Kennir þú eins og Jesús?
„Undraðist mannfjöldinn mjög kenningu hans, því að hann kenndi þeim eins og sá, er vald hefur, og ekki eins og fræðimenn þeirra.“ — MATTEUS 7:28, 29.
1. Hverjir fylgdu Jesú þegar hann kenndi í Galíleu og hver voru viðbrögð hans?
HVERT sem Jesús fór flykktist mannfjöldinn til hans. „Hann fór . . . um alla Galíleu, kenndi í samkundum þeirra, prédikaði fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi meðal lýðsins.“ Þegar starf hans spurðist út fylgdi honum „mikill mannfjöldi . . . úr Galíleu, Dekapólis, Jerúsalem, Júdeu og landinu handan Jórdanar.“ (Matteus 4:23, 25) Þegar hann sá menn „kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ Fólkið skynjaði meðaumkun hans og ástúð er hann kenndi því; kennslan var eins og mýkjandi smyrsl á sár þess og dró það til hans. — Matteus 9:35, 36.
2. Hvað annað en kraftaverk Jesú laðaði mikinn mannfjölda að honum?
2 Lækningar Jesú voru undraverðar — holdsveikir læknuðust, daufir heyrðu, blindir sáu, bæklaðir gengu og dauðir lifnuðu! Þessar stórkostlegu sýningar á krafti Jehóva, sem starfaði í Jesú, hlaut að draga fólk að hópum saman! En kraftaverkin voru ekki það eina sem laðaði fólk að honum; menn komu líka hópum saman til að fá andlega lækningu þegar Jesús var að kenna. Taktu til dæmis eftir viðbrögðum þeirra eftir að hafa hlýtt á hina frægu fjallræðu hans: „Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu, undraðist mannfjöldinn mjög kenningu [„kennsluaðferð,“ NW] hans, því að hann kenndi þeim eins og sá, er vald hefur, og ekki eins og fræðimenn þeirra.“ (Matteus 7:28, 29) Rabbínarnir studdu mál sitt með tilvitnunum í munnlegar erfikenningar fornra rabbína. Jesús kenndi í umboði Guðs: „Það sem ég tala, það tala ég því eins og faðirinn hefur sagt mér.“ — Jóhannes 12:50.
Kennsla hans náði til hjartans
3. Hvernig flutti Jesús boðskap sinn ólíkt fræðimönnunum og faríseunum?
3 Munurinn á kennslu Jesú og kennslu fræðmannanna og faríseanna lá ekki aðeins í efninu — sannleika frá Guði í stað íþyngjandi, munnlegra erfikenninga manna — heldur einnig í kennsluaðferðinni. Fræðimennirnir og farísearnir voru hrokafullir og hranalegir, heimtuðu yfirlætislega hefðartitla og töluðu með fyrirlitningu um mannfjöldann sem ‚bölvaðan.‘ En Jesús var auðmjúkur, mildur, góðviljaður, samúðarfullur og oft sveigjanlegur, og hann var knúinn af samúð með fólki. Jesús kenndi ekki bara með sannleiksorðum heldur einnig hugnæmum orðum frá hjartanu sem snertu hjörtu áheyrenda hans beint. Gleðilegur boðskapur hans dró fólk til hans; það kom í musterið snemma dags til að hlusta á hann og elti hann á röndum og hlustaði með ánægju á hann. Menn komu hópum saman til að hlýða á hann og sögðu: „Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.“ — Jóhannes 7:46-49; Markús 12:37; Lúkas 4:22; 19:48; 21:38.
4. Hvað var það í prédikun Jesú sem höfðaði sérstaklega til margra?
4 Líkingar Jesú voru vissulega ein af ástæðunum fyrir því að kennsla hans höfðaði til fólks. Jesús sá það sem aðrir sáu en hann kom auga á hluti sem þeir höfðu aldrei hugsað um. Liljurnar að vaxa á vellinum, fuglar að gera sér hreiður, menn að sá sæði, hirðar að koma með týnd lömb, konur að sauma bætur á gamlar flíkur, börn að leika sér á markaðstorginu, fiskimenn að draga net sín — hversdagslegir hlutir sem allir sáu — voru aldrei hversdagslegir í augum Jesú. Hvert sem hann leit sá hann efnivið í líkingar um Guð og ríki hans eða til að leggja áherslu á eitthvað í þjóðfélaginu umhverfis sig.
5. Á hverju byggði Jesús líkingar sínar og hvað gerði dæmisögur hans áhrifaríkar?
5 Líkingar Jesú eru byggðar á hversdagslegum hlutum og athöfnum sem fólk hlýtur að hafa séð margsinnis, og þegar sannindi eru tengd kunnuglegum hlutum festast þau fljótt og vel í hugum þeirra sem heyra. Menn heyra ekki bara slík sannindi heldur sjá þau fyrir sér og eiga auðvelt með að muna þau síðar. Dæmisögur Jesú voru einfaldar, lausar við óviðkomandi efni sem gæti þvælst fyrir skilningi manna á sannleikanum. Lítum á dæmisögu hans um miskunnsama Samverjann. Maður sér ljóslifandi fyrir sér hvað það þýðir að vera náungi annars manns. (Lúkas 10:29-37) Þá eru það synirnir tveir — annar sagðist ætla að vinna í víngarðinum en gerði það ekki, hinn sagðist ekki ætla að vinna en gerði það svo. Maður sér strax hver er kjarni raunverulegrar hlýðni — að vinna það verk sem manni er falið. (Matteus 21:28-31) Enginn dottaði eða lét hugann reika þegar Jesús var að kenna. Menn voru of uppteknir af að hlusta og sjá.
Jesús var sveigjanlegur þegar kærleikurinn mælti með því
6. Undir hvaða kringumstæðum er sérstaklega gagnlegt að vera sanngjarn eða sveigjanlegur?
6 Oftsinnis þegar Biblían talar um sanngirni sýna neðanmálsskýringar að það merkir að vera sveigjanlegur. Viskan frá Guði er sveigjanleg þegar mildandi aðstæður kalla á það. Við eigum að vera sanngjörn, stundum sveigjanleg. Öldungar ættu að vera fúsir til að vera sveigjanlegir þegar það þjónar kærleikanum og iðrun gefur tilefni til þess. (1. Tímóteusarbréf 3:3, NW; Jakobsbréfið 3:17, NW) Jesús gaf frábært fordæmi um sveigjanleika og undantekningar frá almennum reglum þegar miskunn og umhyggja kallar á það.
7. Nefndu nokkur dæmi um að Jesús hafi verið sveigjanlegur.
7 Jesús sagði einu sinni: „Þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun og ég afneita fyrir föður mínum á himnum.“ En hann hafnaði ekki Pétri þótt Pétur afneitaði honum þrisvar. Aðstæðurnar voru Pétri til málsbóta og Jesús tók greinilega tillit til þess. (Matteus 10:33; Lúkas 22:54-62) Það var líka afsakanlegt þegar konan, sem var óhrein af blæðingum, braut Móselögin með því að fara inn í mannfjöldann. Jesús fordæmdi hana ekki heldur. Hann skildi örvæntingu hennar. (Markús 1:40-42; 5:25-34; sjá einnig Lúkas 5:12, 13.) Jesús hafði sagt postulum sínum að benda ekki á hann sem Messías. Samt ríghélt hann ekki í þá reglu þegar hann sagði samversku konunni við brunninn að hann væri Messías. (Matteus 16:20; Jóhannes 4:25, 26) Í öllum þessum tilvikum var viðeigandi að gefa eftir sökum kærleika, miskunnar og umhyggju. — Jakobsbréfið 2:13.
8. Hvenær slökuðu fræðimennirnir og farísearnir á reglunum og hvenær ekki?
8 Því var ólíkt farið með hina ósveigjanlegu fræðimenn og farísea. Þegar þeir áttu sjálfir í hlut brutu þeir erfðavenjur hvíldardagsins til að brynna uxa sínum. Og ef uxi þeirra eða sonur féll í brunn brutu þeir hvíldardagshelgina til að draga hann upp úr. En þegar almenningur átti í hlut kom ekki til greina að gefa hænufet eftir! Þeir vildu engu hnika, ekki ‚snerta kröfurnar einum fingri.‘ (Matteus 23:4; Lúkas 14:5) Jesús tók fólk fram yfir flestar reglur; farísearnir tóku reglur fram yfir fólk.
Jesús verður „sonur boðorðsins“
9, 10. Hvar fundu foreldrar Jesú hann eftir að þeir sneru aftur til Jerúsalem, og hvað var fólgið í spurningum hans?
9 Sumir kvarta undan því að ekki sé skráð nema eitt atvik frá uppvaxtarárum Jesú. Margir gera sér hins vegar ekki grein fyrir hve þýðingarmikill sá atburður var. Lúkas 2:46, 47 segir svo frá: „Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum.“ Theological Dictionary of the New Testament eftir Kittel slær fram þeirri hugmynd að í þessu tilviki lýsi gríska orðið fyrir „spurði“ ekki bara barnslegri forvitni. Orðið gæti átt við spurningar eins og þær sem beitt er við dómsrannsókn og yfirheyrslur eða við flækjuspurningar, jafnvel „rannsakandi og slóttugar spurningar faríseanna og saddúkeanna“ eins og þær sem nefndar eru í Markúsi 10:2 og 12:18-23.
10 Orðabókin heldur áfram: „Í ljósi þessarar notkunar má spyrja hvort . . . [Lúkas] 2:46 merki ekki frekar árangursríkar rökræður drengsins en barnslega forvitni. [Vers] 47 kæmi vel heim og saman við það sjónarmið.“a Þýðing Rotherhams á versi 47 lýsir atvikinu sem tilþrifamiklum átakafundi: „Allir sem heyrðu til hans voru í uppnámi út af skilningi hans og svörum.“ Word Pictures in the New Testament eftir Robertson segir að hin mikla undrun þeirra merki að „þeir hafi verið steinhissa eins og augun ætluðu út úr þeim.“
11. Hvernig brugðust María og Jósef við því sem þau sáu og heyrðu og hverju slær guðfræðiorðabók fram?
11 Þegar foreldrar Jesú komu loks á vettvang „urðu þau forviða.“ (Lúkas 2:48, Bi 1912) Robertson segir að gríska orðið, sem hér er notað, merki „að slá út, reka út með höggi.“ Hann bætir við að Jósef og María hafi verið „slegin út“ af því sem þau sáu og heyrðu. Að vissu leyti var Jesús þegar orðinn undraverður kennari. Og í ljósi þessa atviks í musterinu fullyrðir orðabók Kittels: „Sem drengur er Jesús þegar byrjaður á þeim átökum er enda að lokum með uppgjöf andstæðinga hans.“
12. Hvað einkenndi orðaskipti Jesú við trúarleiðtogana síðar meir?
12 Og svo sannarlega gáfust þeir upp! Mörgum árum síðar var það með slíkum spurningum sem Jesús sigraði faríseana svo að „enginn [þorði] að spyrja hann neins framar.“ (Matteus 22:41-46) Hann þaggaði líka niður í saddúkeunum þegar þeir spurðu um upprisuna og „þeir . . . þorðu ekki framar að spyrja hann neins.“ (Lúkas 20:27-40) Ekki fór betur fyrir fræðimönnunum. Eftir að einn þeirra hafði átt orðastað við Jesú „þorði [enginn] framar að spyrja hann.“ — Markús 12:28-34.
13. Hvað var það sem gerði atvikið í musterinu þýðingarmikið í lífi Jesú og hvað gerði hann sér líklega ljóst?
13 Hvers vegna var þetta atvik úr æsku Jesú, þar sem hann átti tal við kennarana í musterinu, valið úr sem frásagnarvert? Af því að það markaði straumhvörf í lífi hans. Þegar hann var um 12 ára gamall varð hann það sem Gyðingar kalla „sonur boðorðsins“ sem þýddi að hann var ábyrgur fyrir að halda öll ákvæði þess. Þegar María kvartaði við Jesú undan þeirri angist, sem hann hefði valdið henni og Jósef, gaf svar hans til kynna að hann gerði sér líklega grein fyrir að fæðing hans hafi verið kraftaverk og fyrir Messíasarhlutverki sínu. Það má ætla af því að hann sagði skýrt og skorinort að Guð væri faðir hans: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns?“ Þetta eru reyndar fyrstu orð Jesú sem Biblían greinir frá, og þau gefa til kynna að honum hafi verið ljóst í hvaða tilgangi Jehóva sendi hann til jarðar. Þetta atvik hefur því í heild sinni mjög mikla þýðingu. — Lúkas 2:48, 49.
Jesús elskar og skilur börn
14. Hverju er athyglisvert fyrir börn og unglinga að taka eftir í frásögunni af Jesú tólf ára í musterinu?
14 Þessi frásaga ætti að höfða sérstaklega til barna og unglinga. Hún sýnir að Jesús hlýtur að hafa numið af kappi þegar hann var að alast upp. Rabbínar í musterinu voru steini lostnir yfir visku þessa 12 ára „sonar boðorðsins.“ Eftir sem áður vann hann þó með Jósef á trésmíðastofunni, var honum og Maríu „hlýðinn“ og þroskaðist að „náð hjá Guði og mönnum.“ — Lúkas 2:51, 52.
15. Hvernig lét Jesús sér annt um börn og unglinga meðan hann þjónaði á jörðinni og hvað merkir það fyrir börn og unglinga nú á tímum?
15 Jesús lét sér mjög annt um börn og unglinga meðan hann þjónaði á jörðinni: „Æðstu prestarnir og fræðimennirnir sáu dásemdarverkin, sem hann gjörði, og heyrðu börnin hrópa í helgidóminum: ‚Hósanna syni Davíðs!‘ Þeir urðu gramir við og sögðu við hann: ‚Heyrir þú, hvað þau segja?‘ Jesús svaraði þeim: ‚Já, hafið þér aldrei lesið þetta: ‚Af barna munni og brjóstmylkinga býrðu þér lof.‘“ (Matteus 21:15, 16; Sálmur 8:3) Hann lætur sér jafnannt um börn og unglinga nú á tímum sem varðveita ráðvendni sína í hundruðþúsundatali og eru Guði til lofs — og sum þeirra hafa jafnvel goldið fyrir með lífinu!
16. (a) Hvaða lexíu kenndi Jesús postulum sínum með því að setja lítið barn mitt á meðal þeirra? (b) Á hvaða örlagastund í lífi Jesú gaf hann sér enn tíma til að sinna börnum?
16 Þegar postularnir þráttuðu um hver væri þeirra mestur sagði Jesús við þá 12: „‚Hver sem vill vera fremstur, sé síðastur allra og þjónn allra.‘ Og hann tók lítið barn, setti það meðal þeirra, tók það sér í faðm og sagði við þá: ‚Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér, og hver sem tekur við mér, tekur ekki aðeins við mér, heldur og við þeim er sendi mig.‘“ (Markús 9:35-37) Og þegar hann hélt til Jerúsalem í síðasta sinn, þar sem ægileg prófraun og dauði beið hans, tók hann sér tíma til að sinna börnum: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.“ Síðan tók hann þau „sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.“ — Markús 10:13-16.
17. Af hverju átti Jesús auðvelt með að setja sig í spor barna og hvað verða börn að muna í sambandi við hann?
17 Jesús veit hvernig það er að vera barn í heimi hinna fullorðnu. Hann bjó meðal fullorðinna, vann með þeim, var þeim undirgefinn og fann líka fyrir þeirri hlýju öryggiskennd sem fylgdi því að njóta ástar þeirra. Börn, þessi sami Jesús er vinur ykkar; hann dó fyrir ykkur og þið fáið að lifa að eilífu ef þið hlýðið boðum hans. — Jóhannes 15:13, 14.
18. Hvað er hrífandi tilhugsun, einkum þegar við erum undir álagi eða í hættu?
18 Það er ekki jafnerfitt og ætla mætti að hlýða boðum Jesú. Þið börn og unglingar, hann er reiðubúinn að hjálpa ykkur og öllum öðrum, alveg eins og við lesum í Matteusi 11:28-30: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok [eða „gangið undir ok mitt með mér,“ NW, neðanmáls] og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ Hugsaðu þér, þegar þú gengur gegnum lífið og þjónar Jehóva gengur Jesús þér við hlið og gerir okið ljúft og byrðina létta. Það er hrífandi tilhugsun fyrir okkur öll!
19. Hvaða spurningar um kennsluaðferðir Jesú getum við rifjað upp af og til?
19 Hver er niðurstaða okkar eftir að hafa rifjað upp fáeinar af kennsluaðferðum Jesú? Kennum við eins og hann? Þegar við sjáum fólk sem er líkamlega veikt eða andlega hungrað, finnum við þá til með því þannig að okkur langar til að gera það sem við getum til að hjálpa því? Þegar við fræðum aðra, kennum við þá orð Guðs eða kennum við okkar eigin hugmyndir eins og farísearnir? Erum við vakandi fyrir því sem er umhverfis okkur dags daglega og hægt er að nota til að skýra, glöggva, auka og bæta skilning manna á andlegum sannindum? Forðumst við að ríghalda í vissar reglur þegar aðstæður eru slíkar að kærleika og miskunn er betur þjónað með því að vera sveigjanleg? Og hvað um börnin? Sýnum við þeim sömu blíðu, umhyggju og ástríka góðvild og Jesús gerði? Hvetur þú börnin þín til að nema eins og Jesús gerði sem drengur? Ert þú fastur fyrir eins og Jesús en reiðubúinn að taka hlýlega við þeim sem iðrast, ekki ósvipað og hæna safnar ungum sínum undir vængi sér? — Matteus 23:37.
20. Með hverju getum við hughreyst okkur þegar við þjónum Guði?
20 Ef við kappkostum að gera okkar besta til að kenna eins og Jesús, leyfir hann okkur svo sannarlega að ‚ganga undir ok sitt með sér.‘ — Matteus 11:28-30.
Manst þú?
◻ Af hverju hópuðust menn til Jesú?
◻ Af hverju var Jesús stundum sveigjanlegur er hann framfylgdi reglum?
◻ Hvað getum við lært af því þegar Jesús spurði kennarana í musterinu út úr?
◻ Hvaða lærdóm getum við dregið af samskiptum Jesú við börn?
[Neðanmáls]
a Við höfum að sjálfsögðu fullt tilefni til að ætla að Jesús hafi sýnt sér eldri mönnum tilhlýðilega virðingu, einkum hinum gráhærðu og prestunum. — Samanber 3. Mósebók 19:32; Postulasagan 23:2-5.