Auðsýnið í þolgæðinu guðrækni
‚Auðsýnið í trú yðar . . . þolgæði, í þolgæðinu guðrækni.‘ — 2. Pétursbréf 1:5, 6.
1, 2. (a) Hvað kom fyrir votta Jehóva frá og með fjórða áratugnum í löndum, sem voru undir stjórn nasista, og hvers vegna? (b) Hvernig reiddi fólki Jehóva af undir þessari harðneskjulegu meðferð?
ÞAÐ var myrkur tími í sögu 20. aldar. Á fjórða áratugnum var byrjað að handtaka votta Jehóva ranglega í þúsundatali í löndum, sem voru undir stjórn nasista, og setja þá í fangabúðir. Hvers vegna? Vegna þess að þeir voguðu sér að vera hlutlausir og neituðu að heilsa með Hitlerskveðju. Hvernig var farið með þá? „Enginn annar fangahópur . . . fann fyrir pyntingarlosta SS-sveitanna á slíkan hátt sem Biblíunemendurnir [vottar Jehóva]. Þetta var pyntingarlosti sem einkenndist af endalausri runu slíkra líkamlegra og andlegra misþyrminga að ekkert tungumál heims getur lýst þeim.“ — Karl Wittig, fyrrverandi embættismaður þýsku stjórnarinnar.
2 Hvernig reiddi vottunum af? Í bók sinni The Nazi State and the New Religions: Five Case Studies in Non-Conformity, segir dr. Christine E. King: „Aðeins gegn vottunum [ólíkt öðrum trúarhópum] tókst stjórnvöldum ekki það sem þau ætluðu sér.“ Já, vottar Jehóva sem heild voru staðfastir, jafnvel þótt það kallaði á þolgæði allt til dauða fyrir hundruð þeirra.
3. Hvað hefur gert vottum Jehóva kleift að vera þolgóðir gegnum erfiðar prófraunir?
3 Hvað hefur gert vottum Jehóva kleift að vera þolgóðir í slíkum prófraunum, ekki bara í Þýskalandi nasismans heldur um heim allan? Himneskur faðir þeirra hefur hjálpað þeim að vera þolgóðir vegna guðrækni þeirra. „Þannig veit [Jehóva], hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr [„prófraun,“ NW].“ (2. Pétursbréf 2:9) Fyrr í sama bréfi hafði Pétur ráðlagt kristnum mönnum: „Leggið þess vegna alla stund á að auðsýna í trú yðar . . . þolgæði, í þolgæðinu guðrækni.“ (2. Pétursbréf 1:5, 6) Þolgæði er því nátengt guðrækni. Reyndar verðum við að ‚stunda guðrækni‘ og sýna hana til að vera þolgóð allt til enda. (1. Tímóteusarbréf 6:11) En hvað, nákvæmlega, er guðrækni?
Hvað er guðrækni?
4, 5. Hvað er guðrækni?
4 Hægt er að þýða gríska nafnorðið, sem þýtt er „guðrækni“ (euseʹbeia), bókstaflega „djúp lotning.“a (2. Pétursbréf 1:6, Kingdom Interlinear) Það gefur til kynna hlýja, innilega tilfinningu til Guðs. W. E. Vine segir að lýsingarorðið eusebesʹ, sem þýðir bókstaflega „vel lotningarfullur,“ merki „þann kraft sem stjórnast af heilagri, óttablandinni lotningu fyrir Guði og kemur fram í trúföstum verkum.“ — 2. Pétursbréf 2:9, Int.
5 Orðið „guðrækni“ vísar því til lotningar eða tryggðar við Jehóva sem kemur okkur til að gera það sem honum geðjast. Við gerum það jafnvel þótt við blasi erfiðar prófraunir, vegna þess að við elskum Guð í hjarta okkar. Hún er trygglynd, persónuleg tilfinningatengsl við Jehóva sem koma fram í því hvernig við lifum lífi okkar. Sannkristnir menn eru hvattir til að biðja þess að þeir fái „lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri [„guðrækni,“ NW].“ (1. Tímóteusarbréf 2:1, 2) Að sögn orðabókarhöfundanna J. P. Louws og E. A. Nida „má réttilega þýða [euseʹbeia] í 1 Tm 2.2 yfir á mörg tungumál sem ‚að lifa eins og Guð vill að við lifum‘ eða ‚að lifa eins og Guð hefur sagt okkur að við ættum að lifa.‘“
6. Hver eru tengsl þolgæðis og guðrækni?
6 Við skiljum nú betur tengsl þolgæðis og guðrækni. Vegna þess að við lifum eins og Guð vill að við lifum — í guðrækni — bökum við okkur hatur heimsins sem hefur undantekningarlaust í för með sér prófraunir fyrir trúna. (2. Tímóteusarbréf 3:12) En við gætum með engu móti fundið hvöt hjá okkur til að þola slíkar prófraunir ef ekki væri vegna persónulegra tilfinningatengsla við himneskan föður okkar. Auk þess endurgeldur Jehóva slíka innilega hollustu. Ímyndaðu þér bara hvernig Jehóva hlýtur að vera innanbrjósts þegar hann horfir niður af himnum og fylgist með þeim sem reyna, vegna tryggðar sinnar við hann, að þóknast honum þrátt fyrir alls konar andstöðu. Það er engin furða að hann skuli vera viljugur að „hrífa hina guðhræddu úr [„prófraun,“ NW]“!
7. Hvers vegna verðum við að rækta guðrækni?
7 En guðrækni er okkur hins vegar ekki meðfædd og við fáum hana ekki sjálfkrafa frá guðræknum foreldrum. (1. Mósebók 8:21) Við verðum að rækta hana. (1. Tímóteusarbréf 4:7, 10) Við verðum að vinna að því að auðsýna guðrækni í þolgæði okkar og í trú okkar. Pétur segir að við þurfum að ‚leggja alla stund á það.‘ (2. Pétursbréf 1:5) Hvernig getum við þá orðið guðrækin?
Hvernig verðum við guðrækin?
8. Hver er, að sögn Péturs postula, lykillinn að því að verða guðrækinn?
8 Pétur postuli útskýrði hver væri lykillinn að því að verða guðrækinn. Hann sagði: „Náð og friður margfaldist yður til handa með [„nákvæmri,“ NW] þekkingu á Guði og Jesú, Drottni vorum. Hans guðdómlegi máttur hefur veitt oss allt, sem leiðir til lífs og guðrækni með þekkingunni [„nákvæmri þekkingu,“ NW] á honum, sem kallaði oss með sinni eigin dýrð og dáð.“ (2. Pétursbréf 1:2, 3) Við verðum því að vaxa í nákvæmri, það er að segja heilsteyptri þekkingu á Jehóva Guði og Jesú Kristi til að auðsýna guðrækni í trú okkar og þolgæði.
9. Hvernig má lýsa með dæmi að nákvæm þekking á Guði og Kristi sé meira en aðeins að vita hverjir þeir eru?
9 Hvað þýðir það að hafa nákvæma þekkingu á Guði og Kristi? Það felur ljóslega í sér meira en aðeins að vita hverjir þeir eru. Lýsum því með dæmi: Þú ert kannski málkunnugur nágranna þínum og heilsar honum með nafni. En myndir þú lána honum stóra fjárhæð? Ekki nema þú vissir í raun og veru hvers konar maður hann væri. (Samanber Orðskviðina 11:15.) Eins er það að þekkja Jehóva og Jesú nákvæmlega eða fyllilega meira en aðeins að trúa að þeir séu til og vita hvað þeir heita. Til að vera fús til að þola prófraunir fyrir þá, já, jafnvel að ganga í dauðann fyrir þá, verðum við í raun og veru að þekkja þá náið. (Jóhannes 17:3) Hvað felur það í sér?
10. Hvað tvennt er fólgið í því að hafa nákvæma þekkingu á Jehóva og Jesú og hvers vegna?
10 Að búa yfir nákvæmri eða heilsteyptri þekkingu á Jehóva og Jesú felur í sér tvennt: (1) að kynnast þeim sem persónum — eiginleikum þeirra, tilfinningum og vegum — og (2) að líkja eftir fordæmi þeirra. Guðrækni felur í sér innileg, persónuleg tilfinningatengsl við Jehóva og sýnir sig í því hvernig við lifum lífi okkar. Þess vegna verðum við að kynnast Jehóva persónulega til að verða guðrækin, og þekkja vilja hans og vegi eins vel og rækilega og er á mannlegu valdi. Til að þekkja Jehóva í sannleika, en við erum sköpuð í mynd hans, verðum við að nota slíka þekkingu og kappkosta að líkjast honum. (1. Mósebók 1:26-28; Kólossubréfið 3:10) Og þar eð Jesús líkti fullkomlega eftir Jehóva í því sem hann sagði og gerði er nákvæm þekking á Jesú verðmæt hjálp til að þroska með sér guðrækni. — Hebreabréfið 1:3.
11. (a) Hvernig getum við öðlast nákvæma þekkingu á Guði og Kristi? (b) Hvers vegna er mikilvægt að hugleiða það sem við lesum?
11 En hvernig getum við samt öðlast slíka nákvæma þekkingu á Guði og Kristi? Með því að nema Biblíuna og biblíunámsrit af kappi.b En eigi persónulegt biblíunám okkar að leiða til þess að við verðum guðrækin er áríðandi að við tökum okkur tíma til að hugleiða, það er að segja velta fyrir okkur eða ígrunda, það sem við lesum. (Samanber Jósúabók 1:8.) Hvers vegna er það mikilvægt? Munum að guðrækni er hlý, innileg tilfinning gagnvart Guði. Í Ritningunni er hugleiðing aftur og aftur tengd hinu táknræna hjarta — hinum innri manni. (Sálmur 19:15; 49:4; Orðskviðirnir 15:28) Þegar við íhugum þakklát það sem við lærum síast það inn í okkar innri mann og snertir þannig tilfinningar okkar og hefur áhrif á hugsun okkar. Þá fyrst getur nám styrkt persónuleg tilfinningatengsl okkar við Jehóva og komið okkur til að lifa eins og er Guði þóknanlegt, jafnvel frammi fyrir mjög krefjandi aðstæðum eða erfiðum prófraunum.
Guðrækni á heimilinu
12. (a) Hvernig getur kristinn maður iðkað guðrækni á heimilinu að sögn Páls? (b) Hvers vegna annast sannkristnir menn aldraða foreldra?
12 Guðrækni ætti fyrst að iðka á heimilinu. Páll postuli segir: „Ef einhver ekkja á börn eða barnabörn, þá læri þau fyrst og fremst að sýna rækt [„iðka guðrækni á,“ NW] eigin heimili og endurgjalda foreldrum sínum, því að það er þóknanlegt fyrir augliti Guðs.“ (1. Tímóteusarbréf 5:4) Það að annast aldraða foreldra er merki um guðrækni eins og Páll bendir á. Sannkristnir menn veita slíka umönnun ekki aðeins af skyldukvöð heldur vegna kærleika til foreldra sinna. Auk þess gera þeir sér grein fyrir að Jehóva leggur mikla áherslu á það að menn annist fjölskyldu sína. Þeir gera sér fullljóst að snúi þeir baki við foreldrum, sem eru hjálparþurfi, jafngildir það því að ‚afneita kristinni trú.‘ — 1. Tímóteusarbréf 5:8.
13. Hvers vegna getur það verið mikil áskorun að iðka guðrækni á heimilinu en hvaða fullnægja fylgir því að annast foreldra sína?
13 Það skal viðurkennt að ekki er alltaf auðvelt að iðka guðrækni á heimilinu. Töluverðar vegalengdir geta aðskilið ættingja. Uppkomin börn eru kannski sjálf að ala upp börn og berjast í bökkum fjárhagslega. Eðli eða umfang þeirrar umönnunar, sem foreldri þarf, getur verið mikið álag á líkamlega, andlega og tilfinningalega heilsu þeirra sem veita hana. Engu að síður getur sú vitneskja haft mikla fullnægju í för með sér að umönnun foreldra okkar sé ekki aðeins ‚endurgjald‘ til þeirra heldur sé einnig þóknanleg honum sem ‚hver fjölskylda fær nafn af á himni og jörðu.‘ — Efesusbréfið 3:14, 15.
14, 15. Segðu frá dæmi um hvernig börn önnuðust foreldri guðrækilega.
14 Lítum á hrífandi dæmi. Ellis og fimm bræðra hans og systra hafa mjög krefjandi verkefni við að annast föður sinn heima fyrir. „Árið 1986 fékk faðir minn slag og varð algerlega lamaður eftir það,“ segir Ellis. Börnin sex skiptast á að sinna þörfum föður síns, allt frá því að baða hann upp í að snúa honum reglulega í rúminu þannig að hann fái ekki legusár. „Við lesum fyrir hann, tölum við hann og leikum tónlist fyrir hann. Við erum ekki viss um að hann viti hvað er að gerast í kringum hann, en við komum fram við hann eins og hann fylgist með öllu.“
15 Hvers vegna annast börnin föður sinn eins og þau gera? Ellis heldur áfram: „Eftir að móðir okkar dó árið 1964 ól pabbi okkur upp einn síns liðs. Við vorum þá á aldursbilinu 5 til 14 ára. Þá var hann tiltækur og hjálpaði okkur; núna erum við tiltæk til að hjálpa honum.“ Ljóst er að það er ekki auðvelt að veita slíka umönnun og börnin missa stundum móðinn. „En við gerum okkur ljóst að ástand föður okkar er bara tímabundið vandamál,“ segir Ellis. „Við hlökkum til þess tíma þegar faðir okkar endurheimtir góða heilsu og við getum hitt móður okkar að nýju.“ (Jesaja 33:24; Jóhannes 5:28, 29) Svona trúföst umönnun hlýtur að gleðja hjarta hans sem fyrirskipar börnum að heiðra foreldra sína!c — Efesusbréfið 6:1, 2.
Guðrækni og þjónustan
16. Hver ætti að vera aðalástæðan fyrir því sem við gerum í þjónustunni?
16 Þegar við þiggjum boð Jesú um að ‚fylgja honum stöðuglega‘ fáum við um leið umboð frá Guði til að prédika fagnaðarerindið um ríkið og gera menn að lærisveinum. (Matteus 16:24; 24:14; 28:19, 20) Ljóst er að það er kristin skylda núna á „síðustu dögum“ að eiga hlutdeild í þjónustunni. (2. Tímóteusarbréf 3:1) En hvötin fyrir því að prédika má ekki aðeins vera skylduhvöt. Djúpur kærleikur til Jehóva verður að vera aðalástæðan fyrir því sem við gerum og því hve mikið við gerum í þjónustunni. „Af gnægð hjartans mælir munnurinn,“ sagði Jesús. (Matteus 12:34) Já, þegar hjörtu okkar eru barmafull af kærleika til Jehóva finnum við okkur knúin til að bera vitni um hann fyrir öðrum. Þegar þjónusta okkar er komin til af kærleika til Guðs er hún innihaldsrík tjáning guðrækni okkar.
17. Hvernig getum við ræktað rétta áhugahvöt gagnvart þjónustunni?
17 Hvernig getum við ræktað rétta áhugahvöt gagnvart þjónustunni? Hugsaðu með þakklæti um þrjár ástæður sem Jehóva hefur gefið okkur fyrir því að elska hann. (1) Við elskum Jehóva vegna þess sem hann hefur nú þegar gert fyrir okkur. Hann gat ekki sýnt okkur meiri kærleika en þann að sjá fyrir lausnargjaldinu. (Matteus 20:28; Jóhannes 15:13) (2) Við elskum Jehóva vegna þess sem hann er að gera fyrir okkur núna. Við getum talað frjálslega við Jehóva sem svarar bænum okkar. (Sálmur 65:3; Hebreabréfið 4:14-16) Þegar við látum hagsmuni Guðsríkis ganga fyrir höfum við það sem við þurfum. (Matteus 6:25-33) Við fáum stöðugan straum andlegrar fæðu sem hjálpar okkur að takast á við vandamálin sem við eigum í. (Matteus 24:45) Og við höfum þá blessun að vera hluti af kristnu alheimsbræðrafélagi sem skilur okkur svo sannarlega frá öðrum í heiminum. (1. Pétursbréf 2:17) (3) Við elskum líka Jehóva vegna þess sem hann á eftir að gera fyrir okkur. Vegna kærleika hans höfum við „höndlað hið sanna líf“ — eilíft líf í framtíðinni. (1. Tímóteusarbréf 6:12, 19) Þegar við íhugum kærleika Jehóva til okkar knýja hjörtun okkur vissulega til að eiga dyggan þátt í að segja öðrum frá honum og dýrmætum tilgangi hans! Aðrir þurfa ekki að segja okkur hvað eða hve mikið við eigum að gera í þjónustunni. Hjörtu okkar koma okkur til að gera það sem við getum.
18, 19. Hvaða hindrun yfirsteig systir til að taka þátt í þjónustunni?
18 Jafnvel við krefjandi aðstæður finnur hjarta, sem er fullt guðrækni, sig knúið til að tala. (Samanber Jeremía 20:9.) Það er Stella, með eindæmum feimin, kristin kona, skýrt dæmi um. Þegar hún byrjaði að nema Biblíuna hugsaði hún: ‚Ég gæti aldrei farið hús úr húsi!‘ Hún segir: „Ég var alltaf mjög fámál manneskja. Ég gat aldrei snúið mér að öðrum til að koma af stað samræðum við þá.“ Eftir því sem námi hennar miðaði áfram óx kærleikur hennar til Jehóva og hún fékk brennandi löngun til að tala við aðra um hann. „Ég man að ég sagði biblíukennaranum mínum: ‚Mig sárlangar til að tala en ég get það bara ekki og mér finnst það mjög óþægilegt.‘ Ég gleymi aldrei því sem hún sagði við mig: ‚Stella, vertu þakklát fyrir að þig skuli langa til að tala.‘“
19 Áður en langt um leið var Stella farin að bera vitni fyrir nágranna sínum. Síðan steig hún skref sem var risastórt fyrir hana — hún tók þátt í starfinu hús úr húsi í fyrsta sinn. (Postulasagan 20:20, 21) Hún segir: „Ég var með kynningarorðin útskrifuð. En ég var svo hrædd að jafnvel þótt ég hefði þau fyrir framan mig var ég of taugaóstyrk til að líta á minnisblaðið!“ Núna, 35 árum síðar, er Stella enn mjög feimin að eðlisfari. En hún hefur yndi af þjónustunni á akrinum og heldur áfram að eiga innihaldsríkan þátt í henni.
20. Hvaða dæmi sýnir að jafnvel ofsóknir eða fangavist megna ekki að þagga niður í trúföstum vottum Jehóva?
20 Jafnvel ofsóknir eða fangavist megna ekki að þagga niður í trúföstum vottum Jehóva. Tökum Ernst og Hildegard Seliger frá Þýskalandi sem dæmi. Vegna trúar sinnar eyddu þau samanlagt yfir 40 árum í fangabúðum nasista og fangelsum kommúnista. Jafnvel í fangelsi báru þau ótrauð vitni fyrir öðrum föngum. Hildegard segir: „Yfirmenn fangelsisins flokkuðu mig sem sérlega hættulega vegna þess að ég talaði um Biblíuna allan liðlangan daginn, eins og einn kvenfangavörðurinn sagði. Ég var þess vegna sett í kjallaraklefa.“ Eftir að bróður og systur Seliger var loks veitt frelsi helguðu þau hinni kristnu þjónustu allan sinn tíma. Bæði þjónuðu þau trúföst allt til dauða, en bróðir Seliger dó árið 1985 og eiginkona hans árið 1992.
21. Hvað verðum við að gera til að auðsýna guðrækni í þolgæði okkar?
21 Með því að nema orð Guðs kostgæfilega og taka okkur tíma til að hugleiða með þakklæti það sem við lærum vöxum við í nákvæmri þekkingu á Jehóva Guði og Jesú Kristi. Það hefur síðan í för með sér að við höfum þennan dýrmæta eiginleika — guðrækni — í fyllri mæli. Án guðrækni er engin leið til að halda út þær ýmsu prófraunir sem koma yfir okkur, kristna menn. Við skulum því fylgja ráði Péturs postula og halda áfram að ‚auðsýna í trú okkar þolgæði og í þolgæðinu guðrækni.‘ — 2. Pétursbréf 1:5, 6.
[Neðanmáls]
a William Barclay segir um euseʹbeia: „Það er seb-hluti [rót] orðsins sem merkir lotning eða tilbeiðsla. Eu er gríska orðið fyrir vel; þess vegna er eusebeia tilbeiðsla, lotning sem er vel og réttilega veitt.“ — New Testament Words.
b Í Varðturninum 1. febrúar 1994, bls. 19-24, er fjallað um það hvernig eigi að nema og dýpka þekkingu sína á orði Guðs.
c Ítarleg umfjöllun um það hvernig hægt sé að iðka guðrækni gagnvart öldruðum foreldrum er að finna í Varðturninum 1. október 1987, bls. 13-18.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvað er guðrækni?
◻ Hver eru tengsl þolgæðis og guðrækni?
◻ Hver er lykillinn að því að vera guðrækinn?
◻ Hvernig getur kristinn maður iðkað guðrækni á heimilinu?
◻ Hver verður að vera aðalástæðan fyrir því sem við gerum í þjónustunni?
[Mynd á blaðsíðu 31]
Vottar Jehóva í fangabúðum nasista í Ravensbrück sýndu þolgæði og guðrækni.