Gefðu gaum að spádómsorði Guðs
„Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð. Og það er rétt af yður að gefa gaum að því.“ — 2. PÉTURSBRÉF 1:19.
1, 2. Nefndu dæmi um falsmessíasa.
FALSMESSÍASAR hafa um aldaraðir reynt að segja framtíðina fyrir. Á fimmtu öld kom fram maður sem kallaði sig Móse og sannfærði Gyðinga á eynni Krít um það að hann væri messías og myndi binda enda á kúgun þeirra. Á tilteknum frelsunardegi fylgdu þeir honum út á háan klett sem skagaði út í Miðjarðarhaf. Hann sagði þeim að kasta sér í hafið; það myndi opnast fyrir þeim. Margir drukknuðu eftir að hafa stokkið í hafið en falsmessíasinn flúði af vettvangi.
2 Á 12. öld kom fram „messías“ í Jemen. Kalífinn, sem réði landinu, bað hann að gefa sér tákn um að hann væri messías, og þessi „messías“ stakk upp á að kalífinn léti hálshöggva hann. Svo myndi hann rísa upp frá dauðum rétt á eftir og þar með væri táknið komið. Kalífinn féllst á það — og þar með var þessi „messías“ allur.
3. Hver er hinn sanni Messías og hvað sannaði þjónusta hans?
3 Allir falsmessíasar sögunnar hafa brugðist og spár þeirra sömuleiðis, en spádómsorð Guðs veldur okkur aldrei vonbrigðum. Jesús Kristur, hinn sanni Messías, var lifandi uppfylling margra biblíuspádóma. Guðspjallaritarinn Matteus vitnar til dæmis í spádóm Jesaja og segir: „Sebúlonsland og Naftalíland við vatnið, landið handan Jórdanar, Galílea heiðingjanna. Sú þjóð, sem í myrkri sat, sá mikið ljós. Þeim er sátu í skuggalandi dauðans, er ljós upp runnið. Upp frá þessu tekur Jesús að prédika og segja: ‚Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.‘ “ (Matteus 4:15-17; Jesaja 9:1, 2) Jesús Kristur var þetta ‚mikla ljós‘ og þjónusta hans sannaði að hann var spámaðurinn sem Móse hafði boðað. Þeir sem vildu ekki hlýða á Jesú yrðu upprættir. — 5. Mósebók 18:18, 19; Postulasagan 3:22, 23.
4. Hvernig uppfyllti Jesús Jesaja 53:12?
4 Jesús uppfyllti einnig spádómsorðin í Jesaja 53:12: „Hann gaf líf sitt í dauðann og var með illræðismönnum talinn. En hann bar syndir margra og bað fyrir illræðismönnum.“ Jesús styrkti trú lærisveinanna af því að hann vissi að hann yrði að gefa líf sitt sem lausnargjald. (Markús 10:45) Ummyndunin er einstakt dæmi um það.
Ummyndunin styrkir trúna
5. Lýstu ummynduninni með eigin orðum.
5 Ummyndunin var spádómlegur atburður. „Mannssonurinn mun koma í dýrð föður síns með englum sínum,“ sagði Jesús. „Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu.“ (Matteus 16:27, 28) Fengu einhverjir af postulunum að sjá Jesú koma í ríki sínu? Matteus 17:1-7 segir: „Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra.“ Þetta var tilkomumikið! „Ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim, og voru þeir á tali við hann.“ Einnig „skyggði yfir þá bjart ský“ og þeir heyrðu rödd Guðs sjálfs segja: „‚Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!‘ Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: ‚Rísið upp, og óttist ekki.‘“
6. (a) Af hverju kallaði Jesús ummyndunina sýn? (b) Hverju er ummyndunin forsmekkur af?
6 Þessi mikilfenglegi atburður átti sér sennilega stað á öðrum hvorum hrygg Hermonfjalls þar sem Jesús og postularnir þrír eyddu nóttinni. Eflaust var þetta að næturlagi svo að ummyndunin var enn skærari en ella hefði verið. Jesús kallaði þetta sýn, meðal annars vegna þess að Móse og Elía voru löngu dánir og voru ekki viðstaddir í raun og veru heldur var Kristur einn þarna. (Matteus 17:8, 9) Þessi ægibjarta sýn gaf Pétri, Jakobi og Jóhannesi stórbrotinn forsmekk af nærveru Jesú sem dýrlegur konungur Guðsríkis. Móse og Elía eiga sér hliðstæðu í smurðum samerfingjum Jesú og sýnin studdi mjög vitnisburð hans um ríki sitt og konungdóm framtíðarinnar.
7. Hvernig vitum við að ummyndunin stóð Pétri ljóslifandi fyrir hugskotssjónum?
7 Ummyndunin styrktri trú postulanna þriggja sem áttu eftir að fara með forystuhlutverk í kristna söfnuðinum. Allt þjónaði tilgangi sínum með ágætum — skínandi andlit Krists, glitrandi fötin og rödd Guðs sjálfs sem lýsti yfir að Kristur væri ástkær sonur hans sem þeir ættu að hlýða á. En postularnir áttu engum að segja frá sýninni fyrr en Jesús væri upprisinn. Hún var enn ljóslifandi í huga Péturs 32 árum síðar þegar hann benti á hana og þýðingu hennar: „Ekki fylgdum vér uppspunnum skröksögum, er vér kunngjörðum yður mátt og komu Drottins vors Jesú Krists, heldur vorum vér sjónarvottar að hátign hans. Því að hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð, þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: ‚Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.‘ Þessa raust heyrðum vér sjálfir, koma frá himni, þá er vér vorum með honum á fjallinu helga.“ — 2. Pétursbréf 1:16-18.
8. (a) Að hverju beindi yfirlýsing Guðs um son sinn athyglinni? (b) Hvaða bending er fólgin í skýinu í ummyndunarsýninni?
8 Yfirlýsing Jehóva: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á,“ var geysimikilvæg. Hún beindi athyglinni að Jesú, krýndum konungi Guðs, sem öll sköpunin verður að hlýða. Skýið gaf til kynna að sýnin myndi uppfyllast ósýnilega, þannig að einungis yrði hægt að sjá hana með skilningsaugum sínum. Engir sæju hana nema þeir viðurkenndu ‚táknið‘ um að Jesús væri ósýnilega nærverandi sem konungur Guðsríkis. (Matteus 24:3) Þau fyrirmæli Jesú að segja engum frá sýninni fyrr en hann væri upprisinn frá dauðum sýna reyndar að hann yrði ekki upphafinn né dýrlegur fyrr en eftir upprisuna.
9. Af hverju ætti ummyndunin að styrkja trú okkar?
9 Eftir að hafa minnst á ummyndunina sagði Pétur: „Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð. Og það er rétt af yður að gefa gaum að því eins og ljósi, sem skín á myrkum stað, þangað til dagur ljómar og morgunstjarna rennur upp í hjörtum yðar. Vitið það umfram allt, að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“ (2. Pétursbréf 1:19-21) Ummyndunin undirstrikar að spádómsorð Jehóva sé áreiðanlegt og að við verðum að gefa gaum að því en ekki fylgja „uppspunnum skröksögum“ sem hafa hvorki stuðning Guðs né velþóknun. Ummyndunin ætti að styrkja trú okkar á spádómsorðið af því að þessi sýn um dýrð og konungsvald Jesú er orðin að veruleika. Óhrekjandi sannanir liggja fyrir um að Kristur er nærverandi sem voldugur konungur á himni.
Þannig rís morgunstjarnan
10. Hver eða hvað er „morgunstjarnan“ sem Pétur nefnir og af hverju segirðu það?
10 Pétur skrifaði: „Það er rétt af yður að gefa gaum að því [spádómsorðinu] eins og ljósi, sem skín á myrkum stað, þangað til dagur ljómar og morgunstjarna rennur upp í hjörtum yðar.“ Hver eða hvað er þessi „morgunstjarna“? Í Opinberunarbókinni 22:16 er Jesús kallaður „stjarnan skínandi, morgunstjarnan.“ Á sumum árstímum rísa þessar stjörnur á austurhimni snemma að morgni, rétt fyrir sólarupprás og boða upphaf nýs dags. Pétur notar þetta orð um Jesú eftir að hann tekur við konungdómi í Guðsríki. Þá reis hann í öllum alheimi, þar á meðal á jörðinni. Hann er messíasarmorgunstjarnan og boðar nýjan dag, nýtt tímaskeið sem rennur upp fyrir öllum hlýðnum mönnum.
11. (a) Hvers vegna er ekki átt við það að ‚morgunstjarnan‘ í 2. Pétursbréfi 1:19 rísi í bókstaflegum mannshjörtum? (b) Skýrðu 2. Pétursbréf 1:19.
11 Margar biblíuþýðingar ýta undir þá hugmynd að orðin í 2. Pétursbréfi 1:19 eigi við bókstaflegt hjarta mannsins. En hjarta fullvaxta manns er smátt líffæri, ekki nema 250 til 300 grömm að þyngd. Hvernig getur þá Jesús Kristur, sem er dýrleg andavera á himni, risið þar? (1. Tímóteusarbréf 6:16) Hér er auðvitað átt við hið táknræna hjarta vegna þess að það er með því sem við gefum gaum að spádómsorði Guðs. Það mætti endursegja versið svona: ‚Spádómsorðið er okkur enn áreiðanlegra núna og það er rétt að gefa gaum að því eins og ljósi sem skín á myrkum stað, það er að segja í hjörtum ykkar, uns dagur ljómar og morgunstjarnan rennur upp.‘
12. Hvernig eru hjörtu manna almennt á sig komin en hvað um sannkristna menn?
12 Hjörtu syndugra manna almennt eru andlega myrkvuð. En ef við erum sannkristin skín ljós í hjörtum okkar sem annars væru í myrkri. Eins og orð Péturs bera með sér áttu sannkristnir menn að halda sér vakandi og upplýstum gagnvart komu nýs dags með því að gefa gaum að upplýsandi spádómsorði Guðs. Þá myndi þeim vera ljóst að morgunstjarnan væri risin, ekki í hjörtum manna af holdi heldur frammi fyrir allri sköpuninni.
13. (a) Af hverju getum við verið viss um að morgunstjarnan sé risin? (b) Hvers vegna geta kristnir menn þolað þá erfiðleika sem Jesús spáði um okkar daga?
13 Morgunstjarnan er risin, það er ljóst af hinu mikla nærverutákni Jesú. Við sjáum það uppfyllast í atburðum á borð við eindæma styrjaldir og jarðskjálfta, og einnig í boðun fagnaðarerindisins um víða veröld. (Matteus 24:3-14) Kristnir menn fara ekki varhluta af erfiðleikunum, sem Jesús boðaði, en geta samt notið friðar og gleði í hjarta vegna þess að þeir gefa gaum að spádómsorði Guðs og trúa á það sem hann lofar um framtíðina. Við vitum að við stöndum á þröskuldi bestu tíma sem hugsast getur vegna þess að það er langt liðið á tíma ‚endalokanna.‘ (Daníel 12:4) Heimurinn er aðframkominn eins og spáð var í Jesaja 60:2: „Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum.“ Hvernig er hægt að rata rétta leið í þessu myrkri? Menn verða að gefa auðmjúklega gaum að spádómsorði Guðs núna, áður en það er um seinan. Hjartahreinir menn þurfa að snúa sér til Jehóva, uppsprettu lífs og ljóss. (Sálmur 36:10; Postulasagan 17:28) Þetta er eina leiðin til að fá sanna fræðslu og von um þá unaðslegu framtíð sem hann hefur fyrirhugað hlýðnum mönnum. — Opinberunarbókin 21:1-5.
„Ljósið er komið í heiminn“
14. Hvað þurfum við að gera til að sjá hina miklu spádóma Biblíunnar rætast?
14 Spádómsorðið bendir ótvírætt á að Jesús Kristur er orðinn voldugur konungur. Miklir spádómar eiga eftir að rætast vegna þess að hann tók völd árið 1914. Til að sjá þá uppfyllast verðum við vera auðmjúk, iðka trú á Jesú Krist og iðrast syndar- og fáfræðiverka okkar. Þeir sem elska myrkrið fá auðvitað ekki eilíft líf. Jesús sagði: „Þessi er dómurinn: Ljósið er komið í heiminn, en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið, því að verk þeirra voru vond. Hver sem illt gjörir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins, svo að verk hans verði ekki uppvís. En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins, svo að augljóst verði, að verk hans eru í Guði gjörð.“ — Jóhannes 3:19-21.
15. Hvað gerist ef við forsmáum hjálpræðið sem Guð kemur til leiðar fyrir atbeina sonar sins?
15 Andlegt ljós er komið í heiminn vegna Jesú og það er áríðandi að hlýða á hann. Páll skrifaði: „Guð talaði fyrrum oftsinnis og með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna. En nú í lok þessara daga hefur hann til vor talað í syni sínum, sem hann setti erfingja allra hluta.“ (Hebreabréfið 1:1, 2) Hvað gerist ef við forsmáum þetta hjálpræði sem Jehóva Guð hefur komið til leiðar fyrir atbeina sonar síns? Páll hélt áfram: „Hafi orðið af englum talað reynst stöðugt og hvert afbrot og óhlýðni hlotið réttlátt endurgjald, hvernig fáum vér þá undan komist, ef vér vanrækjum slíkt hjálpræði sem Drottinn flutti fyrst og var staðfest fyrir oss af þeim, er heyrðu? Guð bar jafnframt vitni með þeim með táknum og undrum og margs konar kraftaverkum og gjöfum heilags anda, sem hann útbýtti að vild sinni.“ (Hebreabréfið 2:2-4) Jesús fer með aðalhlutverk í boðun spádómsorðsins. — Opinberunarbókin 19:10.
16. Hvers vegna getum við treyst fullkomlega á alla spádóma Jehóva Guðs?
16 „Enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér,“ eins og Pétur sagði. Menn geta aldrei borið fram sanna spádóma upp á eigin spýtur en við getum treyst fullkomlega á alla spádóma sem eru komnir frá Jehóva Guði sjálfum. Hann hefur beitt heilögum anda sínum þannig að þjónar hans geti skilið hvernig biblíuspádómarnir eru að rætast. Við erum Jehóva þakklát fyrir að leyfa okkur að sjá marga slíka spádóma uppfyllast eftir 1914. Og við erum algerlega sannfærð um að þeir spádómar um endalok þessa illa heims, sem eftir eru, rætist líka. Það er mikilvægt að halda áfram að gefa gaum að spádómum Guðs og láta ljós sitt lýsa. (Matteus 5:16) Við erum þakklát fyrir að orð Jehóva skuli ‚láta ljós renna upp í myrkrinu‘ sem umlykur jörðina núna. — Jesaja 58:10.
17. Af hverju þurfum við andlegt ljós frá Guði?
17 Hið náttúrlega ljós er nauðsynlegt til að við getum séð, og einnig til að matjurtir geti vaxið í allri sinni fjölbreytni. Við lifum ekki án ljóss. En hvað um andlegt ljós? Það er leiðarljós okkar og lýsir upp framtíðina eins og hún er boðuð í orði Guðs, Biblíunni. (Sálmur 119:105) ‚Jehóva sendir ljós sitt og trúfesti‘ og við ættum að vera innilega þakklát fyrir það. (Sálmur 43:3) Við skulum því gera allt sem við getum til að drekka í okkur ljósið af „þekkingunni á dýrð Guðs“ svo að það lýsi upp hið táknræna hjarta. — 2. Korintubréf 4:6; Efesusbréfið 1:18.
18. Hvað er morgunstjarna Jehóva tilbúin til að gera núna?
18 Það er mikil blessun að vita að morgunstjarnan Jesús Kristur skuli hafa risið um alheim allan og byrjað að uppfylla ummyndunarsýnina árið 1914. Morgunstjarna Jehóva skín, reiðubúin að framkvæma næsta áfanga í uppfyllingu ummyndunarsýnarinnar sem er ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.‘ (Opinberunarbókin 16:14, 16) Eftir að gamla heimskerfinu er burt sópað uppfyllir Jehóva loforð sitt um ,nýjan himin og nýja jörð,‘ og þar getum við lofað hann að eilífu sem alheimsdrottin og Guð sannra spádóma. (2. Pétursbréf 3:13) Þangað til skulum við ganga í ljósi Guðs með því að gefa gaum að spádómsorði hans.
Hvert er svarið?
• Lýstu ummyndun Jesú.
• Hvernig styrkir ummyndunin trúna?
• Hver eða hvað er morgunstjarna Jehóva og hvenær reis hún?
• Af hverju ættum við að gefa gaum að spádómsorði Guðs?
[Mynd á blaðsíðu 22]
Geturðu útskýrt þýðingu ummyndunarinnar?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Morgunstjarnan er risin. Veistu hvenær og hvernig?