Hefur þú fundið hina réttu trú?
„Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði föður er þetta.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 1:27.
1, 2. (a) Hvað ákveður í hugum margra hvað sé rétt trú? (b) Hvað ætti að íhuga vandlega þegar felldur er dómur yfir trúnni?
VIÐ LIFUM þá tíma þegar mörgum finnst ágætt að hafa trúna hornreka í lífi sínu. Þeir sækja ef til vill einhverjar guðsþjónustur en fáir gera það reglulega. Flestir eru ekki þeirrar skoðunar að öll önnur trúarbrögð séu röng en þeirra séu rétt. Þeim finnst bara að þeirra trú henti þeim.
2 Með tilliti til þessa, þýðir þá spurningin: Hefur þú fundið hina réttu trú? einfaldlega það hvort þú hafir fundið trú sem þér hentar? Hvað ákvarðar þína hentisemi? Fjölskyldan, félagar, geðþótti þinn? Hve djúpt hefur þú íhugað hvernig Guð lítur málið?
Hvernig getum við vitað hver afstaða Guðs er?
3. (a) Hverju verðum við að hafa aðgang að ef við eigum að vita hver afstaða Guðs er? (b) Hvers eigum við að spyrja um þá trú okkar að Biblían sé frá Guði?
3 Ef við eigum að vita hvað Guð sjálfur hugsar verðum við að hafa einhverja opinberun frá honum. Biblían er elsta bókin sem segist vera innblásin af Guði. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) En er í sannleika hægt að segja að þessi bók, öllum öðrum fremur, innihaldi boðskap Guðs til alls mannkyns? Hvernig myndir þú svara þeirri spurningu og hvers vegna? Er það vegna þess að foreldrar þínir hugsuðu þannig? Er það vegna þess að félagar þínir hugsa þannig? Hefur þú rannsakað sönnunargögnin sjálfur? Hvers vegna ekki að gera það núna, með því að skoða eftirfarandi fjórar sönnunarleiðir?
4. Hvað bendir til þess að Biblían, frekar en aðrar bækur, sé frá Guði?
4 Útbreiðsla: Boðskapur, sem raunverulega er frá Guði og er ætlaður öllu mannkyni, ætti að vera öllum aðgengilegur. Er raunin sú með Biblíuna? Hugleiddu þetta: Biblían, í heild eða að hluta, er núna gefin út á rúmlega 2000 tungumálum. Að sögn Hins ameríska biblíufélags var Biblían gefin út á svo mörgum tungumálum fyrir nálega áratug að 98 af hundraði jarðarbúa höfðu aðgang að henni. Eins og Heimsmetabók Guinness bendir á er Biblían langsamlega „útbreiddasta bók veraldar.“ Þetta er það sem búast má við af boðskap frá Guði handa fólki af öllum kynþáttum, þjóðum og tungumálahópum. (Samanber Opinberunarbókina 14:6.) Engin önnur bók í heiminum nálgast slíka útbreiðslu.
5. Hvers vegna er sögulegur grunnur Biblíunnar merkilegur?
5 Söguleg nákvæmni: Ítarleg rannsókn á frásögum Biblíunnar leiðir í ljós hvernig Biblían er á annan hátt frábrugðin öðrum bókum sem segjast vera heilagar. Biblían fjallar um sögulegar staðreyndir, ekki ósannanlegar goðsagnir. Lögfræðingurinn Irwin Linton, sem var vanur að kanna ítarlega sönnunargögn sem voru notuð fyrir dómi, skrifaði: „Í ástarsögum, þjóðsögum og ósönnum vitnisburði er þess gætt vandlega að finna atburðunum, sem greint er frá, stað í fjarlægu landi og á óvissum tíma, . . . Frásagnir Biblíunnar gefa okkur stund og stað atburðanna sem sagt er frá af með hinni mestu nákvæmni.“ (Sjá til dæmis 1. Konungabók 14:25; Jesaja 36:1; Lúkas 3:1, 2.) Þetta er mikilvægt umhugsunarefni fyrir fólk sem leitar ekki á náðir trúarinnar til að flýja raunveruleikann, heldur til að finna sannleikann.
6. (a) Hvernig hjálpar Biblían fólki að takast á við vandamál lífsins? (b) Á hvaða þrjá vegu hjálpar Biblían fólki að takast á við óblíðan veruleika?
6 Hagnýtt gildi: Þeir sem rannsaka Biblíuna af alvöru átta sig fljótt á því að boðorð hennar og frumreglur eru ekki gerð til að hafa þá að féþúfu. Þess í stað marka þau lífsstefnu sem er til góðs þeim sem fylgja þeim náið. (Jesaja 48:17, 18) Hughreystingin, sem hún veitir bágstöddum, er ekki innantóm, byggð á innihaldslausri heimspeki. Öllu heldur hjálpar hún fólki að takast á við óblíðan veruleika lífsins. Hvernig? Á þrjá vegu: (1) Með því að gefa holl ráð hvernig megi takast á við erfiðleika, (2) með því að útskýra hvernig hægt sé að njóta þess kærleiksríka stuðnings sem Guð veitir þjónum sínum núna, og (3) með því að opinbera þá stórkostlegu framtíð sem Guð geymir þeim sem þjóna honum og gefa þeim þannig gildar ástæður til að treysta loforðum hans.
7.(a) Útskýrðu, með því að nota ritningarstaðina neðanmáls, hvað Biblían segir um eitthvert af stóru málunum sem menn standa frammi fyrir nú á dögum. (b) Sýndu fram á hvernig ráðleggingar Biblíunnar vernda okkur eða hjálpa okkur að takast á við erfiðar aðstæður.
7 Þótt ráðleggingar Biblíunnar séu oft óvinsælar meðal þeirra sem beygja sig ekki undir yfirráð annarra og eru eftirlátir við sjálfa sig, hafa margir áttað sig á að slíkt líferni færir þeim ekki sanna hamingju. (Galatabréfið 6:7, 8) Biblían svarar hreint og beint spurningum um fóstureyðingu, hjónaskilnað og kynvillu. Ráðleggingar hennar eru vörn gegn fíkniefnaneyslu og misnotkun áfengis og gegn því að smitast af alnæmi með sýktu blóði eða vegna kynferðislegs lauslætis. Hún sýnir okkur hvernig fjölskyldur okkar gera orðið hamingjusamar. Hún veitir svör sem gera manni kleift að takast á við hinar erfiðustu aðstæður í lífinu, þar með talda útskúfun af hendi náinna ættingja, alvarlegan sjúkdóm og ástvinamissi. Hún hjálpar okkur að gera okkur grein fyrir hvað við ættum að láta hafa forgang í lífinu, þannig að við lifum innihaldsríku lífi í stað þess að vera full eftirsjár.a
8, 9. (a) Hvaða spádómur finnst þér persónulega vera sönnun fyrir því að Biblían sé innblásin? (b) Hvað sanna spádómar Biblíunnar um uppruna sinn?
8 Spádómar: Biblían er einstök sem spádómsbók. Hún segir fyrir hvað gerist í framtíðinni og það í smáatriðum. Hún sagði fyrir eyðingu hinnar fornu Týrusar, fall Babýlonar, endurbyggingu Jerúsalem, uppgang og fall konunga Medíu og Persíu og Grikklands og fjölda atburða í lífi Jesú Krists. Hún sagði einnig fyrir í smáatriðum heimsástandið og framvindu þess á þessari öld og hún útskýrir merkingu þess. Hún sýnir hvernig vandamálin verða leyst sem mennskir stjórnendur ráða ekki við, og hún gefur til kynna hvaða stjórnandi eigi eftir að færa mannkyninu varanlegan frið og öryggi.b — Jesaja 9:6, 7; 11:1-5, 9; 53:4-6.
9 Það er athyglivert að Biblían segir hæfileikann til að segja nákvæmlega fyrir framtíðina vera prófstein á guðdóm. (Jesaja 41:1–46:13) Sá sem getur gert það, eða innblásið öðrum að gera það, er ekki eitthvert lífvana skurðgoð. Hann er ekki einfaldlega guðhræddur maður. Hann er hinn sanni Guð og bókin, sem hefur að geyma slíka spádóma, er orð hans. — 1. Þessalóníkubréf 2:13.
Hafa allir rétt fyrir sér sem nota Biblíuna?
10, 11. Hvað getur gert trú prests einskis virði, eins og Jesús sýndi fram á, jafnvel þó hann segist nota Biblíuna?
10 Er það skynsamlegt — eða það sem meira máli skiptir, er það biblíulegt — að álykta að allir trúarhópar, sem segjast nota Biblíuna, kenni hina sönnu trú? Eru allir, sem bera eða vitna í Biblíuna, að iðka hina réttu trú?
11 Margir prestar nota trúna til að upphefja sjálfa sig, þó svo að þeir hafi Biblíuna. Þeir útvatna hreinan sannleikann með erfðavenjum og heimspeki manna. Er tilbeiðsla þeirra Guði þóknanleg? Trúarleiðtogarnir í Jerúsalem á fyrstu öld gerðu einmitt það og Jesús heimfærði á þá yfirlýsingu, sem Guð gaf fyrir munn spámannsins Jesaja, og sagði: „Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.“ (Matteus 15:8, 9; 23:5-10) Slík trú er augljóslega ekki sú sanna.
12, 13. (a) Hvernig getur hegðun sóknarbarna hjálpað manni að ákvarða hvort trú þeirra sé sú rétta? (b) Hvernig lítur Guð á tilbeiðslu okkar ef við veljum sem félaga þá sem hann hafnar? (2. Kroníkubók 19:2)
12 Ef ávöxturinn af kenningum vissra trúarbragða í líferni sóknarbarna, sem eru í góðu áliti, er rotinn, hvað þá? Jesús varaði við slíku í fjallræðu sinni: „Varist falsspámenn . . . Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. . . . Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt vonda.“ (Matteus 7:15-17) Að vísu gera menn stundum það sem rangt er og þarfnast leiðréttingar. En málið snýr öðruvísi við þegar sóknarbörnin, og jafnvel prestarnir, stunda saurlífi og hórdóm, slagsmál, ölvun, græðgi, lygi, andatrú, skurðgoðadýrkun — eitthvað af þessu eða allt — án þess að þeir séu agaðir og án þess að þeir sem halda áfram á þessari braut séu útilokaðir frá söfnuðinum. Biblían sýnir skýrt að það eigi að víkja þeim sem gera slíkt úr söfnuðinum; þeir munu ekki fá samastað í Guðsríki. (Galatabréfið 5:19-21) Tilbeiðsla þeirra er ekki Guði þóknanleg og heldur ekki okkar tilbeiðsla, ef við veljum sem félaga þá sem hann hafnar. — 1. Korintubréf 5:11-13; 6:9, 10; Opinberunarbókin 21:8.
13 Augljóst er að ekki iðka allir hópar, sem segjast nota Biblíuna, hina sönnu trú sem hún lýsir. Hvaða segir Biblían þá að eigi að einkenna sanna trú?
Einkenni sannrar trúar
14. (a) Á hverju byggjast allar kenningar sannrar trúar? (b) Hvernig standast kenningar kristna heimsins um Guð og sálina þetta próf?
14 Kenningar hennar eru byggðar örugglega á hinni innblásnu Ritningu. “Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) En hvar í hinni heilögu Ritningu er minnst á þrenningarkenningu kristna heimsins? Og hvar kennir Biblían, eins og prestarnir gera, að maðurinn hafi sál sem lifi af líkamsdauðann? Hefur þú nokkurn tíma beðið prest að sýna þér þessar kenningar í Biblíunni þinni? The New Encyclopædia Britannica segir: „Orðið þrenning eða skilmerkileg þrenningarkenning finnst hvorugt í Nýjatestamentinu.“ (1992, Micropædia, 11. bindi, bls. 928) Og New Catholic Encyclopedia viðurkennir: „Meðal hinna postullegu kirkjufeðra var alls ekkert sem líktist hið minnsta þessari hugsun eða trúarskilningi.“ (1967, XIV. bindi, bls. 299) Fræðimenn kirkjunnar viðurkenna að þeir hafi fengið hugmynd kristna heimsins um sál, sem yfirgefi líkamann við dauðann, að láni hjá grískri heimspeki. En sönn trú tekur ekki heimspeki manna fram yfir sannleika Biblíunnar. — 1. Mósebók 2:7; 5. Mósebók 6:4; Ezekíel 18:4; Jóhannes 14:28.
15. (a) Hvernig auðkennir Biblían þann eina sem er tilbeiðsluverður? (b) Hvað finnst sönnum tilbiðjendum um að nálgast Jehóva?
15 Hin sanna trú styður aðeins tilbeiðslu hins eina sanna Guðs, Jehóva. (5. Mósebók 4:35; Jóhannes 17:3) Jesús sagði með festu þegar hann umorðaði 5. Mósebók 5:9: „[Jehóva] Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ (Matteus 4:10) Í samræmi við það kunngerði Jesús lærisveinum sínum nafn föður síns. (Jóhannes 17:26) Hefur trú þín kennt þér að tilbiðja Jehóva? Hefur þú kynnst persónunni sem tengist nafninu — tilgangi hans, athöfnum og eiginleikum — svo að þér finnist þú öruggur geta nálgast hann? Ef trú þín er sú rétta er svarið já. — Lúkas 10:22; 1. Jóhannesarbréf 5:14.
16. Hvaða gildi hefur trú á Krist fyrir þá sem iðka hina sönnu trú?
16 Mikilvægur þáttur þeirrar tilbeiðslu, sem þóknast Guði, er trú á son hans, Jesú Krist. (Jóhannes 3:36; Postulasagan 4:12) Þá er ekki átt við að trúa því einungis að hann hafi verið til eða að hann hafi verið einstakur maður, heldur felur í sér að skilja það sem Biblían kennir um fórnargildi hins fullkomna mannslífs Jesú og viðurkenna stöðu hans núna sem himnesks konungs. (Sálmur 2:6-8; Jóhannes 3:16; Opinberunarbókin 12:10) Ef þú umgengst þá sem iðka hina sönnu trú, veist þú að þeir leggja sig samviskusamlega fram í daglegu lífi að hlýða Jesú, líkja eftir fordæmi hans og taka sjálfir heilshugar þátt í því starfi sem hann fól lærisveinum sínum. (Matteus 28:19, 20; Jóhannes 15:14; 1. Pétursbréf 2:21) Þú þarft að leita annars staðar ef þetta er ekki raunin um þá sem þú tilbiður með.
17. Hvers vegna gæta sannir tilbiðjendur þess að halda sér óflekkuðum af heiminum og hvað felur það í sér?
17 Sönn tilbeiðsla er ekki spillt vegna þátttöku í stjórnmálum og veraldlegum átökum. (Jakob 1:27) Hvers vegna ekki? Vegna þess að Jesú sagði um fylgjendur sína: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:16) Jesús skipti sér ekki af stjórnmálum og hann aftraði fylgjendum sínum frá að grípa til veraldlegra vopna. (Matteus 26:52) Þeir sem taka til sín það sem orð Guðs segir ,temja sér ekki hernað framar.‘ (Jesaja 2:2-4) Ef þú ert tengdur einhverri trú, jafnvel aðeins að nafninu til, sem þessi lýsing á ekki við er tími til kominn að slíta öll tengsl við hana. — Jakobsbréfið 4:4; Opinberunarbókin 18:4, 5.
18. (a) Hvað segir Jóhannes 13:35 að sé áberandi einkenni sannrar trúar? (b) Hvernig gætir þú hjálpað manni að ákvarða hvaða hópur samræmist Jóhannesi 13:35?
18 Hin sanna trú kennir og iðkar óeigingjarnan kærleika. (Jóhannes 13:35; 1. Jóhannesarbréf 3:10-12) Þetta er kærleikur sem ekki er bara talað um í stólræðum. Hann dregur í raun og veru saman fólk úr öllum kynþáttum, efnahagshópum, tungumálum og þjóðum í ósvikið bræðrafélag. (Opinberunarbókin 7:9, 10) Hann aðskilur sannkristna menn frá heiminum í kringum þá. Ef þú hefur ekki nú þegar sótt samkomur í ríkissal votta Jehóva og einnig stærri mót þeirra skaltu gera það. Fylgstu með þeim þegar þeir vinna saman við að reisa ríkissali sína. Taktu eftir hvernig þeir koma fram við bæði gamalt fólk (þar með talið ekkjur) og ungt (einnig þá sem eiga aðeins eitt foreldri eða ekkert). (Jakobsbréfið 1:27) Berðu það sem þú sérð saman við það sem þú hefur séð hjá hvaða trúfélagi sem er. Spyrðu þig síðan hver iðki hina sönnu trú.
19. (a) Hvaða lausn við vandamálum mannkyns bendir hin sanna trú á? (b) Hvað ættu meðlimir hinar sönnu trúar að vera að gera?
19 Hin sanna trú bendir á að Guðsríki sé hin varanlega lausn á vandamálum mannkynsins. (Daníel 2:44; 7:13, 14; 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:4, 5) Gera einhverjar kirkjur kristna heimsins það? Hvenær heyrðir þú prest síðast útskýra hvað ríki Guðs er og hvað Ritningin sýnir að það muni áorka? Hvetur kirkjufélagið, sem þú tilheyrir, þig til þess að tala við aðra um ríki Guðs, og ef svo er, taka allir safnaðarmenn þátt í því? Jesús gaf slíkan vitnisburð; lærisveinar hans fyrr á tímum gerðu það. Þú getur líka öðlast þau sérréttindi að taka þátt í þessari starfsemi. Þetta er mikilvægasta starfið sem nú er unnið hér á jörð. — Matteus 24:14.
20. Hvað verðum við að gera auk þess að þekkja hina sönnu trú?
20 Þó að til séu þúsundir trúarbragða hjálpar Biblían okkur að sjá í gegnum glundroðann og þekkja hin sönnu. En við verðum að gera meira en aðeins þekkja þau. Það er lífsnauðsynlegt að við iðkum þau. Í næstu grein verður tekið nánar fyrir hvað það felur í sér.
[Neðanmáls]
a Fóstureyðing: Postulasagan 17:28; Sálmur 139:1, 16; 2. Mósebók 21:22, 23. Hjónaskilnaður: Matteus 19:8, 9; Rómverjabréfið 7:2, 3. Kynvilla: Rómverjabréfið 1:24-27; 1. Korintubréf 6:9-11. Fíkniefnaneyslu og misnotkun áfengis: 2. Korintubréf 7:1; Lúkas 10:25-27; Orðskviðirnir 23:20, 21; Galatabréfið 5:19-21. Blóð og lauslæti: Postulasagan 15:28, 29; Orðskviðirnir 5:15-23; Jeremía 5:7-9. Fjölskylda: Efesusbréfið 5:22–6:4; Kólossubréfið 3:18-21. Útskúfun: Sálmur 27:10; Malakí 2:13-16; Rómverjabréfið 8:35-39. Sjúkdómar: Opinberunarbókin 21:4, 5; 22:1, 2; Títus 1:2; Sálmur 23:1-4. Dauði: Jesaja 25:8; Postulasagan 24:15. Forgangsröð: Matteus 6:19-34; Lúkas 12:16-21; 1. Tímóteusarbréf 6:6-12.
b Dæmi um slíka spádóma og uppfyllingu þeirra má finna í bókunum Biblían — orð Guðs eða manna? bls. 117-61; og Rökrætt út af ritningunni, bls. 60-2, 225-32, 234-40. Báðar eru gefnar út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc. en ekki til á íslensku.
Hverju svarar þú?
◻ Afstaða hvers skiptir mestu máli til að bera kennsl á hina réttu trú?
◻ Hvaða fjórar sönnunarleiðir benda til þess að Biblían sé orð Guðs?
◻ Hvers vegna eru ekki öll trúarbrögð, sem nota Biblíuna, þóknanleg Guði?
◻ Nefndu sex einkenni hinnar sönnu trúar.
[Rammi á blaðsíðu 10]
Vottar Jehóva . . .
◆ Byggja allar kenningar sínar á Biblíunni.
◆ Tilbiðja hinn eina sanna Guð, Jehóva.
◆ Lifa í samræmi við trú sína á Jesú Krist.
◆ Blanda sér ekki í stjórnmál eða átök heimsins.
◆ Leitast við að auðsýna óeigingjarnan kærleika í daglegu lífi.
◆ Halda ríki Guðs fram sem hinni varanlegu lausn á vandamálum mannkyns.
[Mynd á blaðsíðu 9]
BIBLÍAN — hvað bendir til að hún innihaldi boðskap Guðs til alls mannkyns?