Tungutal – vaxandi fyrirbæri
„EINHVER kraftur hafði náð tökum á tungu minni og orðin streymdu fram eins og vatnsflaumur. Ég var gagntekinn gleði og fannst ég algerlega hreinn. Ég hef ekki verið samur síðan,“ sagði maður sem varð fyrir þeirri óvenjulegu lífsreynslu að „tala tungum.“
Þessi einstaklingur var að lýsa sinni fyrstu reynslu af því að „tala tungum.“ En hvað er tungutal? Það er trúariðkun innan sumra trúfélaga þar sem karlar og konur staðhæfa að þau séu knúin af anda Guðs til að tala erlend eða framandi tungumál sem þau þekkja ekki.
Þetta trúarlega fyrirbæri er í vexti. Einu sinni var tungutal álitið tilheyra hvítasunnumönnum einum en nú er þess einnig farið að gæta meðal babtista, biskupakirkjumanna, lúterstrúarmanna, meþódista, öldungakirkjumanna og rómversk-kaþólskra. Þegar maður talar tungum hefur honum verið lýst sem svo að hann sé í leiðslu, uppnámi, mókleiðslu (trans) eða dáleiðslu. Sumir kalla það jafnvel móðursýkiskast. Það er dulúð og hughrifning samfara tungutali.
Hvers vegna vilja margir tala tungum nú á tímum?
Cyril G. Williams heldur fram í bók sinni Tongues of the Spirit að það geti verið „samband á milli misheppnunartilfinningar og löngunar til að ‚tala tungum.‘“ Hann lýsir tungutali sem öryggisventli er hefur „lækningagildi þar sem það dregur úr spennu“ og „greiðir úr innri baráttu.“ Vonbrigði í kirkjustarfi, tilfinningaálag, misheppnaður starfsferill, ástvinamissir, fjölskylduerjur eða veikindi innan fjölskyldunnar eru sögð stuðla að slíku hughrifningartali.
Í svipuðum dúr segir John P. Kildahl í The Psychology of Speaking in Tongues: „Kvíði er forsenda þess að geta þroskað þá hæfni að tala tungum.“ Persónulegar rannsóknir og ítarleg viðtöl leiddu í ljós að „meira en 85% þeirra sem tala tungum höfðu gengið í gegnum greinilega afmarkaða kvíðakreppu.“ Til dæmis langaði móður að tala tungum til að geta beðið fyrir syni sínum sem var með krabbamein. Maður byrjaði að tala tungum meðan hann var í vafa um hvort hann ætti að þiggja stöðuhækkun sem honum var boðin. Kona byrjaði að tala tungum innan við viku eftir að eiginmaður hennar gekk í AA-samtökin.
Hvers konar reynslu verða menn fyrir?
Eftir að hafa talað tungum í fyrsta skipti lýsti maður reynslu sinni þannig: „Mér fannst eins og eldur færi um mig allan og kuldahrollur og stórir svitadropar spruttu fram, og ég fann fyrir skjálfta og hálfgerðu þróttleysi í útlimum mínum.“ Tungutalinu fylgir oft óvenjuleg hegðun sem kemur illa við suma. Til dæmis var „stúlka nærri köfnuð í sínu eigin munnvatni er hún teygði úr sér í stól með hálsinn hvílandi á stólbakinu, hælana á gólfinu og fótleggina stífa.“ Á einni safnaðarsamkomu „steypti maður sér kollhnís eftir endilangri kirkjunni.“
„Í augum sumra,“ skrifar prófessor William J. Samarin, „er tungutal skilyrði fyrir skírn í heilögum anda.“ Án tungutals er fólki „látið finnast því vera einhvers ábótavant.“ Það er líka litið á tungutal „sem bænheyrslu, fullvissu um kærleika Guðs og viðurkenningu.“ Aðrir hafa sagt að það láti þá finna með sjálfum sér samstillingu, gleði og frið, og að þeir finni til „meiri styrks“ og „sterkari sjálfsvitundar.“
Er hughrifningartal í rauninni sönnun fyrir starfsemi heilags anda? Er slík reynsla merki þess að fólk sé sannkristið? Er tungutal hluti af viðeigandi tilbeiðslu nú á dögum? Þessar spurningar verðskulda meira en aðeins yfirborðsleg svör. Hvers vegna? Vegna þess að við viljum að tilbeiðsla okkar hafi velþóknun og blessun Guðs.