Opinberunarbókin 14:6, 7) Og það er alkunna að þeir sem eru í þjónustunni í fullu starfi — svo og þeir sem eru kostgæfir í þjónustunni þótt þeir geti ekki verið brautryðjendur — þeir eru hinir hamingjusömustu okkar á meðal. Friðurinn, sem þeir njóta, er ekki eins og lítill vatnsdropi heldur, eins og Jehóva sagði, sem „fljót.“ (Jesaja 48:18) Nýtur þú friðar í þeim mæli? Við getum öll gert það.
9. Hvað getur hjálpað okkur að varðveita frið frá Guði í gegnum mikla erfiðleika?
9 Það að fylgja öllum þessum ráðum gerir okkur þó ekki ónæm fyrir því álagi sem er lífinu samfara í núverandi heimsskipan. En óháð því hvaða erfiðleikar kunna að mæta okkur lofar Guð okkur ástríkri hjálp sinni ef við snúum okkur til hans. (1. Pétursbréf 5:6, 7) Höfum við lært að leita hjálpar Jehóva og handleiðslu í öllu sem við gerum, að leita oft til hans í bæn, og að kasta byrði okkar á Jehóva í trausti þess að hann láti okkur farnast vel, eftir að við höfum gert allt sem við getum varðandi erfiðar kringumstæður? (Orðskviðirnir 3:5, 6; Sálmur 55:23) Í Filippíbréfinu 4:6, 7 fáum við þessa hlýlegu hvatningu: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ Þetta er stórkostleg hjálp! Hefur þú lært að njóta til fulls friðar Guðs sem þér býðst með þessum hætti?
Leitaðu stöðugt friðar
10. Hvers er krafist af okkur eftir að við höfum eignast frið?
10 Þegar við höfum eignast slíkan frið megum við ekki vera kærulaus gagnvart honum. Kostgæfrar viðleitni er þörf til að varðveita hann. Þannig segir 1. Pétursbréf 3:10, 11: „Sá sem vill elska lífið og sjá góða daga . . . ástundi frið og keppi eftir honum.“ Eftir að hafa sett sér markmið og náð því væri heimskulegt að vera kærulaus gagnvart því. Eftir að hafa leitað friðar og öðlast hann þurfum við að vera á verði gegn því sem gæti spillt honum. Meira að segja ættum við að keppa eftir því sem stuðlar að friði.
11. (a) Hvaða viðhorf gæti stofnað sambandi okkar við Jehóva í hættu? (b) Hvenær ættum við að biðja Jehóva um hjálp til að sigrast á freistingum? (Matteus 6:13)
11 Eftir að hafa eignast frið við Guð eftir þeirri leið, sem hann sér fyrir, þurfum við að gæta þess að spilla ekki því sambandi með því að byrja að iðka synd. Að sjálfsögðu erum við öll ófullkomin og syndgum því. Hins vegar er hætta á ferðum ef við réttlætum fyrir sjálfum okkur viðhorf og verk sem Guð fordæmir. Við höfum ekki efni á að yppa einfaldlega öxlum og segja: „Ég er nú bara svona gerður.“ (Rómverjabréfið 6:16, 17) Við verðum að iðrast rangrar breytni í stað þess að réttlæta hana, og síðan ættum við að sárbæna Guð að fyrirgefa okkur vegna trúar okkar á fórn Jesú. Við þurfum líka að læra að leita hjálpar hjá Guði áður en við gerum eitthvað rangt, í stað þess að reyna að heyja stríðið einsömul, bíða ósigur og sárbæna Guð svo um fyrirgefningu. Með hjálp Guðs tekst okkur að „íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.“ — Efesusbréfið 4:20-24.
12. (a) Hverju öðru þurfum við að gefa gaum til að njóta friðar? (b) Hvers er krafist af okkur á því efni?
12 Það að njóta friðar tekur auðvitað líka til sambands okkar við aðra menn. Sannkristnir menn þjóna Guði sem hluti af skipulagi; þeir eru ‚bræðrafélag.‘ (1. Pétursbréf 2:17) Eins og Jesús sagði myndu einkenna sanna fylgjendur sína bera þeir af í kærleika sínum hver til annars. (Jóhannes 13:35) Enginn þeirra er þó fullkominn. Sökum ófullkomleika okkar og annarra þurfum við kannski að biðja Guð einlæglega um hjálp í ýmsum málum og vinna ötullega að því að leysa vandamál. Hebreabréfið 12:14 hvetur okkur: „Stundið frið við alla menn.“ Og hvað varðar samband okkar við kristna bræður og systur hvílir á okkur sérstök skyldukvöð að vernda friðinn. Fyrra Þessaloníkubréf 5:13 segir mjög hnitmiðað: „Lifið í friði yðar á milli.“ Það felur í sér meira en aðeins að forðast að gjalda líku líkt; það þýðir að vinna að friði, að stíga fyrsta skrefið til að koma á friði og vera fús til að láta undan sakir friðarins. — Efesusbréfið 4:1-3.
13. (a) Hvað gætum við gert til að stuðla að friði við þá sem ekki eru í trúnni, en hvernig sýnum við að friður við Guð er okkur mikilvægastur? (b) Hvernig getum við notið friðar þegar er ófriður í kringum okkur?
13 Utan safnaðarins eru hins vegar ekki allir fúsir til að vera friðsamir. Rómverjabréfið 12:18 tekur mjög raunsæja afstöðu og segir: „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.“ En friðarviðleitni okkar gengur ekki svo langt að við látum undan þar sem réttlátar kröfur Jehóva eiga í hlut. Við þurfum kannski að velja okkur annan tíma til þess að gera vissa hluti, en við vitum að óhyggilegt væri að hætta að sækja samkomur eða veigra okkur við að taka þátt í þjónustunni á akrinum til að halda friðinn við maka okkar eða ættingja. Og við vitum að Jehóva hefur ekki velþóknun á að við tökum þátt í óguðlegum athöfnum með vinnufélögum eða skólafélögum til að þóknast þeim. Við gerum okkur ljóst að sannur friður er hlutskipti aðeins þeirra sem fyrst og fremst eiga frið við Guð, þeirra sem elska lög Jehóva og ganga á hans vegum. Það er þessi friður sem við tökum fram yfir allt annað. (Sálmur 119:165) Að vísu getur verið ólga og ófriður í kringum okkur. Þeir sem ekki eru í trúnni þrátta oft og rífast og jafnvel ausa yfir okkur skömmum vegna trúar okkar. En við vitum hvað orð Guðs hefur kennt okkur um hegðun. Með því að halda okkur á þeirri braut sem er samstillt réttlátum vegum Jehóva erum við ekki rænd þeim friði sem mestu skiptir. — Samanber Sálm 46:2, 3.
14. Hvernig getum við varðveitt hugarfrið og bjartsýni þótt við verðum fyrir þrengingum?
14 Nóttina fyrir dauða sinn sagði Jesús trúum postulum sínum: „Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ (Jóhannes 16:33) Já, við þolum ýmsar þrengingar. Sem kristnir menn sætum við ofsóknum af ýmsu tagi. Við megum stundum þola óréttlæti og þjást vegna alvarlegra sjúkdóma. En friður frá Guði heldur okkur gangandi í gegnum allt þetta. Þar eð Jehóva hefur kennt okkur vitum við hvers vegna kristnir menn eru ofsóttir. Við erum ekki í neinum vafa um orsakir óréttvísi eða sjúkdóma sem kunna að hrjá okkur. Við vitum líka hvað framtíðin ber í skauti sér. Við vitum að vegna trúrrar lífsstefnu Jesú og fórnardauða er okkur tryggð björgun. Auk þess vitum við að óháð þeim vandamálum, sem við stöndum frammi fyrir, getum við snúið okkur til Guðs í bæn í þeirri vissu að hann elski okkur, sýni umhyggju og haldi okkur uppi með anda sínum. — Rómverjabréfið 8:38, 39.
15. Hvers vegna getur ekkert í heiminum jafnast á við þann frið sem Kristur veitir?
15 Það átti vel við að Jesús skyldi segja í Jóhannesi 14:27: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“ Það eru orð að sönnu að heimurinn hefur ekkert að bjóða líkt þeim friði sem Guð gefur fyrir milligöngu Jesú Krists. Hann gerir okkur kleift að vera sterk frammi fyrir aðstæðum sem myndu fá aðra til að gefa upp alla von.
16. (a) Hverjar eru framtíðarhorfur þeirra sem meta að verðleikum friðinn frá Guði? (b) Hvernig getum við sýnt að við metum þennan frið mikils?
16 Allir sem taka núna á móti þeim friði, sem Guð gefur, og veita honum verðskuldaðan sess í lífi sínu, eiga stórkostlega framtíð fyrir höndum! Brátt verður horfinn sá heimur sem er fjandsamlegur Guði. Allt sköpunarverkið mun með tíð og tíma sameinast fullkomlega í friði undir þeim réttlátu kröfum sem Drottinvaldur alheimsins gerir. Megi þakklæti okkar fyrir þessar stórkostlegu framtíðarhorfur koma okkur til að starfa í sem fyllstu samræmi við þær núna. Megum við öll hlýða gaumgæfilega á fyrirmæli Jehóva og láta boðorð hans festa djúpar rætur í hjörtum okkar, svo að við elskum vegu hans og gerum það sem hann krefst. Eins og Orðskviðirnir 3:1, 2 segja: „Son minn, gleym eigi kenning minni, og hjarta þitt varðveiti boðorð mín, því að langa lífdaga og farsæl ár og velgengni munu þau veita þér í ríkum mæli.“
Spurningar til upprifjunar
◻ Hvað er nauðsynlegt, samkvæmt Jesaja 48:18, til að njóta ríkulegs friðar?
◻ Hvað getum við gert til að eignast stærri hlut í friði Guðs?
◻ Hvað verðum við að gera til að varðveita frið við bræður okkar og systur?
◻ Hvernig getum við varðveitt frið þegar við erum umkringd fólki sem ekki er í trúnni?
[Mynd á blaðsíðu 27]
Láttu skírast.
[Myndir á blaðsíðu 28]
Sæktu samkomur reglulega.
Farðu eftir því sem þú lærir.
[Myndir á blaðsíðu 29]
Taktu sem fyllstan þátt í boðunarstarfinu.
Varpaðu byrði þinni á Jehóva.