Hve innihaldsríkar eru bænir þínar?
„Ég kalla af öllu hjarta, bænheyr mig, [Jehóva].“ — SÁLMUR 119:145.
1, 2. (a) Hvaða dæmisaga Jesú fjallaði um bænina? (b) Hvaða ályktun dró Jesús af bænum þessara tveggja manna og hvað getum við lært af því?
HVERS konar bænir heyrir skaparinn, Jehóva Guð? Dæmisaga, sem Jesús Kristur sagði, gefur til kynna eitt af frumskilyrðunum fyrir því að Guð svari bænum. Jesús sagði að tveir menn hafi verið að biðja í musterinu í Jerúsalem. Annar var virtur farísei, hinn fyrirlitinn tollheimtumaður. Faríseinn bað: „Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, . . . eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.“ En tollheimtumaðurinn „barði sér á brjóst og sagði: ‚Guð, vertu mér syndugum líknsamur!‘“ — Lúkas 18:9-13.
2 Jesús sagði um þessa tvo menn: „Ég segi yður: Þessi maður [tollheimtumaðurinn] fór réttlættur heim til sín, en hinn [faríseinn] ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“ (Lúkas 18:14) Jesús var greinilega að vekja athygli á því að það væri ekki nóg einungis að biðja til föðurins; það skipti miklu máli hvernig við bæðum, hvert hugarástand okkar væri.
3. (a) Nefndu nokkrar „grundvallarreglur“ bænarinnar. (b) Hvaða myndir getur bænin tekið?
3 Bæn er dýrmæt, mikilvæg og alvarleg séréttindi, og kristnir menn, sem eru vel heima í Ritningunni, þekkja helstu reglurnar sem gilda um hana. Í bæn á að ávarpa hinn eina sanna Guð, Jehóva. Þær þarf að bera fram í nafni sonarins, Jesú Krists. Til að Guð heyri þær þarf að biðja þeirra í trú. „Sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til.“ Enn fremur verða bænir okkar að vera í samræmi við vilja Guðs. (Hebreabréfið 11:6; Sálmur 65:3; Matteus 17:20; Jóhannes 14:6, 14; 1. Jóhannesarbréf 5:14) Auk þess lærum við af dæmum úr Ritningunni að bæn getur verið ýmist lofgjörð, þakkargjörð, beiðni eða ákall. — Lúkas 10:21; Efesusbréfið 5:20; Filippíbréfið 4:6; Hebreabréfið 5:7.
Dæmi um innihaldsríkar bænir
4. (a) Hvaða innihaldsríkar bænir fluttu Móse og Jósúa? (b) Nefndu dæmi um bænir Davíðs og Hiskía konungs. (c) Hvað var sameiginlegt með mörgum þessara bæna?
4 Þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum vandamálum, alvarlegum ákvörðunum, höfum gert afleit mistök eða lífi okkar er ógnað, verða bænir okkar sérstaklega einlægar og innihaldsríkar. Þegar Ísraelsmenn gerðu uppreisn eftir að hafa heyrt neikvæðar lýsingar hinna tíu, ótrúu njósnarmanna sagði Jehóva Móse að þjóðin verðskuldaði að hann afmáði hana. Í einlægri og merkingarþrunginni bæn sárbændi Móse Jehóva um að grípa ekki til slíks, því að nafn hans væri í húfi. (4. Mósebók 14:11-19) Þegar Ísraelsmenn biðu ósigur við Aí sökum ágirndar Akans, þá bar Jósúa fram ástríðuþrungna bæn þar sem hann einnig skírskotaði til nafns Jehóva. (Jósúa 7:6-9) Margir af sálmum Davíðs eru í mynd einlægra bæna, og er Sálmur 51 þar sérlega eftirtektarvert dæmi. Bæn Hiskía konungs, sem hann bar fram þegar Sanherib Assýríukonungur réðist inn í Júda, er annað gott dæmi um innihaldsríka bæn, og enn sem fyrr var hún tengd nafni Jehóva. — Jesaja 37:14-20.
5. Nefndu önnur dæmi um innihaldsríkar bænir sem ýmsir þjónar Jehóva báðu.
5 Segja mætti að Harmljóðin séu löng, einlæg bæn Jeremía í þágu þjóðar sinnar, því að í þeim ávarpar hann Jehóva aftur og aftur. (Harmljóðin 1:20; 2:20; 3:40-45, 55-66; 5:1-22) Esra og Daníel báðu líka innihaldsríkra og einlægra bæna í þágu þjóðar sinnar, játuðu syndir hennar og sárbændu Guð um fyrirgefningu. (Esra 9:5-15; Daníel 9:4-19) Og við getum verið viss um að bæn Jónasar í kviði stórfisksins var einlæg og merkingarþrungin. — Jónas 2:1-9.
6. (a) Hvaða fordæmi gaf Jesús í sambandi við innihaldsríkar bænir? (b) Hvert er frumskilyrði þess að bænir okkar séu innihaldsríkar?
6 Áður en Jesús valdi postula sína tólf notaði hann alla nóttina til bænahalds, þannig að vilji föður hans mætti ráða vali hans. (Lúkas 6:12-16) Þá er að nefna hina innihaldsríku bæn Jesú nóttina sem hann var svikinn, en hún er skráð í 17. kafla hjá Jóhannesi. Allar þessar bænir eru talandi dæmi um hið góða samband þeirra manna, sem báðu bænanna, við Guð. Ekki leikur vafi á að það hlýtur að vera frumskilyrði þess að bænir okkar séu innihaldsríkar. Þær verða að vera einlægar og innihaldsríkar ef þær eiga að vera ‚kröftugar‘ gagnvart Jehóva Guði. — Jakobsbréfið 5:16.
Brestur vegna ófullkomleika manna
7. Hvaða spurninga gætum við spurt okkur í sambandi við bænir okkar?
7 Eins og bent hefur verið á er líklegt að bænir manna séu sérlega einlægar og innihaldsríkar þegar erfiðleikar steðja að þeim. En hvað um hinar hversdagslegu bænir okkar? Bera þær vitni um hið hlýja, nána samband sem okkur finnst við hafa við himneskan föður okkar, Jehóva Guð? Sagt hefur verið: „Bæn verður að merkja eitthvað í okkar huga til að hún merki eitthvað fyrir Guð.“ Gefum við bænum okkar þann gaum sem þær verðskulda og fullvissum við okkur um að þær komi í raun og sannleika frá hinu táknræna hjarta okkar?
8. Hvaða áhrif gæti ófullkomleiki okkar haft á bænagerð okkar?
8 Það er auðvelt að láta bænum sínum fara aftur að þessu leyti. Sökum hins arfgenga ófullkomleika okkar getur hjartað hæglega blekkt okkur og rænt bænir okkar þeim gæðum sem þær ættu að hafa. (Jeremía 17:9) Nema því aðeins að við hugsum okkur örlítið um áður en við biðjum er hætta á að bænir okkar verði vélrænar, yfirborðslegar eða staðnaðar. Einnig er hætta á að þær verði staglsamar, en það minnir okkur á það sem Jesús sagði um fánýtar bænir „að hætti heiðingja.“ (Matteus 6:7, 8) Verið getur að bænir okkar snúist eingöngu um almenn atriði en ekki sérstök mál eða persónur.
9. Hvaða aðrar hættur ber að varast í sambandi við bænina og hver er vafalaust ein af orsökum þeirra?
9 Stundum kann okkur að hætta til að fara með bænir okkar í einum of miklum flýti. En vert er að gefa gaum því sem einhver sagði: „Ef þú átt of annríkt til að biðja þá átt þú of annríkt.“ Við ættum ekki að læra utan að ákveðin orð og setningar sem við þyljum upp í hvert sinn sem við biðjum, og vottur Jehóva ætti ekki að þurfa að lesa bænir sínar upp af blaði, til dæmis á almennri samkomu eða móti. Vafalaust stafa allar þessar hættur að einhverju leyti af því að við getum ekki séð Jehóva Guð, hann sem við biðjum til. Hins vegar getum við ekki ætlast til að slíkar bænir séu honum þóknanlegar eða að við höfum eitthvert gagn af því að biðja þeirra.
Brestirnir bættir
10. (a) Hvaða viðhorf bæri því vitni að við gerðum okkur ekki fulla grein fyrir mikilvægi bænarinnar? (b) Undir hvaða kringumstæðum þurfti þjónn Guðs að biðja mjög stuttrar bænar?
10 Í sama mæli og við metum að verðleikum mikilvægi daglegra bæna okkar og þess að eiga gott samband við okkar himneska föður getum við sneytt hjá áðurnefndum hættum. Ef við metum þessi sérréttindi að verðleikum munum við ekki fara með bænir okkar í fljótheitum, rétt eins og við hefðum eitthvað annað mikilvægara að gera. Ekkert getur verið mikilvægara en að tala við drottinvald alheimsins, Jehóva Guð. Að vísu getur tími okkar stundum verið knappur. Til dæmis þegar Artaxerxes konungur spurði Nehemía, byrlara sinn: „Hvers beiðist þú þá?“ gerði Nehemía samstundis ‚bæn sína til Guðs himnanna.‘ (Nehemía 2:4) Þar eð konungur vildi fá svar tafarlaust gat Nehemía ekki varið löngum tíma til bænagerðar. Við megum þó vera viss um að bæn hans var innihaldsrík og kom beint frá hjartanu, því að Jehóva svaraði henni samstundis. (Nehemía 2:5, 6) Að undanskildum sjaldgæfum aðstæðum af þessu tagi ættum við hins vegar að taka okkur tíma til bænagerðar og láta annað bíða á meðan. Ef við höfum tilhneigingu að fara flausturslega með bænir okkar gerum við okkur ekki fulla grein fyrir mikilvægi bænarinnar.
11. Hvaða aðra hættu þurfum við að varast og hvaða gott fordæmi gaf Jesús í því efni?
11 Önnur hætta, sem við þurfum að forðast, er sú að endurtaka í sífellu almenn atriði. Ef við gerum það metum við bænina ekki að verðleikum. Í fyrirmyndarbæn sinni gaf Jesús okkur gott fordæmi í þessu efni. Beiðni hans tók til sjö aðskilinna atriða — þrjú lutu að sigri réttlætisins, eitt að líkamlegum þörfum okkar og þrjú að andlegri velferð okkar. — Matteus 6:9-13.
12. Hvernig gaf Páll okkur gott fordæmi að því er varðar markvissar bænir?
12 Páll postuli gaf okkur líka gott fordæmi í svipuðum dúr. Hann fór fram á að aðrir bæðu fyrir honum að ‚hann gæti talað með djörfung.‘ (Efesusbréfið 6:18-20) Hann var jafnmarkviss í bænum sínum fyrir öðrum. „Og þetta bið ég um,“ sagði Páll, „að elska yðar aukist enn þá meir og meir að þekkingu og allri dómgreind, svo að þér getið metið þá hluti rétt, sem máli skipta, og séuð hreinir og ámælislausir til dags Krists, auðugir að réttlætis ávexti þeim, er fæst fyrir Jesú Krist til dýrðar og lofs Guði.“ — Filippíbréfið 1:9-11.
13. Hvers getum við beðið í sambandi við hina ýmsu þætti þjónustu okkar við Jehóva?
13 Já, bænir okkar ættu að fjalla um ákveðin atriði, og það útheimtir að við gefum bænum okkar nokkra umhugsun. (Samanber Orðskviðina 15:28.) Þegar við erum í þjónustunni á akrinum gætum við beðið Guð ekki aðeins um blessun hans yfir viðleitni okkar, heldur líka um visku, háttvísi, göfuglyndi, djörfung eða hjálp hans til að vinna gegn hverjum þeim veikleika sem virðist draga úr því að vitnisburður okkar sé áhrifaríkur. Gætum við ekki líka beðið Guð um að leiða okkur til þeirra sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu? Rétt áður en við flytjum opinberan fyrirlestur eða atriði á þjónustusamkomu eða í Guðveldisskólanum, þá getum við beðið Jehóva að gefa okkur ríkulega af heilögum anda sínum. Til hvers? Til að við getum sýnt öryggi í framkomu og fasi og talað með einlægni og sannfæringu svo að við heiðrum nafn Guðs og byggjum upp bræður okkar. Slíkar bænir stuðla líka að því að við séum í réttu hugarástandi þegar við tölum.
14. Hvernig ber okkur að líta á veikleika holdsins sem erfitt er að yfirstíga?
14 Höfum við einhvern veikleika holdsins sem stríðir gegn andlegu hugarfari okkar og virðist þrálátur? Við ættum að vilja að ræða sérstaklega um hann í bænum okkar. Við ættum aldrei að missa kjarkinn og aldrei að gefast upp á að biðja Guð í einlægni og auðmýkt að hjálpa okkur og fyrirgefa. Undir slíkum kringumstæðum ættum við að vilja leita til Jehóva, rétt eins og barn leitar til föður síns þegar það á við vanda að glíma, óháð því hve oft við biðjum Guð að hjálpa okkur í sambandi við þann veikleika. Ef við erum einlæg mun Jehóva hjálpa okkur og gera okkur ljóst að hann hafi fyrirgefið okkur. Undir slíkum kringumstæðum getum við líka látið hughreysta okkur játningu Páls postula þess efnis að hann ætti við vanda að glíma. — Rómverjabréfið 7:21-25.
Hjálp til að biðja innihaldsríkra bæna
15. Með hvaða hugarfari ættum við að nálgast Jehóva Guð í bæn?
15 Til að bænir okkar séu innihaldsríkar verðum við að leggja okkur fram um að víkja til hliðar öllum öðrum hugðarefnum og einbeita okkur að því að við séum að ganga fram fyrir hinn mikla Guð, Jehóva. Við þurfum að nálgast hann í djúpri virðingu og gera okkur grein fyrir hve ógnþrunginn og mikill hann er. Eins og Jehóva sagði Móse getur enginn maður séð Guð og haldið lífi. (2. Mósebók 33:20) Við þurfum því að nálgast Jehóva með viðeigandi auðmýkt og hæversku, en það var það sem Jesús var að undirstrika í dæmisögu sinni um faríseann og tollheimtumanninn. (Míka 6:8; Lúkas 18:9-14) Jehóva verður að vera okkur mjög raunverulegur. Við verðum að hafa sama hugarfar og Móse. Hann „var öruggur, eins og hann sæi hinn ósýnilega.“ (Hebreabréfið 11:27) Slíkt ber þess vitni að við eigum gott samband við föður okkar á himnum.
16. Hvaða hlutverki gegnir hjartað í því að biðja innihaldsríkra bæna?
16 Bænir okkar verða líka innihaldsríkar ef við nálgumst Jehóva með hjarta sem er fullt kærleika og ástar til hans. Veittu til dæmis athygli hvílíkan kærleika til Jehóva Guðs Davíð lét í ljós í Sámi 23 og 103 og hve mikils hann mat hann. Enginn vafi leikur á að Davíð átti gott samband við hinn mikla hirði, Jehóva Guð. Í Guðveldisskólanum er okkur ráðlagt að tala með hlýleika og tilfinningu. Það ættum við ekki síst að gera þegar við lesum ritningarstaði og enn frekar þegar við biðjum til föður okkar á himnum. Já, við viljum bera í brjósti sömu tilfinningar og Davíð þegar hann bað: „Vísa mér vegu þína [Jehóva], kenn mér stigu þína. Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns.“ Annar sálmaritari gefur einnig til kynna hvaða tilfinningar við ættum að bera í brjósti: „Ég kalla af öllu hjarta, bænheyr mig [Jehóva].“ — Sálmur 25:4, 5; 119:145.
17. Hvernig getum við komið í veg fyrir að bænir okkar verði staglsamar?
17 Gott er að hafa bænarefni okkar breytilegt til að tryggja að bænirnar séu innihaldsríkar og forðast að þær verði staglsamar. Oft getum við sótt bænarefni í dagstextann eða einhver kristin rit sem við höfum verið að lesa. Námsefni Varðturnsins eða stef opinbers fyrirlestrar eða móts, sem við sækjum, gæti líka þjónað slíkum tilgangi.
18. Hvað getum við gert til að bænir okkar verði innihaldríkari, í samræmi við orð Biblíunnar og fordæmi úr henni?
18 Gott getur verið að breyta um stellingu til að komast í rétt hugarástand og leggja meiri tilfinningu í bænir okkar. Þegar bæn er flutt í fjölmenni er eðlilegt að lúta höfði. Þegar einstaklingar eða fjölskyldur biðja persónulegra bæna finnst mörgum gott að krjúpa á kné, því að það stuðlar að auðmjúku hugarfari. Í Sálmi 95:6 fáum við þessa hvatningu: „Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir [Jehóva], skapara vorum.“ Salómon kraup á kné þegar hann bar fram bæn sína við vígslu musteris Jehóva og Daníel hafði að venju að krjúpa þegar hann bað. — 2. Kroníkubók 6:13; Daníel 6:10.
19. Hvað ættu þeir sem biðja á vegum safnaðarins að hafa í huga?
19 Í ljósi þess hve þýðingarmikil bænin er ættu öldungarnir að gæta góðrar dómgreindar í vali sínu á þeim sem þeir biðja að bera fram opinbera bæn í þágu safnaðarins. Sá sem flytur bæn fyrir hönd safnaðarins ætti að vera skírður karlmaður og þroskaður þjónn orðsins. Bæn hans ætti að bera með sér að hann eigi gott samband við Guð. Og þeir sem fá þau sérréttindi að bera fram slíka bæn ættu að gæta þess að allir viðstaddir heyri mál þeirra, því að þeir eru ekki að biðja aðeins fyrir sína hönd heldur líka fyrir hönd alls safnaðarins. Hvernig gæti söfnuðurinn að öðrum kosti sagt „amen“ í lok bænarinnar? (1. Korintubréf 14:16) En til að aðrir í söfnuðinum geti með réttu sagt „amen“ verða þeir auðvitað að hlusta gaumgæfilega á og ekki láta hugann reika, heldur gera bænina að sinni eigin. Þeim varnaðarorðum má að lokum bæta við, að ekki skuli nota bænina sem tækifæri til að prédika yfir þeim sem á hlýða eða koma á framfæri einhverjum persónulegum hugmyndum, því að bæninni er beint til Jehóva Guðs.
20. Hvað er lagt til með hliðsjón af því að bænir, sem beðið er upphátt, eru til blessunar þeim sem heyra.
20 Þegar bænir, sem beðið er upphátt, eru innhaldsríkar eru þær til blessunar þeim sem heyra. Þess vegna ættu hjón og fjölskyldur að biðja sameiginlega að minnsta kosti einu sinni á dag. Þá talar einn, svo sem fjölskylduhöfuðið, fyrir hönd hinna.
21. Hverju þurfum við að gefa gaum til að bænir okkar séu innihaldsríkar?
21 Til að bænir okkar séu innihaldsríkar þarf að gefa öðru máli gaum: Við verðum að vera sjálfum okkur samkvæm þegar við biðjum, það er að segja að hegða okkur í samræmi við bænir okkar og vinna að því sem við biðjum um. Þessi þáttur bænagerðar er viðfangsefni greinarinnar á eftir.
Upprifjun
◻ Nefndu dæmi um innihaldsríkar bænir í Biblíunni.
◻ Hvað gæti verið athugavert við bænir okkar sökum mannlegs ófullkomleika?
◻ Hvernig getum við bætt úr því sem er athugavert við bænir okkar?
◻ Hvað getur hjálpað okkur til að biðja innihaldsríkra bæna?