Kristin fjölskylda lætur andleg mál ganga fyrir
„Verið allir samhuga, hluttekningarsamir, bróðurelskir, miskunnsamir, auðmjúkir.“ — 1. PÉTURSBRÉF 3:8.
1. Hvaða val höfum við öll og hvernig getur val okkar haft áhrif á framtíð okkar?
RITNINGARTEXTINN hér að ofan á svo sannarlega vel við elstu stofnun mannkynsins — fjölskylduna! Og það er vissulega mikilvægt að foreldrar taki forystuna á þessum sviðum. Jákvæðir eiginleikar þeirra og neikvæðir koma yfirleitt fram í fari barnanna. Samt sem áður getur hver einstakur fjölskyldumeðlimur valið. Sem kristnir menn getum við valið að vera andlega sinnaðir eða holdlega. Við getum valið að þóknast Guði eða misþóknast. Þetta val getur haft í för með sér annaðhvort blessun, eilíft líf og frið — eða bölvun í mynd eilífs dauða. — 1. Mósebók 4:1, 2; Rómverjabréfið 8:5-8; Galatabréfið 5:19-23.
2. (a) Hvernig sýndi Pétur umhyggju sína fyrir fjölskyldunni? (b) Hvað er andlegt hugarfar? (Sjá neðanmálsathugasemd.)
2 Orð postulans í 1. Pétursbréfi 3. kafla, 8. versi koma strax í kjölfar góðra ráðlegginga til eiginkvenna og eiginmanna. Pétur hafði sannarlega áhuga á velferð kristinna fjölskyldna. Hann vissi að sterkt, andlegt hugarfar er lykillinn að sameinaðri, umhyggjusamri fjölskyldu. Þess vegna gaf hann í skyn í 7. versi að það myndaðist andlegur tálmi milli eiginmanns og Jehóva ef hann færi ekki eftir heilræðum hans til eiginmanna.a Bænir eiginmanns gætu hindrast ef hann vanrækti þarfir konu sinnar eða bryti hana niður með ofríki.
Kristur — fullkomið fordæmi um andlegt hugarfar
3. Hvernig lagði Páll áherslu á fordæmi Krists fyrir eiginmenn?
3 Andlegt hugarfar fjölskyldu er háð góðu fordæmi. Þegar eiginmaðurinn er virkur kristinn maður tekur hann forystuna í því að sýna andlega eiginleika. Ef eiginmaður er enginn á heimilinu eða hann er ekki í trúnni reynir móðirin yfirleitt að bera þá ábyrgð. Í báðum tilvikum er Jesús Kristur hin fullkomna fyrirmynd til að fylgja. Framkoma hans, orð og hugsun var alltaf uppbyggjandi og hressandi. Aftur og aftur beinir Páll athygli lesandans að kærleiksríku fordæmi Krists. Til dæmis segir hann: „Maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns. Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana.“ — Efesusbréfið 5:23, 25, 29; Matteus 11:28-30; Kólossubréfið 3:19.
4. Hvaða fordæmi um andlegt hugarfar gaf Jesús?
4 Jesús var framúrskarandi fordæmi um andlegt hugarfar og yfirráð sem birtist í kærleika, góðvild og hluttekningu. Hann var fórnfús, ekki eftirlátur við sjálfan sig. Hann vegsamaði alltaf föður sinn og virti yfirráð hans. Hann fylgdi leiðsögn föður síns þannig að hann gat sagt: „Ég megna eigi að gjöra neitt af sjálfum mér. Ég dæmi samkvæmt því, sem ég heyri, og dómur minn er réttvís, því að ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig.“ „Ég gjöri ekkert af sjálfum mér, heldur tala ég það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér.“ — Jóhannes 5:30; 8:28; 1. Korintubréf 11:3.
5. Hvaða fordæmi gaf Jesús eiginmönnum með því að sjá fyrir lærisveinum sínum?
5 Hvað merkir þetta fyrir eiginmenn? Það merkir að Kristur, sem var alltaf undirgefinn föður sínum, er fyrirmyndin sem þeir eiga að fylgja í öllu. Til dæmis sá Jesús fylgjendum sínum fyrir fæðu alveg eins og Jehóva sá öllum lífsformum jarðar fyrir fæðu. Hann vanrækti ekki að fullnægja efnislegum frumþörfum þeirra. Kraftaverk hans, þegar hann mettaði 5000 karlmenn og síðar 4000, eru sönnun fyrir umhyggju hans og ábyrgðartilfinningu. (Markús 6:35-44; 8:1-9) Eins er það núna að ábyrgir fjölskyldufeður sinna efnislegum þörfum fjölskyldna sinna. En nær ábyrgð þeirra ekki lengra en það? — 1. Tímóteusarbréf 5:8.
6. (a) Hvaða mikilvægar þarfir fjölskyldunnar þarf að annast? (b) Hvernig geta eiginmenn og feður verið skilningsríkir?
6 Fjölskyldur hafa líka aðrar, þýðingarmeiri þarfir eins og Jesús benti á. Þær hafa andlegar og tilfinningalegar þarfir. (5. Mósebók 8:3; Matteus 4:4) Við höfum áhrif hvert á annað, bæði í fjölskyldunni og söfnuðinum. Við þurfum góða leiðsögn til að hvetja okkur til að vera uppbyggjandi. Þar er eiginmönnum og feðrum lagt stórt hlutverk á herðar — sér í lagi ef þeir eru öldungar eða safnaðarþjónar. Einstæðir foreldrar þurfa að hafa svipaða eiginleika þegar þeir hjálpa börnum sínum. Foreldrar verða bæði að skilja það sem fjölskyldumeðlimir segja og eins það sem þeir láta ósagt. Það kostar dómgreind, tíma og þolinmæði. Það er ein ástæðan fyrir því að Pétur gat sagt að eiginmenn ættu að vera tillitssamir og búa með skynsemi með eiginkonum sínum. — 1. Tímóteusarbréf 3:4, 5, 12; 1. Pétursbréf 3:7.
Hættur sem þarf að forðast
7, 8. (a) Hvers er þörf ef fjölskylda á að forðast andlegt skipbrot? (b) Hver er þörf auk þess að fara vel af stað á hinni kristnu lífsbraut? (Matteus 24:13)
7 Hvers vegna er svona mikilvægt að gefa gaum að andlegu hugarfari fjölskyldunnar? Til að skýra það gætum við spurt: Hvers vegna er mikilvægt að skipstjóri fylgist vandlega með sjókortunum þegar hann stýrir skipi sínu um hafsvæði með hættulegum grynningum? Í ágúst 1992 var skemmtiferðaskipinu Queen Elizabeth 2 siglt um svæði með hættulegum sandrifjum og skerjum þar sem sagt er vera algengt að skipstjórnarmönnum verði á mistök. Heimamaður sagði: „Þetta hafsvæði hefur bundið enda á framavonir margra.“ Skipið lenti á neðansjávarrifi. Það reyndust dýr mistök. Þriðjungur skipsskrokksins laskaðist og taka þurfti skipið úr umferð í nokkrar vikur vegna viðgerðar.
8 Ef „skipstjóri“ fjölskyldunnar skoðar ekki sjókortið, orð Guðs, vandlega, getur fjölskylda hans hæglega orðið fyrir andlegu tjóni. Þegar öldungur eða safnaðarþjónn á í hlut geta afleiðingarnar orðið þær að hann missi sérréttindi innan safnaðarins og aðrir í fjölskyldunni ef til vill orðið fyrir alvarlegu tjóni. Þess vegna ætti sérhver kristinn maður að gæta þess að láta ekki andlegan sofandahátt og kæruleysi ná tökum á sér og treysta aðeins á góðar námsvenjur og kostgæfni frá fyrri tíð. Á kristinni lífsbraut okkar er ekki nóg að fara vel af stað; við verðum líka að komast örugglega á leiðarenda. — 1. Korintubréf 9:24-27; 1. Tímóteusarbréf 1:19.
9. (a) Hve þýðingarmikið er persónulegt nám? (b) Hvaða viðeigandi spurninga gætum við spurt okkur?
9 Til að forðast andlegar grynningar, sker og sandrif verðum við að vera vel heima í „sjókortunum“ okkar með því að nema orð Guðs reglulega. Við getum ekki bara reitt okkur á undirstöðunámið sem leiddi okkur inn í sannleikann. Andlegur styrkur okkar er kominn undir áætlun um reglulegt nám og þjónustu þar sem gætt er góðs jafnvægis. Til dæmis getum við spurt okkur þegar við sækjum Varðturnsnám safnaðarins með þetta tölublað í höndunum: ‚Hef ég eða höfum við sem fjölskylda í alvöru numið þessa grein, flett upp ritningarstöðunum og íhugað heimfærslu þeirra, eða höfum við bara strikað undir svörin? Höfum við kannski vanrækt jafnvel að lesa greinina fyrir samkomuna?‘ Hreinskilnisleg svör við þessum spurningum geta verið okkur umhugsunarefni og kveikt löngun til að bæta okkur — ef þess er þörf. — Hebreabréfið 5:12-14.
10. Hvers vegna er sjálfsrannsókn mikilvæg?
10 Hvers vegna er slík sjálfsrannsókn mikilvæg? Vegna þess að við lifum í heimi sem andi Satans drottnar yfir, heimi sem reynir á margan lúmskan hátt að grafa undan trú okkar á Guð og fyrirheit hans. Þetta er heimur sem vill halda okkur svo uppteknum að við höfum engan tíma til að sinna andlegum þörfum okkar. Þess vegna gætum við spurt okkur: ‚Er fjölskylda mín andlega sterk? Er ég sem foreldri eins sterkur og ég ætti að vera? Erum við sem fjölskylda að rækta hinn andlega aflvaka hugans sem hjálpar okkur að taka ákvarðanir byggðar á réttlæti og hollustu?‘ — Efesusbréfið 4:23, 24, NW.
11. Hvers vegna eru kristnar samkomur gagnlegar andlega? Nefndu dæmi.
11 Andlegt hugarfar okkar ætti að styrkjast af hverri samkomu sem við sækjum. Þessar dýrmætu stundir í ríkissalnum eða safnaðarbóknáminu hressa okkur eftir langan vinnudag sem við verðum að eyða í að reyna að komast af í fjandsamlegum heimi Satans. Hversu hressandi hefur ekki til dæmis verið að nema bókina Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð á nýjan leik! Hún hefur hjálpað okkur að rifja upp undirstöðukenningar Biblíunnar. Við höfum lesið tilvísaða ritningarstaði vandlega og rannsakað persónulega ýmis atriði. — Jóhannes 17:3; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.
12. Hvernig reynir þjónustan á akrinum á andlegt hugarfar okkar?
12 Hið kristna boðunarstarf er góður prófsteinn á andlegt hugarfar okkar. Í formlegum eða óformlegum vitnisburði okkar mætum við oft skeytingarleysi eða andstöðu. Rétt áhugahvöt, kærleikur til Guðs og kærleikur til náungans, er nauðsynleg til að halda ótrauð áfram. Auðvitað hefur enginn gaman af því að láta vísa sér frá en það getur gerst í þjónustu okkar á akrinum. En við ættum að hafa í huga að það er verið að vísa fagnaðarerindinu frá, ekki okkur sem einstaklingum. Jesús sagði: „Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður. Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum. . . . En allt þetta munu þeir yður gjöra vegna nafns míns, af því að þeir þekkja eigi þann, sem sendi mig.“ — Jóhannes 15:18-21.
Verkin segja meira en orðin
13. Hvernig getur einn einstaklingur grafið undan andlegu hugarfari fjölskyldu?
13 Hvað gerist í fjölskyldu ef allir nema einn virða snyrtimennsku og reglu heimilisins? Á rigningardegi gæta allir nema hinn gleymni þess að bera ekki for og óhreinindi inn í húsið. Fótspor út um allt vitna um kæruleysi þessa eina og skapa aukna vinnu fyrir hina. Hið sama gildir um andlegt hugarfar. Aðeins einn eigingjarn eða hirðulaus einstaklingur getur flekkað mannorð fjölskyldunnar. Allir í fjölskyldunni, ekki bara foreldrarnir, ættu að kappkosta að endurspegla hugarfar Krists. Hversu hressandi er það ekki þegar allir vinna saman með eilíft líf fyrir augum! Hugsanagangur þeirrar fjölskyldu er andlegur (en ekki sjálfréttvís). Í slíkri fjölskyldu er sjaldan að finna hinn minnsta vott andlegrar vanrækslu. — Prédikarinn 7:16; 1. Pétursbréf 4:1, 2.
14. Hvaða efnislegar freistingar lætur Satan verða á vegi okkar?
14 Öll höfum við efnislegar frumþarfir sem þarf að fullnægja til að viðhalda lífi okkar dag frá degi. (Matteus 6:11, 30-32) En oft skyggja langanir okkar á þarfirnar. Til dæmis skákar heimur Satans fram alls konar tólum og tækjum. Ef við viljum alltaf eignast það nýjasta af öllu erum við aldrei ánægð, því að hið nýjasta úreldist fljótt og annað enn nýtískulegra kemur á markað. Viðskiptaheimurinn hefur komið af stað hringekju sem aldrei stöðvast. Hann lokkar okkur til að sækjast eftir sífellt meiri peningum til að fullnægja sífellt meiri kröfum. Það getur leitt af sér „alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir“ eða „heimskuleg og hættuleg metnaðartakmörk.“ Það getur leitt til ójafnvægis í lífsháttum með þeim afleiðingum að sífellt minni tími verður eftir til andlegra athafna. — 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10; The Jerusalem Bible.
15. Á hvaða hátt er fordæmi fjölskylduhöfuðsins mikilvægt?
15 Sem fyrr skiptir mjög miklu máli hvers konar fordæmi höfuð kristinnar fjölskyldu setur. Heilbrigð viðhorf hans til veraldlegrar og andlegrar ábyrgðar ættu að hvetja aðra fjölskyldumeðlimi. Það væri vissulega til tjóns ef faðirinn gæfi ágæta munnlega fræðslu en lifði svo ekki í samræmi við orð sín. Börn eru fljót að sjá í gegnum það ef foreldrarnir segja þeim að gera eitt en gera sjálfir annað. Eins glatar öldungur eða safnaðarþjónn, sem hvetur aðra til að starfa hús úr húsi en tekur sjaldan þátt með fjölskyldu sinni í því starfi, fljótlega trúverðugleika sínum, bæði innan fjölskyldunnar og safnaðarins. — 1. Korintubréf 15:58; samanber Matteus 23:3.
16. Hvaða spurninga gætum við spurt okkur?
16 Þess vegna er gagnlegt fyrir okkur að skoða líf okkar. Erum við upptekin af því að komast áfram í heiminum á kostnað andlegra framfara? Erum við á uppleið í heiminum en á niðurleið í söfnuðinum? Munum eftir ráðleggingum Páls: „Það orð er satt, að sækist einhver eftir biskupsstarfi [„umsjónarmannsstarfi,“ NW], þá girnist hann fagurt hlutverk.“ (1. Tímóteusarbréf 3:1) Ábyrgðartilfinning í söfnuðinum segir meira um andlegt hugarfar okkar en stöðuhækkun á vinnustað. Við þurfum að halda góðu jafnvægi til að vinnuveitendur okkar fái ekki að leggja okkur undir sig, rétt eins og við værum vígð þeim en ekki Jehóva. — Matteus 6:24.
Innihaldsrík tjáskipti stuðla að andlegu hugarfari
17. Hvað stuðlar að því að rækta ósvikinn kærleika í fjölskyldunni?
17 Fyrir milljónir manna er heimilið lítið annan en gististaður. Hvernig þá? Fjölskyldumeðlimir koma heim aðeins til að borða og sofa og síðan eru þeir roknir út aftur. Þeir sitja sjaldan við matarborðið og njóta máltíðar saman. Fjölskylduandann vantar. Hver er afleiðingin? Þar vantar tjáskipti og innihaldsríkar samræður. Það getur síðan leitt til áhugaleysis á öðrum fjölskyldumeðlimum, ef til vill skorts á raunverulegri umhyggju. Þegar við elskum hvert annað sköpum við okkur tíma til að tala saman og hlusta. Við uppörvum og við hjálpum. Þessi þáttur andlegs hugarfars felur í sér innihaldsrík tjáskipti milli hjóna og milli foreldra og barna.b Það kostar tíma og háttvísi að fá hvert annað til að opna sig til að deila gleði okkar, upplifun og vandamálum. — 1. Korintubréf 13:4-8; Jakobsbréfið 1:19.
18. (a) Hvað er oft stór hindrun í vegi tjáskipta? (b) Á hverju byggjast innihaldsrík tjáskipti?
18 Góð tjáskipti kosta tíma og viðleitni. Þau útheimta að tekinn sé tími til að tala við og hlusta á hvert annað. Einhver stærsta hindrunin þar er tímaþjófurinn mikli sem skipar heiðurssæti á mörgum heimilum — sjónvarpið. Í því er fólgin áskorun — stjórnar sjónvarpið þér eða stjórnar þú sjónvarpinu? Að stjórna sjónvarpinu útheimtir einbeittan ásetning — meðal annars viljastyrk til að slökkva á því. En það opnar okkur leiðina til að „stilla inn á“ hvert annað sem fjölskyldumeðlimir og sem andlegir bræður og systur. Innihaldsríkt samband við aðra útheimtir góð tjáskipti, að læra að skilja hvert annað, þarfir okkar og gleði og að segja hvert öðru hve mikils við metum allt það góða sem hefur verið gert fyrir okkur. Með öðrum orðum sýna innihaldsríkar samræður að við lítum ekki á hvert annað sem sjálfsagðan hlut. — Orðskviðirnir 31:28, 29.
19, 20. Hvað gerum við ef við látum okkur annt um alla í fjölskyldunni?
19 Ef við látum okkur annt hvert um annað innan vébanda fjölskyldunnar — og það felur í sér að annast fjölskyldumeðlimi sem eru ekki í trúnni — erum við þess vegna að gera mikið til að byggja upp andlegt hugarfar okkar og viðhalda því. Innan fjölskyldunnar fylgjum við þá heilræði Péturs: „Að lokum, verið allir samhuga, hluttekningarsamir, bróðurelskir, miskunnsamir, auðmjúkir. Gjaldið ekki illt fyrir illt eða illmæli fyrir illmæli, heldur þvert á móti blessið, því að þér eruð til þess kallaðir að erfa blessunina.“ — 1. Pétursbréf 3:8, 9.
20 Við getum notið blessunar Jehóva núna ef við kappkostum að viðhalda andlegu hugarfari okkar, og það getur stuðlað að því að við erfum blessun hans í framtíðinni þegar við fáum eilíft líf í paradís á jörð að gjöf. Við getum gert ýmislegt annað sem fjölskylda til að hjálpa hvert öðru andlega. Næsta grein fjallar um gagnið af því að gera hlutina saman sem fjölskylda. — Lúkas 23:43; Opinberunarbókin 21:1-4.
[Neðanmáls]
a Andlegt hugarfar („spirituality“) er skilgreint sem „það að vera næmur fyrir eða þykja vænt um trúarleg gildi: sá eiginleiki eða ástand að vera andlega sinnaður.“ (Webster’s Ninth New Collegiate Dictionary) Andlega sinnaður maður er andstæða holdlega sinnaðs. — 1. Korintubréf 2:13-16; Galatabréfið 5:16, 25; Jakobsbréfið 3:14, 15; Júdasarbréfið 19.
b Frekari umfjöllun um tjáskipti innan fjölskyldunnar er að finna í Varðturninum 1. mars 1992, bls. 13-15.
Manst þú?
◻ Hvað er andlegt hugarfar?
◻ Hvernig getur fjölskylduhöfuð líkt eftir fordæmi Krists?
◻ Hvernig getum við forðast það sem ógnar andlegu hugarfari okkar?
◻ Hvað getur grafið undan andlegu hugarfari fjölskyldu?
◻ Hvers vegna eru innihaldsrík tjáskipti þýðingarmikil?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Að sækja safnaðarbóknámið styrkir fjölskylduna andlega.