Ætlar þú að gefa gaum aðvörun Guðs?
FÓLK hunsar oft viðvaranir sem geta bjargað lífi þess. Flestir íbúar Pompei völdu að hunsa reiðihljóð Vesúvíusar. Á svipaðan hátt gefa fæstir nú á dögum gaum viðvörununum um komandi heimsógæfu. En fyrir þeim sem eru fúsir til að horfast í augu við staðreyndirnar er viðvörunin jafnraunveruleg og eldarnir úr iðrum Vesúvíusar á fyrstu öldinni. Tvær heimsstyrjaldir, hundruð smærri hernaðarátaka, hallæri, miklir jarðskjálftar, drepsóttir, hver glæpa- og ofbeldisaldan á fætur annarri og prédikunarherferð um allan heim, er allt samanlagt áhrifamikil viðvörun um að samfélag manna stefni hraðbyri út í ógurlegar hamfarir.
Biblían hefur að geyma þennan alvarlega spádóm: „Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.“ (Matteus 24:21) Eins og í hörmungunum í Pompei munu einhverjir sleppa lifandi — „mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum“ mun komast lífs af, það er að segja „úr þrengingunni miklu.“ — Opinberunarbókin 7:9, 14.
Spurningin er hvenær þessi eyðing komi. Afarsterk rök eru fyrir því að þrengingin sé yfirvofandi. Lærisveinar Jesú voru greinilega að hugsa um tímann þegar þeir spurðu: „Hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ (Matteus 24:3) Taktu eftir svarinu sem Jesús Kristur gaf þeim.
Stríð — áberandi einkenni hins samsetta tákns
Jesús spáði ekki einfaldlega einum áberandi atburði, heldur talaði hann um röð atburða er myndu sem heild vera aðvörun frá Guði — samsett tákn um endalok heimskerfisins. Fyrsta atburðinum, sem spáð var, er lýst í Matteusi 24:7: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki.“ Í samsvarandi spádómi í Opinberunarbókinni 6:4 sagði Biblían fyrir að ‚friðurinn yrði tekinn burt af jörðinni.‘ Það þýddi slíkt stríð sem átti sér enga hliðstæðu.
Sagan segir okkur að þessi spádómur um heimsstríð hefur verið að uppfyllast frá hinu minnisstæða ári 1914. Bókin American Adventures segir um árin fyrir 1914: „Margir Bandaríkjamenn höfðu heilsað nýju öldinni fullir bjartsýni. Þetta voru ‚góðu árin‘ og þau entust fram á annan áratug aldarinnar. . . . Þá, þann 28. júlí 1914, varð eitt orð til að umbylta þessu hugarástandi: stríð.“ Þá hófst fyrri heimsstyrjöldin, sem stóð frá 1914 til 1918 og var af sumum kölluð „stríð til að binda enda á öll stríð.“ Tuttugu og átta ríki áttu beinan þátt í henni. Ef þau lönd, sem voru á yfirráðasvæðum þeirra, eru talin með voru þjóðirnar, sem áttu í stríði, næstum 90 prósent allra jarðarbúa á þeim tíma.
Í fyrri heimsstyrjöldinni voru einnig tekin í notkun ný og geysilega öflug drápstól, svo sem vélbyssur, eiturgas, eldvörpur, skriðdrekar, flugvélar og kafbátar. Næstum tíu milljónir hermanna féllu — fleiri en allir hermenn í öllum helstu styrjöldum 100 árin á undan! Um 21 milljón hermanna særðist. Þetta var svo sannarlega heimsstyrjöld er markaði árið 1914 sem upphaf hinna ‚síðustu daga.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Þó var hernaður aðeins einn hluti tákns Jesú.
Aðrir þættir táknsins
Jesús bætti við: „Þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum. Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.“ (Matteus 24:7, 8) Lúkas 21:11 bætir ‚drepsóttum‘ á listann. Áður en fyrri heimsstyrjöldinni lauk tók spánski inflúensufaraldurinn að geysa um jörðina. Þegar yfir lauk hafði hann lagt að velli yfir 20 milljónir manna, fleiri en alla sem fallið höfðu í stríðinu.
Í styrjöldinni og eftir hana dóu milljónir í viðbót úr hungri. Jarðskjálftar kostuðu einnig mörg mannslíf. Árið 1915 fórust 30.000 á Ítalíu; um 200.000 týndu lífi í Kína árið 1920; nálægt 143.000 dóu í Japan árið 1923. Samt var allt þetta aðeins upphaf fæðingarhríðanna eins og Jesús gaf til kynna. Orðabók skilgreinir orðið „hríð“ sem ‚sársaukahviðu.‘ Heimurinn hefur allt frá 1914 skjögrað frá einni sársaukahviðunni til annarrar sem hafa orðið sífellt tíðari og harðari. Til dæmis skall seinni heimsstyrjöldin á aðeins 21 ári eftir þá fyrri, krafðist 50 milljóna mannslífa og slöngvaði mannkyninu inn í kjarnorkuöldina.
Á undanförnum árum hefur mikið verið talað um enn eitt atriði sem veldur hríðum: eyðileggingu mannsins á umhverfi sínu. Þó svo að Jesús hafi ekki nefnt þetta sérstaklega í spádómi sínum gefur Opinberunarbókin 11:18 til kynna að á undan hinni komandi eyðingu væru menn að ‚eyða jörðina.‘ Kappnógar sannanir eru fyrir því að þessi eyðing eigi sér stað núna. Bókin State of the World 1988 vitnar í Norman Myers, ráðgjafa í umhverfismálum, er hann flytur okkur þennan skelfilega boðskap: „Engin kynslóð fortíðarinnar hefur séð fram á útrýmingu fjölda tegunda á sínu æviskeiði. Engin kynslóð framtíðarinnar mun nokkurn tíma standa frammi fyrir sams konar áskorun: ef núverandi kynslóð nær ekki tökum á vandanum, er skaðinn skeður og það verður ekkert ‚annað tækifæri.‘“
Tímaritið Newsweek birti grein um eyðingu ósonlagsins þann 17. febrúar 1992. Vitnað var í ósonsérfræðing Grænfriðunga, Alexöndru Allen, þar sem hún varar við því að ósoneyðing „ógni nú framtíð alls lífs á jörðu.“ — Sjá rammagreinina á þessari blaðsíðu til frekari sönnunar um umhverfiseyðingu jarðarinnar.
Það er ekki rými hér til að ræða í smáatriðum hvert atriði spádóms Jesú. (Sjá yfirlit yfir önnur spádómleg atriði í töflunni á blaðsíðu 5.) Einu atriði, sem er samt ekki hægt að líta fram hjá, er lýst í Matteusi 24:14: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ Lítill vafi leikur á því hverjir framkvæma þetta prédikunarstarf um allan heim. Vottar Jehóva í 229 löndum vörðu yfir milljarði klukkustunda til þessa starfs á árinu 1992 einu saman. Starf þeirra er því ein áþreifanlegasta sönnun þess að við lifum á hinum síðustu dögum.
Láttu ekki blekkjast!
Sumir halda því kannski fram að allt þetta tal um „síðustu daga“ sé tóm bölsýni. ‚Hvað um nýlegt andlát kommúnismans í Austur-Evrópu?‘ spyrja þeir, ‚eða viðleitni stórveldanna til að semja frið? Er það ekki merki þess að heimurinn sé að batna?‘ Nei. Taktu eftir að Jesús sagði ekki að heimurinn yrði allur stanslaust á kafi í styrjöldum, jarðskjálftum og hungursneyð á hinum síðustu dögum. Til að prédika fagnaðarerindið um allan heim þyrftu að minnsta kosti að koma einhver tiltölulega róleg tímabil.
Mundu einnig að Jesús líkti hinum síðustu dögum við dagana fyrir Nóaflóðið. Þá voru menn uppteknir af að eta, drekka og giftast — af eðlilegum athöfnum lífsins. (Matteus 24:37-39) Það gefur til kynna að enda þótt ástandið á hinum síðustu dögum yrði þjakandi myndi því ekki hraka svo mikið að eðlilegur gangur lífsins yrði ómögulegur. Eins og á dögum Nóa er mikill meirihluti mannkyns svo upptekinn af daglegum störfum að hann tekur ekki eftir því hve tímarnir eru alvarlegir.
Þess vegna væri hættulegt að verða kærulaus vegna einhverrar að því er virðist jákvæðrar þróunar í stjórnmálum. (Samanber 1. Þessaloníkubréf 5:3.) Sönnunargögnin um að spádómur Jesú sé að uppfyllast núna eru yfirgnæfandi — viðvörun um að eyðing sé nálæg!
Framhaldið er stórkostlegt
Eyðingu Pompei fylgdu dauði og eymd. Endir núverandi heimskerfis mun hins vegar ryðja brautina eilífu lífi á jörð sem verður fögur paradís. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Stjórnir, sem valda sundurlyndi, munu ekki framar skemma jörðina með styrjöldum. Menn munu ekki framar skjálfa af ótta við kjarnorkustríð. Verksmiðjur, sem spúa eitruðum efnum út í umhverfið, verða horfnar. — Daníel 2:44.
Þá munu allir jarðarbúar elska réttlæti og vera sannir vinir, fullkomlega hlýðnir lögum Guðsríkis. (Sálmur 37:10, 11) Sjúkrahús, útfararstofnanir og kirkjugarðar munu heyra fortíðinni til. Hjónaskilnaðir, samvistarslit, þunglyndi og misnotkun á börnum mun einnig hverfa. — Jesaja 25:8; 65:17.
Vilt þú lifa af hina síðustu daga og sjá stórkostlegan nýjan heim Guðs? Þá skaltu fylgja hvatningarorðum Jesú: „Vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn.“ (Markús 13:33) Samt sem áður sýna heimsviðburðirnir glögglega að hinn tiltekni tími er nálægur — hættulega nálægur fyrir marga. Það má engan tíma missa. Þú skalt því gera ráðstafanir þér til björgunar og leita uppi þá sem gefa gaum að tákni hinna síðustu daga. Það er auðvelt að bera kennsl á þá því aðeins þeir hlýða skipun Jesú um að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki um allan heim. Megir þú ásamt þeim ganga til liðs við konunginn, Krist Jesú, sem sagt er um: „Á nafn hans munu þjóðirnar vona.“ — Matteus 12:18, 21.
[Rammi á blaðsíðu 5]
Tuttugu og fjögur einkenni táknsins
1. Hernaður í áður óþekktum mæli. — Matteus 24:6, 7; Opinberunarbókin 6:4
2. Jarðskjálftar. — Matteus 24:7; Markús 13:8
3. Matvælaskortur. — Matteus 24:7; Markús 13:8
4. Drepsóttir. — Lúkas 21:11; Opinberunarbókin 6:8
5. Vaxandi lögleysi. — Matteus 24:12
6. Eyðilegging jarðarinnar. — Opinberunarbókin 11:18
7. Kólnandi kærleikur. — Matteus 24:12
8. Ógnvekjandi atburðir. — Lúkas 21:11
9. Óhófleg peningaást. — 2. Tímóteusarbréf 3:2
10. Óhlýðni við foreldra. — 2. Tímóteusarbréf 3:2
11. Að elska munaðarlíf meira en Guð. — 2. Tímóteusarbréf 3:4
12. Sjálfselska ráðandi. — 2. Tímóteusarbréf 3:2
13. Almennur skortur á eðlilegri ástúð. — 2. Tímóteusarbréf 3:3, NW.
14. Ósáttfýsi. — 2. Tímóteusarbréf 3:3
15. Taumleysi á öllum stigum þjóðfélagsins. — 2. Tímóteusarbréf 3:3
16. Víðtækur skortur á kærleika til þess sem gott er. — 2. Tímóteusarbréf 3:3
17. Margir segjast af hræsni vera kristnir. — 2. Tímóteusarbréf 3:5
18. Ofát og ofdrykkja algeng. — Lúkas 21:34
19. Spottarar afneita tákninu. — 2. Pétursbréf 3:3, 4
20. Margir falsspámenn starfandi. — Matteus 24:5, 11; Markús 13:6
21. Stofnsett ríki Guðs prédikað. — Matteus 24:14; Markús 13:10
22. Sannkristnir menn ofsóttir. — Matteus 24:9; Lúkas 21:12
23. Yfirlýsing um frið og öryggi verður hámark hinna síðustu daga. — 1. Þessaloníkubréf 5:3
24. Menn taka ekki mark á hættunni. — Matteus 24:39
[Rammi á blaðsíðu 6]
Umhverfisvandamál — tákn tímanna
◻ Á mjög þéttbýlum breiddargráðum á norðurhveli jarðar þynnist ósonverndarhjúpurinn helmingi hraðar en vísindamenn héldu fyrir aðeins nokkrum árum.
◻ Dag hvern deyja út að minnsta kosti 140 plöntu- og dýrategundir.
◻ Koldíoxíð í andrúmsloftinu, sem innilokar varma, er nú 26 prósentum meira en fyrir iðnvæðinguna og heldur áfram að aukast.
◻ Yfirborð jarðar var heitara árið 1990 en nokkurt annað ár síðan mælingar hófust á miðri 19. öld; sex af sjö heitustu árunum hafa mælst síðan 1980.
◻ Skógar hverfa með hraða sem nemur 17.000.000 hektara á ári, en það er landsvæði á stærð við hálft Finnland.
◻ Árlega fjölgar íbúum jarðar um 92 milljónir — lauslega reiknað eins og að bæta íbúatölu Mexíkó við heiminn á hverju ári; af þeim bætast 88 milljónir við í þróunarlöndunum.
◻ Um það bil 1,2 milljarða manna skortir drykkjarhæft vatn.
Samkvæmt bókinni State of the World 1992, gefin út af Worldwatch Institute, bls. 3 og 4, W. W. Norton & Company, New York, London.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Eftir eyðinguna kemur stórkostlegur nýr heimur Guðs.